Bækur og blöð

Birt þann 7. júní, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Bókarýni: Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur

Bókin Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, er samansafn smásagna eftir hinn heimsþekkta rithöfund H.P. Lovecraft. Lovecraft (f. 1890 – d. 1937) var bandarískur rithöfundur sem skrifaði mest megnis hrollvekjur, vísindaskáldsögur og fantasíur. Sögur hans áttu sér ekki stóran lesendahóp á sínum upphaflega útgáfutíma, en á síðari árum hafa vinsældir sagna hans aukist og er hann talinn vera einn helsti frumkvöðull í hrollvekjuskrifum 20. aldarinnar.

Höfundarverk Lovecrafts hafa orðið mörgum höfundum að innblæstri. Þar á meðal Stephen King, sem hefur sagt að lestur á sögum Lovecrafts hafi kveikt áhuga sinn á hrollvekjubókmenntum, og Stefán Mána sem skrifaði eftirminnilega persónu sem tilbað hinn forna guð Cthulhu í bók sinni Skipið. Þar fyrir utan hafa verk Lovecrafts orðið kveikjan að fjölmörgum bíómyndum, leikritum og leikjum. Bókin er þýdd af Þorsteini Mar og gefin út af bókaútgáfunni Rúnatý, en þetta er í fyrsta skipti sem sögur eftir H.P. Lovecraft eru gefnar út á Íslensku. Bókin inniheldur fimm sögur sem eru mjög misjafnar að lengd. Fyrstu þrjár sögurnar; Vitnisburður Randolphs Carters, Kettirnir í Ulthar og Hinir guðirnir, eru allar innan við 10 blaðsíður að lengd, á meðan seinni sögurnar tvær; Kall Cthulhu og Við hugarfársins fjöll, eru töluvert lengri og taka bróðurpart bókarinnar sem er tæpar 200 blaðsíður að lengd.

Fyrsta saga bókarinnar heitir Vitnisburður Randolphs Carters. Hún fjallar um mann í lögregluyfirheyrslu sem segir frá dularfullum atburðum sem hentu hann í fornum grafreit, sem urðu til þess að kollegi hans hefur ekki skilað sér aftur til mannabyggða. Kettirnir í Ulthar er önnur saga bókarinnar og jafnframt sú styðsta, en í henni er lýst yfirnáttúrulegri atburðarás sem varð til þess að kattardráp voru bönnuð í hinni fornu borg Ulthar. Þriðja saga bókarinnar heitir Hinir guðirnir, en í henni er fjallað um örlög  tveggja manna sem klífa dularfullt fjall í von um að sjá ásjónu guðanna. Þessar þrjár smásögur setja tóninn og virka sem hálfgerður undirbúningur fyrir lesandann, eða jafnvel smá fyrirboði um það sem koma skal í seinni tveim sögunum sem eru þó nokkuð kjötmeiri þegar kemur að lengd og efni.

Fjórða saga bókarinnar heitir Kall Cthulhu, en hún er sennilega frægasta sagan sem H.P. Lovecraft skrifaði. Sagan er í formi frásagnar úr færslu sem skrifuð var af manni að nafni Francis Wayland Thurston. Thurston hafði komist yfir skjalasafn frænda síns sem var prófessor í semískum tungumálum, en meðal skjalanna, sem þar var að finna, uppgvötaði Thurston litla styttu úr leir er sýndi veru sem líktist kolkrabba, dreka og manni allt í einu og sama formi. Eftir að hafa skoðað skjalasafnið nánar, lesið gamla blaðagrein og yfirheyrt listamanninn sem mótaði styttuna, kemst Thurston að því að frændi hans hafði verið að rannsaka veruna sem styttan sýndi, og hafi í leit sinni komist að mörgu dularfullu, fornu og hræðilegu. Svo hræðilegu að það var ekki ætlað vitund dauðlegra manna.

Við hugarfársins fjöll er fimmta og seinasta saga bókarinnar, og er jafnframt sú lengsta en hún tekur um tvo þriðju af blaðsíðutali bókarinnar. Sagan er fyrstu persónu frásögn jarðfræðingsins William Dyer, af atburðum sem áttu sér stað í rannsóknarleiðangri sem hann tók þátt í á Suðurskautinu. Eftir að hafa uppgvötað undarlega steina með þríhyrndum merkingum ákveður einn af leiðangursstjórunum að fljúga ásamt föruneyti mun lengra en upphaflega markmið leiðangursins hafði sagt til. Leitin leiðir í ljós fjallgarð sem er mun hærri en Mount Everest, og þar í helli meðal hrúga af steingerðum dýraleifum finnast 14 furðulega vel varðveittar verur sem steypa ríkjandi kenningum um þróun lífs á jörðu af stóli. Skyndilega missir Dyer allt samband við hinn helming leiðangursins. Þegar Dyer fer sjálfur á vettvang til að kanna hvað fór úrskeiðis kemur í ljós að leiðangursmennirnir eru ekki einir á köldum hjara Suðurskautsins, og ekki er allt með feldu handan hins mikla fjallgarðs.

Ég hef ekki lesið neitt eftir H.P. Lovecraft áður, en hef þó haft kynni af bæði tölvuleikjum og borðspilum sem hafa verið gerð eftir verkum hans. Lengi vel hafði ég ætlað mér að lesa eitthvað af sögunum hans og greip því tækifærið með útkomu þessarar bókar í íslenskri þýðingu. Þorsteini Mar hefur tekist vel til við að þýða sögur Lovecrafts. Þrátt fyrir aldur sagnanna nær Þorsteinn að halda í þann tíðaranda sem einkennir sögur Lovecrafts, og ef ég vissi ekki betur mætti halda að sögurnar hefðu verið þýddar stuttu eftir útgáfu þeirra fyrir um.þ.b. 80 árum síðan.

Kápa bókarinnar er látlaus en falleg, og á baksíðu hennar má finna stuttan inngang um innihald bókarinnar. Bókin í heild sinni er skemmtileg, en sögurnar geta þó verið örlítið þungar í lestri og jafnvel fremur langdregnar á köflum sökum þess hve óheyrilega miklu púðri er eytt í lýsingar á umhverfi, hlutum og aðstæðum, á meðan atburðarásin sjálf stendur í stað. Þrátt fyrir þetta tekst sögunum að vissu leyti að halda manni spenntum, en ná þó ekki að vekja þann óhug sem veldur því að maður lítur upp úr bókinni milli flettinga til að sjá hvort eitthvað stari á mann úr dimmum skúmaskotum. Ég komst heldur ekki hjá því á tíðum að finnast sem ég hefði lesið þessar sögur áður, en í ljósi þess að verk Lovecraft hafa haft gífurleg áhrif á minni og þemu síðari tíma hrollvekna, er ekkert athugavert við þá tilfinningu. Sögur Lovecrafts eru í raun langömmur margra þeirra vísindaskáldsagna og hrollvekna sem við sjáum og lesum í dag, og eru því að vissu leyti börn síns tíma.

Eins hræðilegar og þessar sögur hafa verið á sínum tíma þá nær hryllingur þeirra, sem er að mestu af sálfræðilegum toga, ekki eins vel til nútímafólks sem hefur bæði séð og lesið mun grafískari sögur í bíóhúsum og bókum.

Eins hræðilegar og þessar sögur hafa verið á sínum tíma þá nær hryllingur þeirra, sem er að mestu af sálfræðilegum toga, ekki eins vel til nútímafólks sem hefur bæði séð og lesið mun grafískari sögur í bíóhúsum og bókum. Þá fannst mér einnig frágang bókarinnar vera ábótavant, t.d. voru ritvillur af þeirri gerð sem villupúkaforrit finna ekki fleiri en maður er vanur í útgefinni bók.

Þegar allt kemur til alls er Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur fínasta afþreying, en varla meira en það. Sögurnar eru orðnar gamlar og því eflaust ekki eins beittar og þær voru við útgáfu. Þó sýna þær vel hvar rætur nútíma hryllingssagna liggja, og ættu þar af leiðandi að vera skyldulesning fyrir alla þá sem hafa áhuga á hrollvekjubókmenntum.

– KÓS

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑