Leikjarýni

Birt þann 23. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Transformers: Fall of Cybertron

Transformers komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1984 en fyrirtækin Hasbro og Takara Tomy voru á bak við leikföngin. Vinsældirnar leiddu til teiknimynda, tölvuleikja, kvikmynda, nestisboxa, litabóka og alls þar á milli. Fljótlega þekktu flestir krakkar Transformers, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem merkið sló í gegn (en hugmyndin er upprunalega frá Japan). Hálfgerð endurvakning varð á Transformers vörumerkinu þegar Michael Bay hóf að gera stórmyndir sínar (sem margir þola ekki, sjálfur hef ég ekki séð þær) og kannski er þessi leikur hluti af þeirri endurvakningu. Transformers hefur ekki verið jafn gífurlega vinsælt hér á landi og í Bandaríkjunum (við elskum samt He-Man, af hverju er ekki He-Man endurvakning? Christopher Nolan, ertu að lesa?) en maður sér eftirlíkingar hérna eins og t.d. Lego Hero Factory.


Transformers eru vélmenni frá plánetunni Cybertron og þegar ég skrifa vélmenni þá meina ég mekanískar lífverur sem geta tekið hin ýmsu vélrænu form að vild (þeir geta breytt sér í farartæki eins og bíla og þotur; t.d. getur einn breytt sér í bæði þyrlu og þotu, hversu svalt er það?). Þessi vélmenni sitja ekki bara og drekka te og borða skonsur heldur skiptast þau í tvo hópa; Decepticons og Autobots sem elda grátt silfur saman (eða grátt stál í þessu tilfelli). Decepticons, leiddir af Megatron, eru þeir vondu og Autobots, leiddir af Optimus Prime, eru þeir góðu.

Transformers: The Fall of Cybertron er þriðju-persónu skotleikur hannaður af Highmoon Studios, framleiddur af Activision og er óbeint framhald af Transformers: The War of Cybertron sem kom út 2010.

Transformers: The Fall of Cybertron er þriðju-persónu skotleikur hannaður af Highmoon Studios, framleiddur af Activision og er óbeint framhald af Transformers: The War of Cybertron sem kom út 2010. The Fall of Cybertron stendur samt einn og sér og það hefur engin áhrif að hafa ekki spilað fyrri leikinn nema kannski til að þekkja forsöguna. Sjálfur þekki ég seríuna ekki mikið og er ekki Transformers aðdáandi. Það kom mér því skemmtilega á óvart hvað ég hafði gaman af þessum leik. Hann virkar eins og hann sé hannaður fyrir ákveðinn markhóp þ.e.a.s stráka á aldrinum 10-14 ára, en leikurinn kemur á óvart og mér skilst að hann eigi lítið sameiginlegt með Michael Bay myndunum (við vitum öll hvað verður um leiki sem eru byggðir á kvikmyndum). Þetta er gamaldags Transformers stemmning þ.e.a.s. það sem gerði þetta að vinsælu vörumerki í upphafi.

Grafíkin er ekki eins fíngerð og maður hefur vanist (í raun frekar groddaraleg á PS3) en hversu fíngerð getur hún verið þegar við erum að tala um risastór vélmenni, sprengingar og eyðileggingu. Það eru engin blóm eða tré sem þarf að „rendera“ hér. Hljóð spilar stórt hlutverk; það er margt sem þarf að komast til skila með hljóði í svona leik því að það er stanslaust eitthvað stórfenglegt að gerast; allt er að springa í kringum þig, þú ert á fleygiferð sem bíll eða þota, það er risastórt vélmenni  að ganga um sem er á stærð við Godzilla (eða 5 sinnum stærð Godzilla; nú veit ég ekki alveg hver stærðarhlutföll Transformer-heimsins er miðað við manneskjur) og þar fram eftir götunum. Það er því gott að öll hljóðvinnsla er vel gerð og raddsetningin er í lagi (samtölin eru samt stundum dálítið hallærisleg). Tónlistin passar líka vel við og er hæfilega dramatísk.

Ég hef sjaldan spilað svona leik sem er nánast stanlaust í efsta gír og með fótinn á bensíngjöfinni, það er nær aldrei dauður punktur. Fórnin er sú að stundum ræður tölvan (PS3) ekki við allt sem er að gerast á skjánum og hún fraus einstaka sinnum hjá mér.

Ég hef sjaldan spilað svona leik sem er nánast stanlaust í efsta gír og með fótinn á bensíngjöfinni, það er nær aldrei dauður punktur. Fórnin er sú að stundum ræður tölvan (PS3) ekki við allt sem er að gerast á skjánum og hún fraus einstaka sinnum hjá mér. Vistun gerist sjálfkrafa og maður tekur nánast ekki eftir henni, ef maður drepst þá líður ekki langt þar til maður er kominn á sama stað aftur.

The Fall of Cybertron snýst um stríðið á milli Autobots og Decepticons og mikið er um átök og dramatíska atburði. Söguþráðurinn er hálfgert aukaatriði; maður er ekki að spila svona leik fyrir innihaldsríka sögu. Mikið „mannsfall“ er á báða bóga og foreldrar þurfa að meta hvort að börn megi spila þetta en leikurinn er bannaður innan 12 ára. Ég nefni þetta því að leikurinn gæti verið góð skemmtun fyrir aldurshópinn sem er ekki nógu gamall fyrir t.d. Call of Duty leikina.

Leikurinn er undir áhrifum frá mörgum leikjum; það er hægt að sjá áhrif frá Gears of War, Halo, God of War, Batman Arkham Asylum/City og áræðanlega einhverjum fleiri. Ef það ætti að nefna einn framar öðrum þá væri það líklega Halo; því að þú hefur skjöld sem endurhlaðast eftir smá hvíld, þú ert með skýrt takmark, fjölbreytileg vopn og mikil læti la-la-la-læti. Áhrif annarra leikja koma fram í hinum mismunandi vélmennum sem þú færð að spila í leiknum; spilunin hjá Jazz er lík og hjá Batman því hann notar gripkrók sem hann skýtur á hentuga staði og ferðast þannig fljótlega um. Annað vélmennið (Cliffjumper) getur falið sig, komið aftan af óvininum og framkvæmt aftöku (execution) svona eins og þjófatýpa úr RPG leik. Það að geta spilað sem mismunandi vélmenni í hverjum kafla er óneitanlega skemmtilegt og kemur í veg fyrir að leikurinn verði einhæfur (og maður er ekki bundinn við að spila bara Autobots, þ.e.a.s. hina góðu). Vélmennin eru líka af mismunandi stærð og Dinobots (Transformers sem byggja á risaeðlum) eru yfirmáta svöl. Grimlock, sem er einn vinsælasti Transformerinn, er spilanlegur í dágóðan tíma.

Umhverfið er hægt að eyðileggja að hluta til sem gerir bardagana skemmtilegri. Athyglisvert er að það er fullt af skjóli en þetta er ekki skjól-skotleikur (cover-based). Það er ekki hægt að ýta á takka við vegg til að fara í skjól og gægjast yfir vegginn til að skjóta. Það þarf að vera á hreyfingu og reyna að nota umhverfið. Jazz getur t.d. farið á efri hæðir og skotið á óvininn þannig.

Fjölspilun er tvenns konar; annars vegar svokallað „Escalation“ þar sem þú og félagar þurfið að berjast á móti fimmtán óvinaárásum (waves). Hins vegar er það hinn hefðbundni fjölspilunarhluti; útfærslan kemur svo sem ekki á óvart enda í takt við flest annað á markaðinum. Það er hægt að velja um fjórar spilatýpur; Infiltrator er þjófatýpan sem getur falið sig, Destroyer og Titan eru harðhausarnir og Scientist læknar aðra. Það er hægt að stjórna útlitinu á fjölspilunarvélmenninu sínu á fjölbreytilegan hátt og litir koma sterkir inn. Við útgáfu Fall of Cybertron eru fjórar spilategundir (Team Deathmatch, Conquest, Capture the Flag og Headhunter) og 10 svæði. Svæðin eru frekar stór enda er hægt að breyta sér í bíla o.s.frv. þannig að vélmennin eru ansi fljót að koma sér á milli staða. Það er líka ákveðin herkænska í því hvernig þú notar þessi tvö form (bíll/vélmenni).

Þrátt fyrir að fjölspilunarhlutinn sé góður og í þróun hjá High Moon þá er hrikaleg samkeppni á markaðinum svo að það getur liðið tími á milli leikja vegna fárra spilara og ég fann fyrir minni háttar hægagangi (lag). Einnig hafa komið út viðbætur núna sem bæta við fjölspilunarhlutann (hægt að spila sem Dinobots t.d.).

Endurspilun fer líklega eftir því hversu mikill aðdáandi þú ert. Það er hægt að safna hljóðsnældum á hverju borði, leiðbeininingum fyrir góð vopn (blueprints) og á mörgum stöðum eru búðir þar sem hægt er að uppfæra vopn eða bæta getuna. Einnig er hægt að spila fjölspilunarhlutann sem lengir líf leiksins.

Þrátt fyrir að þetta sé góður leikur þá býst ég ekki við að fara oft í hann í framtíðinni; það eru betri skotleikir til staðar og tveir af þeim eru nýkomnir út. Hann kom mér samt skemmtilega á óvart og fær því þokkalega einkunn. Aðdáendur ættu ekki að hika við að grípa þennan.

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
7,5
8,5
8,0
7,5
6,5

SAMTALS

7,6

 

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑