Birt þann 20. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0CISPA frumvarpið snýr aftur
CISPA frumvarpið, eða Cyber Intelligence Sharing and Protection Act (einnig þekkt sem HR 3523), hefur vaknað aftur til lífsins eftir nokkurra mánaða hlé á bandaríska þinginu. CISPA er ansi líkt SOPA frumvarpinu sem gengur út á það að safna persónuupplýsingum um netverja og vefsíður.
Frumvarpið beinist að svokölluðum „ógnum á netinu“ (cyberthreats) án þess þó að það sé skilgreint eitthvað frekar. Ríkið, leyniþjónustur og fyrirtæki fá upplýsingar um „ógnirnar“, sem geta verið allt frá leitarorðum einstaklings á leitarvélum, heimsóttar síður yfir í vefpóst og persónulegri gögn. Upplýsingarnar geta svo verið notaðar á nánast hvaða hátt sem er og fyrirtækin (Facebook, Microsoft o.fl) fá friðhelgi frá ákærum fyrir að deila persónuupplýsingunum með bandaríska ríkinu.
CISPA gengur á friðhelgi netverja og mun m.a. hafa áhrif á opnar samræður á netinu þar sem notendur munu eflaust vera varari um sig og jafnvel hræðast að segja sínar skoðanir.
Um þessar mundir stendur yfir undirskriftasöfnun á netinu þar sem bandarískir netverjar mótmæla frumvarpinu sem er nú komið aftur til umræðu á bandaríska þinginu.
CISPA: Útskýringarmynd
Heimild: Mashable
Forsíðumynd: Digital Trends
– BÞJ