Íslenskt

Birt þann 26. október, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Rammíslenzkir hrekkjavökubúningar

Á seinustu árum hefur hrekkjavökuhátíðin farið að skjóta æ dýpri rótum á Íslandi, en með hverju árinu fjölgar skemmtununum og partíunum sem tengja sig við þennan mest megnis ameríska viðburð. Vestan hafs er þessi hátíð að mestu leyti haldin fyrir börnin, þar sem þau fara húsi úr húsi klædd sem skrímsli og forynjur í eilífri leit að nammi. Á Íslandi hins vegar er það aðallega unglingar og ungt fullorðið fólk sem fagnar þessum degi. Nú þegar er fólk farið að sauma sér búninga eða kaupa nýja tilbúna í búðum. Aðrir láta sér duga að draga fram gömul föt af gamla settinu úr geymslum eða dusta rykið af gamla dimmiteringarbúningnum. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef enn sem komið er ekki tekið þátt í hrekkjavökugleðskap, og finnst í rauninni að fólk ætti frekar að fagna gamla góða öskudeginum af sama krafti og hrekkjavökunni (Ég meina hver elskar ekki miðvikudagsfyllerí?). Öskudagurinn er jú mun þjóðlegri, og á rætur að rekja aftur til 14. aldar, þó hans núverandi mynd sé að mestu leyti komin frá Dönum. En ég ætla ekki að vera leiðinlegi gaurinn sem fordæmir ameríkaniseringu landans. Íslendingar eru einstaklega góðir í að finna ástæðu til að skemmta sér og hrekkjavakan er greinilega komin til að vera.

En hvað ef það væri leið til að gera hrekkjavökuna aðeins íslenskari? Þema hrekkjavökunnar er að sjálfsögðu hið yfirnáttúrulega og hryllilega, og því er venjan að búningavalið sé í takt við það. Fólk klæðir sig því oft upp sem persónur úr hryllingsmyndum, skáldsögum, sjónvarpsþáttum eða jafnvel tölvuleikjum. En af hverju að klæða sig upp sem vampíra, varúlfur eða Frankenstein skrímslið á meðan mun hræðilegri fyrirbrigði fyrirfinnast í okkar eigin þjóðsagnaarf? Hér er ég því búinn að taka saman 7 hugmyndir um rammíslenska búninga sem ég væri til í að sjá á hrekkjavökunni þetta árið.

Prestur

Núna eru prestar almennt ekki taldir vera mjög óhugnalegir, en þegar maður hugsar um prest í dag bregður yfirleitt fyrir öldruðum manni í kjól með söngrödd yfir meðallagi. En í íslenskum þjóðsögum eru prestar alger hörkutól sem eru endalaust að vekja upp eða kveða niður drauga, og svo eru þeir líka oft rammgöldróttir og dunda sér við það að leika á Kölska sjálfan í frítíma sínum. Íslenski miðaldapresturinn á því meira skylt við Chuck Norris en þá góðlátu menn og konur sem við sjáum bregða fyrir í fermingar- og skírnarveislum. Presturinn hentar því þeim sem vilja hvíla Steven Seagal eða Van Damme búninginn þessa Hrekkjavökuna, en vilja samt líta út fyrir að vera eiturharðir í kjól.

Tilberamóðir

Hentugur búningur fyrir stelpur sem vilja geyma dræsulegu hjúkkuna/flugfreyjuna/lögreglukonuna (eða hvaða kenkyns starfstétt sem getur verið léttklædd) í eitt ár og bregða sér í þjóðbúninginn. Tilberamæður eru þær konur sem í gegnum notkun svartagaldurs bjuggu til ormsleg blóðsjúgandi kvikindi úr mannabeinum, flóka og messuvíni. Tilberinn, eins og þetta kvikindi er kallað, hafði það hlutverk að laumast út á næturnar, sjúga kýr, koma til baka, og að lokum æla smjöri í ask móður sinnar, en tilberasmjör var álitið lostæti þrátt fyrir að vera unnið með óhefðbundnum leiðum. Stelpur sem vilja klæða sig eins og tilberamæður ættu að fara í sín bestu mjaltarföt og ganga með tilberakvikindið innan á sér, en mögulega er hægt að föndra þannig dýr úr nokkrum samansaumuðum lifrarpylsum með vampírutönnum úr plasti á sitthvorum endanum (nema þú komist náttúrulega yfir mannabein, flóka og messuvín og kunnir smá svartagaldur).

Móri

Íslenskir draugar eru þúsund sinnum meira hræðilegir en draugar annara þjóða (Ísland bezt í heimi!). Af hverju spyrðu? Íslensku draugarnir, eða mórar (og skottur ef þeir voru kvenkyns), voru annað hvort menn sem dóu við óeðlilegar aðstæður eða voru vaktir aftur til lífsins með notkun svartagaldurs. Mórarnir eru ekki hálfgegnsæjir og ganga í gegnum veggi, ónei. Þeir sparka niður hurðina og draga fórnarlömb sín út á hárinu, fara í fjárhúsin og slátra lífsviðurværi bænda, breyta sér í risastór skrímsli sem geta sökkt skipum, eða örlitlar flugur sem fljúga ofan í kokið á mönnum og kæfa þá. Þegar mórinn er búinn að drepa þig er hann ekkert hættur. Neibb! Hann heldur áfram að ráðast á og hræða næstu tíu ættliði eftir þig. Svo hræðilegur er hann! Mórabúningurinn er auðveldlega túlkaður þar sem mórar voru yfirleitt klæddir eins og miðaldabændur á Íslandi. Þar sem fólk heldur almennt að íslenska lopapeysan sé frá þeim tíma, þá ætti að vera nóg að klæða sig í prjónafatnað, maka smá flór í andlitið og mórabúningurinn er til!

Nykur

Ef þú og vinur þinn viljið tvímenna með búning, og eigið jafnvel þegar hestabúning fyrir tvo, þá er þetta búningur fyrir ykkur. Nykur er nefnilega vatnaskrímsli sem lítur út fyrir að vera undurfallegur hestur að öllu leyti, fyrir utan að af einhverri ástæðu eru hófarnir á honum öfugir. Fólk sem sér Nykur verður ávallt dolfallið yfir fegurð skepnunar og finnst það vera knúið til að fara á bak henni. Þeir sem eru nógu óheppnir til að gera það festast jafnóðum á baki Nyksins, sem þá tekur á stjá út í næsta vatn og drekkir viðkomandi. Ef þú og vinur þinn ákveðið að klæðast sem nykur, verið þá duglegir að bjóða fólki á bak. Ef einhver þiggur boðið, sprautið þá duglega af tonnataki á bakið fyrst þannig að viðkomandi festist kyrfilega. Síðan takið þið að sjálfsögðu á rás út í næsta poll og rennbleytið þann sem féll fyrir fegurð búnings ykkar. Niðurstaðan er að sjálfsögðu hrekkjavökusaga sem þið munið segja næstu árin.

Axlar-Björn

Langaði þig að vera blóði drifinn morðingi þessa hrekkjavöku? Varstu kannski með Freddy Krueger úr Nightmare on Elm Street, Dexter úr Showtime þáttunum, eða Jason úr Friday the 13th í huga? Af hverju ekki að klæða sig frekar sem Axlar-Björn, hinn eina sanna íslenska raðmorðingja? Axlar-Björn myrti 18 manns, rændi af þeim öllum verðmætum og faldi síðan líkin af þeim í tjörninni á bænum sínum áður en komst upp um hann. Hann var tekinn af lífi árið 1596, en þá voru beinin í útlimunum hans brotin með sleggju áður en hann var afhöfðaður, brytjaður niður og hinir ýmsu líkamspartar hans voru hengdir upp á staura. Tilvalin búningahugmynd fyrir þá sem vilja klæða sig upp sem alvöru íslenskan hrylling!

Umskiptingur

Þegar Álfar sjá falleg börn í mannheimum þá eiga þeir það til að stela þeim. En til að villa um fyrir mönnunum þá skilja þeir yfirleitt eftir umskipting í stað barnsins, en umskiptingarnir eru jafnan gamlir klikkaðir álfakallar sem allir álfarnir eru komnir með leið á, og sem búið er að „hnoða“ saman þannig að þeir líti út fyrir að vera börn. Umskiptingar láta jafnan öllum illum látum, eru óþekkir, háværir og alls ekkert líkir þeim í háttum sem þeim var skipt út fyrir. Þessi búningahugmynd hentar því vel þeim sem eru almennt latir í búningagerð, þar sem viðkomandi getur mætt í partíið klæddur eins og hann er dagsdaglega og sagst vera umskiptingur. Sumir gætu jafnvel nýtt sér þennan búning til að komast nær hinu kyninu, því eina leiðin til að losna við umskipting er að flengja þá vægðarlaust alla nóttina!

Huldumaður

Góður búningur fyrir þá sem vilja frekar eyða kvöldinu heima og horfa á eina góða hryllingsmynd. Þegar vinir þínir hringja í þig og spurja af hverju þú sért ekki mættur í partíið, þá segistu vera mættur í huldumannsbúningnum þínum, en eins og allir vita þá er huldufólk ósýnilegt.

Gleðilega Hrekkjavöku!

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑