Fréttir1

Birt þann 14. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

E3: DUST 514

Hinni árlegu tölvuleikjasýningu Electronic Entertainment Expo, betur þekkt sem E3, lauk síðastliðinn fimmtudag. Fyrir ári síðan var DUST 514, nýjasti leikur íslenska leikjafyrirtækisins CCP, kynntur á E3 2011 og fékk góðar viðtökur, en þá var m.a. tilkynnt að leikurinn yrði eingöngu fáanlegur fyrir PlayStation. Það voru viss vonbrigði að ekki var fjallað um leikinn í aðal kynningarfundi Sony, sem fór fram 4. júní, en þar fór fyrirtækið yfir framtíðar uppfærslur og væntanlega leiki fyrir PlayStation tölvurnar. DUST 514 var þó með sinn eigin bás á staðnum þar sem starfsmenn CCP kynntu leikinn fyrir fjölmiðlum og öðrum sýningargestum.

 

NÝ STIKLA SÝND Á E3

 

EVE HEIMURINN

DUST 514 er fyrstu persónu fjölspilunar skotleikur (MMOFPS) þar sem spilarinn fer í hlutverk hermanns sem berst á einum af mörgum plánetum EVE heimsins. EVE heimurinn hefur hingað til eingöngu verið opinn EVE Online spilurum en verður opnaður fyrir DUST 514 spilara. Heimurinn verður því aðgengilegur í tveimur leikjum sem munu hafa áhrif hvor á annan. Til dæmis ef tveir EVE Online spilarar eru í stríði við hvorn annan getur annar þeirra fengið hóp málaliða úr DUST 514 til að ráðast á landsvæði andstæðingsins. Úrslitin ráðast í DUST 514 og niðurstöður bardagans munu hafa áhrif á EVE heiminn og þar með EVE Online. Einnig munu leikirnir  notast við sama hagkerfi, sem notar ISK – Interstellar Kredit.

 

ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN

DUST 514 byggir að miklu leyti á hæfileikapunktum (skill points) sem spilarinn þarf að öðlast til að ná tökum á ákveðnum vopnum og faratækjum, en eina leiðin til að öðlast slíka punkta er með því að spila leikinn. Spilarinn getur auðveldlega hoppað beint í DUST 514 til að spila hann, en leikurinn býður þó upp á fjölmargar fínstillingar fyrir leikjakarakterinn og vopnin fyrir þá sem vilja kafa dýpra í leikinn og hafa stjórn á öllu.

 

DUST 514: NEOCOM

CCP tilkynnti á E3 að með tímanum verði hægt að nálgast smáforritið DUST 514: Neocom fyrir handheldu leikjavélina PlayStation Vita. Í smáforritinu hefur spilarinn aðgang að póstkerfi DUST 514 og getur auk þess breytt leikjakarakternum sínum og bætt upplifunina á DUST 514.

 

ÓKEYPIS AÐ SPILA!

Leikurinn DUST 514 og smáforritið  DUST 514: Neocom verða fáanleg ókeypis í gegnum PlayStation verslunina. Leikurinn mun bjóða spilurum upp á þann möguleika að kaupa sér hluti og  uppfærslur, en þær munu þó ekki hafa áhrif á spilun leiksins. Uppfærslurnar efla hvorki leikjakarakterinn né vopn hans, heldur býður spilurum t.d upp á nýjan klæðnað og aðra hluti sem hafa áhrif á útlit karaktersins. Einnig upplýsti CCP fyrir stuttu að karakterinn í DUST 514 mun missa alla hlutina sína í hvert sinn sem hann deyr, þannig þarf spilarinn oftar en ekki að kaupa mikið magn af hlutum sem hann vill að karakterinn sinn noti reglulegu. CCP munu þar af leiðandi bjóða mikið af hlutunum sem verða í boði á ódýru verði.

 

VÆNTANLEGUR Á ÞESSU ÁRI

CCP tilkynnti að síðar í þessum mánuði, nánar tiltekið 29. júní, verður opnað fyrir beta prufuútgáfu DUST 514 sem hingað til hefur verið lokuð. Leikurinn er væntanlegur síðar á þessu ári og mun styðjast við hefðbundinn PlayStation 3 stýripinna og PlayStation Move, en það er val hvers og eins hvernig stýringar er notast við.

 

Við bendum lesendum á að heimsækja heimasíðu leiksins DUST514.COM þar sem hægt er að nálgast nánari upplýsingar um leikinn og taka þátt á spjallborði . Einnig býður Íslenska PlayStation samfélagið (PSX) upp á sérstakt spjallsvæði fyrir leikinn þar sem íslenskir áhugamenn hafa verið að ræða leikinn síðastliðna 6 mánuði.

Við endum þessa umfjöllun á 15 mínútna spjalli sem PlayStation Blog náði við David Reid, markaðsstjóra DUST 514, á E3 sýningunni.

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑