Bíó og TV

Birt þann 7. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Týnda örkin

Talið er að um 90% Bandarískra kvikmynda frá árunum 1894 til 1930 séu glataðar (Dace Kehr, „Film Riches, Cleaned Up for Posterity“, The New York Times). Má gera ráð fyrir því að svipuð tala gildi í öðrum heimshlutum. Ástæðan fyrir þessu má rekja til þess að upprunalegar filmur innihéldu nítrat sem er mjög eldfimt og eldsvoðar eyðilögðu margar kvikmyndir. Einnig var tilhneigingin sú á árdögum kvikmyndanna að eyða filmum eftir að búið var að sýna þær því það þótti ekki þörf á því að varðveita þær. Eftir 1930 kom ný filma sem ekki var eins eldfim og forverinn og því varðveittust kvikmyndir betur og með tilkomu hljóðmyndarinnar var farið að varðveita kvikmyndir í meira mæli en áður hafði verið gert.

Í gegnum kvikmyndasöguna hafa margar kvikmyndir eða bútar úr kvikmyndum fundist fyrir algjöra tilviljun eða eftir mikla leit. Hér er listi yfir nokkrar merkilegustu kvikmyndirnar og kvikmyndabútana sem hafa glatast en fundist aftur mörgum árum eða jafnvel áratugum seinna.

 

1. Metropolis

Kvikmyndin Metropolis eftir Fritz Lang kom út árið 1927. Þessi mynd er talin vera Biblía vísindaskáldskaparmyndanna. Hún kostaði gífurlega mikið í framleiðslu og nýtti myndbrellur til hins ýtrasta. Myndin varð þó gífurlegt „flopp“ og kostaði framleiðslufyrirtækið UFA nánast lífið. Slakt gengi myndarinnar varð til þess að þrjár mismunandi útgáfur enduðu í dreifingu frumsýningarárið 1927. Upprunalega útgáfan sem var í kringum þrír tímar glataðist og einungis var hægt að nálgast styttri útgáfu af myndinni sem var um einn og hálfur tími.

Svo gerðist það árið 1980 að Argentínski kvikmyndaáhugamaðurinn, Fernando Peña, heyrði af sýningarstjóra í Buenos Aires sem hafði á sjöunda áratugnum staðið við sýningarvél í kvikmyndahúsi og kvartað yfir því að þurfa að standa við vélina í tvo tíma og lengur meðan hann var að sýna Metropolis. Þetta kveikti strax á peru hjá Fernando því eina útgáfan sem talin var vera til var einungis einn og hálfur tími.

Árið 2008 var svo gefið leyfi til að grenslast fyrir um týndu filmuna í kvikmyndasafninu í Buenos Aires og viti menn, þar fannst útgáfa sem komst eins nálægt upprunalegu útgáfunni og menn telja, þar sem 25 mínútur af efni komst í dagsljósið og sem kvikmyndaheimurinn hafði ekki áður séð. Filman var hreinsuð og sýnd við hátíðlega athöfn árið 2010 og gefin út árið 2011 í viðhafnarútgáfu.

 

2. Jóhanna af Örk

Árið 1928 kom út kvikmyndin The Passion of Joan of Arc. Myndin var leikstýrð af danska kvikmyndagerðarmanninum Carl Dreyer. Myndin hlaut gífurlega góðar viðtökur og er talin vera eitt af meistaraverkum þögla tímabilsins.

Upprunalega útgáfa myndarinnar glataðist svo í eldsvoða og Carl reyndi að setja myndina aftur saman með því að nota ónotaðar tökur, Carl lést þó árið 1968 án þess að geta klárað verkið.

Árið 1981 fyrir algjöra heppni og á ótrúlegasta stað, inni í húsvarðaherbergi á geðspítala í Osló, fannst svo útgáfa af myndinni sem komst næst því að vera eins og upprunalega útgáfan.

 

3. Laurel and Hardy

Gríndúóið Laurel og Hardy voru gífurlega vinsælir á þriðja og fjórða áratugnum í Hollywood og víðar. Þeir gerðu hundruðir mynda. Margar þessara mynda glötuðust en einna frægust er stutt kynningarmynd sem fannst árið 2005 og er um þrjár mínútur og sjást þar félagarnir kynna væntanlegar kvikmyndir frá MGM framleiðslufyrirtækinu.

 

4. Georges Méliès

Megnið af kvikmyndum franska kvikmyndagerðarmannsins George Méliès hafa glatast. Méliès er talin vera frumkvöðull í kvikmyndabrellum og margir telja hann vera faðir tæknibrellna. Hans frægasta kvikmynd Ferðin til tunglsins, sem kom út árið 1902, var til bæði í svarthvítri- og litaðri útgáfu en á þeim tíma voru myndir litaðar ramma fyrir ramma í höndunum. Litaða útgáfan var talin glötuð en fannst árið 1993 í mjög slæmu ásigkomulagi. Árið 1999 var ráðist í það verk að laga lituðu útgáfu myndarinnar og árið 2011 var endurbætta útgáfan sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Það var þó ekki aðeins litaða útgáfan sem var talin glötuð heldur var einnig endir myndarinnar talinn glataður, en fyrir einskæra heppni fannst endirinn árið 2002 í hlöðu í Frakklandi.

 

5. 75 myndir finnast

Árið 2009 var ráðist í að kanna ómerktar filmur í kvikmyndasafni Nýja Sjálands. Kom í ljós að 75 bandarískar þöglar kvikmyndir sem taldar voru glataðar fundust í safninu. Þar á meðal var myndin Upstream frá árinu 1927 og var leikstýrð af einum þekktasta leikstjóra Bandaríkjanna, John Ford, sem er frægastur fyrir vestrana sína. Einungis 15% af kvikmyndum hans hafa varðveist eða þangað til einhver verður svo heppinn að ramba á filmukassa einhvers staðar.

 

6. Charlie Chaplin

Ein vinsælasta og frægasta stjarna þögla tímabilsins er án efa Charlie Chaplin. Nánast allar kvikmyndir frá ferli hans hafa varðveist sem þykir einsdæmi. Tíu mínútna grínmyndin A Thief Catcher kom út árið 1914 og skartar þar Charlie Chaplin í hlutverki lögreglumanns. Myndin var talin glötuð en það var svo réttur maður á réttum stað sem fann myndina aftur.

Kvikmyndasagnfræðingurinn Paul Gierucki rakst á filmu sem var merkt kvikmyndafyrirtækinu Keystone árið 2010 á antiksölu í Michigan í Bandaríkjunum. Hann taldi þetta vera venjulega Keystone kvikmynd og horfði ekki á myndina í marga mánuði. Svo þegar hann settist niður og horfði á myndina sá hann að einn leikarinn leit kunnuglega út. Það kom svo í ljós að þarna var Charlie Chaplin sjálfur í hlutverki lögreglumanns.

Annað dæmi um kvikmynd með Charlie Chaplin sem fannst fyrir tilviljun er myndin Zepped sem kom út árið 1916 þegar safnarinn Morace Park var að vafra á eBay árið 2009. Þar rakst hann á filmukassa sem honum fannst líta vel út og kostaði um 600 ísl. krónur. Hann keypti kassann og opnaði hann ekki fyrr en löng seinna og sá þá að filman var merkt Zepped og stjarna myndarinnar var Charlie Chaplin. Hann fór á leitarsíðuna Google og sló inn nafnið á myndinni en ekkert fannst. Þá áttaði hann sig á því að hann var líklega með Chaplin mynd sem ekki var vitað að væri yfir höfuð til.

Það kom á daginn að myndin var gífurlega verðmæt og var hvergi til á skrá yfir myndir með leikaranum góðkunna. Filmukassinn sem hafði kostað Morace um 600 krónur varð um 8 milljón króna virði.

 

Myndir: Wikipedia
Forsíðumynd: Úr kvikmyndinni Metropolis.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑