Bækur og blöð

Birt þann 7. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Fötin skapa hetjuna

Já, fötin skapa svo sannarlega hetjuna. Það mætti jafnvel segja að búningurinn sé það mikilvægasta í fari hetjunnar – manneskja sem hefur aldrei lesið myndasögur eða horft á kvikmyndir þekkir þó til að mynda búning Superman. Það sama má segja um Batman, Spider-Man, og ótalmargar ofurhetjur, en jafnvel goðsagnakenndustu ofurhetjurnar eru ekki óhultar þegar kemur að breytingum.

Hvort sem það eru vel heppnaðar uppfærslur eða misheppnaðar yfirhalningar þurfa ofurhetjur reglulega að ganga í gegnum breytingar á búningum sínum, en hér fyrir neðan getið þið séð þá búninga sem….tjah, lesið áfram.

 

SUPERMAN

Maður hefði haldið að fyrsta, stærsta og vinsælasta ofurhetja allra tíma myndi sleppa við krónískt fikt myndasögumanna. En árið 1998 hófst hin svokallaða „Superman Blue/Superman Red“ saga, sem flestir aðdáendur myndasögunnar hafa reynt að gleyma síðan. Fyrir þá sem ekki vita notast Superman við sólarorku til að framkvæma öll þau kraftaverk sem eru honum daglegt brauð. Í Red/Blue sögunni tæmir hann hinsvegar rafhlöðuna, ef svo má að orði komast, og er framhaldið vísindin uppmáluð.

Hann klofnar í tvö minni Ofurmenni sem búa yfir rafmagnskröftum. Supermennirnir tveir eru sitthvor persónuleikinn og reyna þeir báðir að halda störfum Superman áfram á sinn einstaka hátt. Sömuleiðis berjast þeir um ást fréttakonunnar Lois Lane, sem veit ekkert frekar en lesandinn hvað gerðist, og nákvæmlega hverjum þótti þetta góð hugmynd. Sem betur fer entist þessi breyting ekki lengi og áður en langt um leið var sá Superman sem við þekkjum öll kominn aftur, og ákváðu allir að gleyma árinu sem Ofurmanninum var bókstaflega klúðrað í tvennt.

 

THOR

Þrumuguðinn Þór hefur ávallt verið ein stærsta ofurhetja Marvel-manna. Hann er stór, sterkur og tignarlegur líkt og norrænum guði sæmir, en hann hefur ekki alltaf verið rétt klæddur fyrir hlutverkið. Fyrir fáeinum árum síðan fékk þrumuguðinn yfirhalningu og kom kappinn svo vel út úr henni að kvikmyndin Thor sótti innblástur í þá hönnun. En rúmlega 10 árum áður hafði listamaðurinn Mike Deodato reynt að setja sinn stimpil á persónuna, sem flestir eru sammála um að hafi…..mistekist.

Það gæti verið vitleysa í mér, en þegar ég ímynda mér hinn tignarlega Þór er magabolur ekki það fyrsta sem mér dettur í hug. Um allan búninginn eru ólar sem gefa helst til kynna einhvers konar blæti sem ekki á heima í myndasögum, hárið lætur svo Þór gamla líta út fyrir að hafa reynt að hreppa aðalhlutverkið í Tangled. Rétt eins og í Eddu-kvæðum snýr hamarinn Mjölnir ávallt aftur í hendur Þórs, sem gerir þessa líka vígalegu keðju sem hamarinn er fastur í ansi tilgangslausa.

Sem betur fer voru Marvel-liðar fljótir að átta sig á mistökunum, en það hefði gert hina væntanlegu kvikmynd The Avengers ansi skrautlega ef Þór hefði haldið sig við þennan fatafellubúning.

 

BATMAN

Leðurblökumaðurinn hefur gengið í gegnum ýmislegt í gegnum árin, en einn átakanlegasti viðburður í lífi Bruce gamla Wayne var í Knightfall-seríunni margrómuðu. Sagan, sem sögð var frá árunum 1992-1994, kynnti til leiks hinn óstöðvandi Bane, sem leikarinn Tom Hardy mun túlka í væntanlegri kvikmynd The Dark Knight Rises. Bane var ekki lengi að stimpla sig sem einn helsta óvin Leðurblökumannsins, en hann var fljótur að átta sig á að verndari Gotham væri sjálfur Bruce Wayne. Þegar þeir loks mættust fór sá bardagi ekki betur en svo að Bane braut bakið á Batman. Hófst þá leit Leðurblökumannsins að einstaklingi sem gæti tekið við störfum sínum þar til hann næði fullum bata.

Hinn ungi Jean-Paul Valley tók að sér hlutverkið, en ákvað að dökkur búningur Batman væri ekki alveg það sem þyrfti til að spranga um þök Gotham-borgar um miðja nótt.

Betra væri að líta út eins og eitthvað úr Transformers myndunum. Búningurinn þótti allsvakalega hipp og kúl á sínum tíma. Allavega á skrifstofum DC Comics. Um leið og Bruce Wayne var klár í slaginn vippaði hann sér í klassíska búninginn og lokaði á Jean Paul, sem hafði gerst heldur morðóðari en góðum Leðurblökumanni sæmir.

 

WOLVERINE

Frá því að Hugh Jackman lék Wolverine fyrst í X-Men árið 2000 varð hann ein vinsælasta ofurhetja heims. Ekki skrítið, enda eitursvalur náungi þar á ferð. Hann hefur lengi verið sami nagli í myndasögunum, einn sá allra svalasti, en rétt eins og hinar persónurnar á þessum lista gekk hann í gegnum hálf vandræðalegt skeið sem flestir vilja gleyma.

Á meðan á einum af fjölmörgum bardögum X-Mannanna stóð yfir við erkióvin sinn Magneto ákvað Wolverine að ráðast beint að hryðjuverkamanninum stökkbreytta. Fyrir þá sem ekki kannast við þessar persónur getur Magneto stjórnað öllum málmi. Beinagrind Wolverine er úr málmi. Svolítið eins og að ráðast á bíl með dósaopnara.

Það fór ekki betur en svo að Magneto reif stálið utan af beinum Wolverine. Líkami Wolverine fór algerlega fram úr sjálfum sér við að reyna að bæta skaðann, en í kjölfarið missti hetjan meirihluta persónuleika síns og varð enn villtari. Eftir allt þetta gerði Wolverine það eina sem var í stöðunni.

Hann litaði hárið á sér grænt og gerðist sjóræningi. Marvel-köppum þótti þetta snilldin ein en aðdáendum Wolverine var ekki skemmt. Marvel sprautuðu Wolverine fullan af sama gamla málminum, Adamantium, hið snarasta og hafa ekki litið í baksýnisspegilinn síðan þá. Ég held að flestir séu sáttir með það.

 

Eins og þið sáuð eru breytingar ekki alltaf af hinu góða, þó vissulega séu til þeir búningar sem hlutu góðs af smá fikti. Þar má helst nefna Nightwing, fyrrum Robin. Eftir að hafa rifist harkalega við læriföður sinn flytur Richard Grayson frá Gotham til Bludhaven og gerist Nightwing, verndari borgarinnar. Þrátt fyrir vera ein vinsælasta hetja DC Comics tók það Nightwing nokkur ár að koma sér í réttan búning, og sannaði í leiðinni að sumar búningabreytingar eru ekki slæmar.

 

Í næstu viku höldum við ótrauð áfram í heimi ofurhetja, en ef þið viljið sjá tiltekna persónu eða efni tekið fyrir hvetjum við ykkur til að senda okkur póst á nordnordursins(at)gmail.com.

Bjarki D. Svanþórsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑