Birt þann 28. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
1Tölvuleikir breyta þér ekki í skrímsli
Pistill frá ritstjóra.
Í síðustu viku rakst ég á forsíðufrétt á Mbl.is með fyrirsögninni „Spilaði tölvuleik í heilt ár.“ Ég var ekki viss um við hverju ég átti að búast, en við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða stutta frétt þar sem stiklað var á stóru í lífi norska fjöldamorðingjans á tímabilinu 1995 til 2006, en samkvæmt fréttinni spilaði hann meðal annars tölvuleikinn World of Warcraft daglega í heilt ár. Svo virðist sem tölvuleikjaspilun fjöldamorðingjans hafi stungið meira í augu fréttamannsins en stjórnmálaþátttaka hans, kynni við öfgahópa á borð við alþjóðlegu riddararegluna eða aðrir þættir. Aðrir fjölmiðlar birtu sambærilega grein með svipaðri fyrirsögn, til dæmis notað Huffington Post í Bretlandi fyrirsögnina „Anders Breivik Played World Of Warcraft ‘Full-Time’ For A Year“ og fjölmiðlar virðast ekki draga það í efa að Breivik hafi æft skotmiðið með aðstoð fyrstu-persónu skotleiksins Call of Duty: Modern Warfare, líkt og hann segir sjálfur.
Þetta er ekki í fyrsta (og ekki síðasta) sinn sem tölvuleikir hafa verið tengdir með beinum eða óbeinum hætti við ofbeldisverk. Of margir fjölmiðlar falla í þá gryfju (viljandi eða óviljandi) að tengja tölvuleikjaspilun beint við ofbeldisfulla hegðun, líkt og ofangreind fyrirsögn fréttinnar gerir. Hefði ekki verið réttara að benda á öfgafullar skoðanir fjöldamorðingjans í fyrirsögninni í stað þess að minnast á tölvuleikjaspilun hans. Hvað með sjónvarpsefni? Lítil sem engin umfjöllun hefur verið um hvaða sjónvarpsefni hann horfði á, hvaða íþróttir hann var hrifnastur af eða hvernig tónlist hann hlustaði á. Á heildina litið skipta þessir þættir litlu sem engu máli og hjálpa ekki til við að útskýra ofbeldisverkin.
Fjöldi tölvuleikjaspilara er gífurlegur, líkt og fjöldi þeirra sem horfa á hryllingsmyndir eða lesa glæpasögur, en í lang flestum tilfellum beina fjölmiðlar spjótum sínum eingöngu að einum miðli; tölvuleikjum.
En hvers vegna tengja fjölmiðlar tölvuleikjaspilun oft við ofbeldisfulla hegðun? Má kalla það áróður, fordóma eða einfaldlega vanþekkingu fréttamanna á tölvuleikjum? Fjöldi tölvuleikjaspilara er gífurlegur, líkt og fjöldi þeirra sem horfa á hryllingsmyndir eða lesa glæpasögur, en í lang flestum tilfellum beina fjölmiðlar spjótum sínum eingöngu að einum miðli; tölvuleikjum.
Samkvæmt tölum frá Entertainment Software Association (ESA) frá því í fyrra eru tölvuleikir spilaðir á 72% bandarískra heimila, Interactive Software Federtation of Europe (ISFE) segir að þriðji hver Evrópubúi spili tölvuleiki og samkvæmt tölum frá Hagstofu Ísland eru leikjatölvur til staðar á 40% íslenskra heimila. Ef ofbeldisfullir tölvuleikir myndu breyta fólki í ofbeldismenn ætti tíðni líkamsárása og morða að hækka í takt við aukna tölvuleikjaspilun, en hver sem er getur heimsótt heimasíðu Hagstofu Íslands og séð að engin tengsl er að finna þar á milli. Ofbeldisfullir tölvuleikir breyta fólki hreinlega ekki í morðingja.
Ofbeldisfullir tölvuleikir breyta fólki hreinlega ekki í morðingja.
Nánast undantekningarlaust eru það ofbeldisfullir tölvuleikir sem eru tengdir við glæpi. En hvað með aðrar tegundir tölvuleikja? Hvað með þá sem spila smáleikinn Angry Birds? Eru þeir að safna saman dauðum fuglum í poka og henda þeim í svínin í Húsdýragarðinum og ásaka þau um eggjastuld? Eða breytast þeir sem hafa spilað bónda- og garðyrkjuleikinn FarmVille á Facebook í sérfræðingar í garðyrkjumálum og eru nú loksins færir um að sinna búskap? Og geta skákmenn ekki hætt að hugsa um hvað þá langar ógurlega að drepa kónga?
Þegar ódæðisverk eru framin stökkva fjölmiðlar á tölvuleikjaspilun líkt og hundur á bein. Tölvuleikjaspilun ódæðismannsins skiptir meira máli en sálræn vandamál hans, kvikmynda- og bókmenntasmekkur, lífsviðhorf, erfið æska eða eitthvað annað – og ekki má gleyma að þetta bíður upp á krassandi fyrirsögn fyrir fréttina; “Breivik þjálfaði miðið í tölvuleikjum.” Með slíkum fyrirsögnum og órökstuddum tengslum tölvuleikja við ofbeldi fá þeir sem spila ekki tölvuleiki ranghugmyndir um tölvuleiki sem hefur neikvæð áhrif á ímynd tölvuleikjaspilara og tölvuleikjaiðnaðins í heild sinni. Það er ávallt hægt að finna svarta sauði sama á hvaða hóp er litið.
Heilbrigt fólk gerir greinarmun á tölvuleik og raunveruleika. Líkt og þegar skákmaður finnur leiðir til að drepa kóng andstæðingsins eða þegar fótboltamaður reynir að koma boltanum í markið, að þá breytast reglurnar. Það sama á við þegar tölvuleikjaspilarinn spilar tölvuleik. Spilarar gera sér grein fyrir því hvar mörkin liggja og vita vel að þó þeir drepi óvini á tölvuskjánum að þá gilda aðrar reglur í leiknum en raunveruleikanum. Vissulega eru til ofbeldisfullir leikir sem ekki eru ætlaðir börnum en slíkir leikir eru merktir í bak og fyrir.
Nú þegar 40 ár eru liðin frá því að fyrsta leikjatölvan, Magnavox Oddyssey, leit dagsins ljós getum við hreinlega litið á fullorðna tölvuleikjaspilara, sem eru lifandi dæmi þess að leikir breyta fólki ekki í ofbeldisfull skrímsli.
Mynd: Link úr Zelda (tengist fréttinni ekki beint).
Bjarki Þór Jónsson
ritstjóri Nörd Norðursins
One Response to Tölvuleikir breyta þér ekki í skrímsli
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.
Pingback: IGI hittingur 7. júní – Umfjöllun um tölvuleiki í fjölmiðlum | Nörd Norðursins