Fréttir

Birt þann 25. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fyrsti íslenski verðmiðinn kominn á Xbox Series X – 100% dýrari en erlendis

Gamestöðin fékk þrjár Xbox Series X leikjatölvur í dag og var þar með fyrsta og eina íslenska verslunin sem hefur boðið upp á sölu á nýjustu leikjatölvunni frá Microsoft. Verðmiðinn kom mörgum á óvart en tölvan hjá þeim kostaði 159.999 kr., samkvæmt Facebook-færslu Gamestöðvarinnar sem hefur nú verið eytt.

Almennt verð á tölvunni erlendis er 499 Bandaríkjadalir, 449 bresk pund eða 499 Evrur, eftir því hvar tölvan er keypt. Á núverandi gengi myndi það gera á bilinu 61.000 til 81.000 íslenskar krónur. Það væri því hægt að kaupa tvær Xbox Series X leikjatölvur erlendis fyrir sama verð og ein kostar hérlendis. Í september skutum við nördarnir á að tölvan myndi kosta í kringum 80-100 þúsund á Íslandi.

Uppgefin útskýring á verðinu er sú að Gamestöðin keypti tölvurnar á yfirverði af þriðja aðila og auk þess bætist við flutningur, aðflutningsgjöld og vaskur. Með þessu hafi mikill aukakostnaður lagst á verðið á tölvunni.

Mikil umræða hefur skapast í kringum þennan óvenju háa verðmiða á samfélagsmiðlum þar sem margir gagnrýna verðið. Uppgefin útskýring á verðinu er sú að Gamestöðin keypti tölvurnar á yfirverði af þriðja aðila og auk þess bætist við flutningur, aðflutningsgjöld og vaskur. Með þessu hafi mikill aukakostnaður lagst á verðið á tölvunni. Þess má geta að aðeins þrjár tölvur voru í boði og eru þær allar seldar.

Verðið á Xbox Series X mun vonandi lækka með tímanum en íslenskar verslanir gera ekki ráð fyrir því að geta boðið upp á vöruna fyrr en á næsta ári.

Uppfært 26. nóvember kl. 12:20: Samkvæmt okkar heimildum er 159.999 kr. ekki almennt verð á tölvunni. Við heyrðum í Hallbirni hjá Gamestöðinni sem staðfestir það. Lestu svar Hallbjarnar í heild sinni hér.

Mynd: Xbox Series X og Wikimedia Commons

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑