Leikjarýni

Birt þann 7. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Leikjarýni: Warhammer 40.000: Space Marine

Warhammer 40.000: Space Marine kom í verslanir 6. september síðastliðinn og gerist í hinum geysivinsæla Warhammer 40.000 heimi sem breski spilaframleiðandinn Games Workshop skapaði. Tölvuleikurinn spilast ekki eins og hernaðarspilið Warhammer 40.000, sem er spilað með fígúrum, teningum og öflugu ímyndunarafli, heldur sem þriðju persónu hjakk-og-högg (hack and slash) skotleikur.

Sagan

Óteljandi orkar hafa ráðist á Imperial Forge World, sem er risavaxin verksmiðja þar sem vopn eru framleidd í varnarskyni fyrir mannkynið. Örlög mannkynsins liggja í höndum spilarans sem spilar sem geimhermaðurinn Titus sem verður að verja verksmiðjuna gegn árásum orka og annara illmenna.

Sagan er knúin áfram með stuttum og vönduðum myndskeiðum eins og þekkist vel í þessari tegund leikja. Sagan er í sjálfu sér ekkert einstök en dugar til að halda áhuga spilarans gangandi í gegnum leikinn.

Persónusköpun Titusar, aðalpersónu leiksins, er að sama skapi ekki gífurlega eftirminnileg. Hann lifir í minningunni sem geimhermaður með breskan hreim og fylgir herskyldum sínum fram i rauðann dauðann, en aðrir þættir eru gleymdir og grafnir. Það sama á við um flest allar persónur leiksins.

 

Spilun

Í Warhammer 40.000: Space Marine stjórnar spilarinn Titus sem er hátt settur geimhermaður. Stjórnun leiksins er einföld og þægileg og er notast við sambærilega stjórntakka og í mörgum öðrum þriðju persónu skotleikjum.

Uppbygging leiksins er ansi hefðbundin þar sem spilarinn þarf að komast yfir nokkrar hindranir til að hrinda af stað myndskeiði sem heldur sögunni gangandi. Þessi rútína endurtekur sig út leikinn og er í rauninni afar fátt nýtt hér á ferð.

Bardagakerfið í leiknum er einfalt en ansi skemmtilegt þar sem spilarinn þarf að hugsa um tvær bardagaaðferðir; skotbardaga annars vegar þar sem spilarinn notar ýmsar gerðir af byssum til að skjóta óvinina og hjakk-og-högg bardaga hins vegar þar sem spilarinn tekur upp öflugt návígisvopn (t.d. exi) til að hjakka og höggva óvinina í öreindir. Leikurinn gefur God of War leikjaseríunni ekkert eftir hvað varðar blóðsúthellingar þar sem Titus er gjarnan þakinn blóði eftir návígisbardagana.

Til að gera hlutina örlítið flóknari eru óvinir sem halda sig í ákveðinni fjarlægð frá spilaranum og aðrir óvinir sem springa við snertingu. Flóran af óvinum í leiknum blandar notkun skotvopna og návígísvopna á skemmtilegan hátt þar sem spilarinn vill forðast að nota návígisvopn gegn óvinum sem springa.

Með reglulegu millibili koma hálfgerðir endakallar sem eru öflugri en hefðbundnir orkar og oft með einhverja sérstaka eiginleika sem spilarinn þarf að læra á til að sigra.

Eitt af eftirminnilegustu hlutunum við leikinn er sú frumlega leið sem er notuð til að efla heilsu spilarans. Þegar spilarinn er orðinn aumur eftir barsmíðar verður skjárinn grár til að gefa til kynna að hann sé við það að deyja. Þá er eina leiðin að rota ork og ýta á takka sem lætur spilarann drepa hann á einstaklega blóðugan og frumlegan hátt. Ekki nóg með það, heldur er allt auk þess sýnt í hægari hreyfingu (slow motion). Brútal!

Spilun leiksins er brotin upp með reglulegu millibili þar sem Titus skellir á sig þotubagga (jump pack) sem gerir honum kleyft að stökkva mjög hátt og langt. Einnig er spilarinn fenginn til að taka þátt í loftbardögum og byssubardögum gegn geimskipum.

Í leiknum er svo boðið upp á nokkrar gerðir af fjölspilun á netinu sem gefur leiknum aukið skemmtanagildi og enn betri endingu.

 

Grafík

Grafík leiksins er vel heppnuð og fagmennska lögð í persónur og nærliggjandi umhverfi. Upphaf leiksins sýnir þetta mjög vel, það minnir mikið á einhvern vísindaskáldskap í anda Hollywood mynda. Spilarinn fær að kynnast bardagakerfi leiksins strax í upphafi og á fyrstu mínútunum er hann kominn með blóðbragð í munninn eftir fyrsta bardagann. Hægu atriðin sem spilarinn framkvæmir til að efla heilsu Titusar eru einnig einstaklega vel gerð. Grafíkin er ekki alveg í sama gæðaflokki og í Gears of War 3, en heimar þessara tveggja leikja eru þó að mörgu leiti ólíkir hver öðrum og þess vegna erfitt að setja samasem merki milli Warhammer 40.000: Space Marine og Gears of War 3. Í Space Marine er heimurinn mun bjartari, sögurhetjurnar og klæðnaður þeirra mun „stílhreinni“ og skærari litir notaðir en í Gears of War 3.

 

Tónlist og hljóð

Tónlistin sem notuð er í leiknum er epísk og minnir á vel heppnaða kvikmyndatónlist, en hún er fyrst og fremst notuð til að knýja stutt myndskeið áfram á milli sögukafla. Þegar spilarinn fer í gegnum leikinn er sjaldan notuð tónlist og fyrst og fremst notast við hljóð í persónum og nánasta umhverfi.

 

Niðurstaða

Warhammer 40.000: Space Marine er leikur sem aðdáendur þriðju persónu skotleikja ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Það skiptir ekki máli hvort spilarinn þekkir til fyrri Warhammer leikja eða borðspila, hann svínvirkar.

Það má segja að Warhammer 40.000: Space Marine einkennist af leikjunum Gears of War og God of War þar sem sem skotbardagarnir svipa til Gears of War og hjakk-og-högg bardagarnir svipa til God of War. Þessu er svo blandað saman og útfært í Warhammer heiminn og söguþráð leiksins. Útkoman er góð en í raun er ekkert sem gerir leikinn einstakan. Frumleiki leiksins er ekki mikill og byggist svipað upp og aðrir þriðju persónu skotleikir. Spilarinn veit þó hvað hann er að fá í hendurnar, og ef hann er að leita sér af góðum þriðju persónu skotleik með hjakk-og-högg ívafi, þá er hiklaust hægt að mæla með Warhammer 40.000: Space Marine.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
8,5
7,5
7,5
8,5
8,0
7,5

SAMTALS

7,9

 

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Leikjarýni: Warhammer 40.000: Space Marine

Skildu eftir svar

Efst upp ↑