Bíó og TV

Birt þann 30. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Deep Red (1975)

Í tilefni þess að ítalski hryllingsmeistarinn Dario Argento er á leiðinni til landsins sem heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar Reykjavíkur (RIFF) er öllum hollt að rifja upp kynni sín á verkum hans. Ef þið hafið ekki enn séð mynd eftir þennan áhrifamikla leikstjóra þá bið ég ykkur um að drífa í því sem allra fyrst, enda er það vel þess virði.

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Argento helst þekktur fyrir þátt sinn í gerð ákveðinnar tegundar hryllingsmynda sem hafði mikil áhrif á slægjumyndir (e. slashers) áttunda og níunda áratugarins. Þær voru kallaðar giallo myndir og á nafnið rætur að rekja til ítalskra spennubókmennta sem yfirleitt höfðu gular kápur, en giallo er gulur á ítölsku. Argento, ásamt Mario Bava, Lucio Fulci og fleirum, breytti hryllingsmyndagerð til muna og vakti mikla athygli á ítalskri kvikmyndagerð. Giallo myndirnar blönduðu saman spennu og hryllingi með aukinni áherslu á grímuklædda morðingjann ásamt því að sýna meira blóð og nekt en hefð var fyrir. Stíll Argento skar sig þó úr með útpældri myndatöku og áhugaverðri litanotkun. Þekktasta mynd hans, Suspiria (1977), er reyndar tæknilega séð ekki giallo mynd heldur yfirnáttúruleg hrollvekja. Myndin sem ég ætla að fjalla um er alls ekki síðri en Suspiria en fellur hins vegar vel að hefðum giallo myndanna. Hún ber nafnið Deep Red (íta. Profondo rosso) og ber merki um Argento í sínu besta formi.

Myndin fjallar um tónlistarmanninn Marcus (David Hemmings) sem flækist inn í leit að morðingja á götum Rómaborgar eftir að hafa orðið vitni af morði á þýska skyggninu Helgu Ulmann (Macha Meril). Morðunum fjölgar fljótt og blaðakonan Gianna (Daria Nicolodi) aðstoðar Marcus við að finna sökudólginn. Þau hefja svo ástarsamband sem einkennist aðallega af fyndnum rifrildum inni í pínulitlum bíl sem læsist auðveldlega og hefur ekki stöðug sæti. Ákveðin einkenni fylgja morðingjanum, en ásamt því að hylja andlit sitt og ganga í svörtu leðri (eins og vaninn er í giallo myndum) þá spilar hann alltaf barnalag áður en hann lætur til skara skríða. Þetta tengist einmitt byrjun myndarinnar sem sýnir hulið morð framið við sama lag og ungur strákur gengur að blóðugum hníf.

Þar sem aðalpersóna myndarinnar er tónlistarmaður tengist tónlist oft atburðarásinni og setur skemmtilegan svip á myndina. Tónlistin er samin af ítölsku rokkhljómsveitnni Goblin og var Deep Red fyrst af mörgum myndum sem Dario Argento fékk hljómsveitina til að semja tónlist fyrir. Það var sannarlega óhefðbundið að heyra framsækið rokk með áherslu á hljómborð undir hryllingsmyndum þessa tíma og voru Goblin og Argento því frumkvöðlar á því sviði. Sagt hefur verið að hið fræga stef Halloween kvikmyndanna sé innblásið af stefinu sem Goblin gerðu ári áður fyrir Suspiria. Tónlist Goblin eykur að vissu leyti spennu myndarinnar og gírar mann svolítið upp fyrir ódæðisverkin sem henni fylgja.

Tónlistin er þó alls ekki það eina sem stílfærir morðin sem birtast í myndinni. Giallo myndir eyða oft miklu púðri í uppstillingar og aðferðir í drápsenum og í Deep Red má finna fjölmörg slík dæmi.

Tónlistin er þó alls ekki það eina sem stílfærir morðin sem birtast í myndinni. Giallo myndir eyða oft miklu púðri í uppstillingar og aðferðir í drápsenum og í Deep Red má finna fjölmörg slík dæmi. Boðberar hins illa eru ekki aðeins í tónlistarformi heldur fá ýmis dýr svipað hlutverk, en Argento notar ítrekað þessa gotnesku hefð og þá sérstaklega með fugla. Svipað hlutverk fær hlæjandi dúkka, en þó að mér finnist persónulega dúkkur yfirleitt gagnslaust hryllitól þá virkar hún ágætlega í samhengi við barnaþemað. Leikið er með spegla, veggfóður, teikningar og ýmislegt til að krydda upp á rannsóknarvinnu Marcus og við fáum einnig að sjá með augum morðingjans í gegnum svokölluð POV (point of view) skot, sem urðu einmitt nokkuð vinsæl í slægjumyndum. Önnur tenging áhorfanda við morðingjann er notkun á hefðbundnum sársauka sem flestir kannast við í stað byssuskota eða ýktra morðtóla. Ýktar nærmyndir af hlutum á ferð lífga bæði upp á kvikmyndatöku og færa áhorfandann ennþá nær atburðarásinni á meðan ýkt hljóð endurspegla innri taugaveiklun fórnarlamba.

Leikur myndarinnar er í flestum tilvikum sannfærandi en þó getur þótt truflandi hvernig stokkið er á milli ensku og ítölsku. Það á sér samt ástæðu, en þó myndin gerist í Ítalíu er aðalpersónan ekki ítölsk og því tala flestir ensku í kringum hana. Enskan er samt stundum óþarflega ýkt í talsetningu og það blandast svolítið skemmtilega við hátíðleikann sem fylgir breska hreim aðalleikarans, David Hemmings, sem minnir mig alltaf á bítilinn Paul McCartney.

Deep Red er að mínu mati ein þeirra bestu úr smiðju Argento og býður upp á skemmtilegustu einkenni giallo myndanna. Hún sýnir skýr áhrif frá Psycho (1960) í leikstjórn Alfred Hitchcock, bæði varðandi myndatöku og stílfæringu ofbeldis, en hefur svo greinilega haft áhrif á John Carpenter og aðra slægjumyndaleikstjóra. Myndataka, tónlist, stílfæring og spennandi söguþráður gera myndina eftirminnilega fyrir alla sem kunna að meta sjarma eldri hryllingsmynda. Brellurnar virka ágætlega fyrir 37 ára kvikmynd en talsetning ítölsku leikaranna kemur ekki alltaf vel út og því missir einstaka persóna trúverðugleika sinn.

Myndin sýnir ákveðinn þroska og er ekki eins augljóslega ódýr og margar giallo myndir. Þó er nokkuð athyglisvert að með tímanum hafa myndir Argento sýnt enn frekari merki um ódýra framleiðslu, sem er svolítið öfug þróun. Hann mun þó aldrei missa aðdáun hryllingsmyndanörda um heim allan sem lofa hann fyrir þann einstaka stíl sem best má sjá í myndum frá gullskeiði hans á 6. og 7. áratugum síðustu aldar. Tvær slíkar verða sýndar á RIFF, Suspiria og Inferno (1980), ásamt glænýrri kvikmynd eftir hann sem fjallar um sjálfan Drakúla greifa og verður hún í þrívídd. Dracula 3D (2012) verður eflaust eins skrautleg og hún hljómar.

Sjáumst á RIFF!

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑