Bíó og TV

Birt þann 26. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Shark Night 3D

Sara og vinir hennar taka sér frí frá háskólanáminu og stefna til lítillar eyju í Louisiana-fylki sem er  í eign fjölskyldu hennar. Helst á meðal sjömenninganna eru læknaneminn Nick, ruðningsleikmaðurinn Malik og leikjanördinn Gordon. En stuttu eftir að hópurinn ákveður að skella sér í bátsferð sér til gamans lendir Malik í gini hákarls, en kemst þó lífs af. Brátt fara hlutirnir að taka á sig nýja mynd þegar nokkrir íbúar í nágrenninu bjóða þeim hjálp sína.

Fyrir þá sem eru að búast við annarri ýktri, kjánalegri og ógeðfeldri þrívíddarræmu eins og Piranha 3D ættu að beina væntingum sínum eitthvað annað, því Shark Night er dauft og keimlaust peningaplokk. Hér er á ferð mynd sem væri sýnd á helgarkvöldi á SyFy stöðinni með betri leikara og meira fé, en tekst þó að vera litlausari og óáhugaverðari en skrímslamyndir á borð við Megashark Vs. Giant Octopus og Shark In Venice. Meira að segja þríviddin hér er til skammar, þá sérstaklega fyrir mynd sem inniheldur sölubrelluna í titlinum.

Fyrir þá sem eru að búast við annarri ýktri, kjánalegri og ógeðfeldri þrívíddarræmu eins og Piranha 3D ættu að beina væntingum sínum eitthvert annað, því Shark Night er dauft og keimlaust peningaplokk.

Leikstjóri myndarinnar er David R. Ellis, en hann leikstýrði síðast hinni klúðruðu The Final Destination árið 2009 (ásamt seinni myndinni í þeirri seríu) og er þekktastur fyrir brandarann Snakes On A Plane. Hér hefði mátt finna leikstjóra sem tæki efnið ekki alvarlega, því samkvæmt feril Davids virðist hann aldrei sjá að hugmyndirnar sem hann tæklar eru í raun kjánalegar, og er Shark Night engin undantekning- myndin tekur sig of alvarlega án árangurs. Hann má þó eiga það að hann kemst upp með ansi miklar blóðsúthellingar fyrir PG-13 kvikmynd.

Sterkasti eiginleiki Shark Night 3D eru leikararnir. Hér er alveg sæmilegur hópur á ferð þar sem hún Sara Paxton er klárlega best, enda leggur hún augljóslega mest í sitt hlutverk og er einnig áhugaverðasta persóna myndarinnar. Chris Carmack tekst næstum því að vera ógnandi, Sinqua Walls er mjög viðkunnalegur og Joel David Moore leikur sitt vanalega hlutverk. Þessir leikarar hefðu líklegast skilað inn betri frammistöðum ef þeir hefðu fengið áhugaverðari persónur, en það verður víst að bíða betri tíma.

Hákarlarnir voru undir stjórn þeirra sömu og unnu að hákarlamyndinni Deep Blue Sea og virðast tölvutæknibrellurnar hér koma beint frá árinu 1999. Þó er mun meira af miklum nærmyndum og er oft erfitt að greina hvað er að gerast þegar skepnan er alveg upp við myndavélina. Illmenni myndarinnar eru hugsanlega stærsti gallinn fyrir utan hversu óáhugaverð og fyrirsjáanleg myndin er- ástæðurnar fyrir gjörðum þeirra eru allt of kjánalegar, þeim hefur ekki einu sinni tekist að láta verða neitt úr gróðaáætlunum sínum fyrstu 46 skiptin (já þið lásuð rétt: 46!). Illmennunum tekst jafnvel að gera daufu holdsýningu myndarinnar augljóslega tilgangslausa með því að segja að allt það grófasta sem fólk vill er hægt að finna á netinu. Ef þessir náungar eiga að vera einhvers konar þjóðfélagsgagnrýni, tekst það álíka vel og myndinni að vekja ugg: alls ekki. Ef þú villt sögulok þá skaltu einnig gleyma því.

Gerið ykkur greiða og leigið frekar Piranha 3D eða Jaws í staðinn. Shark Night 3D á svo sannarlega ekki eftir að hræða ykkur frá næsta sjósundi, hvað þá í bíósalnum.

Axel Birgir Gústavsson


Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑