Birt þann 26. október, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Hugleiðingar um níundu kynslóð leikjatölva
Ný kynslóð leikjatölva marka ávallt ákveðin tímamót í sögu tölvuleikja og leikjatölva. Með nýrri kynslóð er nýr tölvubúnaður kynntur til sögunnar sem mun geta keyrt tölvuleiki framtíðarinnar, eða a.m.k. nýjustu leikina næstu sex til tíu árin.
Forpantanir á tölvunum fóru gríðarlega vel af stað um allan heim og seldust til að mynda öll eintök af PlayStation 5 leikjatölvunni upp í forpöntun hér á landi á aðeins örfáum klukkustundum.
Með útgáfu PlayStation 5 leikjatölvunnar frá Sony og Xbox Series X og S frá Microsoft núna í nóvember verður níunda kynslóð leikjatölva í fyrsta sinn aðgengileg almenningi. Forpantanir á tölvunum fóru gríðarlega vel af stað um allan heim og seldust til að mynda öll eintök af PlayStation 5 leikjatölvunni upp í forpöntun hér á landi á aðeins örfáum klukkustundum. Xbox leikjatölvurnar njóta mikilla vinsælda víða en staða Xbox hérlendis er aftur á móti heldur döpur. Forsala á Xbox er ekki enn hafin og eru eintök af tölvunni ekki væntanleg til landsins fyrr en einhverntímann eftir áramót. Telja má upp nokkrar ástæður fyrir þessari slæmu stöðu. Ber þar helst að nefna að enginn er með umboðið fyrir Xbox hér á landi á meðan Sena, umboðsaðili PlayStation á Íslandi, hefur verið að sinna sínum markaði vel.
Deyjandi drif í stafrænni framtíð
Það sem þykir nokkuð óvenjulegt við útgáfu níundu kynslóð leikjatölva frá Sony og Microsoft er að bæði fyrirtækin munu bjóða upp á tvær mismunandi útgáfur af leikjatölvunum sínum strax á útgáfudegi. Sony mun bjóða upp á PlayStation 5 með diskadrifi og PlayStation 5 án diskadrifs. Báðar tölvurnar eru jafn kraftmiklar og er eini munurinn diskadrifið sem getur spilað Ultra HD Blu-ray diska. Microsoft verður einnig með tvær útgáfur í boði. Xbox Series X, sem er móðurskipið þeirra og helsti keppinautur PlayStation 5 leikjatölvunnar, en auk þess verður í boði að kaupa Xbox Series S sem er ódýrari, nettari, aðeins kraftminni og án diskadrifs.
Valið hefur því sjaldan verið flóknara þar sem fjórar mismunandi gerðir eru í boði á útgáfudegi þar sem margir þættir geta spilað inn í val tölvuleikjaspilarans. Augljóst er að bæði Sony og Microsoft horfa til diskalausrar framtíðar þar sem tölvuleikjaspilarar nútímans kjósa í auknum mæli að versla tölvuleiki beint í gegnum netið í stað þess að kaupa þá á tölvudisk úti í búð. Mögulega er þetta seinasta kynslóð leikjatölva sem mun innihalda diskadrif og þar með fylgja þeirri þróun sem hefur átt sér stað í fartölvum og borðtölvum undanfarin ár þar sem diskadrif þykja óþörf.
Tölvuleikjaáskriftir og streymisveitur
Gegn vægu áskriftargjaldi fær áskrifandinn aðgang að stóru leikjasafni þar sem er að finna nýja, nýlega og eldri leiki sem hægt er að spila eftir hentisemi, líkt og á Netflix eða Spotify.
Allar þessar fjórar útgáfur af níundu kynslóð leikjatölva hafa sinn sérstaka sölupunkt. Með Xbox Series tölvunum er til dæmis hægt að gerast áskriftandi af Game Pass, sem er leikjaþjónusta Microsoft sem er eingöngu í boði fyrir PC og Xbox notendur. Gegn mánaðarlegu áskriftargjaldi fær áskrifandinn aðgang að stóru leikjasafni þar sem er að finna nýja, nýlega og eldri leiki sem hægt er að spila eftir hentisemi, líkt og margir þekkja á Netflix, Spotify og öðrum sambærilegum veitum.
Með Game Pass er hægt að sækja leikina og setja upp í tölvuna en auk þess hefur Microsoft verið að þróa Cloud Gaming þar sem áskrifendur geta spilað nýjustu leikina í snjallsímum eða spjaldtölvum í gegnum netstreymi. Það er að segja – að sá tölvuleikur sem notandinn kýs að spila er uppsettur og spilaður á tölvu í umsjón Microsofts en öllum gögnum er streymt í gegnum netið og yfir í snjalltæki spilarans. Með þessu móti þarf vélbúnaður snjalltæksins ekki að uppfylla lágmarks vélbúnaðarkröfur tölvuleiksins og er hægt að spila nýjustu leikina svo framarlega sem nettenging sé í lagi. 5G mun að líkindum auka gæðin enn frekar þar sem svartími styttist og gæðin verða betri.
Ef vinsældir á slíkri þjónustu mun aukast með árunum má færa ákveðin rök fyrir því að leikjatölvur verði óþarfar þar sem hægt verði að streyma efninu yfir á nánast hvaða tæki sem er. Ekki er ólíklegt að tölvuleikir eigi eftir að feta í fótspor kvikmynda og tónlistar þar sem stafrænar áskriftarleiðir hafa yfirtekið vinsældir diska og eintökum til eignar. Hægt er að kafa aðeins dýpra í efnið í pistlinum Sýndarveruleiki og framtíð tölvuleikja.
Aðeins á PlayStation
Sony mun bjóða upp á fleira leiki sem eru eingöngu aðgengilegir PlayStation eigendum. Strax við útgáfu geta PS5 eigendur keypt leiki á borð við Sackboy: A Big Adventure, Marvel’s Spider-Man: Miles Morales og hinn geysivinsæla Demon’s Souls sem hefur verið endurgerður frá grunni fyrir PlayStation 5 leikjatölvuna. PlayStation 5 eigendur sem eru með gulláskrift fá einnig aðgang að völdum PlayStation 4 leikjatitlum sem hægt er að spila í PlayStation 5 og má þar nefna leiki á borð við God of War, Fallout 4, Days Gone og zombíleikinn Resident Evil 7. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að PlayStation 5 eigi eftir að bjóða upp á fleiri leikjatitla en Xbox sem verða eingöngu fáanlegir á þeirri leikjatölvu, eða svokallaðir exclusive leikir. Margir tölvuleikjatitlar sem verða ekki fáanlegir á PlayStation en á Xbox verða einnig aðgengilegir á PC.
Óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér þar sem
Microsoft keypti fyrir stuttu ZeniMax Media …
Óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér þar sem Microsoft keypti fyrir stuttu Microsoft ZeniMax Media (id Software (Doom, Quake og Rage), Arkane Studios (Dishonored, Prey), MachineGames (Wolfenstein), Tango Gameworks (The Evil Within), Bethesda (The Elder Scrolls, Fallout)) á sjö og hálfan milljarð Bandaríkjadala, eða í kringum eitt þúsund milljarða íslenskra króna. Til samanburðar má benda á að Disney keypti Lucasfilm (Star Wars) fyrir fjóra milljarða dali eða í kringum 550 milljarða íslenskra króna árið 2012. Á komandi árum eigum við eftir að sjá betur hver plön Microsofts eru nákvæmlega með þessum kaupum. Er það til að styrkja leikjasafnið sem fylgir Game Pass áskriftinni? Eða ætla þeir að láta framleiða nýja leiki sem verður eingöngu aðgengilegir á PC og Xbox? Eða hefur Microsoft mögulega einhver önnur áform? Tíminn verður að leiða það í ljós.
Mátturinn og dýrðin
Vélbúnaður Xbox Series X lítur út fyrir að vera aðeins öflugari en í PlayStation 5 á blaði (sjá töflu á Tom’s Guide) en ómögulegt er að segja til um hvor tölvan sé betri eða hraðvirkari fyrr en tölvurnar eru báðar komnar á markað og notendur farnir að nota og bera þær saman. Xbox Series X lítur kannski út fyrir að vera kraftmeiri á blaði en PlayStation 5 mun nota tækni sem eykur hraðan á SSD diski tölvunnar og forvitnilegt verður að sjá hvaða áhrif sú tækni mun hafa áhrif á tölvuna sjálfa og leikjahönnun næstu árin.
Máttur tölvunnar skiptir mestu máli en dýrðin spilar einnig sinn þátt í vali á leikjatölvu. Miklar andstæður sjást í útliti PlayStation og Xbox tölvanna. PlayStation 5 er hvít og áberandi löng eða breið, eftir því hvernig tölvunni er snúið. Útlit tölvunnar hefur farið misvel í fólk og margir sem eru alls ekki hrifnir af þessu óvenjulega útliti tölvunnar – og ekki skánar staðan þegar tölvan er auk þess stór og plássfrek. Xbox Series X er aftur á móti svartur mínimalískur kassi. Minni útgáfan, Xbox Series S, er hvít, lítil og nett og er áberandi minni en hinar þrjár tölvurnar sem tilheyra níundu kynslóð leikjatölva. Xbox Series S er ódýrasta útgáfan af öllum tölvunum og er tilvalin fyrir þá spilara sem vilja getað spilað alla nýjustu leikina án þess að borga of mikið fyrir tölvuna eða vilja ekki að tölvan taki of mikið hillupláss. Jú vissulega er tölvan ekki eins öflug og hinar þrjár útgáfurnar en er ásættanleg fyrir marga og er verðmiðinn og útlitið klárlega sölupunktur Xbox Series S.
Viltu vita meira?
Ef þessar hugleiðingar og þessi pistill svalaði ekki þinni þörf og þú vilt afla þér enn frekari upplýsinga um níundu kynslóðina má benda á nýlegt viðtal við mig í Lestinni þar sem rætt var um kynslóðaskiptin. Einnig höfum við strákarnir í Leikjavarpinu rætt um báðar tölvurnar í nokkrum hlaðvarpsþáttum og má þá sérstaklega benda á þátt númer fimmtán.
Xbox Series X og S kemur út þann 10. nóvember um heim allan en PlayStation 5 þann 12. nóvember í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar og 19. nóvember á Íslandi og í öðrum löndum. Samkvæmt okkar heimildum er ekki öruggt að öll PlayStation 5 eintök sem voru seld í forsölu verði afhend kaupendum í nóvember, en eiga þó að vera komin í hendur allra kaupenda fyrir jól. Xbox Series X og S fara ekki í forsölu hér á landi og fara ekki í sölu hérlendis fyrr en einhvertímann eftir áramót.