Spil

Birt þann 22. júlí, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: ZOMBIES!!!

Spilarýni: ZOMBIES!!! Nörd Norðursins

Samantekt: Stórskemmtilegt borðspil fyrir þá sem eru að missa sig í uppvakninga-æðinu. Áhugaverð og skemmtileg útfærsla.

4

Stórskemmtilegt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

(Þetta efni birtist upphaflega í 1. tbl. af Nörd Norðursins sem hægt er að nálgast hér)

ZOMBIES!!! er stórskemmtilegt borðspil fyrir þá sem eru að missa sig í uppvakninga-æðinu sem hefur riðið yfir síðastliðin ár. Spilið kom út árið 2001 og geta 2-6 leikmenn spilað í einu. Spilið er ætlað þeim sem eru 12 ára og eldri. Það tekur í kringum 10 mínútur að undirbúa spilið og hver leikur getur tekið á bilinu eina til þrjár klukkustundir. Takmark spilsins er að koma leikmanni í gegnum borg fulla af uppvakningum og flýja með því að komast að þyrlupalli, eða þá drepa 25 uppvakninga. Tíu ár eru liðin síðan spilið kom út og síðan þá hafa tíu aukapakkar verið gefnir út. Spilið hefur notið mikilla vinsælda og er útgáfa af borðspilinu nú fáanleg í Windows Phone 7 og væntanleg í leikjatölvurnar.

INNIHALD

  • 30 kortaspjöld
  • 50 atburðarspjöld
  • 6 leikmenn úr plasti
  • 2 teningar
  • 100 uppvakningar úr plasti

UPPSETNING

Kortaspjaldið sem táknar miðbæinn er lagt niður og leikmönnunum raðað þar á. Hver leikmaður fær miða með þremur hjörtum (sem tákna heilsu leikmanna) og þremur skotum. Korta- og atburðarspjöldin eru lögð til hliðar  þar sem allir leikmenn ná til þeirra.

ZOMBIES02

SPILUN

Í hvert skipti sem leikmaður á leik leggur hann niður efsta kortaspjaldið í sínum bunka. Á spjöldunum er mynd af vegum sem verða að tengjast við áður lögð kortaspjöld. Í hvert skipti sem nýtt spjald er lagt niður er tveimur eða fleiri uppvakningum bætt við. Á einstaka kortaspjöldum eru sérstakir staðir, til dæmis slökkviliðsstöð eða sjúkrahús, og þar getur leynst auka heilsa eða skot. Ef leikmaður lendir á reit með uppvakningi verður sá hinn sami að drepa uppvakninginn.

Nú kastar leikmaðurinn sex-hliða tenging til að ákveða hve langt hann getur farið. Það má færa sig jafn marga reiti og teningurinn gefur upp, en leikmaður getur einnig valið að færa sig um færri reiti eða standa kyrr. Ef leikmaður mætir uppvakningi þarf hann að fá 4 eða hærra með teningakasti. Ef hann nær að fá 4 eða hærra drepur hann uppvakninginn en annars þarf leikmaðurinn að velja á milli þess að nota skotmiða til að bæta kastið sitt, eða nota heilsumiða og kasta teningnum aftur og endurtaka leikinn. Þegar leikmaðurinn hefur lokið leik kastar hann sex-hliða tening til að ákveða fjölda uppvakninga sem hann þarf að færa og er aðeins hægt að færa uppvakninga um einn reit í einu.
Ýmis atburðaspjöld geta breytt hefðbundnu reglum leiksins. Til dæmis getur leikmaðurinn orðið svo hræddur að hann getur ekki hreyft sig.
Til þess að vinna spilið þarf leikmaðurinn að komast að þyrlupalli eða drepa í heildina 25 uppvakninga.

ZOMBIES03

AUKAPAKKAR

Í heildina hafa tíu aukapakkar verið gefnir út fyrir Zombies!!!

ZOMBIES!!! 2: Zombie Corps(e): Pakkinn inniheldur herstöð við upprunalega spilið. Í aukapakkanum eru 15 ný kortaspjöld, 30 atburðarspjöld, 6 „ofur-uppvakningar“ sem lýsa í myrkri og nýjar aukareglur.

ZOMBIES!!! 3: Mall Walkers: Pakkinn inniheldur verslunarmiðstöð í spilið. Aukapakkinn inniheldur 16 ný kortaspjöld, 32 atburðarspjöld og litlu bætt við reglurnar.

ZOMBIES!!! 3.5: Not Dead Yet: Í þessum aukapakka eru einungis viðburðarspjöld, alls 50 talsins. Auk þess eru smávægilegar breytingar á reglunum.

ZOMBIES!!! 4: The End: Leikmaðurinn er staddur í skála uppi á fjalli, umvafinn skógi. Takmarkið er að ná í blaðsíður sem hafa dreyfst um svæðið, en bókin getur mögulega endað uppvakningafaraldurinn. Í aukapakkanum eru 30 kortaspjöld, 50 atburðarspjöld, 100 uppvakninga-hundar, 6 leikmenn auk heilsu- og skotmiða.

ZOMBIES!!! 5: School’s Out Forever: Pakkinn inniheldur skóla í spilið. 16 ný kortaspjöld, 32 atburðarspjöld og miðar fyrir innyfli.

ZOMBIES!!! 6: Six Feet Under: Í þessum aukapakka fer leikmaðurinn ofan í holræsi og neðanjarðarlestargöng. Pakkinn inniheldur 16 kortapjöld, 32 atburðarspjöld, holræsismiða og viðbætur við upprunalegu spilareglurnar.

ZOMBIES!!! 6.66: Fill the ___: Pakkinn inniheldur auð kortaspjöld og geta leikmenn teiknað sitt eigið kort.

ZOMBIES!!! 7: Send in the Clowns: Pakkinn inniheldur sirkús og uppvakningatrúða. 15 ný kortaspjöld, 32 atburðarspjöld, 25 uppvakningatrúðar

ZOMBIES!!! 8: Jailbreak:  Pakkinn inniheldur fangelsi og nýjar  spilareglur, 16 kortaspjöld og 32 atburðarspjöld.

ZOMBIES!! 9: Ashes to Ashes: Pakkinn inniheldur kirkjugarð. Það er hægt að spila þennan aukapakka sem viðbót við Zombies!!! eða eitt og sér.

Aukapakkarnir eru misstórir og er verðið á þeim þar af leiðandi breytilegt.

 

FLEIRI SPIL

Önnur útgáfa af Zombies!!! borðspilinu og aukapökkum hafa verið gefin út. Í útgáfunni hefur spilun leiksins ekkert breyst, en  teikningar á atburðarspjöldunum hafa breyst og skýringartextinn endurbættur. Auk aukapakkanna Zombies!!! 4 og 9 er hægt að spila borðspilin Humans!!! og MidEvil eitt og sér, en einnig samhliða Zombies!!! Í Humans!!! er hlutverkinu snúið við og markmið leiksins er að fá uppvakningana til þess að borða fólkið á meðan MidEvil gerist á miðöldum þar sem leikmenn þurfa að berjast gegn beinagrindum.

MÍN NIÐURSTAÐA

Stórskemmtilegt spil!! Ég viðurkenni að ég er veikur fyrir öllu sem tengist uppvakningum, en ég geri samt sem áður mínar kröfur hvað varðar skemmtun og gæði. Ég hef spilað Zombies!!! og viðbótina Zombies!!! 8 og skemmti mér konunglega. Það er mjög stór plús hversu margir aukapakkar eru fáanlegir fyrir spilið, sem gerir það stærra og eykur endingartíma þess til muna. Spilaborðinu er pússlað saman af leikmönnunum þannig að það eru nánast engar líkur á því að sama spilaborðið  komi upp oftar en einu sinni. Þetta þykir mér áhugaverð og skemmtileg útfærsla sem gerir leikinn enn meira spennandi.

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑