Birt þann 22. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Evil Dead (2013)
Eftir að hafa frétt að Evil Dead endurgerð væri á leiðinni leist mér ekki á blikuna, þrátt fyrir að ég hafi tæknilega séð ekkert á móti endurgerðum. Af þeim sem ég hef séð þá hef ég reynt að tækla þær einar og sér, þar sem þær eru gerðar á öðrum tímum og þar af leiðandi aðrar áherslur. Endurgerðir og framhöld á þekktum hryllingsmyndum hafa fengið mikið óorð á sig undanfarinn áratug. Þrátt fyrir það hverfa þær ekki af hvíta tjaldinu því þær græða oftast peninginn til baka og meira en það. Auðvitað snýst þetta allt um peninga en samt sem áður er enginn vítsvitandi að gera lélega mynd. Erum við með of mikla fordóma gagnvart endurgerðum og framhöldum?
Áður en ég fjalla um myndina er rétt að deila með ykkur því sem Bruce Campbell sagði um endurgerðina þegar ég var viðstaddur spurt og svarað viðburð á hryllingsmyndahátíð síðastliðinn mars. Aðspurður hver aðdragandinn að endurgerðinni hefði verið sagði Campbell okkur litla sögu. Öll árin eftir að Army of Darkness (Evil Dead 3) kom út þá hafa aðdáendur spurt hvenar kemur sú næsta. Sam Raimi, leikstjóri upprunalegu Evil Dead myndarinnar, hefur alltaf verið á leiðinni að skrifa framhaldið en uppá síðkastið hefur hann verið að leikstýra stórum myndum eins og Spiderman myndunum og Bruce Campbell er fastur í Burn Notice þáttunum sem byrja aftur í sumar í sinni síðustu þáttaröð. Það tekur 2 ár að klára heila kvikmynd og þeir eru fastir í öðrum verkefnum. Síðla árs 2009 hleður upp kvikmyndagerðarmaður frá Úrúgvæ stuttmynd á YouTube sem nefnist Panic Attack! Sú mynd breiðst út á netinu eins og eldur í sinu og innan við tveggja vikna er leikstjóri stuttmyndarinnar, Fede Alvarez, að hitta fólk frá Hollywood varðandi hugsanleg verkefni, þar á meðal Sam Raimi. Raimi vildi gera stuttmyndina í fullri lengd en þar sem Alvarez var mikill Evil Dead aðdáandi fóru þeir að tala um hana og kom hann með ýmsar hugmyndir. Campbell lítur á þetta sem tvær seríur af Evil Dead myndum, sem hafa ekkert við hvor aðra að gera, sem sagt enginn Ash í nýju myndinni. Þeir vildu gera þetta vel þar sem þetta var myndin sem kom þeim á kortið í kvikmyndaheiminum. Þeir voru komnir með rétta leikstjórann, peningana, leikara sem gátu leikið og brellur sem voru góðar en ekki gallaðar. Hann vill meina að sjarminn við gömlu myndina sé ekki sjarmi, bara ódýr mynd. Þeir gátu ekki breytt neinu þá en eru að því núna. Það verður eingöngu notast við förðunarbrellur og verða myndvinnslubrellur notaðar í lágmarki. Sem sagt engir CGI draugar eða skrímsli, ekkert verður gervilegt og þú munt engjast um í sætinu.
Campbell lítur á þetta sem tvær seríur af Evil Dead myndum, sem hafa ekkert við hvor aðra að gera, sem sagt enginn Ash í nýju myndinni.
Eftir að hafa séð bönnuðu stikluna og það sem Campbell sagði um endurgerðina var ég ekki jafn svartsýnn og fór á myndina með opnum huga og engum væntingum. Þannig er best að sjá myndina og maður þarf ekki að hafa séð neina af Evil Dead myndunum til þess að hafa gaman af þessari mynd. Tónlistin eftir Roque Baños minnir mann á köflum óneitanlega á tónlist Joseph LoDuca úr upprunalegu þrennunni sem gerir myndina kunnuglega hljóðlega séð. Það eru vísanir í gömlu myndina en fyrir utan það fetar hún ekki eins mikið í fótspor hinna myndanna eins og maður hefði haldið. Sem er stór plús þar sem aðdáendum upprunalegu myndanna er haldið á tánum jafnt sem þeim sem hafa aldrei séð þær áður.
Tvö kærustupör og systir eins þeirra fara með hana í afvötnun út að afskekktum kofa í sveitinni. Ekki líður á löngu þar til að þau finna Bók hinna dauðu og einn af þeim les upp nokkur orð frá bókinni og þar af leiðandi leysir hann eitthvað illt úr læðingi í skóginum sem yfirtekur fíkilinn. Það þarf varla að segja það, en allt fer í háaloft eftir það. Þar endar samlíkingin við upprunalegu myndina, fimmmenningar leysa úr læðingi illsku sem ætlar sér að drepa þau og yfirtaka sálir þeirra. Myndin fer nýjar leiðir og það er smá baksaga milli persónanna í myndinni, þó ekki mikil en meira en upprunalega myndin. Það að þetta sé afvötnun en ekki partý gefur myndinni nýjan vinkil. Það er tilgangur með ferðinni, ekki eitthvað djamm sem skiptir engu máli. Persónurnar eru ekki flóknar né vitum við mjög mikið um þær. Ef þetta væri ekki Evil Dead mynd þá væri hægt að sjá meiri persónusköpun. Fólk á kannski eftir að velta sér uppúr hegðun sumra persónanna, það er rosalega auðvelt að segja þetta þegar maður horfir á kvikmynd en að upplifa eitthvað skelfilegt og að bregðast við á réttan hátt er eitthvað sem ekki er auðvelt að segja til um. Plús þeir vilja alltaf heyra í áhorfendum hrópa í átt að tjaldinu að ekki fara þangað eða gera hitt og þetta. Þetta er hryllingsmynd og kvikmyndin væri búin ef allir gerðu allt hárrétt á réttum tíma á réttum stað.
Ég vil ekki vera segja neitt mikið meira um framvindu sögunnar, en þetta er hryllingsmynd og það er kannski ekki mikið um nýjungar á ferðinni hér. En það er vel staðið að myndinni, útlitið og brellurnar er eins ógeðslegar og Evil Dead mynd sæmir. Leikararnir standa sig þokkalega og ekki hægt að segja að það sé veikur hlekkur þar á ferð. Það er ekki mikill húmor í myndinni, það á að taka þessa mynd frekar alvarlega. Það kom mér á óvart að myndin hermdi ekki eftir upprunalegu myndinni í einu og öllu, það eru aðrar áherslur hér og við fáum að anda inná milli.
Þetta er skotheld mynd, bæði fyrir aðdáendur upprunalegu Evil Dead myndanna og hina sem ekki hafa séð þær. Ég var allavega sáttur við lok myndarinnar og fannst ég ekki hafa verið svikinn. Ég vil benda á að það er smáræði sem kemur upp í lokin á kreditlistanum, sem í rauninni skiptir engu máli en gæti fært aðdáendum Evil Dead myndanna bros á vör eða hlátur.
Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.