Greinar

Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Saga leikjatölvunnar, 3. hluti (1994 – 2008)

eftir Bjarka Þór Jónsson

Smelltu hér til að lesa 2. hluta.
32-bita Sega Saturn (1994) var ein af fyrstu leikjatölvunum með innbyggðu geisladrifi. Salan gekk ekki að óskum Sega þar sem risafyrirtækið Sony gaf út leikjatölvuna PlayStation (PS) aðeins mánuði síðar og þótti hún mun betri. Samstarf var milli Sony og Nintendo og var markmið þeirra að hanna nýja leikjatölvu með geisladrifi. Nintendo gekk síðar frá samstarfinu en Sony hélt áfram með verkefnið. Sony PlayStation (PS) kom út árið 1994 og var fyrsta leikjatölvan til að seljast í yfir 100 milljón eintaka og náðu þar með yfirráði Nintendo á leikjatölvu- og tölvuleikjamarkaðnum. Framleiðslu PS var ekki hætt fyrr en 2006 vegna vinsælda. Tölvuleikjaframleiðendur hjá Square Soft hönnuðu leiki eingöngu fyrir leikjatölvur Nintendo um árabil, en tilkynntu stuttu fyrir útgáfu Nintendo 64 (N64) árið 1996 að þeir myndu starfa fyrir Sony. N64 var ekki með innbyggt geisladrif og hafði það áhrif á ákvörðun Square Soft þar sem geisladiskar buðu upp á margfalt meira gagnamagn og meira frelsi í tölvuleikjahönnun. Square Soft gáfu út hlutverkaleikinn Final Fantasy VII árið 1997 sem sló í gegn í Japan og Bandaríkjunum. Um 3.000 leikjatitlar komu út fyrir PS og höfðu jafn margir stórleikir aldrei komið út fyrir eina leikjatölvu.

Sega Saturn seldist ekki nægilega vel og var næsta leikjatölvan frá Sega þeirra seinasta von um að ná aftur á toppinn. Sega gaf út Sega Dreamcast (DC) árið 1998, langt á undan næstu sambærilegum leikjatölvum keppinauta sinna. DC uppfyllti ekki tæknikröfur notenda og seldist því ekki vel. Sú ákvörðun tekin að hætta leikjatölvuframleiðslu, í staðinn einbeitti Sega sér að tölvuleikjaframleiðslu frá og með 2001. Vinsældir PlayStation héldu áfram og kom leikjatölvan PlayStation 2 (PS2) frá Sony árið 2000. PS2 var með innbyggðum DVD-spilara og gat tölvan auk þess spilað eldri PS-leiki. Tölvuleikir PS2 þóttu fullkomnir sem að stórum hluta til er DVD-diskum að þakka sem geta geymt mörg gígabæti af upplýsingum. Notendur gátu auk þess horft á kvikmyndir í gegnum DVD-spilara tölvunnar, en um aldamótin voru DVD-diskar að taka við af vinsældum VHS-spóla. PS2 bauð upp á nettengingu þannig að notendur gátu spilað tölvuleiki sín á milli. Leikjatölvan og tölvuleikir gerðust ekki betri um aldamótin og sló tölvan út öll sölumet. Líkt og með aðrar vinsælar leikjavélar voru nokkrar gerðir af PS2 gefnar út, árið 2004 gaf Sony út PS2 SCPH-70000 þar sem þeir minnkuðu vélina um 25% án þess að það bitnaði á vélbúnaði hennar og auk þess var lækkað verðið verulega. Fáir leikjaunnendur gátu staðist freistinguna um að kaupa ódýra leikjatölvu sem ekki var mikið stærri en DVD-hulstur og um leið DVD-spilari. Árið 2001 gaf Microsoft út Xbox, sem var fyrsta leikjatölva hugbúnaðarrisans og gaf Nintendo út GameCube (GC) sama ár. Báðar tölvunar náðu talsverðum vinsældum en féllu í skugga PS2.

Fyrir síðustu aldamótin voru tölvuleikjatitlar eitt af sérkennum leikjatölvutegunda. Tölvuleikir fyrir Sega voru einungis fáanlegir í tölvur Sega og það sama átti við um tölvuleiki fyrir Nintendo og Sony. Eftir aldamótin opnaðist tölvuleikjamarkaðurinn og skyndilega voru tölvuleikjatitlar fáanlegar í margar gerðir leikjatölva. Þessi þróun hefur orðið til þess að tölvuleikjamarkaðurinn hefur stækkað og jafnvel betrumbætt marga leiki. Fjölda hæfileikafólks stendur á bak við hvern tölvuleik og má jafnvel líkja gerð tölvuleikja við kvikmyndagerð. Með tímanum hafa tölvuleikir orðið sífellt flóknari og nákvæmari og verðahóparnir sem hanna leikina sífellt fjölmennari. Á sínum tíma unnu 15 manns að gerð tölvuleiksins Metal Gear Solid sem fyrirtækið Konami gaf út 1998. Þegar framhald leiksins kom út á PS2 unnu yfir 70 manns að honum og nam heildarkostnaðurinn um 10 milljónum bandaríkjadala.

Leikjatölvur nútímans bjóða upp á fleiri möguleika en áður þekktist. Microsoft gaf Xbox 360 út 2005 og Sony gaf þriðju PlayStation leikjatölvuna (PS3) út ári síðar. Kraftur þeirra beggja er gífurlegur og má líkja grafík og hljóðgæðum leikja við tölvugerðar kvikmyndir. Stjórntæki eru þráðlaus og bjóða tölvurnar upp á þráðlausa nettengingu. Í leikjatölvunum er þannig hægt að spila og spjalla við aðra tölvuleikjaspilara, versla í gegnum netið og hlaða niður tölvuleikjum og öðru afþreyingarefni. Xbox 360 og PS3 geta spilað kvikmyndir og tónlist og bjóða upp á háskerpumyndgæði (e. High Definition (HD)). Harður diskur fylgir flestum útgáfum Xbox 360 og PS3. Innbyggður Blu-Ray-spilari er í PS3 sem mun að öllum líkindum taka við vinsældum DVD-spilara í náinni framtíð. Báðar leikjatölvurnar eru vinsælar í dag en útlitið var svart um tíma hjá Microsoft þegar stór hluti af seldum Xbox 360 fór að bila, bilunin hefur síðar verið þekkt sem „rauði hringur dauðans” (e. „Red Ring of Death” (RRoD)) og kostaði Microsoft háar fjárhæðir. Sony gaf sína fyrstu handheldu leikjatölvu PSP út 2004 og má líkja henni við blöndu af PS2 og PS3 þar sem hún býður upp á svipaða grafík og spilun og PS2 en inniheldur ýmsa valmöguleika PS3.

Nintendo hefur komið með áhugaverða nýjunga í leikjatölvuspilun með handheldu leikjatölvunni Nintendo DS frá 2004 og leikjatölvunni Nintendo Wii frá 2006. Nintendo DS var fyrsta handhelda leikjatölvan með tveimur skjám auk snertiskjá. Tölvan býður upp á netspilun (e. Wireless LAN) og með innbyggðum míkrafóni geta notendur spjallað sín á milli. Miklar efasemdir voru um nýjung Nintendo og spurðu sig margir hvort og hvernig skjáirnir gætu betrumbætt leikjaspilun. Nintendo sannaði hve vel nýja vélin þeirra virkaði með leikjatitlum á borð við Super Mario 64 DS og Metroid Prime Hunter, þar sem notast var við nýjungar vélarinnar og voru margir notendur yfir sig hrifnir.

Engin leikjatölva notar hreyfiskynjara jafn mikið og Nintendo Wii, og var um nýjung að ræða. Hreyfiskynjari er staðsettur við eða á sjónvarp og eru hreyfiskynjarar í stjórntæki Wii sem túlkar hreyfingar spilarans – nú áttu spilarar að standa upp og hreyfa sig. Wii Sports er leikur sem fylgir Nintendo Wii. Þar er að finna fimm mismunandi íþróttaleiki sem nota hreyfiskynjarana til fulls. Hægt er að spila hnefaleika með því að standa og kýla út í loftið með fjarstýringunum eða spila hafnabolta og heldur spilarinn á fjarstýringunni líkt oghafnarboltakylfu – jafnvel eru til dæmi um að spilarar hafa fengið „Wii-olnboga“ sem er svipað fyrirbæri og „tennis-olnbogi“. Nintendo vildi halda öllum „ónauðsynlegum“ aukahlutum frá leikjatölvu sinni, sem gerði það að verkum að Wii er mun ódýrari í framleiðslu sem skilaði sér til neytenda. Nintendo Wii er ekki nærri því jafn öflug og PS3 eða Xbox 360 og má frekar líkja krafti hennar við eldri véla eins og PS2 og Xbox. Markmið Nintendo var „að skapa nýja tegund leikjatölva þar sem þetta snerist ekki allt um grafík og það sem spilandinn sér á sjónvarpsskjánum. Nintendo Wii gerir spilandann að hluta af leiknum.“ (Nintendo, „Nintendo Wii”. www.nintendo.is/?Page=velar&ID=1, sótt 20.11.2008.)

 

Smelltu hér til að lesa 4. hluta.

Heimildir:

Hluti úr BA ritgerð í sagnfræði; Nörd norðursins eftir Bjarka Þór Jónsson, 2009.
Forster, Winnie, The Encyclopedia of Game Machines. Consoles, handhelds & home computers 1972-2005. Utting 2005.
Wolf, Mark J. P., The Video Game Explosion. A History from Pong to PlayStation and Beyond. London 2008.
Kent, Steven L., The Ultimate History of Video Games. From Pong to Pokémon and Beyond – The Story Behind the Craze That Touched Our Lives and Changed the World. New York 2001.
Franz Gunnarsson, „Leikjatölvur næstu kynslóðar: Tölvuheimur á stærstu tölvuleikjasýningu í heimi.” Tölvuheimur 2001 57 (5), bls. 42.
Newman, James, Videogames. New York 2005.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑