Fréttir1

Birt þann 17. desember, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Um 400 manns skráðir á jólamót íslenskra League of Legends spilara

Í dag hefst jólamót íslenskra League of Legends spilara, og mun það standa yfir næstu 3-4 dagana. Fyrstu leikir ættu að hefjast upp úr klukkan 18:00, en mótið verður spilað á Europe Nordic & East vefþjóninum þar sem flestir Íslendingar spila í dag. Jólamótið lítur út fyrir að ætla að verða stærsta íslenska League of Legends mót sem haldið hefur verið til þessa, enda eru 72 lið skráð til leiks, en í hverju liði eru fimm manns auk varamanna, þannig fjöldi skráðra þáttakenda er í kringum 400 manns.

Vífill Valdimarsson, aðalskipuleggjandi jólamótsins, sagði að viðtökur íslenskra spilara á mótinu hefðu komið honum nokkuð á óvart: „Þetta átti í raun að vera lítið „for fun“ mót með stuttum fyrirvara og engum verðlaunum og í raun bara til gamans gert. Það var greinilega þrusumikill áhugi fyrir þessu.“ Skipuleggjendur jólamótsins ákváðu að mótsfyrirkomulagið yrði nokkuð frjálst, og því er gert ráð fyrir því að spilararnir muni að mestu leyti sjá um að spila sína leiki sjálfir: „Þetta mót verður með nokkuð frjálsu skipulagi, og reiðum við helst á liðin sjálf til þess að koma sér saman og klára leikina sína, þar sem fjölmargir leikir þurfa að klárast á stuttum tíma. Svo gæti verið að sum lið klári leikina sína eitthvað frameftir eða fyrr á daginn, ef þörf er á.“ Vífill gerir þó ráð fyrir nokkru aðhaldi fyrir liðin, og því verða nokkrir sjálfboðaliðar í því að reka á eftir þeim leikjum sem eru óspilaðir, og inna eftir leikniðurstöðum til að mótið dragist ekki á langin.

Eins og fyrr sagði munu fyrstu leikir hefjast upp úr klukkan 18:00 í kvöld, en hægt verður að fylgjast með helstu leikjunum á own3D.tv síðu mótsins. Frekari upplýsingar um mótið og fleira tengt League of Legends er hægt að nálgast á Facebooksíðu Íslenska LoL Samfélagsins.

– KÓS

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑