Birt þann 19. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Minnisaðferðir – Stiklað á stóru
Minnistækni er eitthvað sem allir nota í daglegu lífi. Vandamálið er að aðferðin byggist nær alltaf á endurtekningu hluta og hún er ekki áræðanleg („páfagaukatæknin“). Það eru aðrar betri minnisaðferðir til (þó að endurtekning spili að sjálfsögðu alltaf stóra rullu) þannig að hægt er að kalla fram hluti fljótt, áræðanlega og í réttri röð.
Minnistækni (mnemonic) er ekki þekkt fyrirbæri og „bættu minnið á 5 tímum“ lendir einhver staðar á milli „stækkaðu vininn á 10 dögum“ og „misstu 5 kíló á sólarhring“. En hlutirnir hafa breyst og minnistækni er farin að koma oftar fram í fjölmiðlum sem áræðanlegt tól. Breski skemmtikrafturinn Derren Brown notar minnistækni t.d. mikið, aðalhetja sjónvarpsþáttanna The Mentalist notar hana og nýlega í bresku Sherlock þáttunum fór hann í Minnishöll sína („Memory Palace“) til að leysa ákveðið mál (aðferð sem til er í alvörunni og allir geta tileinkað sér með undirbúningi og tíma). Sumir þekkja líka stjórnmálamennina sem muna nöfn allra eða gaurinn í spurningakeppninni sem man höfuðborgir allra landa. Þeir nota einhverja tegund minnisaðferða.
Sherlock Holmes heimsækir Minnishöllina
Að mínu mati ættu allir að læra eitthvað um minnisaðferðir sem eru tiltölulega fljótlegar að tileinka sér og margborga sig. Mér finnst slæmt að þessar aðferðir séu ekki kenndar í skólum, ég veit núna að mér hefði gengið mun betur ef ég hefði ekki notast við hinn hefðbundna páfagaukalærdóm rétt fyrir próf. Þetta er skrýtið þegar maður hugsar út í það, nemendur fá fullt af upplýsingum og það er ætlast til þess að þeir lími þær allar í hausinn á sér án þess að vera kennt hvernig.
Auðvitað er munur á fólki, sumir hafa lítið fyrir þessu og aðrir ekki. Ég gleymi t.d. öllum andskotanum ef ég passa mig ekki. Minnistækni ein og sér er ekki nóg, maður þarf að hafa kveikt á athyglinni og það kemur bara með því að venja sig á að…vera athugull. En þetta er nóg blaður, vindum okkur í aðferðirnar og þið getið metið sjálf hversu mikilvægt þetta er ykkur.
Ímyndunaraflið
Ímyndunaraflið er mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að nota minnisaðferðir og þar höfum við nördarnir forskot því við elskum að nota það; við elskum að flýja raunveruleikann og staldra við í öðrum heimum. Nú nýtast allar þessar nætur sem við sátum sveitt yfir AD&D og hámuðum í okkur Doritos og svolgruðum Dr. Pepper á meðan við tókum ákvarðanir um hvort við ættum að nota Boga hins Himneska friðar úr fjarlægð eða ráðast í orkahópinn með Sverði hinnar Rauðu Eyðileggingar að vopni (bónus fyrir óvænta árás). Þar að auki kemur það sér mjög vel ef við þekkjum ímyndaða heiminn og getum komist frá A til Z.
Nú nýtast allar þessar nætur sem við sátum sveitt yfir AD&D og hámuðum í okkur Doritos og svolgruðum Dr. Pepper á meðan við tókum ákvarðanir um hvort við ættum að nota Boga hins Himneska friðar úr fjarlægð eða ráðast í orkahópinn með Sverði hinnar Rauðu Eyðileggingar að vopni…
Tíu hlutir
Klassíska kynningin inn í þessa aðferðafræði er að muna 10 hluti og allir geta gert þetta nokkuð auðveldlega. Þessi grunnur þróast svo í að geta fest spilastokk á minnið (eða spilastokka, heimsmetið eru 59 stokkar = 3068 spil), lotukerfið, höfuðborgir, Óskarsverðlaunamyndir hvers árs eða hvað sem þér dettur í hug. En byrjum á byrjuninni.
Leggjum innkaupalista á minnið. Fyrir suma eru tölur eins og gamlir kunningjar, þeim dugir að sjá tölurnar einu sinni til að framkalla þær í skammtímaminninu lengi á eftir. Ekki er svo með mig, því hentar þessi aðferð að hlutgera tölurnar einkar vel, takið eftir að hluturinn tekur mið af útliti tölunnar sjálfrar:
- 0 = bolti, hjól, sólin
- 1 = ljósastaur, blýantur, ör
- 2 = svanur, slanga
- 3 = Scarlett Johanssen, handjárn
- 4 = seglbátur, fáni
- 5 = gardínukrækja, sláttuvél
- 6 = fíll (fílsrani), golfkylfa
- 7 = stökkbretti í sundi
- 8 = snjókall, gleraugu
- 9 = einglyrni, blaðra með bandi, karfa
Þetta eru algengustu orðin sem fólk notar en hugmyndin er að finna eitthvað sem form talnanna minnir þig á, það skiptir máli að grípa það sem þér dettur í hug strax því þá er líklegt að þér detti sami hlutur í hug næst.
Kíkjum á innkaupalistann:
- 1 ) Flatkökur
- 2 ) Bananar
- 3 ) Eplasafi
- 4 ) Kartöflur
- 5 ) Poppmaís
- 6 ) Mjólk
- 7 ) Kjúklingur
- 8 ) Ostur
- 9 ) Rafhlöður
- 10 ) Marssúkkulaði
Nú gildir bara að loka augunum og láta ímyndunaraflið taka við þegar þið rennið í gegnum formin fyrir 1-10 (0 tekur stað 10) og tengið innkaupalistann við. Því brjálæðislegri sem ímyndin er, því auðveldara er að muna hlutina.
Prófum þetta:
- 1) Ljósastaur en í stað ljósgeisla þá rignir flatkökum yfir allt og alla (1 = ljósastaur)
- 2) Hópur af dauðum svönum sem köfnuðu þegar þeir reyndu að borða banana, enginn tók hýðið af fyrir þá (2 = svanur)
- 3) Scarlett tekur þátt í blautbolakeppni en í stað vatns er notaður eplasafi (3 = Scarlett)
- 4) Mr. Potato Head siglir um með sjóræningjahatt (4 = bátur)
Þannig virkar þetta. Ef maður gefur sér nokkrar mínútur í að byggja upp ímyndir að eigin vali í huganum festast þær í skammtímaminninu og hægt er að henda innkaupalistanum. Næst þegar þú vilt leggja innkaupalista á minnið eða hvað sem er (auðvitað halda flestir áfram að skrifa innkaupalista á blað nema þeir vilji æfa sig, þetta er bara til að sýna möguleikana) þá ætti fyrri listi að vera dottinn úr skammtímaminninu, þetta virkar eins og minnisblað heilans sem strokast út. Ef einhver velur af einhverjum ástæðum að leggja þetta í langtímaminnið þarf bara að fara í gegnum þennan innkaupalista í huganum af og til.
Kíkjum núna á Leiðartæknina („method of loci“) fyrir sama innkaupalista. Þetta er aðferðin sem ég myndi nota og hún er ómissandi þegar það kemur að minnistækni eins og við sjáum síðar:
Leiðartæknin
Við þekkjum öll margar leiðir; leiðina í skólann, leiðina í vinnuna, leiðina í gegnum heimilið o.s.frv. Það er hægt að skipta leiðum upp í einingar og það sem mikilvægast er að við munum alltaf leiðir sem við förum reglulega, þær eru fastar í langtímaminninu. Þannig eru viðkomustaðir leiða nokkurs konar óskrifaðir límmiðar, við þurfum bara að fylla þá út.
Tökum sem dæmi hefðbundið heimili (heimili þitt er væntanlega öðruvísi); þú vaknar í svefnherberginu (herbergi 1), ferð fram á gang (herbergi 2), inn á bað (herbergi 3), kíkir í herbergi 4, ferð í stofuna (herbergi 5), inn í eldhús (herbergi 6) og svo í þvottahúsið (herbergi 7), kíkir út á svalir (herbergi 8), ferð í skóna í anddyrinu (herbergi 9) og tékkar á póstinum (herbergi 10) áður en þú ferð út.
Svo lengi sem það er ákveðin rökrétt leið í gegnum heimili þitt (einfaldast að byrja eins og þú sért að vakna) þá er þetta föst rútína með föstum punktum. Núna ertu með akkeri sem þú getur fest alla mögulega hluti á sem þú þarft að muna:
Ef við tökum innkaupalistann aftur sem dæmi geturðu notað þessa leið til að muna hann með ímyndunaraflinu, dæmi:
- 1) Þú vaknar upp við að rúmið er þakið í flatkökum og sérð Jóhannes úr Bónus hlaupa hlæjandi í burt með hjólbörur.
- 2) Þú eltir hann fram á gang en dettur á bananahýði. Þú heyrir hlátrasköll rétt eins og þú sért Joey í Friends og áhorfendur séu að hlæja.
- 3) Þú bölvar og ferð inn á bað þar sem eplatré vex á miðju gólfi og hindrar aðgang að klósettinu svo að þú þarft exi.
Og svo framvegis.
Þetta er nákvæmlega það sem keppendur í minnismótum nota til að leggja t.d. spilastokka á minnið. Munurinn er bara að leiðirnar eru lengri. Þeir þekkja margar leiðir sem þeir hafa skipt upp í 52 punkta. Hjá mér er ein leiðin sú sem ég hjólaði í vinnuna þegar ég var í Danmörku. Þú hjólar fram hjá búðum, ruslatunnum, gegnum hlið, yfir götu, framhjá pylsuvagni, allt eru þetta punktar sem eru fastir í langtímaminninu.
En hvað gerum við þegar punktarnir eru fleiri en 10? Hvaða notum við fyrir 11? 36? 78? Við komum að því næst.
Dominic kerfið
Við höfum tekið fyrir tvenns konar aðferðir við að muna tölur milli 0 og 10 en núna þurfum við kerfi fyrir tölur frá 00 – 99. Seinna getum við tengt þessar tvær tölur saman við fleiri o.s.frv. til að muna talnarunur eins og símanúmer og kennitölu. Þessi aðferð var þróuð af Dominic O’Brien sem er einn af frumkvöðlum nútíma minnisaðferða.
Michael Jordan, númer 23
Aðferðin krefst undirbúnings, opnið Excel og búið til raðir frá 00 – 99. Við hverja tölu þá setjið þið einhverja manneskju (yfirleitt þekktar persónur) sem talan minnir okkur strax á. Fyrir mig sem körfuboltaáhugamann er ég fljótur að setja Michael Jordan við 23, Dennis Rodman við 91 og Magic Johnson við 32 (ekki fleiri körfuboltakappa annars verður þetta of einhæft). Einnig get ég t.d. sett minn uppáhalds James Bond leikara við 07 og JFK við 63 (árið sem hann dó).
Þetta er þó ekki hægt fyrir allar tölurnar, það er ekki hægt að setja ákveðna persónu við hverja tölu ef bara tölurnar eru notaðar. Þess vegna þarf að breyta tölunum í stafi og þannig er hægt að nota upphafsstafi eða tveggja talna skammstöfun til að tengja við töluna.
Þetta er hefðbundna aðferðin:
- 1 = A (rökrétt, fyrsti stafurinn í stafrófinu)
- 2 = B (sumir nota B fyrir 8 )
- 3 = C (sumir aðlaga þetta að sínu eigin tungumáli og þá væri D hér en ég þekki bara svo marga fræga sem hafa stafinn C)
- 4 = D
- 5 = E
- 6 = S (hérna breyti ég til og fylgi ráði O’Brien, S er líkt 6 og 6 byrjar á S, þetta passar vel saman)
- 7 = G (aftur stafrófsröð)
- 8 = H
- 9 = N (N er algengur stafur 9 byrjar á N)
- 0 = O (að sjálfsögðu)
Jæja, nú er hægt að fylla út töfluna frá 00 – 99 en það þarf að gera eitt til viðbótar; persónan þarf að gera eitthvað, ég skýri af hverju það er nauðsynlegt fljótlega.
Hérna eru nokkrar tillögur sem eru nördavænar:
- 22 = BB = Bilbo Baggins (að setja á sig hringinn og verður ósýnilegur)
- 41 = DA = Dan Ackroyd að nota Ghostbusters byssuna sína („Proton Pack“)
- 56 = ES = Edward Scissorhands að snyrta limgerði, búa til styttur úr því.
- 77 = GG = Gandalf the Grey (lemur niður stafnum: „Thou shall not pass!“)
- 86 = HS = Han Solo (skjótandi með „blaster“)
Sumt er ekki auðvelt og þá verður maður að reyna nota það sem manni dettur fyrst í hug og byggja á því. NG = 97 minnti mig alltaf á eNerGy og ég þurfti eitthvað energískt og hvað er þá betra en Íþróttaálfurinn að gera svona splitthopp? Það virkaði fyrir mig. Svo borgar sig að hafa eftirminnilegar persónur, fyrst notaði ég alltaf Goldie Hawn fyrir 78 en var alltaf að gleyma henni þegar ég þurfti að nota 78 vegna þess að ég náði ekki nógu eftirminnilegri „minningu“. Eftir að ég breytti GH í Golden Harvest (framleiðandi kínverskra bardagamynda í gamla daga) sem minnti mig á Bruce Lee þá var ég fljótari að kalla fram 78.
Núna getum við tengd saman tvær tölur með atgerð persónanna dæmi:
2277 = Bilbo Baggins lemur niður stafnum og öskrar „Thou shall not pass!“ eða 5686 þar sem Edward lendir í skotbardaga á móti stormtroppers og á í stökustu vandræðum með að handleika blasterinn. Svo er hægt að tengja tvær tölur við staka (útlit tölu) og fá þá t.d.út BÓ (20) sem lendir undir fíl (6) og öll bein brotna en 206 er fjöldi beina í líkamanum.
Það tekur nokkrar kvöldstundir að festa þetta í minninu en þegar það er komið er auðvelt að muna talnarunur, bæði til skamms tíma og með því að endurtaka endrum og eins í huganum, til langs tíma.
Þegar maður er búinn að festa tölurnar 00 – 99 í langtímaminninu eru flestar leiðir færar. Það að geta sagt til um vikudag fyrir ákveðna dagsetningu er ekki lengur aðeins á valdi savant eins og Kim Peek sem var hugmyndin að söguhetju Rain Man. Með því að setja persónurnar okkar 100 í 7 herbergi og festa í langtímaminninu erum við á góðri leið með að geta gert það líka með smá hugarreikningi. Þá getum við fljótlega reiknað út í huganum hvaða vikudag við fæddumst, það að innrásin í Normandí 1944 var á þriðjudegi o.s.frv.
Einnig er hægt að þjálfa sig í að leggja spilastokk á minnið, eins og áður sagði, með því að nota 52 punkta með aðstoð talnaparanna (við þurfum nýjar persónur fyrir mannspilin samt). Of langur tími fer í að lýsa þessum aðferðum nánar í svona grein enda eru margar bækur til sem gera það mun betur en ég gæti gert og ég vísa í heimildarlistann að neðan. En möguleikarnir eru margir.
Ég ætla samt rétt að fara yfir tvennt; tungumál og höfuðborgir sem er aðeins einfaldara. Þar er aðalatriðið að mynda tengingu sem hægt er að grípa í þangað til að nafnið festist í langtímaminninu. Við notum ímyndunaraflið og látum landið eða orðið á íslensku leiða okkur áfram.
Skoðum höfuðborgir fyrst:
Höfuðborgir
Georgía = Tbilisi; þetta er erfitt, það er tímafrekt að ná að festa þetta í minninu með hefðbundinni páfagaukaaðferð, við þurfum einhvern sjónrænan krók. Ég veit ég lítið sem ekkert um Georgíu og því vel ég að tengja Georg Bjarnfreðarson við landið. Tbilisi þýðir ekkert fyrir okkur en ef við látum Georg borða T-bone steik þá erum við komin með byrjunina. Setjum hann í bíl, að borða T-bone steik og svolgra í sig lýsi þá erum við komin með þetta. Þetta virkar eins og of mikil vinna en heilinn er mjög fljótur að framkalla þetta og með æfingu verður hann jafnvel fljótari. Svo þegar þetta er komið í langtímaminnið þarf ekki lengur þessa skrýtnu ímyndun, nafnið kemur strax.
Ég veit ég lítið sem ekkert um Georgíu og því vel ég að tengja Georg Bjarnfreðarson við landið. Tbilisi þýðir ekkert fyrir okkur en ef við látum Georg borða T-bone steik þá erum við komin með byrjunina.
Angola = Luanda; einfaldara, orðið Angola minnir mig á sæta Angórukanínu sem er sofandi (Lú(r)andi). Afgreitt.
Honduras = Tegucigalpa; annað erfitt. Ég ímynda mér E. Honda úr Street Fighter leikjunum. Hann er að drekka Te í Jacuzzi semsagt Te-cuzzi. Ímyndunin sem við byggjum okkur þarf ekki að stafa hlutinn rétt, hún er bara til að beina okkur á rétta braut. Setja E.Honda í Te-cuzzíinu sínu upp á snæviþakta Alpana og erum við komin með þetta.
Tungumál
Flest okkar hafa nokkuð góða minningu af stórri borg eða stórum bæ með mörgum stöðum . Það skiptir í raun ekki máli hvort að þið munið nákvæmlega hvern einasta krók og kima, þið þekkið nógu vel til borgarinnar/bæjarins til að það þjóni tilganginum. Þetta nýtum við okkur.
Í öðru lagi þarf að skipta borginni upp í tvo eða þrjá hluta til að auðvelda orða röðuninni í borgina eftir kyni orðanna (karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn). Ef það er á eða eitthvað annað sem skiptir borginni upp hentar það mjög vel. Það er hentugt að setja lýsingarorðin á sama stað t.d. stórverslun, sagnorðin á annað stað eins og íþróttahöll, liti á annan stað og svo fram eftir götunum.
Tökum spænsku og Kaupmannahöfn sem dæmi. Ég nota tívolíið fyrir lýsingarorð, þar er nóg af hlutum og litríkt umhverfi, eitt dæmi:
Sabroso = bragðgóður. „Saber-toothed tiger“ er mjög eftirminnileg ímynd. Oft er nóg að hafa bara 3 fyrstu stafina (sab) og restin kemur fljótlega að sjálfu sér. Semsagt þegar við þurfum að ná í spænska orðið fyrir bragðgott förum við á veitingastað í tívolíinu (lýsingarorð) og sjáum fyrir okkur Stórtennta tígrisdýrið japla á túristum og því finnst þeir bragðgóðir.
Sumir nota ekki borgir eða bæi og stóla eingöngu á orðin. Eins og t.d. la maleta (ferðataska) væri taska með bleikri mallet (tréhamar á ensku). Bleiki liturinn er til að muna kynið (sorrí en í minnisaðferðum þarf að nota stereótýpur, við munum þær).
Niðurlag
Minnið er eins og vöðvi, það borgar sig að þjálfa það, sérstaklega þegar maður eldist. Það að halda sér hraustum, borða hollt fæði og allar þær klisjur virka mjög vel en líka það að hreinlega einbeita sér að því að vera athugull. Góð minnistækni er samt stór hluti, hjá sumum er þetta náttúrulegt, þeir hafa ekkert fyrir því að festa hluti í minninu en þeir muna hluti af því að þeir vilja það. Alltof margir bera fyrir sig slæmt minni þegar ástæðan er einfaldlega sú að þeir gera nákvæmlega ekkert til þess að muna hlutinn.
Að endingu vil ég benda á síðuna memrise.com sem er þróuð af minnissérfræðingum. Sú síða er aðallega til að kenna tungumál með minnisaðferðum sem notendur sjálfir geta sent inn tillögur að. Þú bætir smám saman við orðaforðann og styrkir orðin sem eru myndgerð sem blóm. Þú vökvar blómin og þau færast frá gróðurhúsinu (skammtímaminni) yfir í garðinn (langtímaminni), sniðugt ekki satt? Mæli sterklega með þessari síðu sem blandar saman stigaleik og minnistækni.
Heimildir:
How to Develop a Perfect Memory – Dominic O’Brien (1993)
Memo. Einfalda leiðin til að öðlast betra minni – Oddbjörn By (2007)
Forsíðumynd:
Wikimedia Commons