Íslenskt

Birt þann 30. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Nördalegasta flúr Íslands – Sigurvegarar

Eftir fimm vikna undirbúning og vikulangar kosningar liggur fyrir hvaða flúr sigraði keppnina um nördalegasta flúr Íslands. Í keppnina bárust alls 69 myndir af nördalegum flúrum frá 50 þátttakendum sem skarta glæsilegum flúrum sem tengjast tölvuleikjum, ofurhetjum, teiknimyndasögum, vísindaskáldskap,  hrollvekjum og öðru nördalegu. Það var svo í höndum almennings að kjósa nördalegasta flúrið.

Þegar líða tók á kosningarnar var nokkuð ljóst að baráttan stóð fyrst og fremst milli Odds Gunnarssonar Bauer sem er með stórt flúr af Skull Kid úr tölvuleiknum The Legend of Zelda: Majoras Mask, og Andra Más Ágústssonar sem er með nafnið á liðinu sínu (clan) „haste“ og gælunafnið sitt (nick) „andrz“ úr tölvuleiknum Counter-Strike flúrað á bakið. Á endanum stendur Oddur Gunnarsson Bauer uppi sem sigurvegari með 1.420 atkvæði gegn 1.272 atkvæðum sem Andri Már fékk. Flúrið hans Odds hlýtur þar af leiðandi titilinn NÖRDALEGASTA FLÚR ÍSLANDS og fær Oddur einnig 25.000 kr. inneign upp í flúr hjá Bleksmiðjunni!

Þegar við spurðum Odd, sem er 22 ára nemi í tækniteiknun í Tækniskólanum, hvernig honum liði með sigurinn sagði hann „Mér líður bara vel með þetta, þetta var löng og ströng keppni og ég verð að þakka öllum þeim sem smelltu á Like hjá mér kærlega fyrir.“ Oddur segist vera búinn að fá hugmynd að næsta flúri, sem mun að líkindum vera listaverk sem tengist kanadísku hljómsveitinni Godspeed You! Black Emperor. Oddur sendir knús og kossa til allra sem kusu sig og þakkar Sigrúnu á Bleksmiðjunni sérstaklega fyrir, en hún flúraði Skull Kid á Odd.

Oddur ber ekki aðeins Skull Kid flúr, heldur er hann einnig með Triforce-merkið úr Zelda sem er uppáhalds tölvuleikjaserían hans og Kodama fígúrur úr kvikmyndinni Princess Mononoke.

Oddur ber ekki aðeins Skull Kid flúr, heldur er hann einnig með Triforce-merkið úr Zelda sem er uppáhalds tölvuleikjaserían hans og Kodama fígúrur úr kvikmyndinni Princess Mononoke. Oddur segist alveg geta kallað sig nörda, hann beri þessi þrjú nördalegu flúr og spilar reglulega tölvuleiki. Hann segir stoltur að enginn geti unnið hann í Martio Kart 64 á N64 og hann geti klárað Mega Man 2 á aðeins hálftíma.

Eins og hefur komið fram velur dómnefnd (Bjarki og Erla hjá Nörd Norðursins og Sigrún og Ingi hjá Bleksmiðjunni) flúrið sem vermir annað sætið. Það var ákaflega erfitt að velja á milli allra flúranna, enda mörg gífurlega flott og nördaleg. Í lokin komumst við þó að þeirri niðurstöðu að Albert Einstein flúrið hans Óskars Hallgrímssonar ætti annað sætið skilið, en Óskar fékk sér Einstein á handlegginn vegna virðingar sem hann hefur fyrir honum og því sem hann hefur lagt til vísindanna. Til gamans má geta að Óskar er einnig með Star Trek merkið flúrað á bringuna.Óskar hlýtur 10.000 kr. inneign upp í flúr hjá Bleksmiðjunni.

Við hjá Nörd Norðursins óskum sigurvegurunum innilega til hamingju og þökkum öllum kærlega fyrir þátttökuna. Einnig viljum við þakka fyrir frábærar viðtökur og öllum þeim sem tóku þátt í kosningunni. Hægt er að skoða myndir af öllum flúrunum sem tóku þátt í keppninni hér fyrir neðan.

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Nördalegasta flúr Íslands – Sigurvegarar

  1. Pingback: Nördalegasta flúr Íslands fundið – eSports.is

  2. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑