Leikjarýni

Birt þann 2. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: God of War: Collection Volume II

Hvað einkennir harða nagla?  Er það að láta aldrei tala niður til sín, láta ekkert stöðva sig, hafa alltaf trú á sjálfum sér og fylgja sínum markmiðum til hins ýtrasta? Er það að fara eins langt og fara þarf til að ná sínu fram? Eða er það að drepa eins marga gríska guði og hægt er að koma höndum á? Sama hvað það er þá á allt þetta við eina persónu, Kratos, og hér er hann kominn enn á ný og er aftur reiðubúinn að fara til heljar og til baka til að fá sínu framgengt.

God of War serían á rætur sínar að rekja til ársins 2005 þegar fyrsti leikurinn kom út. Leikirnir eru hannaðir af Santa Monica Studios, sem er dótturfyrirtæki Sony. En Sony sér einmitt um útgáfu leikjanna. Það kemur sennilega fáum á óvart þar sem leikirnir eru einungis gefnir út á Playstation leikjatölvurnar. Það hefur nefninlega komið út í það minnsta einn God of War leikur fyrir allar leikjatölvur Sony, að frátalinni hinni upprunalegu Playstation leikjatölvu, þar sem hún var komin úr umferð, ef svo má segja, þegar fyrsti God of War leikurinn kom út.

Leikirnir hafa verið svo vinsælir að þegar Sony hóf útgáfu af útlitsbættum endurútgáfum vinsællra eldri tölvuleikja fyrir Playstation 3 vélina, þar sem einnig hafði verið bætt inn verðlaunakerfi Sony (Trophy system), þá var God of War: Collection leikjasafnið það fyrsta sem þeir framleiddu. Þar gátu tölvuleikjaunnendur fengið fyrstu tvo God of War leikina saman á einum diski. Leikirnir seldust mjög vel og fékk Sony fjölmargar beiðnir um að gefa einnig út PSP leikina vinsælu, þar sem þeir höfðu notið talsverðrar hylli víðast hvar en margir aðdáendur seríunnar eiga ekki endilega þá leikjavél. Það var svo þann 16. september síðastliðinn sem annað safnið kom út hér í Evrópu og í því voru PSP leikirnir vinsælu, Chains of Olympus og Ghost of Sparta. God of War leikirnir byggja mikið á grískri goðafræði, en þar á aðalpersónan Kratos í stanslausu amstri við hina ýmsu guði og verur úr goðfræðinni. Þar sem safnið inniheldur tvo leiki mun ég segja frá sögu leikjanna í sitthvoru lagi.

 

Chains of Olympus

Chains of Olympus er fyrri leikurinn sem gefinn var út af PSP tvíeykinu. Leikurinn á sér stað á undan öllum hinum leikjunum hvað söguþráð varðar, en í honum er Kratos í sinni tíu ára þjónustu guðanna til þess að reyna að losna við þær minningar sem hrella hann hvert sem hann leitar. Leikurinn hefst þar sem Kratos er að verja strandir Attíkusar (Atticus) gegn innrás Persa. En eftir að hafa sigrast á Persakónginum, her hans og risa basilískri eðlu sem Persarnir höfðu á sínu bandi sér Kratos hvar sólin hrapar úr himninum og heimurinn sekkur í þoku Morfeusar (Morpheus) guð draumanna. Hann kemst brátt að því að ekki er allt með feldu og það er undir honum komið að finna Helíos sólarguðinn og leysa hann úr fjötrum sínum hvar sem hann er. Ekki er þó nóg með það, því hann heyrir í sífellu flautustef sem hann kannast við en man ekki hvaðan og það byrjar að íþyngja honum. Eitt leiðir til annars og áður en spilarinn veit hvar á sig stendur veðrið er Kratos kominn djúpt í báráttu við hinar ýmsu verur grísku goðafræðinnar í leiðangri sínum djúpt í heimum guðanna.

 

Ghost of Sparta

Er seinni leikurinn í safninu. Söguþráður hans á sér stað í beinu framhaldi af upprunalega God of War leiknum og á undan þeim öðrum. Kratos dreymir gamla minningu úr æsku sinni þar sem hann er að þjálfa sig ásamt yngri bróðir sínum Deimos sem er síðan tekinn í burtu af skuggalegum manni án þess að Kratos geti nokkuð í því gert. Hann fær síðan draumsýn af gamalli veikburða konu  á stað sem hann kannast við. Kratos heldur strax af stað, þrátt fyrir mótmæli Aþenu, sem er ávallt að reyna að ráðleggja honum eitt eða annað í öllum leikjunum. Hann ferðast til Atlantis, borgar Póseidons, þar sem hann finnur móður sína og kemst að því að bróðir hans, sem guðirnir töldu honum trú um að hefði dáið fyrir mörgum árum, var í raun í heljargreipum Þanatos (Thanatos) guði dauðans, djúpt í heimi hans, þar sem Þanatos heldur honum föngum og pyntar hann. Kratos heldur því umsvifalaust af stað í leit að bróður sínum, og er staðráðinn í að bjarga honum. Þar hefst enn eitt rosalegt ferðalag þar sem Kratos sýnir hvað í honum býr gegn hinum ógnvænlegu öflum sem vilja stöðva hann.

 

Spilun

Spilun leikjanna er í raun auðvelt að skipta niður í tvennt, en það eru bardagar og þrautalausnir. Bardaga hlið leiksins er aðal undirstaða God of War leikjanna. Þar er spilarinn ýmist að berjast gegn heilum hellingi af óvinum samtímis, eða við erfiðari verur og jafnvel guði eða gyðjur. Kratos byrjar alla leiki með einkennisvopnum sínum, Sverðum Aþenu (Blades of Athena), sem eru tvö sverð sem Kratos sveiflar um hægri vinstri eins og enginn sé morgundagurinn. Sverðin eru bundin við hendur hans með keðjum og nýtir hans sér það hiklaust.

En sverðin eru ekki eina vopnið í vopnabúri Kratosar, því hann lumar á ýmsum göldrum og brögðum sem hann vinnur sér inn í hverjum leik, svo sem Medúsu höfuð sem hægt er að nota til að breyta óvinum í stein, Auga Atlantis sem skýtur eldingum á óvini Kratosar og margt fleira. Þar að auki fær Kratos ávallt eitt nýtt vopn þegar langt er komið í leikina, svo sem spjót og skjöld Spörtu (Arms of Sparta) í Ghost of Sparta og hanska Seifs (Gauntlets of Zeus) í Chains of Olympus. Svo er þrautalausnar hlið leiksins, en þá þarf stundum að hugsa sig um stundarkorn áður en hægt er að halda áfram, þar sem t.d. þarf að ýta á einhvern takka á meðan þú ferð í gegnum hurð eða að klifra langar leiðir til að komast á næsta svæði og fleira í þessum dúr sem heldur leikjunum algjörlega saman, því án þeirra yrðu bardagasenurnar sennilega fljótt þreytandi. Þetta er því góð leið til að brjóta niður spilunina.

Leikirnir notast við hefðbundið lífs- og töfraorkukerfi, líkt og í mörgum gömlum, sem og nýjum hlutverkja leikjum. Þar er s.s. einn grænn mælir sem endurvarpar hversu mikið líf Kratos er með og  annar blár sem sýnir hversu mikla galdraorku hann býr yfir að hverju sinni. Lífsmælirinn tæmist í samræmi við það hversu illa Kratos verður fyrir barsmíðum andstæðinga sinna, og töframælirinn breytist eftir því hversu mikið af göldrum spilarinn notar. Til að endurfylla svo lífs- eða töframælinn þarf spilarinn að opna kistur í samsvarandi lit sem hægt er að finna víða í leikjunum. Í Ghost of Sparta er svo enn einn mælir, eldmælirinn sem virkar þannig að þegar spilarinn virkjar hann þá binst eldur við sverð Aþenu sem bæði meiðir óvininn meira og getur skemmt suma hluti sem hnífarnir geta ekki venjulega unnið á, svo sem brynjubúnaði o.fl. Þessi mælir fyllist þó öðruvísi en hinir, þ.e.a.s. hann fyllist sjálfkrafa ef spilarinn notar hæfileikann ekki í smástund.

Í leiknum er einnig hægt að bæta Kratos á nokkra vegu. Það er hægt að betrumbæta vopn hans og brögð, sem ég talað um hér að ofan, þannig að þau bæði meiði meira og hann læri nýjar árásarsamsetningar, þannig að Kratos geti t.d. tekið snúning í loftinu og sveiflað hnífunum á meðan og fleira í þeim dúr. Til þess að bæta þessa hluti þarf spilarinn að safna rauðum orkukúlum sem hægt er að fá með því ýmist að drepa andstæðinga, og þá fær maður fleiri stig ef þeir eru drepnir á grófari hátt enn ella, eða með því að skemma það sem hægt er í umhverfinu og í kistum sem eru á víðsvegar í leikjunum líkt og lífs- og töfraorku kisturnar. Það er einnig hægt að auka líf og galdra Kratosar, en til þess þarf maður að finna annað hvort 5 Gorgon augu fyrir hverja lífsviðbót eða 5 Fönix fjaðrir fyrir hverja töfraorkuviðbót. Þetta er svipað í Ghost of Sparta hvað eldmælinn varðar, en þá þarf að safna 5 mínitúra-hornum fyrir hverja viðbót. Þessir munir eru einnig geymdir í kistum sem spilarinn getur fundið í gegnum leikinn, en ólíkt lífs- og töfraorku kistunum þá eru þessar kistur oftast faldar og er oft einfalt að láta þær framhjá sér fara ef maður skoðar umhverfið ekki gætilega hverju sinni.

 

Aukahlutir

Þegar spilarinn hefur lokið við aðalsöguþráð tölvuleikjanna opnast fyrir nokkra nýja skemmtilegir eiginleikar. Í Chains of Olympus getur spilarinn t.d. spilað leikinn aftur í öðruvísi búningi, t.d. sem kartafla o.fl. Einnig ef spilarinn spilar leikinn aftur í gegn á sama erfiðleikastigi getur hann haldið þeim kröftum sem hann hafði unnið sér inn í fyrri spiluninni. Í Ghost of Sparta er hægt að finna nokkra hluti hér og þar sem eru einungis notanlegir í annað skiptið sem leikurinn er spilaður. Fleira má nefna sem spilarinn getur unnið sér inn svo sem myndbönd og teikningar sem voru gerðar við framleiðslu leiksins, en það þarf að vinna leikinn á mismunandi erfiðleikastigum til að vinna sér inn ákveðna hluti eins og sum myndbandanna.

Að lokum er svo „aðal“ aukaefnið sem er ávallt til staðar í God of War leikjunum. Þetta eru 5 mismunandi þrautir sem spilarinn getur leyst til að vinna sér inn fleiri myndbönd og slíkt, líka bara uppá persónulegt stolt. Þrautirnar eru mis erfiðar en undirritaður vottar alveg fyrir það að sumar eru þvílíkt erfiðara og getur það farið ótrúlega mikið í taugarnar á spilaranum, á góðann hátt, því maður heldur stanslaust áfram að reyna að vinna þær og þegar takmarkið næst loks þá er sigurvíman því miklu sætari. Sem dæmi um þessar þrautir er að spilarinn missir stöðugt líf og verður að drepa alla óvinina áður en hann sjálfur deyr, önnur er að eyðileggja alla hluti inni í herbergi á vissum tíma og svo er eitt þar sem á að drepa ákveðinn fjölda óvina án þess að verða fyrir höggi.

 

Hönnun og hljóð

Í leikjunum er frumsamin tónlist sem passar alltaf jafn vel við leikinn, lögin eru bæði nógu gróf fyrir allt það blóð sem er í leiknum, svo ekki sé minnst á limlestingarnar, en eru samt sem áður akkúrat nógu mikið í ætt við forngríska tónlist að maður gleymir aldrei hvert þema leiksins er og það skiptir höfuðmáli.

Útlitslega eru leikirnir fínir, en ekkert til að missa sig yfir. Vissulega eru þetta endurútgáfur af PSP leikjum og miðað við hvernig leikurinn leit út þegar hann kom upprunalega út þá er greinilegt að það hefur verið lögð einhver vinna í að láta þá líta vel út á stærri skjám, en samt sem áður þá lifum við á tímum stanslausra betrumbóta hvað grafík leikja varðar og þegar borið er saman við það sem við höfum vanist nú undanfarin ár, á hann langt í land, og leið mér ansi mikið eins og ég væri hreinlega með gömlu Playstation 2 tölvuna mína tengda þegar ég spilaði hann. Ekki misskilja mig, ég held mikið uppá þá leikjavél, en ég er mikill fylgismaður framfara í tölvuleikjum og hef því trú á því að við verðum að halda áfram að nýta þann magnaða tölvubúnað sem Playstation 3 býr yfir til hins ýtrasta og þessir leikir gera það því miður ekki.

 

Samantekt

Ég hafði í heildina litið mjög gaman af tölvuleikjunum tveimur og var sjálfur, á sínum tíma, God of War aðdáandi, en ég spilaði þann fyrsta árið 2005, og þótti sjálfsagt töluvert ungur á þeim tíma til að spila hann. Ég held að ég fái aldrei jafn mikla löngun til þess að hella mér í gríska goðafræði og þegar ég skelli God of War leik í tækið. En svo man maður alltaf að lokum að leikirnir eru samdir í kringum sögurnar en ekki bara hrein útfærsla af þeim. Að mínu mati er Kratos meðal hörðustu tölvuleikjapersóna allra tíma og það er ein helsta ástæða þess að ég held ennþá svolítið uppá leikina, en það er ekki nóg með það að hann tekur hvern guðinn á fætur öðrum og vægast sagt drepur þá, heldur er bara svo margt meira á bakvið persónuna en þ.á.m. finnst mér rúsínan á pylsuendanum lagið hans Kratos. Það er nefninlega eitt laganna í God of War leikjunum, og það besta að mínu mati, sem er einfaldlega nafnið hans sungið aftur og aftur. Ég hef oft talað um það sjálfur að mér þyki það einmitt mjög mikil undirstrikun á hversu miklir harðjaxlar tölvuleikjapersónur eru sem eiga slíkt lag, en að þessu sinni get  ég bara nefnt Sephiroth úr Final Fantasy VII sem var með samskonar lag, og hann verður seint talinn væskill.

Leikurinn inniheldur tvo fínustu tölvuleiki og þrátt fyrir að hafa ekki bestu grafíkina sem í boði er um þessar mundir þá bætir verðið upp fyrir það, en leikurinn kostar töluvert minna en aðrir nýir leikir. Með það í huga get ég mælt með leiknum fyrir flest alla yfir 18 ára aldri, því hann er skemmtilegur og með ágætis spilunargildi, þar sem þeir eru tveir og hvor um sig skartar u.þ.b. 8-10 klukkutíma leikjaspilun, en þá er ég bara að tala um aðalsöguþráðinn, með aukaþrautunum og jafnvel endurspilun á erfiðara erfiðleikastigi getur spilanagildið rokið upp.

Hvað God of War aðdáendur varðar get ég hiklaust mælt með leiknum hér og nú því sagan, og þá sérstaklega í Ghost of Sparta, er þrælskemmtileg og áhugaverð, og gefur spilaranum enn betra innsæi í Kratos sem persónu. Leikirnir eiga þó að mínu mati umtalsvert í land svo þeir nái gæðum leikjanna í aðal þríleiknum.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
6,5
8,5
8,0
8,5
8,0

SAMTALS

7,9

 

 

– Arnar Vilhjálmur Arnarsson

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑