Fréttir1

Birt þann 11. júlí, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

OUYA leikjatölvan staðfest

OUYA, hin nýja leikjatölva sem Nörd Norðursins fjallaði um í síðustu viku, er komin í fullt hönnunarferli. Í dag var sett af stað Kickstarter-verkefni fyrir þessa nýju leikjatölvu, en þegar þessi grein er skrifuð hefur 950.000$ markmiði verkefnisins þegar verið náð og rúmlega það. Samkvæmt hönnuðum OUYA er þegar til virk frumgerð af tölvunni og nú þarf aðeins fjármagn til að koma gripnum í framleiðslu. Því geta notendur hvaðanæva úr heiminum stutt Kickstarter-verkefnið, og ef nógu mikill peningur er greiddur til þá fá stuðningsmenn verkefnisins OUYA leikjatölvu um leið og þær detta af færibandinu.

Tölvan mun aðeins koma til með að kosta 99$ þegar framleiðslu er lokið og munu allir leikir fyrir tölvuna koma til með að vera ókeypis, alla vegana upp að vissu marki: „Við gefum leikjaframleiðendum lausan tauminn með einu skilyrði: að minnsta kosti eitthvað af spilun leiksins þarf að vera ókeypis… Framleiðendur geta boðið upp á ókeypis leikling með möguleika á fullri leiksuppfærslu með kaupum á hlutum eða kröftum fyrir leikinn, eða beðið þig um að gerast áskrifandi.“

„Það er tími til kominn að við komum aftur með nýsköpun, tilraunastarfsemi og list á stóra skjáinn.“ Segir á Kickstarter síðu OUYA. „Gerum leiki ódýrari í framleiðslu, og ódýrari í innkaupum. Miðað við allar framfarir okkar í tækniþróun, ætti ekki kostnaðurinn að vera á niðurleið? Tölvuleikjaspilun gæti verið ódýrari!“

En við hverju mega OUYA eigendur búast við að fá í hendurnar þegar framleiðsluferlinu er lokið? Samkvæmt Kickstarter síðu OUYA þá mun leikjatölvan keyra á Android 4.0 stýrikerfinu og vera með Tegra3 quad-core örgjörva, 1 GB vinnsluminni, 8 GB geymsluminni, HDMI sjónvarpstengi sem styður 1080P HD upplausn, þráðlaust net, bluetooth og stýripinninn sem er þráðlaus mun meðal annara fídusa hafa snertiborð. Nú þegar hefur verið staðfest að Minecraft mun vera spilanlegur á tölvunni og notendur geta nýtt sér Twitch.tv fídus á tölvunni til að horfa á esports viðburði, í til að mynda Starcraft 2 eða League of Legends.

Hvort OUYA eigi eftir að slá í gegn á enn eftir að koma í ljós. Lágur verðmiði tölvunnar er vissulega heillandi, en hvort hún geti keppt við núverandi leikjatölvurisa á markaðnum á eftir að ákvarðast. Þó hafa þegar rúmlega 11.000 manns keypt OUYA í forsölu, þar með talið blaðamaður Nörd Norðursins er skrifar þessa frétt.

Munt þú lesandi góður koma til með að fjárfesta í OUYA leikjatölvu?

– KÓS

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑