Bækur og blöð

Birt þann 26. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Græðarinn eftir Antti Tuomainen

Græðarinn er nýútkomin bók frá Máli og menningu. Hún er eftir finnska höfundinn Antti Tuomainen en kemur út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar. Hún kom út í Finnlandi árið 2010 undir heitinu Parantaja og hlaut þarlendu Clue verðlaunin fyrir bestu glæpasöguna árið 2011. Hún var einnig tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, árið 2012.

Græðarinn er nokkurs konar dystópísk vísindaskáldsaga sem gerist í höfuðborg Finnlands í náinni framtíð, framtíð sem einkennist af hörmulegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Þótt sagan markist mikið af því umhverfi eru loftslagsbreytingarnar þó mestmegnis bara bakgrunnur sögunnar. Sagan sjálf er glæpasaga en inni í henni leynist einnig lítil ástar- og örlagasaga. Sagan er ekki löng, aðeins 227 blaðsíður, og er stíllinn knappur. Þýðing Sigurðar er prýðileg. Sagan er dökk og vonlaus en á sama tíma einnig full af von, von sem hægt er að hrifsa burt á einu augnabliki. Hún er ljóðræn og myndræn, lýsingar af blautum strætum Helsinkiborgar og þeim hörmungum sem fyrir augu ber eru ljóslifandi:

Suðurhlutar Spánar höfðu formlega verið gefnir upp á bátinn. Á flóðasvæðum Bangladesh hafði brotist út farsótt sem hætta var á að breiddist út um alla Asíu. Deila Indlands og Kína um vatnsbirgðir Himalaja stefndi ríkjunum í stríð. Bandaríkin höfðu lokað landamærunum að Mexíkó og mexíkósk fíkniefnasamtök svöruðu með flugskeytaárásum: skotmörkin voru Los Angeles og San Diego. Mistekist hafði að slökkva eldana í skógum Amasón með því að sprengja nýja árfarvegi til að einangra brunasvæðið. Yfirstandandi stríð eða vopnuð átök innan Evrópusambandsins: þrettán, flest á landamærunum. (6)

Samfélagið sem við kynnumst í bókinni er gjörspillt. Lögreglan hefur gefist upp á að rannsaka glæpi því hún hefur ekki undan að taka niður upplýsingar um ný mál. Raðmorðingi sem kallar sig Græðarann leikur lausum hala en lögreglan hefur engan kost á að eltast við hann. Einkalögreglusveitir og öryggisfyrirtæki vernda þá sem peninga eiga á kostnað þeirra sem enga peninga eiga, þeir allra ríkustu flýja norður á bóginn. Í þessu samfélagi á barmi algjörs hruns er Johanna ein af fáum blaðamönnum sem ennþá reyna að flytja fólki sannleikann en ritstjórinn hennar vill heldur flytja fréttir af kynlífsmyndböndum poppstjarna því það er það sem selur. Johanna hlustar ekki á hann, andspænis algjörri uppgjöf lögreglunnar fer hún sjálf að rannsaka Græðarann og hverfur sporlaust. Sagan gerist eftir hvarfið og fylgist lesandi með þegar Tapani, maður Johönnu, leggur líf sitt og limi í hættu við að finna hana og upplýsa hver Græðarinn er áður en það verður um seinan.

Sagan er nokkuð spennandi og virkar ágætlega sem glæpasaga, það sem ljær henni þó aukinn kraft að mínu mati er samfélagslega lýsingin af heimi sem er að hrynja. Hún spyr lesanda sinn áleitinna spurningu og hún er að vissu leyti ádeila og áminning um að við verðum að taka ábyrgð á gjörðum okkar í dag, annars gætum við þurft að borga fyrir það á morgun.

Þetta er bók sem hentar vel fyrir breiðan lesendahóp. Hún virkar fyrir þá sem hafa gaman af krimmum, fyrir þá sem hafa gaman af dystópíum, fyrir þá sem hafa gaman af sögum sem kafa aðeins dýpra í mannlegt eðli og mannlega eymd og hún virkar jafnvel fyrir þá þarna úti sem hafa gaman af ástarsögum. Ég get hæglega mælt með þessari bók og gef henni fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Ég ætla að ljúka þessari umfjöllun minni á orðum Tapani sem ramma frásögnina:

Hvorn kostinn vildi ég heldur: fulla vissu um að það versta hefði gerst eða óttann sem óx með hverju andartaki? Skyndilegt hrun eða hægt og bítandi niðurbrot?

Hvorn kostinn veldir þú lesandi góður?

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑