Íslenskt

Birt þann 29. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Tónleikarýni: Star Wars tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Það var greinilegt að þegar komið var inn í glerkassa Ólafs Elíasonar, Hörpuna, í gærkvöldi að það voru engir venjulegir sinfóníutónleikar að hefjast því þegar litið var yfir gestina sást fólk á öllum aldri, þó mikið af unglingum, pabbar með krakkana sína, sumt fólk í jakkafötum og aðrir eins og þeir væru nýstignir upp úr rúminu. Tók eftir því að enginn var þó klæddur upp í Star Wars búning, sem var synd. Það vakti þó athygli mína að ein prúðbúin stelpa var búin að setja upp prinsessu hárgreiðsluna; hina margfrægu snúða Leu prinsessu. Já það voru sem sagt Star Wars tónleikar að hefjast!

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður haldið John Williams tónleika, sem voru þá haldnir í Háskólabíói. Hljómsveitin hefur einnig tekið upp á því að vera með tónleika helgaða kvikmyndatónlist yfir höfuð á sinni árlegu dagskrá og á þeim tónleikum hefur mátt heyra upphafsstef Star Wars leikið og einnig stef Svarthöfða. Þá hafa einnig verið haldnir Lord of the Rings og James Bond tónleikar. Kvikmyndatónlistin á greinilega sinn stað hjá sinfóníunni. Erlendir hljómsveitarstjórar víðsvegar að hafa ferðast með dagskrá helgaða kvikmyndatónlist um allan heim og með tilkomu Hörpunnar er eflaust auðveldara að fá hingað til lands virta hljómsveitarstjóra með kvikmyndatónlist í farteskinu.

Það var bandaríski hljómsveitarstjórinn Lucas Richman sem hélt um sprotann í gærkvöldi og þótt að hann hafi stundum virkað á mann eins og hann væri örlítið stressaður, þegar hann ávarpaði salinn og kynnti inn hvert verk, þá var ekki að sjá á öðru en að mátturinn væri með honum þegar hann stjórnaði hljómsveitinni og það með miklum brag. Richman var valin af John Williams til þess að stjórna þriggja mánaða Star Wars tónleikaferð um allan heim enda hefur Richman stjórnað stærstu sinfóníuhljómsveitum í heimi eins og Fílharmóníusveit New York borgar og því enginn aukvisi hér á ferð.

John Williams er án nokkurs vafa stærsta nafnið í kvikmyndatónlistar heiminum. Hann hefur verið tilnendur til Óskarsverðlauna 47 sinnum og unnið fimm styttur. Verk hans hafa lifað lengur en margar kvikmyndirnar sem hann hefur samið fyrir en þó hefur hann iðulega tekið að sér að semja tónlist aðeins fyrir kvikmyndir sem slegið hafa í gegn og verið nánst hirðtónlistarskáld Steven Spielberg. Gert tónlistina fyrir Jaws, E.T., Indiana Jones og Schindler´s List.

Þó svo að kynningin á söguþræðinum hafi verið heldur stutt hjá Richman og oft á tíðum ekki línuleg þá skemmdi það ekki fyrir því tónlistin var í fyrirrúmi og söguþráðinn vissu nánast allir í salnum. Þó hefði verið gaman að sjá varpað á tjald ljósmyndum úr kvikmyndunum eða myndskeiðum sem hefðu þá getað sagt söguna um leið og hlustað var, rétt eins og gert var á Lord of the Rings tónleikunum. Þá hefðu einnig margir áhorfendur sem ekki hafa séð myndirnar eða sáu þær í barnæsku getað fylgt sögunni betur eftir og tengt.

Það voru nokkur verk sem stóðu upp úr og má þar nefna Stef Jawa fólksins sem var einstaklega fallegt og margslungið þegar það heyrist spilað af hljómsveit. Stef Leu prinsessu og stef Leu og Luke var einnig mjög þétt og undurfagurt verk og minnti það seinna á verk kvikmyndatónskáldsins Ennio Morricone. Svo var gaman að heyra stef kantínunnar, stefið sem spilað er á barnum á Tatooine.

 

Efnisskrá tónleikanna:

 

Það sýndi sig að John Williams getur tekist á við ólíka stíla í verkum sínum og voru verkin öll með sitt sérkenni og stóð hvert og eitt sem ein heild, sem þó tengdist saman á stöku stað í verkunum með því að vísa í upphafsstefið.

Það kom eflaust mörgum á óvart að sjá Svarthöfða birtast með fylgdarsveina sína, stormsveitarmann og mannaveiðarann Boba Fett.

Það kom eflaust mörgum á óvart, og sumum ekki, að sjá Svarthöfða birtast með fylgdarsveina sína, stormsveitarmann og mannaveiðarann Boba Fett. Þeir stigu á sviðið undir lok stefs Svarthöfða, sem var síðasta verkið fyrir hlé. Má væntanlega þakka Star Wars á Íslandi, sem finna má á Facebook, fyrir að finna stormsveitarbúning og Boba Fett búning. Þið sem klæddust búningunum: þið voruð hrikalega flott.

Það er ekki hægt að segja annað en að John Williams standi upp úr sem merkasta kvikmyndatónskáld sögunnar og verður seint hægt að toppa verk hans. Þau eru margbrotin og ólík en eiga það öll sameiginlegt að segja sögu í tónum, sem mörg önnur kvikmyndatónskáld ná aldrei að gera. Ímyndirnar sem spruttu upp á tónleikunum voru stundum eins og ljóslifandi fyrir augunum á manni þegar hlustað var á verkin. Það verður að segjast að Williams er töframaður þegar kemur að því að tengja mynd við tóna. Hann er kannski ekki Wagner eða Prokofiev enda er hann undir sterkum áhrifum þeirra snillinga. Prokofiev samdi t.d. verkið Pétur og Úlfurinn, þar sem leiðarstef einkenna Pétur og úlfinn í verkinu, sama og Williams gerir í Star Wars.

Það væri hægt að kvarta yfir einfaldri og ófrumlegri lýsingu á tónleikunum og vöntun á ljósmyndum eða myndskeiðum á tjaldi eða að enginn enskur texti var í dagskránni. Þessir hlutir gleymdust þó fljótt og eftir sat upplifunin sem var einstök.

Til að enda þetta þá bendi ég á að ef það er ekki uppselt í kvöld þá er hægt að kaupa miða hér, auk þess sem tónleikunum verður útvarpað í beinni á Rás 1.

Fimm stjörnur!

 

Myndir og heimildir: Efnisskrá Star Wars tónleikana (pdf).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑