Bíó og TV

Birt þann 1. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Comic Con í London: Lollipop Chainsaw, búningagleði og TMNT

Nördaráðstefnan MCM Expo London Comic Con fór fram 25.-27. maí 2012 í hinni risavöxnu ExCel sýningarhöll sem er staðsett við miðborg London og í stuttri fjarlægð frá hinni þekktu Thames á. Ritstjóri Nörd Norðursins skellti sér á ráðstefnuna laugardaginn 26. maí þar sem hann fékk m.a. að prófa tölvuleikinn Lollipop Chainsaw (sem komst á tölvuleikja topplistann okkar fyrir árið 2012), og kynnast listinni á bakvið búningaleik (cosplay), hinu ódauðlega japanska krúttleika-brjálæði ásamt því að hitta nokkra (mis)þekkta einstaklinga.

 

Sleikipinnar og blóðpollar

Gestir hátíðarinnar fengu tækifæri til þess að prófa hinn blóðuga, kynþokkafulla og ruglaða uppvakningaleik Lollipop Chainsaw, en hann er væntanlegur í verslanir í Evrópu 15. júní næstkomandi. Eftir dágóðan tíma í röð japlandi á nokkrum sykursætum og sérmerktum Lollipop Chainsaw sleikipinnum var loksins kominn tími til að prófa dýrið – en það skal tekið fram að ég er mikill aðdáandi uppvakninga og flest öllu sem þeim tengist.

Eftir aðeins of langan hlöðunartíma tók það einungis örfáar sekúndur  fyrir vanann hjakk-og-högg spilara að ná tökum á stjórntökkunum. Spilarinn stjórnar hinni þokkafullu klappstýru Juliet Starling (talsett af Tara Strong) sem berst gegn uppvakningum á einstaklega blóðugan máta. Juliet klæðir og hegðar sér líkt og hin týpíska Playboy-kanína en á sama tíma fer hún létt með að drepa fleiri uppvakninga á hálftíma en er gert til samans í öllum Dead-myndum Romeros.

Drápsaðferðirnar eru ótrúlega frumlegar en ég rétt svo vona að borðin verði áhugaverðari en þau voru í þessari prufuútgáfu.

Í prufuútgáfu leiksins var hægt að spila tvo stutta kafla; annars vegar hefðbundið borð og endakall hins vegar. Í borðinu stjórnaði spilarinnar Juliet um skóla þar sem hún flakkaði á milli skólaganga og skólastofa í þeim tilgangi að slátra uppvakningum og bjarga strákum í neyð (… nei ekki þannig neyð, frá uppvakningum!) Grafík leiksins er ekkert gífurlega góð, en uppvakningadrápin eru frumleg og stórskemmtileg þar sem regnborgar, hjörtu og skærir litir fljúga í allar áttir á meðan Juliet hoppar yfir uppvakningana og sagar þá í tvennt. Það er augljóst að menn eiga ekki að taka leikinn alvarlega þar sem að hann er einn stór regnboga-splatter. Þrátt fyrir að  taka ekki nema um tíu mínútur að komast í gegnum allt borðið var mér farið að leiðast þar sem skólastofurnar og skólagangarnir voru flest allir alveg eins og óspennandi. Drápsaðferðirnar eru ótrúlega frumlegar en ég rétt svo vona að borðin verði áhugaverðari en þau voru í þessari prufuútgáfu.

Bardaginn við endakallinn var ansi skrautlegur. Í honum barðist Juliet við pönkara uppvakning og þurfti spilarinn að forða henni frá öflugum öskrum pönkarans og brjóta niður risavaxna hátalara til þess að ná höggum á hann. Uppvakningarnir í leiknum virðast ekki fylgja neinni sérstakri reglu um uppvakninga (eins og t.d. hægfara og heimska uppvakninga Romeros) þar sem sumir þeirra labba, aðrir hlaupa og jafnvel tala. Endakallinn, pönkarinn, var sagaður í tvennt frá höfði til mittis og lifði það af (í smá stund), en flestir sem hafa kynnt sér hegðun uppvakninga gera ráð fyrir því að alvarlegur höfuðskaði drepi þá. Þó að endakallinn hafi ekki verið einhæfur líkt og áðurnefnt borð, að þá var hann alltof auðveldur. Helsti kostur leiksins er klárlega fagmannlega unnin söguþráður fyrir B-mynd sem er stútfull af stórfurðulegum steríótýpum. Drápsaðferðirnar heilluðu mig upp úr skónum, en illa hönnuð borð og misheppnuð spilun dró leikinn verulega niður. Vonandi býður lokaútgáfa leiksins spilurum upp á eitthvað betra en þessi prufuútgáfa gerði.

 

Breytt um ham

Það kom mér verulega á óvart hversu margir klæddu sig upp í búninga. Ég bjóst vissulega við mörgum skrautlegum búningum, en það var vel yfir helmingur gestanna sem klæddu sig upp í búning sem voru af ýmsum stærðum og gerðum. Vinsælustu búningarnir voru líklega þeir sem tengdust japönskum söguhetjum, t.d. úr heimi Manga og Final Fantasy.

Það er ekki á hverjum degi sem maður sér Sauron, Svarthöfða, Mario, Pacman, Pikachu, Cloud Strife, Superman, Mallhvíti og uppvakninga á einum og sama staðnum.

Á meðan aðrir skelltu á sig einföldum búningi voru aðrir sem lögðu mikinn metnað í búningana sína og voru augljóslega búnir að eyða miklu tíma (eða pening) í að gera hann sem flottastan. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér Sauron, Svarthöfða, Mario, Pacman, Pikachu, Cloud Strife, Superman, Mallhvíti og uppvakninga á einum og sama staðnum.

Meirihluti sýningarsalsins var fullur af litlum básum þar sem verslanir seldu varning sinn á misgóðu verði. Um helmingur allra bása tengdist búningum og fylgihlutum eins og eftirlíkan af fantasíu sverðum eða hárkollum úr japönskum ævintýraheimum. Einn fimmti básanna tengdist myndasögum, teikningum og málverkum, en restin snérist að tölvuleikjum, kvikmyndum, borðspilum, fatnaði, nammi og fleiru. Japanskir krútt-bangsar voru þó ávallt í augsýn.

Sýningarhöllin fylltist mjög fljótt og myndaðist mjög skemmtileg stemning í kringum nördana sem skiptu um ham fyrir helgina. Skilti og bolir sem auglýstu FREE HUGS (ókeypis knús) voru út um allt og lófasviti allra sameinaðist í einn pott þar sem allir voru búnir að gefa öllum fimmu í lok dagsins.

 

C3PO, Elvira og Dragon Age

Meðal gesta á sýningunni voru Anthony Daniels, sem hefur leikið C3PO í öllum Star Wars myndunum, Kevin Eastman, sem er einn af mönnunum á bakvið TMNT, Cassandra Peterson sem er betur þekkt sem Elvira, Nicholas Boulton sem hefur talað inn á fjölda tölvuleikja (þar á meðal fyrir Hawke í Dragon Age II) og fleiri. Danny DeVito var þó stærsta stjarnan á svæðinu sem mætti í tengslum við kvikmyndina Dr. Seuss’ The Lorax þar sem hann talar inn á fyrir The Lorax sem er aðalkarakter myndarinnar.

Því miður náðist ekki að mæta á spjall Danny DeVito eða C3PO, en það náðust nokkrar myndir af minna þekktum stjörnum sem hægt er að skoða í myndasýningunni hér fyrir ofan.

 

Pizzuóðar skjaldbökur, vampíruslátrari og Dr. Seuss

Nickelodeon tilkynnti að nýir Teenage Mutant Ninja Turtles þættir frá þeim væru á leiðinni, ásamt nýrri leikfangalínu úr samnefndum þáttum. Fólk hefur tekið misvel í þessa tilkynningu þar sem Nickelodeon hefur komið með „sína“ útgáfu af skjaldbökunum. Persónulega treysti ég Nickelodeon alls ekki til þess að ná til eldri kynslóðarinnar sem hélt/heldur upp á TMNT, en það er spurning hvort unga kynslóðið sé tilbúin fyrir nýja útfærslu á skjaldbökunum frægu.


Nýju TMNT fígúrurnar frá Nickelodeon

Við endum umfjöllunina á stiklum úr tveimur ansi ólíkum kvikmyndum sem voru auglýstar í bak og fyrir á sýningunni; Dr. Seuss’ The Lorax og Abraham Lincoln: Vampire Hunter.

 

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑