Íslenskt

Birt þann 13. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Tölvuleikjatónlist: EVE Online

Fyrir nokkrum árum síðan var ég að gramsa í 99 krónu dallinum á einni útsölu hjá Skífunni þegar ég sá diskinn EVE Online Original Soundtrack. Ég vissi alveg hvað EVE Online var en vissi samt lítið um leikinn sjálfann. Raftónlist á minn hug allan og ég taldi mér trú um að þetta væri eitthvað sem væri þess virði að hlusta á. Ennþá veit ég frekar lítið um EVE og hef lítið sem ekkert hlustað á diskinn. Nýverið fann ég diskinn aftur og fannst kominn tími til að endurnýja kynni mín við hann.

CCP gaf út diskinn og Jón Hallur Haraldsson frumsamdi og framleiddi öll 14 lögin sem er að finna á disknum. Diskurinn er rúmlega 73 mínútur að lengd og öll lögin í lengri kantinum frá 4 til 6 ½ mínútu. Lögin blandast saman í eitt en maður veit alltaf hvenær næsta lag er komið af stað.

Það sem einkennir þennan disk er hvað tónlistin er lágstemmd en til lengdar virkar hún einsleit og langdregin. Bassinn er sterkur í lögunum og hljómurinn er tær. Tónlistin er stílhrein og köld en ávallt fögur rétt eins og geimurinn sjálfur. Lögin öll setja mann í ákveðið hugarástand, oftar en ekki sækir einsemdin á mann þar sem maðurinn er ávallt smár gagnvart hinum óendanlega geimi. Svo koma aðrir kaflar sem hljóma nokkuð hetjulega þar sem allt virðist vera vonlaust eða illvinnanlegt.

Diskurinn byrjar mjög rólega og hefur í senn dáleiðandi og svæfandi áhrif á mann. Smátt og smátt koma undurfagrir tónar sem ýta undir þá tilfinningu að það séu einhver undur og stórmerki í þann mund að gerast. Hið langdregna og einmannalega ferðalagið heldur áfram og það leynast hættur í hverju horni. Þessar hættur eru kannski ekki sjáanlegar en maður finnur fyrir þeim og veit að maður sé ekki einn á ferð. Þegar fer að líða að lokum þyngist tónninn til muna og lag númer 10 virkar eins og sýrutripp. Lögin sem koma á eftir halda þessum dökka tóni með gítarvælum og málm slagverki. Maður veltir fyrir sér hvort það sé ósigur í vændum og síðasta lagið vill halda því opnu með drungalegri spennutónlist.

Ég verð að játa að ég varð fyrir smá vonbrigðum þar sem ég vonaðist til að tónlistin væri aðeins fjörugri og meira spennandi. Diskurinn hefur því ekki eins mikið spilunargildi í mínum eyrum. Samt sem áður er tónlistin ávallt góð og allur frágangur er til fyrirmyndar. Jón Hallur hefur mikið pælt í lögunum og það heyrist langar leiðir.

Þessi tónlist ber mann alla leið útí geim og alla þá flóru af tilfinningum sem fylgja því ferðalagi.

– Jósef Karl Gunnarsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑