Leikjanördabloggið

Birt þann 17. janúar, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

1

Leikjanördið og gleymdi fjársjóður Japisdraugsins

LNBanner

Ég hafði smá tíma til að drepa í dag þannig ég ákvað að líta við í Góða Hirðirnum. Að venju leit ég við í tölvuleikjadeildinni og eftir smá grams þar gróf ég strax upp fjóra leiki sem vöktu áhuga minn. Fyrsti leikurinn var Sonic The Hedgehog 2 fyrir Sega Genesis (bandaríska Mega Drive tölvan). Seinni leikurinn var Ready 2 Rumble Boxing fyrir Nintendo 64, ennþá í upprunalegu pappaumbúðunum og með öllu meðfylgjandi. Leikjahylkið inn í boxinu var meira að segja ennþá í plastinu og allir bæklingar fylgdu með. Þriðji leikurinn var Donkey Kong Country 2 – Diddy’s Kong Quest fyrir Super Nintendo, sem gerir hann að fyrsta Super Nintendo leiknum sem ég eignast. Svo það fari ekki fram hjá neinum þá eru þetta ennþá fleiri leikir sem ég á ekki (enn) tölvur fyrir. En fjórði leikurinn var Fifa Football 2003 fyrir Playstation. Ég hef áður sagt að ég hef yfirleitt ekki gaman af íþróttaleikjum, hvað þá gömlum íþróttaleikjum, en ég keypti hann reyndar einungis til þess að geta prufað Playstation tölvurnar sem mér áskotnaðist hérna um árið, en ég er núna búinn að finna mér sjónvarpskapal, rafmagnssnúru og fjarstýringu til að athuga hvort tölvurnar virki.

Þegar ég var tilbúinn til að fara með leikina á kassann og borga, þá rak ég augun í eitthvað í hillunni sem er venjulega fyrir vinylsafnplötur. Hvítt og svart plasthulstur á þykkt við ágætis glæpaskáldsögu. „Sega Mega Drive leikur!„, hugsaði ég meðan ég tók upp hulstrið og sá mér til mikilla vonbrigða að þetta var Fifa Soccer ’96 sem ég á nú þegar. En þetta var ekki Sega Mega Drive leikur, hulstrið var aðeins hærra og þegar ég var búinn að grandskoða myndina framan á sá ég að 1/4 af hulstrinu var þakið stöfum sem ef lesnir í réttri röð stöfuðu Sega Saturn.

Ég hef bara einu sinni séð Sega Saturn leik áður, en það var í skuggalegum retrotölvuleikjaviðskiptum á bílastæðinu fyrir utan Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Fyrir þá sem ekki vita þá er Sega Saturn fimmtu kynslóðar leikjatölva sem keppti meðal annars við Nintendo 64 og Playstation, en náði vissulega aldrei sömu vinsældum og þær tvær tölvur, og var í rauninni hálfgert flopp þegar litið er til vestræna markaðarins. Sega Saturn var samt vinsæl í Japan þar sem 6 milljón tölvur seldust en á meðan seldust aðeins 1,5 milljón tölvur bæði í Evrópu og Bandaríkjunum samanlagt. Leikir voru gefnir út fyrir tölvuna frá 1994 til 1998 (2000 í Japan), en eftir það fór Sega að einbeita sér að nýju Sega Dreamcast tölvunni (sem gekk reyndar heldur ekki alltof vel). Ég þekkti engan á þessum tíma sem átti Sega Saturn tölvu, en ég vissi af henni, og fannst alltaf hálf skrítið að hún notaðist við geisladiska í staðinn fyrir leikjahylki.

Þar sem maður sér ekki svona leiki oft ákvað ég að hirða hann með mér, ekki verra að eiga einn Saturn leik bara svona upp á djókið. Þar fyrir utan er orðið dáldið þema hjá mér að kaupa hluti sem ég get ekki notað. Þegar ég kom á kassann þá afgreiddi mig stelpa sem var með mér í skóla og hefur oft afgreitt mig áður þegar ég er að kaupa gamalt tölvudrasl. Þegar hún sá mig spurði hún mig hvort ég hefði ekki séð Sega leikina. Ég benti henni á Sonic og Fifa leikina fyrir framan mig með spurnaraugum, en þá benti hún á hinn endann á afgreiðsluborðinu þar sem var stafli af leikjum! Ég bað hana um að geyma það sem ég var þegar búinn að finna og fór rakleiðis að staflanum og byrjaði að skoða. Þetta voru allt Sega Saturn leikir, 24 stykki! Þeir voru reyndar ekki í eins hulstrum og Fifa 96 leikurinn, heldur voru þeir í þynnri plasthulstrum með pappakápu. Þá hófst sálarstríðið, ekki ósvipað því sem ég lenti í þegar ég fann Sinclair Spectrum leikina hérna um árið, en eftir nokkrar sekúndur af sálarstríði tók ég allan staflann og fór aftur á kassann. Fyrir þá sem ekki vita er fast verð á tölvuleikjum hjá Góða Hirðirnum (sem þeir fylgja frekar frjálslega), en það er 350kr stykkið. Þannig að með 28 tölvuleiki fyrir framan mig var ég beðinn um 9800kr. Þá fór ég aftur að hugsa, en í þetta skiptið um hvað ég gæti fengið fyrir 9800kr. Ég gæti fyllt bílinn af bensíni, ég gæti keypt mér tvo kassa af ódýrum bjór eða ég gæti… Ó, ég var búinn að rétta kassadömunni 9000kr í seðlum, og hún gaf mér 800kr magnafslátt. Þannig ég setti allt draslið í poka og rann í hálkunni út í bíl.

Þegar ég kom heim fór ég að skoða ofan í pokann og þá helst alla þessa Sega Saturn leiki. Ég tók eftir því þá að nokkrir leikirnir voru eins, sumir voru í tveim eintökum og aðrir í þrem, en flestir voru þeir þó einstakir. Þá sá ég að flestir leikirnir voru alsettir verðmiðum frá sálugu tónlistarversluninni Japis sem fór á hausinn fyrir um það bil áratug síðan (en er mögulega að rísa aftur upp frá dauðum?). Ég opnaði fyrsta hulstrið og sá að það eina sem það hafði að geyma var bæklingur, en enginn leikur! Utan á hulstrinu stóð „Tómt hulstur – Vara í afgreiðslu Japis„. „Frábært!“, hugsaði ég, „Ég keypti 24 tóm Sega Saturn hulstur„. En síðan opnaði ég næsta og það var leikur í því, og svo í öllum hinum 22 hulstrunum. Þar sem leikirnir voru allir með bæklingum og nokkrir leikjanna voru tvífarar og þrífarar, þá hugsa ég að þetta sé gamall tölvuleikjalager frá Japis sem hefur einhvern veginn ratað í Góða Hirðirinn. Þannig að þetta er alger happafundur, þar sem þetta eru í raun glænýjir ónótaðir leikir, eða svokallaðir NOS leikir, sem stendur fyrir New Old Stock í heimi tölvuleikjasafnara.

Ég hugsa að ég geti reynt að selja eitthvað af þessum leikjum sem eru eins á Ebay ef ég nenni einhvern tímann að læra á þá síðu, en miðað við fyrstu leitina mína að Sega Saturn leikjum á Ebay þá fara þeir ekki á háar upphæðir í dag. En lágt verð Sega Saturn leikja er sennilega ekki í sögulegu lágmarki miðað við verðmiðanna á leikjunum. Þegar ég fór að skoða hulstrinn betur var greinilegt að Japis hefur á sínum tíma átt erfitt með að selja þessa leiki. Hver einasti leikur hafði minnst þrjá verðmiða og sumir voru með alveg upp í fimm verðmiða, sem sýna hvernig leikirnir hröpuðu í verði.

Hvort það var svona erfitt að selja leikina vegna dræmra vinsælda Sega Saturn tölvunnar eða gæða leikjanna sjálfra er erfitt að segja til um. En eftir að hafa lesið aftan á nokkra leikina þá er alla vegana greinilegt að söguþráður leikjanna er ekki alveg það sem maður býst við af leikjum í dag. Tökum sem dæmi Revolution X sem er á myndinn hérna fyrir ofan, en aftan á honum stendur:

Here’s the deal… The New Order Nation – a powerful, corrupt alliance is crushing today’s youth and destroying all things fun. It’s gruesome regime, under the iron rule of Headmistress Helga, a vicious vamp whose attractions are fatal. Suddenly, America’s premier rock band, Aerosmith, is abducted by NON forces. Now it’s up to you to stop the destruction… and Music is the Weapon!

Ill þjóð undir stjórn skólastýru að nafni Helga sem er lífshættulega aðlaðandi og rænir frægu bandarísku rokkhljómsveitinni Aerosmith? Þetta getur ekki verið lélegur leikur.

Nú þarf ég bara að redda mér Sega Saturn tölvu…

Takk fyrir lesturinn!

Heimildir: Wikipedia
Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:One Response to Leikjanördið og gleymdi fjársjóður Japisdraugsins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑