Bíó og TV

Birt þann 14. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Kvikmyndarýni: Hetjur Valhallar: Þór


Ég get ekki byrjað á þessari gagnrýni án þess að óska starfsfólki Caoz til hamingju með að koma þessu verkefni alla leið í kvikmyndahús.
Það er alls ekki lítið afrek fyrir íslenska kvikmyndagerð að gefa út svona stóra kvikmynd sem á einnig þann heiður að vera fyrsta teiknimynd landsins í fullri lengd. Þið eigið skilið kossa, knús og vel verðskuldað klapp á bakið frá kvikunaraðdáendum (animation aðdáendum) Íslands.

Þór er ungur maður sem hefur verið afneituð ást og athygli föður síns, guðinum Óðni, og býr með móður sinni í litlu víkingaþorpi. Eftir að guðir Valhallar hafna hamrinum Mjölni fær Þór hann í hendurnar. Ekki líður þó langt þar til að undirheimadrottningin Hel lætur sjá sig í þorpi hans og veldur miklum usla þegar hún leitast eftir hamri Þórs, en hún vill sölsa undir sig völdin á jörðinni og gera útaf við guði Valhallar.

Umhverfi myndarinnar er gullfallegt og mjög litríkt. Ég gæti lengi dáðst að skotum myndarinnar; án efa það áhrifamesta við myndina.

Umhverfi myndarinnar er gullfallegt og mjög litríkt. Ég gæti lengi dáðst að skotum myndarinnar; án efa það áhrifamesta við myndina. Mögnuð sviðsetning spilar þar stóran hlut og hjálpar stórgóð lýsing til við að greina áhrifamikil smáatriði í bakgrunninum sem tekst svo vel að flytja okkur yfir í þennan flotta og heillandi heim. Caoz hefur nánast tekist að ná Frökkum (Chasseurs de Dragons, Un Monstre à Paris) hvað varðar vandvirkni og hæfni í heilum tölvuteiknimyndum,  og það í sinni fyrstu tilraun. Ég ætla þó að viðurkenna að ég hef aldrei verið hrifinn af persónuhönnun Caoz í fyrrverandi verkum vegna hversu virkilega skrípaleg hún var á fráhrindandi hátt, en hér er hönnunin mun fínpússaðri og í meira samræmi við umhverfið.

Notkunin á norrænni goðafræði er oft hugmyndarík og spilar með núverandi þekkingu á efninu inn í söguþráðinn og blandast vel við grínið. Húmor í fyrrverandi verkum Caoz var líklegast það besta sem þeir buðu upp á í stuttmyndum sínum (þá sérstaklega í Kvaki), en það sást að þau voru klárlega góð að blása lífi í gamansöm atvik með skoplegri kvikun þeirra. Í Þór tekst þeim það á náttúrulegri hátt og virkar kvikunin betur hér þar sem hún er aðeins jarðbundnari (en samt ennþá virkilega skrípaleg að eðli). Þetta var klárlega orkumikil framleiðsla, full af fólki sem dýrkar kvikun í botn og skemmti sér að þessari mynd, og sá metnaður skilar sér vel til áhorfandans. Helsti galli kvikunar Þórs eru þó munnhreyfingarnar því áherslan á hreyfingu varanna (ef þær eru jafnvel til staðar) er mun minni en heildar líkamsbeiting persónanna – þetta er sérstaklega augljóst hjá Óðni.

Ekki búast við miklum framförum í frásögn hér, því þetta er að mestu leyti mjög fyrirsjáanleg ræma þó hún sé mjög skemmtileg í heildina. Veikleiki myndarinnar er hversu lítið persónurnar fá að vaxa og dafna og við fáum bara bærilegar ástæður fyrir gjörðum þeirra og hverjar þær eru. Í seinni hluta myndarinnar er myndin þó mun öruggari með sig: gamanið hefur fengið að þróast út myndina og tæknilegri gallar myndarinnar (eins og hversu ómerkilegir bardagarnir voru í fyrri hlutanum) eru betur framkvæmdir og er myndin meðvitaðari um takmörk sín. Lokauppgjörið við jötnanna er mjög skemmtilegt sjónarspil og innihélt einhverja bestu sjónrænu gamansemi myndarinnar. Ég get ekki gagnrýnt leik eða talsetningu myndarinnar því ég hef einungis séð íslensku talsetninguna og það er mér mjög augljóst að það var ekki tungumálið sem var efst í huga þegar kom að framkvæmd kvikunarinnar, þó var gaman að heyra í Ladda sem Mjölni og hann var klárlega sá sterkasti í íslensku talsetningunni. Sagan er einnig vel keyrð og það er ekki dauður punktur út alla myndina.

… gaman að heyra í Ladda sem Mjölni og hann var klárlega sá sterkasti í íslensku talsetningunni. Sagan er einnig vel keyrð og það er ekki dauður punktur út alla myndina.

Þó myndin sé ekkert meistaraverk er hún þó stórskemmtileg fjölskyldumynd sem krakkarnir eiga eftir að skemmta sér konunglega yfir (eins og sást í bíósalnum) og er mest af gamninu miðað að þeim. Myndin er þó gullfalleg í útliti, litrík og frammúrskarandi frumraun lítils lands í kvikunariðnaðinum.

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Kvikmyndarýni: Hetjur Valhallar: Þór

  1. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑