Leikjarýni

Birt þann 1. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Sorcery

Sorcery er þriðju-persónu ævintýraleikur sem er framleiddur af The Workshop og SCE Santa Monica Studio og gefinn út af Sony Computer Entertainment. Leikurinn tekur undir sig nálægt 4 GB á harða diskinum, það tók mig um það bil 17 mínútur að setja hann upp. Nauðsynlegt er að eiga Move stýripinna og myndavél til þess að geta spilað leikinn og hann kemur eingöngu út á PlayStation 3. Þetta er fyrsti Move leikurinn sem ég hef spilað og var því frekar forvitinn hvernig leikurinn mundi standa sig. Ég fékk svokallað prufueintak af leiknum sem endurspeglar ekki endilega lokaútgáfu leiksins.

Saga

Leikurinn fjallar um Finn, sem er lærlingur hjá galdrakarlinum Dash, og læðunni Erline. Finn er óábyrgur og vandræðasamur drengur sem vill frekar skemmta sér heldur en að hlýða kennaranum sínum. Þegar Dash þarf að útrétta í bænum er Finn ekki lengi að koma sér í vandræði og þarf að verða sér útum sjaldgæft efni fyrir töfraseið sem hann eyðilagði. Erline finnst gaman að sjá hann koma sér í vandræði og platar hann í að fara á hættulegan stað til að nálgast efnið. Sama hvað Erline reynir að tala hann ofan af því að halda lengra vill hann endilega halda áfram að skoða sig um, jafnvel þótt hann sé búinn að finna efnið sem hann þarf til þess að búa til töfraseiðinn. Stuttu seinna uppljóstrar Finn óvart stóru leyndarmáli sem fangar athygli Martraðadrottningarinnar og veldur því að allur heimurinn er í stórhættu. Finn þarf því að taka á honum stóra sínum, lagfæra sín mistök og bjarga heiminum frá hættunni sem steðjar af Martraðadrottningunni.

Spilun

Spilarinn spilar sem Finn og notast hann eingöngu við töfrasprota til þess að sigrast á óvinum sínum og til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Spilarinn getur þurft að laga stiga eða brýr svo hann komist áfram og þá þarf að snúa sprotanum réttsælis eða rangsælis þangað til að viðkomandi hlutur hefur verið lagaður. Select takkinn sýnir spilaranum kort af staðnum og ef ýtt er aftur á Select færist það í efra hægra hornið, en þar sem leikurinn einkennist af einstefnu og svæði lokast á eftir manni er kortið algjörlega tilgangslaust. Með ferhyrningnum tekur Finn upp heilsulyf, ef hann á svoleiðis, og þarf síðan að hrista og snúa Move pinnanum öfugt til þess að virkja og drekka lyfið.

Leikurinn vistast sjálfkrafa á lykilstöðum og ef maður hleður leikinn aftur byrjar maður á því svæði með fulla heilsu. Heilsulyfin eru ekki af skornum skammti svo auðvelt er að selja farandsölumanninum þau. L1 takkinn miðjustillir sjónarhornið og það er líka hægt að halda honum inni og hreyfa Move pinnann til þess að skoða sig um. Fyrir utan þetta hefur spilarinn litla stjórn á sjónarhorninu en leikurinn hjálpar mann með því að beina sjónarhorninu að næsta óvini eða þegar nýir óvinir hafa mætt á svæðið.

Finn þarf að sanka að sér öflum náttúrunnar til þess að sigrast á óvættunum og komast í gegnum leikinn, þau eru jörð, ís, vindur, eldur og elding. Skipt er um galdur með því að halda inni Move takkanum og hreyfa pinnann á ákveðna vegu. Það hægist smá á leiknum til þess að gefa spilaranum tíma til þess að skipta um galdur sem er mjög sniðugt. Þegar mikið gengur á er ekki óalgengt að pinninn snúist óvart á ranga vegu í höndum spilarans sem ruglar miðið. Nákvæmnin er ekki 100% enda er ekki hægt að búast alveg við því og leikurinn kemur til móts við spilarann með því að lenda nokkurn veginn þar sem spilarinn miðaði. Þríhyrningurinn tekur mann inná skjá sem geymir upplýsingar um fjársjóði og efni fyrir töfraseiða sem spilarinn hefur fundið ásamt uppskriftum af töfraseiðum sem geta gætt manni vissum eiginleikum sem munu hjálpa spilaranum við að komast í gegnum leikinn.

Þegar efnunum er blandað saman þarf að nota Move pinnann og herma eftir hreyfingum eins og að hella úr glasikryddamala og hræra hin ýmsu efni saman.

Á vel völdum stöðum verður á vegi manns farandsölumaður sem selur efni fyrir töfraseið, heilsulyf og tómar flöskur til þess að setja töfraseiði í. Eftir því sem maður uppgötvar fleiri efni því fleiri seiðar er mögulegt að blanda saman. Það er hægt að gera galdrana sína hættulegri, styrkja sjálfan sig og svo framvegis. Til þess að búa til galdaseið þarf fyrst að rannsaka alla blöndunarmöguleika og síðan er hægt að blanda seiðinn ef efnin eru fyrir hendi. Þegar efnunum er blandað saman þarf að nota Move pinnann og herma eftir hreyfingum eins og að hella úr glasi, krydda, mala og hræra hin ýmsu efni saman.

Leikurinn er óneitanlega skemmtilegur á léttu erfiðleikastigi en þegar maður velur það erfiðasta getur leikurinn verið ófyrirgefanlegur og þá kemur í ljós það sem dregur niður skemmtanagildið. Sjónarhornið getur stundum gert manni lífið leitt þegar margir óvinir eru á staðnum, sérstaklega þegar óvinirnir eru á sitt hvorum endanum og sjónarhornið hoppar milli svo maður nær ekki að skjóta í þá átt sem maður ætlaði sér. Leikurinn vistar sjálfkrafa reglulega sem er fínt en þegar spilarinn fer að að deyja oft á sama svæðinu og þarf að gera sömu hlutina aftur og aftur vill maður hafa vistunina á betri stöðum í leiknum. Oft er nauðsynlegt að fara í gegnum smá hluta einungis til þess að brjóta nokkra hluti til þess að finna fjársjóð rétt áður en farið er inn á stórt óvinasvæði. Verra var þegar  farandssölumaðurinn mætti og byrja þurfti á því að blanda alla töfraseiðana uppá nýtt í hvert sinn sem maður dó.

Ég hefði ekkert á móti því að fá framhald en ég hugsa að leikurinn komi alltof seint til þess að vekja áhuga fólks á Move tækninni.

Einnig fannst mér leiðinlegt að það er ekki hægt að búa til alla galdraseiðana sem eru í boði vegna þess að maður nær aldrei að safna nógu miklum fjársjóði til þess að kaupa þau. Svo þarf tómar flöskur til þess að geta sett galdraseiðin í, þær eru dýrar og það hefði verið gott ef það væri hægt að nýta flöskurnar aftur eða í það minnsta heilsuflöskurnar eftir notkun. Þetta þýðir að maður þarf virkilega að hugsa um hvaða styrkleika maður vill byggja upp og hvort eitthvað af galdraseiðunum er sóun á fjársjóði. Svo endar leikurinn svo snögglega að maður hefur á tilfinningunni að þeir náðu ekki að gera allt sem þeir vildu gera. Ég hefði ekkert á móti því að fá framhald en ég hugsa að leikurinn komi alltof seint til þess að vekja áhuga fólks á Move tækninni.

Sem betur fer varð ég ekki var við margar villur í leiknum, ég festist einu sinni sem varð til þess að ég þurfti byrja á svæðinu uppá nýtt, tónlist og umhverfishljóð hættu allt í einu á einum stað og það hægðist oft á leiknum þegar hann er að vista sjálfkrafa eða þegar ljósadýrðin verður of mikil þegar nýr máttur öðast frá  náttúrunni. En verst af öllu var þegar hluti af hljóði leiksins þar á meðal tali leiksins datt út þegar ég byrjaði í leiknum eftir að hafa farið algjörlega úr leiknum eða slökkt á tölvunni og varð til þess að ég þurfti að henda leiknum útaf og setja hann upp aftur. Ég náði aldrei að finna sökudólginn sem olli þessu, einstaka sinnum gerðist þetta ekki og stundum virkaði ekki að henda leiknum útaf og setja hann upp aftur. En eftir því sem ég best veit þá eru þetta ekki vandamál í lokaútgáfu leiksins.

Útlit, tónlist og hljóð

Leikurinn er byggður á írskum þjóðsögum sem sést og heyrist langar leiðir. Grafíkin er þokkaleg í leiknum, öll hönnun er frekar ýkt og það er ekki verið að nálgast raunveruleikann hérna. Maður fer í gegnum nokkrar týpur af borðum með sín séreinkenni þannig að leikurinn er ekki alltaf eins. Borðin eru drungaleg, falleg og eru ávallt uppfull af dulúð. Óvættirnar sem Finn berst við eru hins vegar frekar dæmigerð á borð við beinagrindur, tröll og álfadísir. Það sem mér finnst hvað leiðinlegast við leikinn er að hann notast við myndskeið sem líta út eins og ef verið væri að skoða ævintýrabók með myndum. Vissulega eru teikningarnar og hreyfimyndirnar flottar en það er erfiðara að sjá fyrir sér hvað er að gerast í sumum senum sem hefur aðskiljandi áhrif á spilarann.

Öll hljóð og umhverfishljóð eru til fyrirmyndar og ég slökkti stundum á hljóðinu til þess að athuga hvort það væri komin rigning.

Fyrst að leikurinn fer þessa leið er eins gott að talsetningin, hljóðin og tónlistin séu góð. Talsetningin er mjög góð og sérstaklega fyrir læðuna Erline þar sem hún gengur í gegnum ýmislegt tilfinningalega séð. Samband Finns og Erline byggist upp á meðan maður spilar leikinn og manni er ekki sama hvað kemur fyrir persónur leiksins. Öll hljóð og umhverfishljóð eru til fyrirmyndar og ég slökkti stundum á hljóðinu til þess að athuga hvort það væri komin rigning. Tónlistin er samin af Mark Mancina sem hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir eins og Speed, Bad Boys, Training Day og þáttaröðina Criminal Minds. Það er búið að taka það besta úr írskri þjóðlagatónlist, tónlist sem er hægt að tengja við miðaldir og hasartónlist sem er drifin áfram af slagtakti. Tónlistin er í senn létt og upplyftandi, dökk og drungaleg, spennandi og hetjuleg. Það er hægt að kaupa tónlistina á geisladisk hér frá La-La Land Records og er þetta takmörkuð útgáfa uppá 3.000 stykki.

 

Stikla

 

Samantekt

Sorcery er ágætis skemmtun og það er mjög gaman að skoða sig um í þessum töfraheimi. Leikurinn er frekar stuttur, það tekur í mesta lagi 12 tíma að klára hann ef maður tekur sinn tíma með hann eins og ég gerði. Á venjulegu erfiðleikastigi er hann auðveldur og skemmtilegur en á erfiðasta stigi koma veikleikarnir fram sem valda manni pirringi.

Þetta er góður leikur þegar tekið er tillit til þess að þetta er Move leikur en yfirhöfuð finnst mér að það hefði verið hægt að gera betur til að gera leikinn ómissandi. Það sem gerir illt verra er að það er lítil sem engin ending á leiknum, það eru engir aukabónusar fyrir að klára leikinn á erfiðustu stillingunni. Þannig að það er enginn tilgangur að klára alla verðlaunagripana í Trophy-kerfinu sem PlayStation 3 notast við. Þetta er þó góður leikur fyrir börn að spila sem hafa gaman af ævintýrum.

 

SAGA
GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
ENDING
7,0
8,0
9,0
7,0
4,0

SAMTALS

7,0

 

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑