Bækur og blöð

Birt þann 30. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bronsöld myndasögunnar

Bronsöldin hefst þegar silfuröldin endar sem flestir telja vera í byrjun áttunda áratugarins. Bronsöldin  einkennist af meira frelsi og breiðari skilaboðum í sögunum sem gátu núna fjallað um hluti eins og samkynhneigð og fíkniefni. Bronsöldin hófst ekki með  komu nýrra ofurhetja en þvert á móti þróuðust áður þekktar ofurhetjur áfram með það í huga að sýna á þeim nýjar hliðar. CCA var ekki lengur einvaldur en hafði þó mikil áhrif lengi vel. DC og Marvel til dæmis slitu ekki samstarfi sínu við CCA fyrr en á 21. öldinni. En áhrif CCA fóru dvínandi. Búðum var orðið sama hvort CCA  studdi einstakar myndasögur eður ei og nýjar búðir fóru að spretta upp eins og gorkúlur um öll bandaríkin. Nördabúðirnar.

Búðir eins og Nexus hér á Íslandi er að finna um öll Bandaríkin en það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem þær fóru að birtast, samhliða þróun á hlutverkaleikjum og „Hollywoodendureisninni“. Þessar búðir seldu myndasögur til markhóps sem var sama um einhvern stimpil frá CCA og var farið að þyrsta í fjölbreyttari sögur. Þessar búðir gáfu framleiðendum lausari tauminn og gaf þeim jafnvel færi á að skrifa sögur sem áttu ekki bara að  höfða til barna. Þó að það væri tabú að minnast á slíkt var markaðurinn að breytast eftir því sem börn lásu myndasögur sér til skemmtunar og vildu halda því áfram þegar þau uxu úr grasi. Hinn nýi markhópur safnaði myndasögum í gríð og erg og fannst ekkert að því að heimta meiri gæði í efninu sem þeir voru að kaupa sér.

Crisis og The Killing Joke

T.v. - Crisis on Infinite Earths: Atburðurinn sem vakti DC aftur til lífsins. Lesendur vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, silfuröldin brann til grunna og tók supergirl og fleiri karaktera með sér.

T.h. - The Killing Joke: Jokerinn mátti nú loksins drepa og pynta á ný. Hann beið ekki boðanna og The Killing Joke er prýðilegt dæmi um hversu mikilli sögu er hægt að koma fyrir í einu blaði og könnun á sambandi Batman og Jokersins.

Eftir barnalega og takmarkað söguþræði silfuraldarinnar reyndu höfundar bronsaldarinnar að  skrifa eitthvað „nýtt“ „fullorðinslegra“ og „fjölbreyttara“. Þetta leiddi af sér tvær sérstakar bronsaldar afleiður. Í fyrsta lagi  fóru að birtast alls konar  „minnihlutahópahetjur“og sögur gátu núna átt sér stað í mörgum blöðum í röð. Myndasagan varð að framhaldssögu.

„Minnihlutahópahetjurnar“ (sem er óþjálasta íslenskun á ensku hugtaki sem ég hef kynnst) áttu það sameiginlegt að vera meira og minna skrifaðar af hvítum körlum sem reyndu að skapa eitthvað fyrir markhópa sem þeir skildu varla.  Þannig varð Luke Cage (Power Man) til ásamt öðrum „stórum svörtum mönnum sem tala „götu“tungumál, “  önnur dæmi er að finna í  „Asíubúum sem kunna kungfu og konfúsíus utan af“ og „Indjánum sem nota anda landsins til að berjast“. Eins og svo margt annað verður að líta á þessar tilraunir með tilliti til heimsins sem þær voru skapaðar í.  Höfundum gekk ef til vill gott eitt til  og reyndu kannski að bæta hlut minnihlutahópa, en  tilraunirnar áttu það til að misheppnast.

Í gegnum árin þróuðust margar þessar hetjur og urðu betri, dýpri karakterar en margir hverjir hurfu einfaldlega af sjónarsviðinu eftir nokkur ár.

En framhaldssögurnar voru í eðli sínu stærri og marktækari nýbreytni. Sögur höfðu oftast haft „continuity“ , það sem gerðist í einni sögu var venjulega tengt þeim sem komu á eftir. Þessari reglu var ekki hlýtt alhliða og má finna mýmörg dæmi um þess konar villur eða mistök. Í einni sögu getur Superman lyft tunglinu og í næstu á hann í erfiðleikum með að sigra Luthor í sjómanni t.d.  Continuity sem hugtak var einfaldlega ekki til eins og við kjósum að skilja það í dag.  En sögurnar höfðu venjulega átt sér stað í einu blaði,  til dæmis Batman hittir nýjan óvin og sigrar. Þetta ýtti undir kjánalegu söguþræðina sem komu fram á silfuröldinni, Höfundar þurftu að finna nýja sögu, óvin og aðstæður fyrir hvert blað. Þetta er ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn enn í dag safna blöðum á meðan Evrópubúar safna venjulega bókum. Ef þú misstir af einu blaði af Ofurhetjunni þinni misstirðu ekki af hluta af nýjasta söguþræðinum, þú misstir af  nýjum óvini eða ferð til annarrar víddar.

Það var ástæða fyrir þessu, höfundar gátu ekki gert ráð fyrir því að lesendur ættu blöðin sem komu áður eða hefðu ráð á að eignast þau sem komu seinna, sérstaklega þegar lesendurnar áttu að vera börn sem ef til vill fengu blöðin tilviljanakennt. Hvert blað hafði sína sögu og svo kom önnur í næsta blaði. Það voru auðvitað frávik en þau voru venjulega auglýst eða kynnt sem slík. Koma Galactus t.d í Fantastic Four árið 1966 var nefnt The Galactus Trilogy og hafði heil þrjú blöð. Álíka  viðburður í dag hefði að minnsta kosti 10 blöð og fimmtán tengdar bækur þar sem allar hinar ofurhetjurnar fást við komu Galactus.

Green Lantern og X-Men Dark Phoenix

T. v. Green Lantern: Á Bronsöldinni mátti loks tala um Dóp og þær voru nokkrar sögurnar þar sem ofurhetjurnar fengust við fíkniefnadjöfulinn. Ekki tókst öllum að fjalla um málefnið skynsamlega.

T.h. Dark Phoenix: Þegar X-Men karakterar verða brjálaðir reyna þeir alltaf að rústa heiminum eða endurskapa hann með undarlegum kröftum. Staðreynd.

Á bronsöldinni fór þessi þróun af stað og framhaldssögur urðu algengari. Ástæðan var sú sama og áður, breiðari og betri tenging við lesendur sem höfðu oxið úr grasi.  Þetta hafði tvennar mikilvægar afleiðingar. Í fyrsta lagi gátu persónurnar núna lent  í sögum sem voru mikilvægari en  aðrar. Langar epískar sögur eins og Dark Phoenix Saga hjá X-Men sem  átti sér stað í 8 blöðum höfðu meiri áhrif en aðrar styttri sögur. Í öðru lagi urðu sögurnar „myrkari og fullorðinslegri“ og með því var leiðin rudd yfir myrköldina.

Þessar framhaldssögur urðu líka til þess að „Continuity“ hugtakið eins og við þekkjum það varð til.  Nú þegar myndasögur áttu  greiðan aðgang á dyggum  og vel lesnum markaði urðu sögurnar og afleiðingar þeirra flóknari. Það fór að verða erfitt að komast inn í myndasögur. Sögur ofurhetjanna voru nú áratuga langar og gert var ráð fyrir því að lesendur þekktu þær. En það var ekki á allra færi.  Harðkjarna hópur lesenda krafðist sífellt meira og höfundar brugðust við.  Myndasögunördinn varð til, með öllum þeim stimplum og fordómum sem því hugtaki fylgja.

Bronsöldin er hugsanlega ennþá í gangi, það fer eftir því hvort litið er á myrköldina sem  sitt eigið tímabil eða sem hluta af bronsöldinni. Myrköldin hefst allavega 1986 þegar  DC ryður sér á ný til rúms og tekur krúnuna frá Marvel sem hafði lengi vel verið að taka yfir markaðinn. Crisis on Infinite Earths ásamt Watchmen og Dark Knight Returns segir skilið við silfur og gullöldina og tekst á við ný mál og nýjan heim. Það er ekki mikill eðlismunur á brons og myrköldinni. Hetjur myrkaldarinnar verða einfaldlega „myrkari“  en áður, þróun sem hafði hafist löngu áður. Því má færa rök fyrir því að bronsöldin sé enn í gangi, eða hafi allavega ekki runnið sitt skeið fyrr en nýlega.

Bronsöldin var tími uppgjöra og áframhalds.  Silfur og gullöldin voru mörkuð af miklum sigrum, ósigrum og reglufestu. Bronsöldin er einfaldlega framhald af því. Sömu hetjur að fást við önnur vandamál undir nýjum forsendum. Markaðurinn heimtaði nýja hluti og fékk  lengri, flóknari  og myrkari sögur. Nú gat tekið heilu og hálfu árin að fá botn í stóra sögu og áhrif þeirra var að finna víðsvegar. En með þessum sögum var möguleiki á að loka fyrir nýja lesendur þar sem nú þurfti kannski að finna og lesa margar bækur til að skilja hvað var að gerast hjá ofurhetjunum.

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑