Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Bíó og TV»Kvikmyndarýni: Under The Skin
    Bíó og TV

    Kvikmyndarýni: Under The Skin

    Höf. Nörd Norðursins19. ágúst 2014Uppfært:28. mars 2016Engar athugasemdir5 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Andri Þór Jóhansson skrifar:

    Scarlett Johansson er ein af þessum leikkonum sem einhvern veginn allir elska. Hún leikur nánast bara í góðum kvikmyndum (eða a.m.k. sjaldan í lélegum myndum), stendur sig alltaf vel og er algjört augnakonfekt. Dæmi um myndir þar sem hún fer á kostum eru Ghost World, Lost in Translation, The Prestige, Vicky Christina Barcelona og auðvitað sem Black Widow í fjölmörgum Marvel myndum. Á síðasta ári kom út mynd þar sem að Scarlett Johansson talaði í gegnum heila mynd án þess að sjást og sýndi hversu öflug rödd hennar getur verið. Þetta var myndin Her þar sem Joaquin Phoenix fór gjörsamlega á kostum sem einmana maður í ástarsambandi við tölvuforrit. Sama ár kom út mynd sem fékk minni athygli en er engu síðri þar sem Johansson segir varla orð en býður upp á algjöran stórleik í hlutverki dularfullrar konu sem lokkar til sín einmana menn með illt í hyggju. Myndin sem um ræðir kallast Under The Skin (2013) og er listrænn vísindaskáldskapur sem mun eflaust öðlast „költ“ stöðu meðal aðdáenda slíkra mynda á næstu árum.

    Under_the_skin_01

    Opnunaratriði myndarinnar minnir töluvert á 2001: A Space Odyssey þar sem að skuggaleg tónlist fylgir stjarnfræðilegu myndefni sem boðar komu einhvers konar veru. Rödd Scarlett Johansson heyrist og virðist hún vera að læra að tala. Klippt er svo til manns á mótorhjóli (Jeremy McWilliams) sem sækir lík konu út í vegakant í Skotlandi og ber yfir í skottið á sendiferðabíl. Þá birtist það sem virðist vera endalaust, hvítt rými. Ekki ólíkt fangelsinu í dystópíumyndinni THX 1183 eftir George Lucas. Þar sést persóna Johansson klæða sig í föt konunnar áður en hún gengur niður stiga í yfirgefinni blokk. Mótorhjólamaðurinn heldur á brott og konan keyrir sendiferðabílinn af stað í miðborgina þar sem hún fylgist með mannlífinu og spyr þá menn sem virðast einir á ferð um vegaleiðbeiningar. Þá skapast stemning sem minnir svolítið á Taxi Driver, þar sem Robert DeNiro lék leigubílstjóra sem keyrði um götur New York nótt eftir nótt með gagnrýnandi huga. Í Under The Skin er bílstjórinn þó ennþá fjarlægari umhverfinu. Ekki er nóg með það að hún virðist ekki vera af þessum heimi, heldur bregst hún við hættulegum aðstæðum með forvitni frekar en hræðslu. Hún talar einnig með breskum hreim í skoskri borg og það fjarlægir hana enn fremur. En samskipti hennar við mennina eru virkilega raunsæ og það kann að vera vegna þess að atriðin voru spunnin á staðnum með faldar myndavélar. Hið undirliggjandi loforð um kynlíf skapar magnþrungna spennu í samtölum þeirra og það eina sem getur stöðvað daður hennar er ef maðurinn segist eiga fjölskyldu eða einhvern sem tæki eftir brotthvarfi hans. Þetta tælingarferli konunnar er endurtekið fram að ákveðnum atriðum sem virkilega einkenna myndina og lyfta henni á annað stig. Fjarri mannlífinu sem við þekkjum og í algerri einangrun er kynþokki konunnar er notaður til að tæla mennina í átt að vökvakenndu hyldýpi. Þar heyrum við þriggja nótna stef í boði Mica Levi sem virkar eins og sírenusöngur frá helvíti. Mennirnir fylgja þar konunni lostafullir í átt að endalokum sínum. Í kjölfarið kemur svo maðurinn á mótorhjólinu og gengur frá eftirmálunum.

    Under_the_skin_03

    Seinni hluti myndarinnar fer töluvert meira inn á við í persónusköpun og fer konan að horfa meira í spegil. Já, reyndar bókstaflega, en líka í óeiginlegri merkingu. Eftir kynni hennar á manni sem sker sig úr fjöldanum sýnir hún fyrst mennska eiginleika. Hún flýr frá mótorhjólamanninum dularfulla út á hálendi Skotlands og verður þar fyrir dramtískum kynnum af ýmsu tagi. Hún sér ekki lengur manninn aðeins sem bráð og byrjar að gera sér grein fyrir möguleikanum á sjálfri sér sem bráð hans.

    Under_the_skin_02

    Það er ekki beint söguþráðurinn sem að gerir myndina einstaka, þó hann sé vissulega áhugaverður, heldur upplifunin að horfa á hana. Andrúmsloftið sem leikstjóranum Jonathan Glazer tekst að skapa finnst sjaldan í kvikmyndum og er erfitt að útskýra. Það er hið óræða sem er við völd og vekur upp blöndu af hrolli og frumspekilegum hugsunum. Under The Skin er í hægari kantinum en heilinn er á fullu í gegnum alla myndina að meðtaka það sem fyrir augum ber. Glazer er klárlega undir áhrifum frá leikstjórum á borð við Andrei Tarkovsky, Alejandro Jodorowsky, Stanley Kubrick og jafnvel David Lynch. Myndin er mjög vönduð og þarfnast athygli áhorfanda. Hún leggur mikið í sterkt myndefni og andrúmsloft. Myndataka Daniels Landin er virkilega falleg og blanda skoskrar náttúru við tómleg rými fellur vel með drungalegri tónlist Mica Levi, en þeta er fyrsta kvikmyndin sem hann semur tónlist fyrir. Til að sýna hversu mikill tími fór í að gera myndina má nefna að Under The Skin er byggð á samnefndri skáldsögu frá árinu 2000 eftir Michel Farber, en Glazer hefur unnið að aðlögun hennar síðan hann kláraði dramamyndina Birth árið 2004 með Nicole Kidman í aðalhlutverki. Glazer hefur einnig leikstýrt tónlistarmyndböndum fyrir hljómsveitir á borð við Radiohead, Blur og Massive Attack ásamt mörgum auglýsingum. Hann sýnir hér mikla nærgætni en fer þó ekki nákvæmlega eftir bókinni til þess gefa áhorfandanum meira rými til túlkunar.

    Under_the_skin_04

    Myndin er óneitanlega dimm og drungaleg þó hún sé alls ekki hrollvekja í hefðbundnum skilningi. Hún vekur upp spurningar og spyr þeirra. Hún sýnir þér og sér þig. Hún kemst inn á þig og það er óþægilegt. En það gerir hana þess virði að horfa á. Þetta er ekki kvikmynd fyrir fólk sem vill sjá allt og skilja strax svo það þurfi ekki að hugsa meira um hana eftir á. Hún krefst þess að þú hugsir um hana, aftur og aftur.

    Andri Thor Johannsson Jonathan Glazer kvikmyndarýni Scarlett Johansson sci-fi Under The Skin vísindaskáldskapur
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaOfvitar #18 – Umræðuefni
    Næsta færsla RisaPONG, bátaskák og hnefatafl á Menningarnótt
    Nörd Norðursins
    • Facebook

    Birt af ritstjórn

    Svipaðar færslur

    Secret Level

    10. desember 2024

    RIFF kvikmyndahátíðin 2024

    27. september 2024

    Stríðspöddur Starship Troopers

    28. júní 2022

    Aloy snýr aftur í Horizon Forbidden West

    24. febrúar 2022

    Hvað ef Squid Game leikirnir væru íslenskir?

    13. nóvember 2021

    Austin Powers heimsækir Mass Effect

    19. október 2021
    Nýtt á Nörd Norðursins

    VR Worlds – Nýr sýndarveruleikasalur opnar í gamla Gzero í dag

    5. desember 2025

    The Game Awards í beinni 11.-12. desember

    4. desember 2025

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus

    23. nóvember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • VR Worlds – Nýr sýndarveruleikasalur opnar í gamla Gzero í dag
    • The Game Awards í beinni 11.-12. desember
    • Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards
    • Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.