Bíó og TV

Birt þann 30. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Fór á Mad Monster Party og hitti John Russo, Tony Todd og fleiri

Jósef Karl Gunnarsson skrifar:

Ég vil deila með lesendum Nörd Norðursins ferðasögu minni til Charlotte í North Carolina-fylki í Bandaríkjunum. Þar fór ég á hryllingsmyndaráðstefnu-eða hátíð, næstsíðustu helgina í mars síðastliðnum.

Það vita kannski ekki allir um svona ráðstefnur, flestir kannast þó við Comic Con þar sem vísindaskáldskapurinn og teiknimyndasögur-og hetjur eru í sviðsljósinu. Það er kannski ekki óvitlaust að fræða ykkur aðeins um svona hátíðir, fyrir þá sem hafa áhuga. Það eru til fjölmargar hryllingsmyndahátíðir, stórar sem smáar, útum allar trissur í Bandaríkjunum og eru þær haldnar árlega allt árið um kring. Þeim fer fjölgandi og það á líka við um gestina sem flykkjast á þær. Þessar hátíðir eru þó ekki eingöngu bundnar við Bandaríkin, en það eru aðrar í Bretlandi og Þýskalandi.

Flestir fara á þessar hátíðir til þess að hitta misfræga leikara og leikkonur úr hryllingsmyndum og safna eiginhandaáritunum þeirra, en það þarf að greiða aukalega fyrir þær.

Svona hátíðir eru oftast haldnar um helgar á stórum hótelum og bjóða uppá nokkra valmöguleika varðandi miða inn á hátíðina; það er hægt að kaupa dagspassa, helgarpassa og oft er boðið uppá VIP-passa sem tryggir manni inngöngu á alla viðburðina, sæti á besta stað og margt fleira. Flestir fara á þessar hátíðir til þess að hitta misfræga leikara og leikkonur úr hryllingsmyndum og safna eiginhandaáritunum þeirra, en það þarf að greiða aukalega fyrir þær. Það er margt annað á boðsstólnum, svosem að horfa á kvikmyndir og fólkið sem kom að myndinni svarar spurningum viðstaddra, skoða og kaupa ýmiskonar varning sem tengist vísindaskáldsagna-eða hryllingsmyndum eins og DVD-myndir, leikföng og plaköt. Á sumum hátíðum er einnig grímuball eða tónleikar með rokkhljómsveitum í þyngri kantinum.

Þetta er í fimmta sinn sem ég fer út á svona hátíð en þessi tiltekna hátíð var ný á nálinni og kallast Mad Monster Party.

Þetta er í fimmta sinn sem ég fer út á svona hátíð en þessi tiltekna hátíð var ný á nálinni og kallast Mad Monster Party. Ég flaug út fimmtudaginn 22. mars til JFK-flugvallarins þar sem ég þurfti að bíða til morguns eftir tengiflugi til Charlotte. Ég drap tímann með annarri bókinni í Dexter-seríunni, Dearly Devoted Dexter, og kláraði hana um nóttina. Ég svaf smávegis í tveggja tíma flugferð til Charlotte. Þegar þar var komið tók ég strætó sem stoppaði rétt hjá hótelinu mínu. Klukkan var ekki nema rúmlega 11 þegar þar var komið svo ég notaði tímann til þess að hoppa yfir í Walmart sem var í göngufjarlægð og fjárfesti í nokkrum leikjum, Batman: Arkham City, Dead Island og Uncharted 3: Drake’s Deception sem lækkaði stuttu síðar í verði í Elko eftir ferðina, alveg týpískt.

Það var komið síðdegi og tími til að kíkja á hátíðina, ég tók strætó og gekk svo stuttan spöl að hótelinu þar sem hátíðin var haldin. Sem betur fer var veðrið gott alla helgina, það átti að vera skýjað, rigning, þrumur og eldingar en varð aldrei neitt úr því að ráði. Ég fékk mér svokallaðan RIP-passa en sé dálítið eftir því þar sem ég nýtti mér ekki allt sem var í boði sem skyldi.

Allt starfsfólkið var hjálpsemin uppmáluð og þó svo að manni hafi fundist sem skipuleggjendurnir væru aðeins of metnaðarfullir varðandi ýmsa viðburði þá mun ég hafa opin augu fyrir því hverja þeir munu lokka til sín á næstu hátíð. Ég var með lista yfir þá sem ég ætlaði að fá eiginhandaáritanir hjá og tók með mér DVD-hulstur til vara. Þar sem ég  hafði gert fjárhagsáætlun varð ég að láta mér nægja að heilsa og spjalla stutt við sumar stjörnurnar. En þar voru náttúrulega stjörnur sem ég hafði ekki áhuga á að hitta eða ég þekkti ekki nógu vel til verka þeirra, en þannig er það stundum.

Þær stjörnur sem ég hitti voru allar mjög prúðar, vingjarnlegar og sumar áhugasamari en aðrar um þá staðreynd að ég hafi komið alla leið frá Íslandi einungis til þess fara á þessa hátíð. Því miður var mikið um það á þessari hátíð að ekki var innifalið að fá myndir með stjörnunum þó maður fengi áritun og því er ég ekki með mikið af myndum en ég er með myndir frá hinum ferðunum þegar það á við.

Ég byrjaði á að heilsa uppá John Russo sem meðskrifaði Night of the Living Dead frá 1968 ásamt George Romero og varð fyrsti uppvakningurinn til þess að deyja er hann fékk felgulykil í hausinn.

Ég byrjaði á að heilsa uppá John Russo sem meðskrifaði Night of the Living Dead frá 1968 ásamt George Romero og varð fyrsti uppvakningurinn til þess að deyja er hann fékk felgulykil í hausinn. Ég tók í höndina á honum, sagði hversu mikið ég hélt upp á þessa mynd (á 4 útgáfur af henni og endurgerðina frá 1990 líka) og sagði honum frá fyrsta skiptinu sem ég sá myndina. Ætli ég hafi ekki verið í 8. eða 9. bekk þegar ég sá hana fyrst, seint um nótt á Hallmark stöðinni af öllum stöðvum, og það sem mér er minnisstæðast við það var að eina blótsyrðið var fjarlægt en á sama tíma var barið í borð og því hvarf það hljóð líka.

Á næsta borði var George Kosana sem var einnig í Night of the Living Dead og var lögreglustjórinn sem átti línuna ódauðlegu, „Yeah, they’re dead. They’re all messed up“, þegar hann var spurður hvort uppvakningarnir væru hægfara. Ég heilsaði honum, tók í höndina á honum og þegar hann heyrði að ég væri frá Íslandi spurði hann mig um lunda. Hann er víst ljósmyndari og hefur gaman að taka myndir að fuglum. Ég kvaðst vera lítil hjálp og eina sem ég vissi að þá væri aðallega að finna í Vestmannaeyjum.

Ég heilsaði uppá Dee Wallace (The Hills Have Eyes, The Howling, E.T., Cujo, Critters og The Frighteners svo eitthvað sé nefnt) sem er ótrúlega ungleg miðað við aldur. Ég tók eftir því að hún var oftar en ekki með haglabyssu á myndunum sem hún var með á borðinu hjá sér. Ég nefndi myndina Bone Dry (2007) og hún hafði ekkert nema góða hluti að segja um leikstjórann enda get ég sjálfur sagt að Brett A. Hart er góður náungi.

Í fríhöfninni keypti ég tvo poka af Þristum til þess að gefa stjörnunum og allir sem fengu fannst það mjög gott.

Ég stoppaði við hjá Tony Todd, Candyman sjálfum úr samnefndri mynd frá árinu 1992, og keypti eina mynd fyrir félaga minn og lét hann árita. Þetta var í annað skiptið sem ég hafði hitt hann og hann rámaði í mig en það var seint árið 2009 á minni fyrstu hátíð. Í fríhöfninni keypti ég tvo poka af Þristum til þess að gefa stjörnunum og allir sem fengu fannst það mjög gott. Lakkrís er ekki mikið notað í nammi í Bandaríkjunum sem veldur því að það virkar sem mjög framandi bragð og þau finna meira fyrir saltinu í sælgætinu heldur en við sem eru vanir slíku á Norðurlöndunum. Það var ekki að spyrja að því, Candyman fékk einn Þrist.

Ég leit við hjá Mary Woronov og heilsaði henni en hún lék Calamity Jane í upprunalegu Death Race 2000 frá 1975. Ég nefndi við hana að ég hafði séð myndina í fyrsta sinn í heild sinni einungis nokkrum dögum fyrir ferðina. Ótrúlega skemmtilega flippuð mynd með David Carradine og Sylvester Stallone. Ég gaf henni einn Þrist og henni fannst hann góður.

Ég fór því næst yfir í söluvarningsherbergið þar sem mikið var af borðum og básum, ekki ósvipað Kolaportinu nema allt hryllingsmyndatengt. Þar hitti ég nafna minn Joseph Maddrey sem skrifaði bókina, Nightmares in Red, White and Blue: The Evolution of the American Horror Film, sem varð síðar gerð að heimildarmynd með viðtölum frá helstu hryllingsmyndaleikstjórum fyrr og síðar. Einnig vann hann með Lance Henriksen að gerð æviminningabók hans sem var kölluð, Not Bad for a Human.

Á sama borði var rithöfundurinn og bloggarinn John Kenneth Muir sem sérhæfir sig í öllu nördalegu, allt frá hryllingsmyndum til leikfanga. Ég stoppaði nokkrum sinnum við þeirra borð alla helgina og við áttum löng samtöl um hryllingsmyndir og kvikmyndagerð. Þeir elskuðu Þristana sem ég kom með og ég lofaði John að ég kæmi með meira svo sonur hans gæti fengið sér líka. Fyrir þá sem hafa áhuga, þá er John með bloggsíðu þar sem hann rýnir í bæði gamlar og nýjar hryllings-og vísindaskáldsagnamyndir. Mæli hiklaust með blogginu hans sem er: reflectionsonfilmandtelevision.blogspot.com.

Síðustu stoppin hjá mér, áður en ég fór til baka á hótelið með allt dótið mitt, voru William Katt og Richard Moll sem voru saman í myndinni House frá 1986. Ég hafði hitt þann fyrrnefnda árið 2010. Hann mundi eftir mér og ég spurði hann útí það sem hann sagði mér seinast þegar ég hitti hann. Þegar ég hitti hann fyrst kannaðist hann við hreiminn, enda átti dóttir hans íslenskan hest; það er nú önnur saga, dóttirin búin að selja hann og hefur meiri áhuga þessa dagana á að hangsa með vinkonum sínum í búðarklösum. Það var fínt að hitta hann aftur, enda var hann mjög vingjarnlegur og skemmtilegur. Þar sem ég var búinn að fá áritun hans á House DVD hulstrið á þeim tíma fór ég með það hulstur yfir á hitt borðið og lét ég félaga hans árita hinn helminginn. Það var þá sem ég rak mig á það að mynd væri ekki innifalin með árituninni, sem kom mér dálítið á óvart en engin hátíð er eins og sama má segja um stjörnurnar.
Ég færði þeim báðum sitt hvorn Þristinn áður en ég fór þaðan.

Ég ákvað að skella mér á einn klúbb sem var í anda níunda áratugarins og skemmti mér konunglega, reyndar aðeins of mikið þar sem ég varð handónýtur daginn eftir. Ég gerði lítið á laugardeginum sökum gífurlegs höfuðsverk sem ég var með allan daginn. Ég fór þó yfir á hátíðina og horfði á þriggja tíma útgáfu af Clive Barker myndinni, Nightbreed frá 1990. Þetta var svokölluð Cabal-útgáfa en það var búið að henda öllu í hana sem endaði á klippigólfinu og voru því mörg hver atriði í lélegum gæðum. Ég hafði aldrei séð þessa mynd áður en vissi vel um hana, þessi útgáfa var kannski ekki besta leiðin til að kynnast myndinni. Hún var langdregin, lokaorrustan ætlaði engan enda að taka og maður vissi varla hvað var á seyði því maður þurfti að fylgjast með svo mörgum persónum. Ég verð þó að játa að leikstjórinn góðkunni, David Cronenberg, fer á kostum í þessari mynd. Ég vildi helst að myndin væri frekar um hann en þessi skrímsli í undirheimunum, þó svo að hann væri líka skrímsli á sinn hátt. Yfir heildina litið, höfðaði þessi mynd ekki alveg til mín en sumt lofaði góðu og það var stundum stutt í húmorinn sem var plús. Eftir sýninguna fór ég strax uppá hótel og barðist við höfuðverkinn, ekki beint draumakvöldið.

Á sunnudeginum var ég eins og nýr maður, ferskur og enginn höfuðverkur. Fyrsta sem ég gerði var að fara að borðinu sem Rutger Hauer sat hjá. Ég veit ekki af hverju en ég hef dálæti á þessum leikara og ég hef ekki einu sinni séð það margar myndir með honum. Flestir hafa séð Blade Runner (1982) en sumir kannski muna eftir honum í The Hitcher (1986) og Blind Fury (1989). Hann var ein af aðalástæðum þess að ég ákvað að skella mér á þessa hátíð frekar en aðra, því ég taldi mjög sjaldgæft að sjá hann á svona hátíð. Enda var þetta hans önnur hátið sem hann hefur farið á, hann hefur verið svo upptekinn að hann hefur ekki komist á fleiri.

Ég held mjög uppá The Hitcher og tveggja diska DVD útgáfan sem ég á var alger himnasending á sínum tíma. Maður sá í fyrsta sinn hversu flott hún var, vel tekin og góð tónlist. Það er bara ekkert B-myndalegt við þessa mynd, miðað við það sem maður hélt og mundi eftir henni þegar maður sá hana á sjónvarpsstöðinni Sýn þegar maður var yngri. Þegar talað er um B-mynd er einungis vísað í hversu ódýr hún var í framleiðslu og það gefur manni ekki skýra mynd á gæðum myndarinnar. Ég sagði honum frá ást minni á þessari mynd og að ég hafði mjög gaman af honum í Blind Fury en gat ekki alveg sagt það sama um Blade Runner þar sem ég sá hana sem gutti og fannst hún alveg grútleiðinleg. Er með hana í láni og á því eftir að sjá hvort hún virkar eins leiðinleg núna þegar maður er eldri og vonandi vitrari. Hann spurði mig hvort ég hefði séð myndina Hobo with a Shotgun (2011) og ég sagði nei en það væri mynd sem ég vildi sjá; hann skemmti sér víst vel við gerð myndarinnar þrátt fyrir að leikstjórinn væri nýgræðingur og að það hafi verið langt síðan hann hafi verið í aðalhlutverki.
Puttalingurinn fékk að sjálfsögðu nokkra Þrista í veganesti.

Ég fór því næst til David Prowse, Svarthöfða sjálfan, og lét árita VHS-eintak af The Empire Strikes Back (1980)…

Ég fór því næst til David Prowse, Svarthöfða sjálfan, og lét árita VHS-eintak af The Empire Strikes Back (1980) og plakat sem ég keypti í söluvarningsherberginu sem var afmælisgjöf til eins vinar míns. Það var af Svarthöfða í Barack Obama stíl, fyrir neðan stóð „No Hope“. Hann var rólegur en var þó nokkuð áhugasamur um Ísland og spurði hvort þar væri mikil hryllings-og vísindaskáldsagnamyndamenning að finna. Ég sagði að það væri vissulega stór hópur sem hafa áhuga á svoleiðis myndum en ekki það stór að það væri þess virði fyrir einhvern að halda svona hátíð á Íslandi. Hann sagði mér að það væru nú einhverjar í hans heimalandi, Bretlandi og hvatti mig til þess að kíkja einhvern tímann þangað. Aldrei skal maður segja aldrei, þar að auki var mátturinn mikill með honum og erfitt að segja nei. Sem betur fer var mynd innifalin, enda hafði maður fengið tvær áritanir hjá honum og hann var ekki í ódýrari hópnum.

Ég stoppaði stutt við hjá Chris Sarandon sem var meðal annars í fyrstu Child’s Play (1988) myndinni um brúðuna alræmdu Chucky og upprunalegu Fright Night (1985). Ég forvitnaðist hvort hann hafði heyrt eitthvað um viðhafnarútgáfu af Fright Night sérstaklega í því ljósi að hún var nýlega endurgerð þar sem Colin Farrell tók yfir hans hlutverki. Hann kvaðst ekki hafa heyrt neitt, ég sagði að það væri synd því þetta væri góð mynd og maður mundi halda að hún yrði gefin út aftur til að græða á endurgerðinni.

Það var stutt röð hjá Angus Scrimm svo ég fór að hans borði, hann er þekktastur fyrir að vera hávaxni maðurinn í Phantasm-myndunum. Hann heyrði svo lítið í mér að hann bauð mér að sitja við hlið hans og við spjölluðum í dágóðan tíma. Hann var mjög áhugasamur um Ísland, spurði mig meðal annars hvort það væri mikið um kvikmyndagerð-og tökur á Íslandi. Ég taldi upp nokkrar myndir sem hafa verið teknar upp að hluta á Íslandi og að það væri mikil gróska og útrás í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir. Hann bauð mér að koma aftur og spjalla við hann þegar það færi að róast. Hann var meira að segja svo indæll að hann gaf mér eina mynd til viðbótar og áritaði sem var úr hans einkasafni. Algjört ljúfmenni þarna á ferðinni, mjög gaman að spjalla við hann.

Ég sá að ekkert var að gerast hjá Brad Dourif sem er þekktastur fyrir að vera rödd Chucky úr Child’s Play-myndunum. Ætlaði bara að heilsa honum þar sem ég hef ekkert sérstakt dálæti á honum. En svo heyrði ég að hann rukkaði ekkert fyrir að taka mynd með sér, þannig að ég nýtti mér auðvitað tilboðið. Ég hrósaði honum fyrir gestahlutverk í einum þætti í fyrstu seríunni af Millennium (1996-1999), sem kom frá sama höfundi og The X-Files, þar sem Lance Henriksen lék aðalhlutverkið. Honum fannst það mjög svalt að ég skuli hafa komið alla leið frá Íslandi og þakkaði mér fyrir að koma.

Maður var búinn að fá allar eiginhandaáritanir sem maður ætlaði sér og notaði tímann í að heilsa uppá fleiri stjörnur áður en ég færi með dótið mitt uppá hótel. Sá að Stephen Geoffreys var aleinn og leiddist kannski  aðeins. Ég tók mig því til, kynnti mig og sagði honum að ég hafði gaman af Fright Night og 976-EVIL (1988) sem var leikstýrð af Robert Englund, Freddy Krueger sjálfum. Hann hafði ekkert heyrt um nein plön um viðhafnarútgáfu af Fright Night og sagði mér að margir hafi spurt hann af þessu. Hann hafði ekkert nema góða hluti um Robert Englund að segja þegar hann lék í myndinni hans. Sagði mér að hann væri mjög fyndinn, þá sagði ég honum að ég hafði hitt hann áður og fengið mynd með honum þar sem hann væri að kyrkja mig. Sama saga var um 976-EVIL varðandi einhverskonar útgáfu, hvort ég spurði Englund eða Geoffreys. Þegar hann frétti að ég væri frá Íslandi gaf hann mér eina mynd að eigin vali og áritaði hana. Svo þegar ég var að tala um 976-EVIL við hann áritaði hann stórt plakat sem einhver aðdáandi hafði gefið honum og gaf mér. Það var ekki annað hægt en að gefa honum Þrist að launum. Rosa hress náungi hér á ferð, hann sagði að allt liðið úr Fright Night væri á einni hátíð á næstunni ef ég væri á ferðinni.

Ég talaði síðan við Tony Todd um myndina Enemy Territory (1987) sem var meðal fyrstu myndanna sem hann lék í. Ég var aðeins að forvitnast um leikarann Jan-Michael Vincent sem má muna fífil sinn fegurri, enda sorglegt að lesa hvað varð um hann. Tony Todd sagði mér dálítið sem aldrei var sagt frá, en ástæðan að Jan-Michael Vincent var í hjólastól í myndinni er sú að hann stóð varla í lappirnar sökum áfengisdrykkju. Það þurfti að fresta tökum útaf honum og þetta voru fyrstu kynni Tony Todds við þá staðreynd að leikaralífið á sínar skuggahliðar. En það var þó margt annað jákvætt við þessa mynd eins og að nokkrir sem léku gengjameðlimi í myndinni voru að stíga sín fyrstu spor í leiklistinni. Einn þeirra lék síðan stuttu síðar í The Cosby Show.

Ég ákvað að stoppa aftur við hjá Maddrey og Muir og keypti hjá þeim DVD mynd og bók og lét þá árita. Ég fékk meira að segja tvær bækur gefins frá Muir og hann fékk svo afganginn af Þristunum sem ég átti. Ég fór uppá hótel, skilaði dótinu af mér og snéri til baka á hátíðina. Þegar ég kom til baka kíkti ég aðeins á Angus Scrimm og spjallaði við hann, talaði um tungumál okkar Íslendinga. Síðan rölti ég með honum að borði Rutger Hauers, hann vildi heilsa uppá hann þar sem þeir voru víst saman í einum þætti af Alias (2001-2006). Ég þurfti síðan að þjóta því ég ætlaði mér að sjá sérklippta útgáfu gerða af aðdáenda The Exorcist III (1990) sem var titluð Legion og var í svipuðum tón og bókin.

Ég þurfti síðan að þjóta því ég ætlaði mér að sjá sérklippta útgáfu gerða af aðdáenda The Exorcist III (1990) sem var titluð Legion og var í svipuðum tón og bókin.

Í stórum dráttum var allt klippt út sem viðkom særingu á illum anda. Brad Dourif kom fram, talaði smá um myndina og hvað gerðist á bakvið tjöldin. Ég var aðeins of seinn og heyrði bara þegar hann var að tala um rithöfundinn og leikstjórann William Peter Blatty. Hann sagði að leikstjórinn væri skapstór en þeim hefði aldrei lent saman. Þeir unnu mjög náið saman til að ná því sem leikstjórinn var að leita eftir enda langar og krefjandi senur sem hann Dourif þurfti að leika. Ég verð að játa að þessi útgáfa var mun betri en venjulega útgáfan, því að þessi særingarsena var algjör óþarfi. Ég var smá syfjaður sem hjálpaði ekki til því myndin virkar óspennandi því þetta er meira persónustúdía en það er mikill húmor í myndinni og ég kunni vel að meta það. Síðan þegar leikar skýrast varð þetta nokkuð spennandi en þar sem þetta er sérklippt útgáfa endar hún skjótt og það á mikið betur við heldur en þessi yfirdrifna særingarsena í venjulegri útgáfunni (sem var gerð í óþökk leikstjórans).

Þeir voru með bíla til sýnis sem notaðir voru í kvikmyndum. Ég skoðaði þá reyndar ekki mjög ýtarlega né tók myndir og hreinlega missti af sumum. Frétti eftirá að Ghostbusters bíllinn hefði verið þarna, hefði pottþétt tekið mynd af honum. Síðan var Christine þarna og þetta var einn af tveimur bílum sem eru enn til sem voru notaðir við tökur á myndinni. Þessi mynd hérna er reyndar tekin í Texas árið 2010 og getur verið að þetta sé hinn bílinn en ekki sá sem ég sá núna. Sá reyndar bíl nálægt hótelinu mínu sem lítur út fyrir að vera eins týpa og gott ef maður fékk ekki smá hroll þegar maður sá bílinn. Ætli einhver Arnie Cunningham-týpa kaupi bílinn og geri hann upp á næstunni?

Eftir sýninguna var lítið að gerast og flestir að pakka eða farnir, þannig að maður fór aftur uppá hótel og slappaði af enda langur dagur framundan. Flaug mánudagsmorguninn til New York og þurfti að bíða fram á kvöld eftir fluginu til Íslands. Sem betur fer keypti ég bókina, Horror Films of the 1990’s, af honum John til þess að stytta mér stundirnar á flugvöllunum og í flugvélunum. Þetta var ágætisferð þrátt fyrir það að einn dagur hafi flogið dálítið útum gluggann.

Smelltu hér til að skoða myndirnar í betri upplausn.

Athugið að myndirnar eru ekki allar frá Mad Monster Party 2012.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Fór á Mad Monster Party og hitti John Russo, Tony Todd og fleiri

Skildu eftir svar

Efst upp ↑