Birt þann 4. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
Kvikmyndarýni: The Babadook [RIFF]
Samantekt: Ef þú vilt vera vel hrædd/ur í einn og hálfan tíma eða vilt sjá góða kvikmynd með flottum leikurum og góðum söguþræði.
4.5
Góð!
Þrándur Jóhannsson skrifar:
The Babadook (i: Óværan) er ný hryllingsmynd leikstýrð af Jennifer Kent og er ein stærsta myndin sem sýnd er á RIFF í ár. Myndin fjallar um ástralska ekkju að nafninu Amelia og sjö ára son hennar, Sam. Amelia hefur aldrei verið söm eftir að eiginmaður hennar lést í bílslysi þegar hann var að keyra hana upp á spítala til að fæða Sam. Sam er mjög erfiður strákur. Hann er hávær og á erfitt með að eignast vini og umgangast annað fólk. Eitt kvöld finnur Sam dularfulla bók sem hann fær móður sína til að lesa fyrir sig. Bókinn fjallar um skrímslið Babadook. Bókin hræðir líftóruna úr Sam en Amelia reynir sitt besta til að samfæra hann um að Babadook sé ekki til, en þá er lamið á dyrnar. Baba, DOOK! DOOK! DOOK!
Persónulega er ég ekki hrifinn af hryllingsmyndum. En það sem ég hata mest við þær er óþörf og heimskuleg bregðu atriði sem koma reglulega í Hollywood hryllingi. Babadook hefur nánast engin bregðu atriði og reynir frekar að hræða áhorfandann með því sem er að gerast á skjánum frekar en að bregða honum. Myndin leikur sér oft með að byggja upp týpísk bregðu atriði en þau enda aldrei á því að láta eitthvað poppa upp á skjáinn. Babadook sjálfur er virkilega hryllilegur þegar hann er í mynd sem er þó sjaldan, sem er ekki endilega ókostur. Myndin byggir upp svakalegt andrúmsloft sem heldur manni spenntum og hræddum í gegnum myndina með því að nota flottar tökur, lýsingu, og gott handrit. En það sem hjálpar þessu magnaða andrúmslofti eru leikararnir. Essie Davis sem leikur Amelia neglir hlutverkið fullkomlega. Hún nær að koma þreytunni til skila til áhorfandans sem fylgir því að vera einstæð móðir sem er að ala upp óþekkan strák og þarf líka að vinna alla daga. Spillir: Einnig nær hún að koma til skila hræðslunni og stressinu sem fylgir því að lifa með Babadook í húsinu og hvernig það breytir henni andlega. Sama er hægt að segja um sjö ára leikarann Noah Wiseman sem leikur Sam. Þó að þetta sé fyrsta stór myndin hans þá er hann alveg framúrskarandi leikari. Þó að hann fari ekki með svakalegar ræður þá fær hann að gera marga krefjandi hluti sem leikari. Eins og Essie þá kemur hann því skýrt til skila í hvaða ástandi persónan er, hræddur, reiður og framvegis. Var ég búinn að taka það fram að hann væri sjö ára?
Ef þú vilt vera vel hrædd/ur í einn og hálfan tíma eða vilt sjá góða kvikmynd með flottum leikurum og góðum söguþræði þá mæli ég eindregið með The Babadook.