Allt annað

Birt þann 13. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

18 jólagjafahugmyndir

Vantar þig hugmyndir að jólagjöf? Hér hef ég útbúið lista yfir 18 jólagjafahugmyndir sem spanna allt frá ókeypis kortaspili yfir í 140.000 kr. leikjatölvu. Listinn er flokkaður í stafrófsröð.

 

Bio_Paradis_kort1. Bíókort Bíó Paradís

Bíó Paradís er með jólatilboð á 5 skipta klippikorti á 5.000 kr. Bíó Paradís sýnir fjölbreytt úrval kvikmynda sem ekki eru sýndar í öðrum íslenskum kvikmyndahúsum. Við nördarnir mælum sérstaklega með Svörtum sunnudögum, þar sem klassískar költ myndir á borð við Dawn of the Dead og The Fly hafa verið sýndar. Tilvalið fyrir kvikmyndanördann sem kvartar endalaust yfir ófjölbreyttu Hollywood sulli.
Verð: 5.000 kr.

 

Cards against humanity2. Cards Against Humanity

Þetta spil er alltof fyndið! Spilið er bannað börnum og er troðfullt af kolsvörtum húmor. Reglurnar eru einfaldar. Í hverri lotu spyr einn spilari spurningu af svörtu spjaldi og hinir svara spurningunni með hvítu spjaldi. Besta svarið fær stig. Spilið kostar í kringum 9.000 kr. í Nexus en á heimasíðu spilsins, www.cardsagainsthumanity.com, er hægt að sækja ókeypis útgáfu af spilinu og prenta spjöldin út sjálf/ur.
Verð: 0-9.000 kr.

 

gta v - trevor3. Grand Theft Auto V

Líklega ójólalegasta gjöfin á þessum lista, en GTA V er einn af betri leikjum ársins og erfitt að halda honum frá þessum jólagjafalista. Við nördarnir gagnrýndum leikinn og gáfum honum 5 stjörnur af 5 mögulegum. Um er að ræða stórgóðan leik sem inniheldur í kringum 50-100 klukkutíma í einspilun og enn fleiri klukkutíma í fjölspilunarhluta leiksins. Tekið skal fram að leikurinn inniheldur gróft ofbeldi og er stranglega bannaður börnum. Leikurinn fæst í Gamestöðinni og Elko.
Verð: Í kringum 12.000 kr.

 

Kisu einhyrningur4. Kisu-einhyrningurinn ógurlegi

Breyttu kettinum þínum í einhyrning með uppblásnu horni! Tilvalið í ævintýraleikinn heima hjá þér. Þú ert djarfur riddari í ævintýraleiðangri og ert villtur í skógi hinna dimmu skugga. Í fjarska birtast rauðglóandi augu. Nyan kisulagið bergmálar í fjarska. Ó NEI! EINHYRNINGSKISAN GERIR ÁRÁS! KVEIKJUM Á LEISERUM, NÚNA NÚNA! BbwwAAhhhhjj!1 Varan fæst í Dogma.
Verð: 1.290 kr.

 

kindle5. Lesbretti

Ef þú þekkir einhvern sem les mikið og er á góðri leið með að fylla allar hillur af  bókum þá er lesbretti málið. Með lesbretti er hægt að nálgast og lesa rafbækur með auðveldum hætti. Nokkrar gerðir eru til af lesbrettum, til dæmis Kindle og eBook.
Verð: Í kringum 20.000 kr.

 

munchkin6. Munchkin

„Munchkin brings you the essence of the dungeon-crawling experience… without all that messy roleplaying!” (úr leiðbeiningarbæklingi) Stórskemmtilegt kortaspil sem gerir grín að  hlutverkaspilum, kvikmyndum og fleiru. Spilið er gefið út af Steve Jackson Games og hefur unnið til fjölda verðlauna. Spilið er troðfult af húmor og kortin skemmtilega skreytt. Spilið er fáanlegt í Nexus og Spilavinum og fjöldi aukapakka í boði. Við höfum fjallað ítarlega um spilið hér.
Verð: Í kringum 5.000 kr.

 

Nintendo 3DS7. Nintendo 2DS eða 3DS

Handheld leikjatölva sem hentar öllum aldurshópum. Fjölbreytt úrval tölvuleikja er í boði og ber sérstaklega að nefna gott úrval af leikjum sem eru ekki troðfullir af ofbeldi og því tilvaldnir fyrir yngri spilara (þó þeir eldri geti líka haft gaman af!). Zelda, Pokémon og Super Mario leikjaseríurnar standa alltaf fyrir sínu og eru fáanlegar á Nintendo 2DS eða 3DS. Athugið að Nintendo 3DS er ekki æskileg fyrir börn undir 6 ára aldri sökum þrívíddartækninnar sem er notuð. Leikjatölvan fæst í Gamestöðinni, Elko og Ormsson.
Verð: Frá 30.000 kr.

 

Opinberun8. Opinberun eftir Hugleik

Í sögunni er sagt frá því þegar geimverur komast í upplýsingar sem við mannfólkið sendum út í geim. Gögnin voru sett á geisladisk og send frá jörðinni (eða „mold“ eins og geimverurnar kalla jörðina) árið 1988 og innihélt diskurinn mynd af forseta Bandaríkjanna, vinsælasta popplagi jarðar og Biblíuna, eða réttara sagt hluta úr henni. Þar sem það var ekki nógu mikið pláss á geisladisknum völdu þeir einungis „besta“ kaflann úr Biblíunni; Opinberunarbókina. Þegar geimverurnar finna gögnin fara þau að pússla hlutunum saman og er útkoman sannkallað súrealískt meistaraverk. Hér má lesa gagnýnina okkar. Myndasagan fæst í Nexus og flestum bókabúðum.
Verð: Í kringum 3.000 kr.

 

Pacman vekjaraklukka9. Pac-Man vekjaraklukka

Ef hávær hljóð ýta ekki undir morgunfýluna að þá getur Pac-Man vekjarklukka kætt retró leikjanördið. Pac-Man er fyrsta tölvuleikjapersóna sögunnar og er enn þann dag í dag auðþekkjanleg af flestum leikjanördum um heim allan. Varan fæst í Dogma.
Verð: 4.690 kr

 

Pixel Craft10. Pixla list

Leynist pixlaður listamaður í þér? Raðaðu saman pixlum og búðu til þitt eigið listaverk í anda gömlu góðu tölvuleikjanna. Pixel Craft inniheldur 600 litla kassalaga segla og gúmmíplatta til að föndra á. Varan fæst í Dogma.
Verð: 1.690 kr.

 

11. Skema gjafabréf

Skema_gjafabref

Skema býður upp á úrval námskeiða sem kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Meðal námskeiða eru: Byrjenda- og framhaldsnámskeið í tölvuleikjaforritun, forritunarnámskeið fyrir stelpur, iPad forritun, vefsmíði, tölvutæting, Unity 3D tölvuleikjahönnun og Minecraft námskeið. Skema býður upp á 3.500 kr., 5.000 kr. og 10.000 kr. gjafabréf, en einnig er  hægt velja upphæð sem á vera í gjafabréfinu með því að hafa samband við fyrirtækið. Flest námskeið kosta á bilinu 25-35.000 kr. og eru tilvalin fyrir forritara framtíðarinnar!
Verð: Frá 3.500 kr. 

 

Stjornukikir12. Stjörnukíkir

The truth is out there! Það er fátt meira sjarmerandi en að sitja úti í myrkrinu og njósna um nágranna okkar úti í geimnum. Verð á stjörnukíkjum er breytilegt og er hægt að finna ágæta kíkja fyrir byrjendur frá 15-30.000 kr, á meðan stærri kosta í kringum 50-80.000 kr. og uppúr. Við bendum á netverslunina www.sjonaukar.is sem býður upp á fjölbreytt úrval stjörnukíkja.
Verð: Frá u.þ.b. 15.000 kr.

 

13. Spjaldtölva

SpjaldtolvaSpjöldtölvu-æðið er hætt að vera æði. Spjaldtölvur eru komnar til að vera. Í dag er hægt að nálgast fjölbreytt úrval af spjaldtölvum sem kosta á bilinu 20 til 150.000 kr. Ef þú ert ekki viss um hverskonar spjaltölvu þú ættir að gefa getur þú kannað hvernig farsíma viðkomandi notar. Ef hann/hún notar vörur frá Apple vill viðkomandi líklega fá iPad, en nýjustu gerðirnar af iPad eru nýkomnar í verslanir; iPad mini Retina (ódýrasta útgáfan kostar u.þ.b. 75.000 kr.) og iPad Air (ódýrasta útgáfan kostar u.þ.b. 90.000 kr.). Annars er hægt að nálgast fjölbreytt úrval af Android spjaldtölvum á miklu hagstæðara verði. Ef þú ert enn ekki viss hvernig spjaldtölvu þú vilt kaupa getur þú skoðað úrvalið t.d. hjá Tölvulistanum eða Elko og beðið um aðstoð.
Verð: Frá u.þ.b. 20.000 kr.

 

Batman trilogy14. The Dark Knight Trilogy: Ultimate Collectors Edition

Þröngur svartur kvikmyndapakki sem inniheldur allar þrjár myndir The Dark Knight þríleiks Nolans; Batman Begins, The Dark Knight og The Dark Knight Rises. Safnið kostar rétt undir 9.000 kr á Blu-ray í Elko.
Verð: 8.995 kr.

 

Hobbit15. The Hobbit á DVD eða Blu-ray

Önnur Hobbita-myndin er nýkomin í bíó og tilvalið að hita upp með því að horfa á fyrstu Hobbita myndina heima hjá sér í góðum gæðum. Þriðja og seinasta Hobbita-myndin verður sýnd í desember árið 2014. Mögulega viltu bíða með að kaupa þessa þar til allar þrjár koma saman út í einum pakka (líkt og The Dark Knight safnið hér fyrir ofan), ef ekki, þá er þetta tilvalin jólagjöf með skemmtilegu aukaefni. Hér getur þú lesið gagnrýnina okkar á myndinni.
Verð: Í kringum 2.500 – 7.500 kr. (fer eftir útgáfu)

 

The Last of Us16. The Last of Us

Þvílíkur leikur! The Last of Us er tímamótaverk í tölvuleikjum. Leikurinn er eingöngu fáanlegur á PlayStation 3 og skylduspilun fyrir PS spilara. Við gagnrýndum leikinn og gáfum honum glimmrandi dóma. Þetta er einn umtalaðist leikur ársins sem ætti ekki að svíkja neinn. Leikurinn fæst í Gamestöðinni og Elko. Athugið að leikurinn er ekki ætlaður börnum.
Verð: Í kringum 12.000 kr.

 

Visindabok Villa17. Vísindabók Villa

„Í þessari bók fer Villi um víðan völl og fjallar á skemmtilegan og einfaldan hátt um rafmagn, sólina, eldflaugar, blóð, atóm, vind, dulmál og margt, margt, margt, MARGT fleira. Hér er auk þess að finna fjölda skemmtilegra tilrauna sem einfalt er að gera heima.“ (forlagið.is)
Verð: 4.290 kr.

 

18. Xbox One

Xbox OneNýjasta leikjatölvan frá Microsoft, Xbox One, var að lenda í Gamestöðinni rétt í þessu. Um er að ræða öfluga leikjavél sem er í beinni samkeppni við PlayStation 4. Leikjaúrvalið er enn ansi takmarkað og vélin kostar vel yfir 100.000 kr, en það er fátt skemmtilegra en að leika sér í splunkunýju tryllitæki í jólafríinu! Ef þú vilt heldur gefa PS4 í jólagjöf verður þú að bíða fram yfir áramót þar sem leikjatölvan er ekki væntanleg til Íslands fyrr en 29. janúar á næsta ári.
Verð: Í kringum 130.000 kr.

 

Vantar þig fleiri hugmyndir?

Hér er listi okkar yfir jólagjafahugmyndir frá því í fyrra og annar frá því hitteðfyrra.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑