Birt þann 23. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Hristur en ekki hrærður – Brellur í Bond myndunum
Bond fær verkefni, Bond fær tæki og tól, Bond hittir óvininn, Bond hittir fallega konu, Bond ræðst gegn óvininum, Bond leysir verkefnið, Bond fær konuna (þó aðeins tímabundið), Endir. Í 50 ár hefur þessi einfalda söguuppbygging, sem er mjög lauslega útskýrð hér (ég viðurkenni það), heillað áhorfendur um allan heim og mun gera það enn og aftur með 23 James Bond myndinni (ef farið er eftir hinni formlegu talningu) Skyfall. Söguuppbyggingin er þó ekki stærsta aðdráttarafl myndanna, heldur að sjálfsögðu sögupersónan James Bond sem er hugarsmíð rithöfundarins og herramannsins Ian Fleming (hugmyndina að nafninu fékk Fleming úr bókinni Birds of the West Indies en höfundur þeirrar bókar hét einmitt James Bond). Í Skyfall er það hinn eitursvali Daniel Craig sem er mættur aftur í hlutverki njósnara hinnar hátignar.
Það er eflaust óþarfi að tíunda hvað það er nákvæmlega sem heillar almenning þegar horft er á James Bond kvikmynd; upphafsatriðið, tónlistin, tökustaðirnir, fötin, tækin, bílarnir, konurnar, áhættuatriðin og allt þar á milli heillar. Margir eru þó þeirrar skoðunar að tæknibrellurnar í myndunum standi upp úr því oft á tíðum eru þær ansi magnaðar. Yfirleitt er reynt eftir fremsta megni í Bond myndunum að skapa ævintýralegar brellur án mikillar aðstoðar tölvutækninnar. Þessi tilhneiging hefur orðið stór hluti af Bond batteríinu. Það væri hægt að fjalla um svo margt sem tengist James Bond og hef ég ákveðið að skoða örfáar magnaðar tæknibrellur og áhættuatriði úr myndunum.
Oddjob, einn af frægustu óvinum Bond, kemur fyrir í myndinni Goldfinger (1964). Í þessu atriði þar sem hann berst við Bond þá má sjá í myndbandinu (á 04:05 mín) hvar Bond kastar hattinum hans Oddjob í átt að honum. Þessi brella var gerð á mjög einfaldan hátt með því að festa hattinn við rörið og svo kippa í hattinn með bandi. Þetta er svo sýnt aftur á bak til að láta líta út fyrir að hatturinn kastist í átt að Oddjob.
Til þess að skapa upphaflega skotið í gegnum byssuhlaupið í Dr. No (1962) tók Maurice Binder (upphafstitlahönnuður) alvöru ljósmynd af .38 kalíbera byssuhlaupi með „pinhole“ myndavél svo hlaupið væri allt í fókus.
Í Live and Let Die (1973) er að finna magnað atriði þegar Roger Moore í hlutverki Bond hleypur yfir krókódíla til þess að sleppa undan árás þeirra. Þetta atriði var framkvæmt af áhættuleikaranum Ross Kananga sem hljóp yfir alvöru krókódíla og var oft nálægt því að stórslasast.
Í The Spy Who Loved Me (1977) er hreint magnað atriði þegar Bond stekkur fram af bjargi á skíðum. Áhættuleikarinn Rick Silvester framkvæmdi stökkið og þurfti hann að losa sig við skíðin því þau gátu truflað stökkið. Ef fylgst er vel með lok atriðsins, rétt eftir að fallhlífin opnast, þá hæfir eitt skíðið nánast fallhlífina og hefði getað valdið stórslysi.
Það væri óhugsandi að gera þau áhættuatriði í dag sem birtast í þessu atriði úr Moonraker (1979). Á 2:39 í myndabandinu má sjá tvo áhættuleikara, þá Martin Grace og Richard Graydon, standa ofan á kláfferju og voru þeir með engar öryggislínur við tökurnar og fallið hefði drepið þá.
Þetta atriði úr Goldfinger er orðið mjög frægt. Leysigeislinn var alvöru geisli, þó algjörlega meinlaus, og til þess að skapa eldinn var notast við kyndil sem var undir borðinu.
Við tökur á þessu atriði úr Octopussy (1983) var notast við mjög einfalda en áhrifaríka sjónbrellu. Flugvélin flýgur í raun framhjá flugskýlinu en myndavélin er þannig staðsett að fyrir framan hana er sett ljósmynd af hurð flugskýlisins. Staðsetning myndavélarinnar og ljósmyndarinnar fellur svo nákvæmlega saman þegar atriðið er tekið upp að það lítur út fyrir að vélin fljúgi í gegnum skýlið. Þegar Bond sést svo fljúga vélinni inni í skýlinu þá var flugvélin fest með stöng á Jagúar bíl sem keyrði vélina áfram í gegnum skýlið. Ef horft er vel á þau skot má sjá hvernig ýmisskonar hlutir eru fyrir neðst í rammanum til að fela bílinn. Þegar sprengingin á sér svo stað í lok atriðsins þá er um lítið líkan af flugskýli að ræða.
Líkön hafa spilað stórt hlutverk í myndunum og ófá hafa verið sprengd í loft upp. Mörg líkönin eru svo mögnuð að margar láta blekkjast og halda að um raunverulega hluti sé að ræða, enda er tilganginum þá náð. Einn mesti snillingurinn í þessum geira var Derek Meddings sem hafði yfirumsjón með tæknibrellum í fjölmörgum Bond myndum. Hér fyrir neðan má sjá Meddings sitja í líkani sem var smíðað fyrir GoldenEye (1995)
Hér er líkan af skipi úr The Spy Who Loved Me.
Árið 2008 var gerð könnun í Bretlandi á vegum RadioTimes.com um hvað þætti besta áhættuatriði Bond myndanna. Fyrir valinu varð þetta atriði úr Casino Royale (2006), og þá sérstaklega átt við stökkið af krananum. Parkour snillingurinn Sebastian Foucan sýnir ótrúlega leikni í þessu atriði og áhættuleikari Daneil Craig, Ben Cooke, einnig.
Þegar neðanjarðarlestin kemur æðandi inn um vegg í Skyfall þá er um líkan í raunstærð að ræða, fest á teinum í loftinu þannig að auðvelt er að stjórna lestinni. Það er Chris Corbould sem hefur yfirumsjón með tæknibrellunum í Skyfall, en hann hefur unnið við nokkrar Bond myndir í gegnum tíðina.
Þegar litið er yfir tæknibrellur og áhættuatriði í Bond myndunum þá er takmarkið alltaf sett hátt enda búast áhorfendur við miklum hamagangi og raunsæjum atriðum því Bond aðdáendur láta ekki blekkjast svo auðveldlega af tölvubrellum í myndunum. Skyfall verður varla undantekning frá reglunni þegar kemur að stórkostlegum tæknibrellum og mögnuðum áhættuatriðum. Það er vonandi að myndin skilji áhorfendur eftir nett hrista en ekki svo mikið hrærða.
Heimildir:
The Man Behind The Mayhem: The Special Effects of James Bond (2000), „Gun barrel sequence“ á Wikipedia, „The Making Of The Spy Who Loved Me“ á MI6, „Daniel Craig’s Casino Royale leap is James Bond’s ‘best stunt’“ á The Telegraph og James Bond og Skyfall í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes.
Myndir: Skjáskot og brot úr James Bond myndunum, Derek Meddings (Galeon.com).
Forsíðumynd: Daniel Craig sem James Bond.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.