Bíó og TV

Birt þann 19. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Black Sunday (1960)

Black Sunday (La maschera del demonio á frummálinu) er ítölsk hrollvekja frá árinu 1960 sem  Mario Bava leikstýrði. Með aðalhlutverk fara Barbara Steele, John Richardson, Arturo Dominici og Ivo Garrani.

Black Sunday er önnur myndin sem Svartir sunnudagar sýna í Bíó Paradís. Ólíkt Dawn of the Dead, hafði ég aldrei áður séð Black Sunday, en eftir að hafa heyrt að myndin væri ein af uppáhaldsmyndum Quentin Tarantino, Tim Burton, Martin Scorsese, Joe Dante, Francis Ford Coppola, Dario Argento og Clive Barker, varð ég ansi forvitinn um myndina.

Í myndinni fer Barbara Steele með hlutverk Asa Vajda og Katia, en Asa var líflátin ásamt Javuto (Arturo Dominici) á sautjándu öld með gaddaðri stálgrímu sem var hömruð á andlit hennar með sleggju (huggulegt, ekki satt?) þar sem hún var sökuð um að tengjast göldrum. Fyrir algjöra tilviljun finna Dr. Thomas Kruvajan (Andrea Checchi) og Dr. Andre Gorobec (John Richardson) gröf Asa og vekja hana aftur til lífsins, óvart. Asa, sem er einskonar satanísk vampíru-norn, er full af illsku og í framhaldinu hefst baráttusaga milli góðs og ills.

Myndin er öll svart-hvít og er ótrúlegt að sjá hvernig Mario Bava leikur sér með ljós og skugga í henni. Gotneskt umhverfi myndarinnar og gotneska tilfinningin sem fylgir henni er yfirgnæfandi þar sem vígalegar byggingar og rústir fá m.a. að njóta sín í svart-hvíta heimi Bava. Einnig eru nokkrar ansi flottar tökur í myndinni sem eru heldur lengri en gengur og gerist í hefðbundnum kvikmyndum í dag og gaman að sjá metnaðinn sem liggur á bakvið uppsetningu leikmuna og umhverfis í myndinni.

…Barbara Steele nær algjörlega að stela senunni sem Asa Vajda sem er með margar djúpar og grófar holur í andlitinu eftir grímuna sem hún áður bar.

Leikurinn er ekkert sérstakur að mínu mati og á köflum óþarflega ýktur. Það má þó ekki gleyma því að hér er um að ræða kvikmynd frá árinu 1960, og allt önnur viðmið þá en þekkist í dag. Persónurnar í myndinni er nokkuð áhugaverðar, en Barbara Steele nær algjörlega að stela senunni sem Asa Vajda sem er með margar djúpar og grófar holur í andlitinu eftir grímuna sem hún áður bar.

Sem kvikmyndafræðingur hafði ég nokkuð gaman af myndinni út frá ofangreindum atriðum, auk þess er alltaf gaman, og nauðsynlegt, að stíga aðeins úr nútíma Hollywood myndunum og skoða kvikmyndasöguna í víðara samhengi. Aftur á móti var skemmtanagildi Black Sunday takmarkað. Þegar ég las mér aðeins til um myndina kom meðal annars í ljós að hún þótti mjög óhuggnanleg og var m.a. ritskoðuð í Bandaríkjunum og bönnuð í Bretlandi til ársins 1968. En líkt og Kristinn Ólafur minntist á þegar hann gagnrýndi bókina Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, sem er samansafn þýddra smásagna eftir hinn heimsþekkta rithöfund H.P. Lovecraft, að þá er nútímafólk mun vanara grafískum sögum en áður fyrr og því erfiðar að sjokkera það. Myndin hefur ekki náð að eldast neitt voðalega vel sem hryllingsmynd, en sem kvikmyndasöguleg mynd heldur hún sínu gildi.

Myndin á svo sannarlega heima hjá kvikmyndafræðingum, áhugamönnum um kvikmyndasöguna gamlar gotneskar hrollvekjur, Mario Bava og öðrum þeim sem hafa gaman af því að velta kvikmyndum fyrir sér yfir höfuð. Miðað við mynd sem var gefin út fyrir meira en hálfri öld er hún einstaklega vel heppnuð. Leikurinn, sagan og hryllingurinn nær þó því miður ekki að skapa nægilega öflugt andrúmsloft til að heilla hefðbundna áhorfendur og er skemmtanagildi myndarinnar því miður takmarkað.


 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑