Bækur og blöð

Birt þann 1. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Bókarýni: Warm Bodies

Eitt af því helsta sem mig langar að koma á framfæri í þessari gagnrýni er að þetta er ekki „nýja Twilight“, þetta er ekki rómantík á sama hátt og Twilight telur sig vera rómantík þar sem efnið, persónurnar og skrifin eru gjörólík og mun þroskaðri en sú sería.

Warm Bodies fjallar um uppvakninginn R sem eyðir deginum eins og aðrir uppvakningar; gangandi um, leitandi að næringu í þeim lifandi og vafra stefnulaust um í dapurlegri tilveru. Þó er munur á þessum uppvakningum og þeim sem við þekkjum úr bíómyndum þar sem þeir sækjast eftir heilum til að upplifa lífsneista fórnarlamba sinna og fortíðarskugga þeirra. Í einni ránsferð sinni nærist R þó á heila úr kærasta stelpu að nafni Julie og eitthvað nýtt vaknar innra með honum, hann bjargar henni frá því að vera étin af hinum uppvakningunum og tekur hana með sér í híbýli sitt þar sem hún uppgötvar að R er gjörólíkur þeim staðalímyndum uppvakninga sem hún kannast við.

Þetta er ljúfsár og vel sögð saga sem færir okkur eftirminnilegar persónur, þroskaða heimsspeki og samfélagslega gagnrýni.

Já þetta er yfirnáttúruleg rómantík, já þetta hljómar kjánalega, og já þetta er frekar væmið. En Warm Bodies tekst að skera sig úr hópi bóka af þessu tagi með því að veita okkur ferskt sjónarhorn á þetta þreytta efni og er laus við mellódramað sem yfirnáttúrulegar unglingabækur eru þekktar fyrir þessa dagana. Þetta er ljúfsár og vel sögð saga sem færir okkur eftirminnilegar persónur, þroskaða heimsspeki og samfélagslega gagnrýni.

Rómatíkin í sögunni er að mestu leyti einhliða, frá sjónarhorni uppvakningsins og vekur upp nýjar spurningar varðandi rómantík og hvernig má skilgreina hana. Ástæður fyrir aðlöguninni eru í raun frekar hrollvekjandi ef maður pælir í því og persónulegar, sem færa sögupersónu okkar mjög sérstæð vandamál og ný sjónarhorn á hugtakið. Hliðar Julie á málinu virðast jafnvel byggðar á persónugöllum hennar, brenglaðri heimssýn og fjölskylduvandamálum frekar en aðlögun. Sagan fer ekki algjörlega þær leiðir sem maður býst við og í raun er það undir lesandanum komið hvernig hann túlkar rómantíkina, sem er í raun ein besta leiðin sem höfundurinn gat valið fyrir efnið.

R er lang eftirminnilegasti uppvakningur síðan Bub í kvikmyndinni Day of the Dead og tekst að fara langt fram úr væntingum um hversu mikið er hægt að sýna holdétandi, dauðri manneskju mikla samúð og tengjast henni.

R er lang eftirminnilegasti uppvakningur síðan Bub í kvikmyndinni Day of the Dead og tekst að fara langt fram úr væntingum um hversu mikið er hægt að sýna holdétandi, dauðri manneskju mikla samúð og tengjast henni. R gefur einnig helvíti gott sjónarhorn inn í brenglaða uppvakningamenningu – ath að uppvakningarnir eru hér í hinum sígilda skilning – og minnir sjónarhorn R í sundurtættri tilveru og ofbeldisfullri menningu á sjónarhorn Cujo í samnefndri sögu eftir Stephen King.

Hugmyndin er mjög kjánaleg og þjáist að hluta til af stefnuleysi – sagan tefst einnig í miðkafla bókarinnar og flýtir sér of mikið í lokin. En allt þetta eru einungis smávægilegir gallar sem frásögn, skopskyn, persónur, heimsspeki og villt hugmyndaflæði höfundarins bæta margfalt fyrir. Isaac Marion, höfundur bókarinnar, kann sitt fag og verður gaman að fylgjast með framtíðarverkum hans – hann hefur klárlega metnaðinn og ferska sjónarhornið sem einkennir efnilegan nýja höfunda. Hvernig hann skoðar persónur sínar í tilfinningalegu og sálfræðilegu ljósi er mjög aðdáunarvert og tekst honum að forðast mjög alvarlegar grifjur í þeirri deild sem margir nýjir rithöfundar falla í.

Ekki láta þessa fram hjá þér fara, þrátt fyrir að efnið hljómi lummulega. Bókin kemur skemmtilega á óvart og er mjög auðmelt.

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to Bókarýni: Warm Bodies

Skildu eftir svar

Efst upp ↑