Leikjarýni

Birt þann 1. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Street Fighter X Tekken

Street Fighter X Tekken er slagsmálaleikur frá Capcom sem kom út í Evrópu þann 9. mars. SfXT er svokallaður „crossover“ leikur þar sem tvær leikjaseríur (Street Fighter og Tekken) sameina krafta sína í einum og sama leiknum. Capcom er á bak við SF leikina en Namco, fyrirtækið á bak við Tekken, eru að þróa sína eigin útgáfu (Tekken X Street Fighter). Þetta þýðir semsagt að hönnun SfXT er meira í anda Street Fighter leikjanna.

SfXT kom út á Xbox 360 og PS3 en þessi leikjarýni byggist á 360 útgáfunni. Einnig hefur verið ákveðið að gefa út leikinn á Playstation Vita sem kemur út haustið 2012 og PC útgáfan á að koma út í maí 2012.

Þar sem að þeir sem spila slagsmálaleiki eru allt frá snillingum sem keppa á mótum til félaga sem taka leik og kippu eina og eina helgi, þá er réttast að lýsa bakgrunni mínum. Street Fighter 2 var spilaður mjög mikið í spilasölum þegar þeir voru við lýði en seinna tóku Tekken leikirnir við á upprunalegu Playstation, síðan PS2 og PS3. Þrátt fyrir að Street Fighter eigi stað í hjarta mínu frá spilasaladögunum (ásamt snilldarleikjum eins og Killer Instinct, Mortal Kombat II og Virtua Fighter 2) þá telst ég líklega Tekken maður. Ég er ekki harðkjarna spilari en hef gaman af bardagaleikjum endrum og eins.

 

Karakterar

Í SfXT er gríðarlegur fjöldi bardagakappa enda er verið að sameina persónur úr tveimur gamalgrónum leikjaseríum. Allt í allt hefur þú aðgang að 50 karakterum og 5 leyni karakterum. Einnig er hægt að kaupa fleiri, nánar um það síðar í greininni.

Þar sem Capcom, en ekki Namco, er á bak við leikinn eru Tekken karakterarnir ekki alveg í þeim stíl sem maður hefur vanist. Hann er frekar yfirgengilegur og gamlir félagar eru orðnir einhvers konar ýktar skrípamyndir. Law er ekki lengur þessi svala Bruce Lee týpa, núna líkist hann frekar Jackie Chan eftir að hann át rauða piparinn í Project A.

Karakterarnir renna allir saman í einhvern manískan hrærigraut og það er enginn sem er beint eftirminnilegur.

Paul, sem var alltaf ýkt persóna, er nú ennþá ýktari og það er ekki gott þar sem hann var alveg á mörkunum að vera lagður inn á hæli. Hárið á Heihachi og augabrúnirnar á Paul gætu myndað gott teymi í leiknum. Karakterarnir renna allir saman í einhvern manískan hrærigraut og það er enginn sem er beint eftirminnilegur. En þar sem þeir eru svona margir þá ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 

Bardagakerfið

Bardagaleikir hafa verið við lýði í þó nokkur ár og keppast alltaf við að verða flottari og betri. En á einhverjum tímapunkti fóru þeir að höfða meira og meira til harðkjarna notenda; þeirra sem keppa t.d. á mótum eða spila leikina mjög mikið. Hinn venjulegi spilari varð útundan og aldrei hefur það verið augljósara en í þessum leik.

Fyrstu leikirnir í spilasölunum voru frekar einfaldir. Þú varst með þín venjulegu högg og spörk, kannski grip af og til og einstaka sinnum notaðirðu ofurbrögð, eitthvað einstakt fyrir hvern karakter sem þurfti æfingu til að geta framkvæmt á sekúndubroti. Bardagarnir gengu flestir fljótt yfir.

Kíkjum núna á SfXT:

  • Þú stjórnar tveimur karakterum í stað eins og því þarftu að fylgjast með heilsu þeirra beggja. Aðeins einn getur barist í einu og þú ræður skiptingum (samanber „tag-team“ í amerískri fjölbragðaglímu). Þetta er ekki nýtt fyrirbæri í slagsmálaleikjum og var t.d. í leiknum Tekken Tag Tournament.
  • Það þarf að nota steina (gems) til að styrkja karakterana lítillega og til þess þarftu að meta andstæðinginn, aðstæður og þína eigin getu (áhrif frá hlutverkaleikjum). Það eru endalausar samsetningar af steinum og þeir hafa mismunandi eiginleika. Steinarnir hafa verið bannaðir í mörgum SfXT mótum því það tekur of mikinn tíma að setja þá upp (lagað í uppfærslu 9.apríl). Nýlega kom önnur uppfærsla sem bætti við enn fleiri steinum.
  • Auk þess að hafa venjulegar árásir (normal attacks) ertu með svokallaðar „unique“ árásir sem eru hannaðar með Tekken spilara í huga. Það er t.d. hægt að sparka/kýla andstæðingnum upp í loftið eða lama hann í augnablik. Það að halda einhverjum uppi er mikilvægt að kunna (juggling) og spilar stórt hlutverk í teyminu (það er hægt að skipta um karakter inná með „launcher“ þar sem einn samherjinn kýlir andstæðinginn upp í loftið og skiptir inná í sömu andrá). Sjálfum finnst mér slæmt að þetta sé orðinn svona mikilvægur þáttur í slagsmálaleikjum. Til dæmis hallar mjög á stóra og feita karaktera ef andstæðingurinn er góður í þessu, það er hreinlega hægt að loka þessa karaktera úti í horni og halda þeim uppi.
  • Það er ekki hægt að þverfóta fyrir ofurbrögðum (special moves) í SfXT og maður þarf að læra þau fyrir sinn karakter ef maður ætlar að geta eitthvað. Það er líka hægt að gera svokölluð „Ex special moves“ með því að nota trikkmælinn (sjá næsta punkt).
  • Þrískiptur trikkmælir (Cross gauge) er neðst á skjánum og þarf að byggja hann upp til að nota brögð sem ég kýs að kalla „ofur-ofurbrögð“ sem skiptast í nokkrar tegundir.
  • Hægt er að gera alls konar gagnárásir þ.e.a.s. í stað þess að einfaldlega verjast höggi getur maður snúið vörn í sókn (sbr. júdó) á ýmsan hátt ef maður veit hvað þarf að gera (og er snöggur).
  • Súperbragð (Superarts) er ofur-ofurbragð sem þarf tvo fyllta reiti á trikkmælinum.
  • Sameiginlegt súperbragð (Cross Assault) er hægt að framkvæma þegar trikkmælirinn er fullur. Þá ertu með báða karakterana inná í smástund (og gerir mikinn skaða). Einnig er hægt að velja „Cross Arts“ þar sem báðir karakterar gera súperbragðið sitt.
  • Síðast er það Pandóru-ástandið (Pandora state) sem er hægt að nota þegar maður hefur minna en 25% líf. Þú fórnar þeim karakter sem notar þetta og hinn fær mikinn kraft en hefur bara 10 sekúndur til að nýta hann. Áhættusamt en getur verið þess virði.

Þið skiljið vonandi núna hvað ég á við með að þessir leikir eru orðnir óþarflega flóknir og það er einkennileg ákvörðun að þurfa alltaf að spila tvo karaktera í stað eins.

Með aðgang að öllum þessum brögðum þá er merkilegt hvað þau taka í raun lítinn kraft frá andstæðingnum. Það er einkennilegt að verða fyrir stórkostlegu súperbragði (sem minnir stundum á hinar ógurlegu dómsdagsárásir Final Fantasy eidolons“) og missa voða lítið líf. Það dregur talsvert úr áhrifamætti bardaganna.

Til þess að hafa gaman af þessu og geta keppt á netinu, án þess að tapa í hvert einasta skipti, þarf mikla æfingu því að allir eru góðir sem spila á netinu. Að sjálfsögðu hafa reyndir spilarar fyrri leikja forskot hér og sérstaklega Street Fighter spilarar. Á einhverjum tímapunkti í hönnun leiksins virðist Capcom gera sér grein fyrir því hve flókinn leikurinn er og hafa bætt við gríðarmiklu æfingarprógrammi. Þetta skiptist í kennslu á grundvallaratriðum og áskoranir þar sem þú þarft að gera einhver ákveðin trikk eða uppfylla ákveðin skilyrði til að komast áfram.

Tæknilega séð er leikurinn vel úr garði gerður. Hann er 60 rammar á sekúndu svo að allt gerist mjög hratt. Tekken spilarar gætu lent í vandræðum með þetta þar sem mikið af þeirra brögðum er hægt að byrja á rétt áður en höggið smellur. Í SfXT þarf að bregðast við á sama augnabliki.

 

Aukahlutir

í SfXT er fullt af aukahlutum, eiginlega of mikið af aukahlutum. Það eru t.d. 100 titlar sem maður getur safnað (titlar sjást þegar maður er að spila yfir netið). Einnig er hægt að velja frasa ásamt titlinum (t.d. „Please be gentle…“, „I never give up!“ o.s.frv.). Ef þér líkar ekki við útlitið á karakternum þínum þá er hægt að velja alla mögulega liti og múnderingar (og að sjálfsögðu borga fyrir sumt). Ef maður nennir ekki að spila þá er hægt að horfa á endursýningar hvort sem það eru manns eigin eða frá einhverjum öðrum spilurum. Af einhverjum ástæðum er hægt að berjast með fjóra karaktera á skjánum sem gengur engan veginn upp. Og þar fram eftir götunum. Capcom ætla líka að halda áfram að dæla út steinum og búningum, gaman gaman.

 

Fjölspilun

Hægt er að velja um nokkrar tegundir bardaga á netinu, t.d. einn á móti einum (þ.e.a.s. tveir spilarar, fjórir karakterar) eða verið í liði með öðrum spilara eða spilurum. Capcom sveik okkur Xbox 360 spilara með því að halda því fram að tveir spilarar á sömu vél gætu keppt yfir netið þ.e.a.s. myndað sitt eigið teymi. Þetta var svo ekki raunin og verður ekki lagað í uppfærslu skv. þeim en PS3 spilarar geta gert þetta.

Capcom sveik okkur Xbox 360 spilara með því að halda því fram að tveir spilarar á sömu vél gætu keppt yfir netið þ.e.a.s. myndað sitt eigið teymi. Þetta var svo ekki raunin og verður ekki lagað í uppfærslu skv. þeim en PS3 spilarar geta gert þetta.

Það hefur verið stórt vandamál í fjölspilun hingað til að hljóðið dettur stundum út. Capcom lagaði þetta með uppfærslu þann 9.apríl en í staðinn virðist stundum hægjast á leiknum yfir netið (lag) alla vegana skv. minni reynslu.

Sumir hafa kvartað yfir því að finna ekki leiki en það hefur yfirleitt ekki verið vandamál fyrir mig. Yfirleitt hef ég fundið andstæðinga frekar fljótt en ég hef spilað mest á kvöldin.

 

Skamm-skamm

Stundum græðir maður á því að vera latur og skila inn leikjarýni seint. Nokkrir hlutir hafa litið dagsins ljós eftir útgáfu leiksins. Ný uppfærsla kom út þann 9. apríl sem lagaði stórt vandamál við fjölspilun (t.d. að hljóðið datt stundum út) og gerir meðferð steina auðveldari. Seinna í apríl kom önnur uppfærsla sem bætir við nýjum steinum.

Það sem hefur pirrað spilara mikið er að Capcom er að selja efni sem er þegar á disknum þ.e.a.s. aflæsa gamla vini eins og Blanka, Lei og Bryan. Þetta eru 12 bardagakappar allt í allt og verða þeir ókeypis í Playstation Vita útgáfunni. Það sem svíður mest er að þetta er selt sem svokallað niðurhalanlegt efni (Downloadable Content / DLC) en er augljóslega ekki niðurhal, heldur eitthvað sem maður ætti að eiga með réttu þar sem maður hefur keypt diskinn.

 

Niðurlag

Mig langaði mikið til að hafa gaman af þessum leik en sama hve oft ég reyndi þá skemmti ég mér ekki. Það vantar sálina í leikinn og það var eins og hann væri hreinlega ekki fullkláraður og til þess að fela það var alls konar aukadóti hrúgað inn sem gerir leikinn bara óþjálli. Shakespeare skrifaði „it is a tale, told by an idiot, full of sound and fury, signifying nothing“. Capcom er svo sannarlega enginn idjót en restin af tilvísuninni passar vel.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
ENDING
7,0
8,0
5,0
4,0

SAMTALS

6,0

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑