Allt annað

Birt þann 3. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Topp 10 jólagjafahugmyndir

Jólin nálgast óðfluga og margir sem hafa ekki hugmynd um hvað eigi að setja í jólapakkann þetta árið. Það er óþarfi að örvænta því hér koma topp 10 jólagjafahugmyndirnar og að sjálfsögðu eru þessar jólagjafir nördalegar en þó ættu allir, nördar eða ekki, að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég leitaði ekki langt yfir skammt og er hægt að kaupa allar þessar gjafir á Íslandi. Stóri plúsinn er að gjafirnar eru á viðráðanlegu verði.

 

10

Spilavinir eru með fjöldan allan af spilum til sölu og hægt er að finna ódýran Star Wars spilastokk hjá þeim á aðeins 950 krónur, sem er tilvalin lítil gjöf. Einnig eru mjög skemmtileg herkænskuspil til sölu eins og mitt uppáhalds spil, Small World.

 

9

Í Nexus búðinni, mekka nördsins, er ótrúlegur fjöldi af góðum jólagjöfum. Kvikmyndanördið ætti að finna eitthvað við sitt hæfi þar eins og þessa svaðalega flottu Freddy Krueger fígúru á aðeins 3.850 krónur.

 

 

8

Það er nauðsynlegt að eiga eitt stykki dagatal heima hjá sér og dagatal er bæði ódýr og flott gjöf. Þetta Star Trek dagatal er hægt að kaupa hjá Nexus, en þar er hægt að finna fjöldan allan af hinum og þessum dagatölum. Þetta dagatal kostar 2.499 krónur.

 

7

Gjöf fyrir tónlistarnördið er hægt að fá í hinni skemmtilegu verslun Minju. Þar er t.d. hægt að finna þetta gullfallega klakamót. Eitthvað sem á eftir að slá í gegn í áramótapartíinu. Þetta klakamót kostar litlar 2.190 krónur og má einnig finna fleiri klakamót í Minju sem og margt annað sniðugt til þess að setja í jólapakkann.

 

 

6

Það þekkja það allir að stundum geta stundirnar á klósettskálinni verið lengri en áætlað var. Hvort sem það er karríréttinum í hádeginu að kenna eða einhverju öðru þá er alltaf gott að eiga eitthvað á klósettinu sem getur stytt manni stundir. Hvað er þá betra en að æfa sig í púttinu. Þetta púttsett fyrir klósettið fæst í Tiger og á aðeins 1.800 krónur.

 

 

5

Ef þú þekkir einhvern sem er í víkingafélagi þá er þetta tilvalin gjöf. Fylgir víkingahjálmur með bókinni . Veit ekki hversu merkilegur sá hjálmur er en þetta er allavega sniðug og ódýr bók sem fæst í Eymundsson. Kostar 2.499 krónur.

 

 

4

Fyrir tölvunördið er ýmislegt hægt að kaupa. Eitt það ódýrasta sem hægt er að kaupa eru minnislyklar. Þetta litla vélmenni fæst í Tölvutek og er á 2.990 krónur. Bláu augun ljóma upp þegar verið er að færa gögn yfir á lykilinn. Lítil en skemmtileg gjöf.

 

 

3

Hjá Nexus er hægt að kaupa þennan skemmtilega Sheldon úr Big Bang Theory. Hann gerir nú ekki mikið annað en að sitja á tölvuskjánum eða á hillu og vekja athygli á sér. Þeir sem eru forfallnir aðdáendur þáttanna ættu að fá þennan í pakkann sinn eða í skóinn. Kostar 1.999 krónur.

 

2

„Luke I am your father!“ Þó svo að þessi gríma sé fyrir börn þá ætti hún að virka einnig á fullorðna. Hvað er meira töff en að hafa Svarthöfða við jólahlaðborðið, og ekki nóg með það heldur gefur þessi gríma frá sér hljóð. Fæst reyndar á okurverði í Hagkaup á 7.299.

 

 

1

Ég veit að ég sagði í byrjun að gjafirnar sem ég ætlaði að setja á listann væru á viðráðanlegu verði en þessi gjöf er bara of góð til þess að láta hana framhjá sér fara. Þó svo að hún kosti litlar 338.000 krónur í Hobbyroom. Þetta er náttúrulega ofurgjöf fyrir leikjanördið og meira til gamans gert að setja þessa gjöf í fyrsta sætið. Þessi spilakassi spilar yfir 100 leiki og er því mega súper gjöf!

Forsíðumynd: Star Trek 2013 dagatalið + snjór (myndblöndun).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑