Íslenskt

Birt þann 16. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Viðtal: Elísabet Ýr Atladóttir

Elísabet Ýr Atladóttir er 22 ára CG artist  sem býr í Danmörku. Þegar við spurðum Facebook vini okkar að því hvað þeir vildu sjá í næsta tölublaði af Nörd Norðursins stakk Elísabet upp á því að taka viðtal við listamenn á bak við leikina. Í kjölfarið stukkum við á bráðina og fengum að spyrja hana nokkurra spurninga.

 

 

Hver er þinn bakrunnur og hvernig endaðir þú í námi Karakteranimationsuddannelsen I Viborg?
Ég er fædd í Vestmannaeyjum en hef búið lengi í Reykjavík. Ég fór í Menntaskólann við Hamrahlíð á málabraut fyrst eftir grunnskóla en komst fljótt að því að listnám hentaði mér mun betur, svo ég skipti yfir í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og kláraði þar stúdentspróf af listnámsbraut. Ég var búin að leita mikið af skólum sem gætu hentað framtíðaráætlunum mínum í gegnum námið, og fann loksins The Animation Workshop. Það var um leið og ég fann vefsíðuna þeirra sem ég byrjaði að vinna að portfólíóinu til þeirra, og komst inn í skólann strax og ég útskrifaðist úr FB.

Hvernig líkar þér skólinn? Hvað ertu að læra og hvernig fer kennslan fram?
Þessi er skóli er allt sem ég vonaðist til að hann væri og meira en það. Ég er á CGA brautinni (computer graphics artist), en það er hægt að sækja um tvær brautir, CG og svo Character Animation. Brautirnar eru ólíkar, en mjög tengdar, og við vinnum oft saman í margskonar verkefnum sem okkur er sett fyrir. Umhverfið hér í skólanum er ótrúlega vingjarnlegt og opið, og skólinn er tiltölulega lítill, sem gerir það að verkum að flestir þekkjast innan skólans og það er mikið og gott félagslíf.

Kennsluaðferðirnar hér í skólanum eru mjög ólíkar því sem maður átti að venjast í t.d. menntaskóla, en það er ekkert hlaupið á milli tíma og tekið dagana klukkutíma fyrir klukkutíma. Í staðinn koma gestakennarar í ákveðinn tíma, t.d. 3 vikur, og kenna þér eitthvað mjög ákveðið í þessar vikur. Oft eru stór verkefni sett fyrir, t.d. 7 vikna verkefni, og innan þessa 7 vikna koma gestakennarar með ákveðnu millibili og hver þeirra kennir eitthvað ákveðið, sem endar svo í fullunnu þrívíddar verkefni. Dæmi gæti verið að fyrst kemur kennari sem heldur utan um hönnunarvikuna, eftir það kemur þrívíddarkennarinn í tvær vikur, svo ljós og render og svo framvegis, þar til heilt verkefni er sett saman í eina mynd, eða litla stuttmynd. Eftir þrjú ár er svo ætlast til af okkur að fara í nemastarf hjá fyrirtæki sem vinnur við eitthvað sem tengist þessu námi.

Mæliru með skólanum fyrir þá sem er að spá í sambærilegu námi?
Ég mæli hiklaust með þessu námi fyrir fólk sem hefur áhuga á kvikmynda- eða tölvuleikjaiðnaðinum. Þetta er ekki bara frábær grunnur fyrir framtíðina í þrívídd eða animation, heldur taka þeir þig lengra en það og gera þig tilbúinn og samkeppnishæfann í raunheiminum. Fólk sem útskrifast úr þessum skóla er að fara út í það að vinna í auglýsingum, kvikmyndum, teiknimyndum og tölvuleikjum, sem og ýmislegu öðru sem tengist þessum iðnaði. Svo ef þú hefur áhugann fyrir þessu, þá er þessi skóli fullkominn.

Hvað er „CG Artist“?
CG artist er stutt fyrir „computer graphics artist“. Við vinnum við ýmisskonar tölvugrafík, en aðalkennsluefnið byggist á þrívíddarforritinu Maya. Við lærum að hanna og byggja persónur og umhverfi í þrívídd, sem og finna áferð og liti á hvern hlut, lýsingu, rigg og render.

Hvað stefniru svo á að gera eftir nám?
Ég stefni á tölvuleikjaiðnaðinn eftir nám, og ætla að einbeita mér að modeling (byggingu í þrívídd) og hönnun.

Spilaru tölvuleiki? Hvaða leikjatölvur hefuru átt og hverskonar leiki spilaru helst? Áttu þér einhvern uppáhalds leik?
Ég hef spilað tölvuleiki frá því ég man eftir mér og hef átt margar leikjatölvur, t.d. Super Nintendo, Playstation, Playstation 2, Playstation 3, Playstation Portable og svo spila ég líka mjög mikið leiki á PC. Ég spila allsskonar leiki en ég hef mest gaman af einhverskonar ævintýraleikjum eins og Morrowind, Neverwinter Nights og gömlu Final Fantasy leikjunum. Svo hef ég líka gaman af leikjum eins og Portal og Psychonauts, en ef ég færi að telja upp alla leikina sem ég hef spilað og hef gaman af, þá væri það tveggja blaðsíðna ritgerð í sjálfu sér. Einmitt núna er ég mest að spila leikinn EVE Online, og spila hann mjög mikið. Það er mjög erfitt að nefna einhvern uppáhalds leik, en ætli ég geti ekki sagt að Morrowind eigi í raun vinninginn. EVE Online er samt alveg að ná honum held ég, en þar sem leikirnir eru svo ólíkir, þá er erfitt að bera þá saman á nokkurn hátt. Svo ég segi að uppáhalds leikirnir mínir eru Morrowind og EVE Online.

 

Við þökkum Elísabetu kærlega fyrir viðtalið! 🙂

– BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Viðtal: Elísabet Ýr Atladóttir

Skildu eftir svar

Efst upp ↑