Fréttir1

Birt þann 6. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Dagur depilhöggsins

Í dag, 6. febrúar 2013, er haldið upp á dag depilhöggsins á ártíð skapara þess hins ítalska prentara Aldo Manuzio sem lést árið 1515. Aldo var fyrsti maðurinn til að nota depilhöggið á þann máta sem við gerum enn í dag; þ.e. til að skilja að orð eða setningar með ólíkum merkingum. Aldo var merkilegur maður og færði okkur einnig skáletrið en í dag skulum við halda okkur við depilhöggið.

SemikommaFlest ykkar þekkja þetta fallega merki líklega undir nafninu semíkomma en að mínu mati er heitið depilhögg mun fallegra. Það heiti var fyrst notað af málfræðingum Halldóri Kr. Friðrikssyni í ritinu Íslenzkar rjettritunarreglur frá 1895 og hefur farið nokkuð lágt þrátt fyrir ágæti þess.

Í dag er depilhöggið á nokkru undanhaldi, fólk veit ekki hvernig á að nota það og forðast það því. Á hinum stafræna vettvangi á depilhöggið sér tvö vígi sem halda heiðri þess á lofti. Annars vegar gegnir depilhöggið gríðarlegu stóru hlutverki í mörgum forritunarmálum og hins vegar færir depilhöggið tvíræða gleði í samstarfi við lokandi sviga í blikkandi broskalli. Það er leitandi að nútímamanni sem elskar ekki forrit og/eða blikkandi broskalla. En betur má ef duga skal; depilhöggið á rétt á stærri hlutdeild í greinarmerkjasetningu Íslendinga – en hvernig á eiginlega að nota það?

Í auglýsingu um greinamerkjasetningu frá Alþingi segir svo:

Semíkomma.
1. Í stað punkts má setja semíkommu milli málsgreina, ef málsgreinarnar eru merkingarlega nátengdar, þó einkum ef síðari málsgreinin táknar afleiðingu hinnar fyrri eða andstæðu hennar.

Dæmi: Hegðun nemendanna var mjög ólík; þess vegna var erfitt að áfellast kennarann fyrir ólíka framkomu við þá. — Jón varð fyrir aðkasti margra; samt lagði hann engum illt til.

2. Milli ósamkynja liða í upptalningu skal setja semíkommu, einkum til að greina þá frá samkynja liðum.

Dæmi: Verslunin selur ýmiss konar vörur: pappír, ritföng; sígarettur, vindla, neftóbak; sápur, ilmvötn og aðra hreinlætisvöru.

Í útleggingu sinni á þessari grein auglýsingarinnar segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands:

9. grein fjallar um semíkommu. Hana er oft hægt að nota sem eins konar millistig milli kommu og punkts, til að tengja málsgreinar sem eiga saman, einkum ef einhvers konar orsakarsamhengi er á milli. Semíkomman er mjög gagnlegt greinarmerki og furðulítið notað, en þar verður smekkur að ráða.

Þar er ég sammála, þótt reyndar hefði ég sjálf notast við hið fallega orð depilhögg. Depilhöggið virðist eiga undir högg að sækja á fleiri málsvæðum en því íslenska; gúgli maður semicolon fær maður endalaust magn af niðurstöðum þar sem fólk er hvatt til að nota depilhöggið og leiðbeiningar um hvernig beri að nota það rétt. Þú getur meira að segja keypt þér krúsir, boli og barmmerki til að styðja depilhöggið!

Semikomma - Bolur og næla

Ég styð notkun depilhöggs í íslensku, ekki bara í forritun og blikkbrosi eða tyrfnum fræðitextum heldur í almennri notkun; hættum kommusplæsingum og munum eftir depilhögginu, það á það skilið.

Fyrir áhugasama má benda á hugleiðingu Baggalútsins Braga Valdimars Skúlasonar um depilhöggið í þættinum Tungubrjótur (frá 16:47).

Góðar stundir.

 

Heimildir:
Auglýsing um greinarmerkjasetningu. Heimasíða Eiríks Rögnvaldssonar. Sótt 6.2.2013.
Bragi Valdimar Skúlason. Varðandi orðakæki og depilhögg. RÚV. Sótt 6.2.2013.
Fira semikolonets dag (och skaparen som dog för 498 år sedan). Språktidingen. Sótt 6.2.2013.
JGÞ. Í hvaða tilfellum notar maður semíkommu?. Vísindavefurinn 4.6.2003. Sótt 6.2.2013.
Ritreglur. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 6.2.2013.

 

Myndir:
I <3 semicolons.
Save the semicolon! næla.
Semíkomma, bolur.

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑