Birt þann 26. mars, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0The Authority – Fyrri hluti
„The Authority is the only superpower worth a damn.“
– Jenny Sparks
Umfjöllun í tveimur pörtum um The Authority, ofurhetjulið í Wildstorm heiminum sáluga. Þau börðust gegn geimveruinnrásum og gleymdum guðum milli þess sem þau eyddu einræðisherrum og spilltum forstjórum.
Eins og ofurhetjur eiga að vera
The Authority er runnið undan rifjum Meistara Warren Ellis (Transmetropolitan, Planetary, Ministry of Space) og Bryan Hitch. The Authority var ofurhetjulið sem barðist gegn brjáluðum ofurvísindamönnum, geimguðum og hliðarvíddarinnrásum, nokkuð sem var tiltölulega algengt í heimi þeirra, Wildstorm. En þau neituðu að láta þar staðar numið. Ef þau áttu að bjarga heiminum yfir höfuð skyldu þau sjá til þess að hann væri þess virði að bjarga.
Liðið lagði í vana sinn að hrekja frá völdum einræðisherra og berjast gegn spillingu. Kim Jong-un yrði ekki lengi við völd ef þeir væru á svæðinu. Og það var lítið hægt að gera við því, skyndilega þurfti heimurinn að sætta sig við að vera í raun stjórnað af „ofurmennskum hippum.“
The Authority hélt ægivaldi yfir heimi stútfullum af ofurhetjum og skúrkum þökk sé meðlimum sem gátu bókstaflega gert hvað sem er með geimskipi úr annarri vídd og erfðabreyttum ofurmönnum. Meðlimir komu og fóru, létust og endurholdguðust í gegnum árin en voru sjaldan fleiri en sjö. Þrátt fyrir að reyna að vera yfirvald og boðberar siðlegri tíma var liðið ekki mannað af neinum kórdrengjum. Meðlimir þess voru árásargjarnir og drykkfelldir, fóru af og til drukknir í bardaga og áttu við fíkniefnavandamál að stríða.
Í fyrsta blaðinu hóf The Authority baráttuna fyrir betri heimi,
hvort sem heimurinn vildi það eður ei.
Fyrstu árin
Fyrstu árin gekk The Authority allt í haginn, bæði í myndasögunum sem utan. Í þessum fyrstu sögum komu mikilvægustu þættir seríunnar fram. Þau berjast við einræðisherra með her af ofurhetjum, innrásarher frá hliðarvídd og undir lok ársins 1999 birtist gríðarstór geimvera sem bjó til sólkerfið og er ekki par sátt við mennska íbúa jarðarinnar.
Stofnandi liðsins, Jenny Sparks, lést í bardaga við þessa veru og Mark Millar (Wanted, Kick-Ass, Civil War) tók við seríunni á sama tíma. Eftir að hafa bjargað heiminum þrisvar sinnum í röð fór liðið að njóta sín. Einræðisherrar víða um lönd var sálgað, flóttamenn höfðu nú samastað í gríðarstóru geimskipi og The Authority varð frægara sem aldrei fyrr. Ógnirnar urðu nú jarðbundnari, ríkisbubbar og brjálaðir vísindamenn reyndu að taka yfir heiminum og gera útaf við liðið en án árangurs.
Undir handleiðslu Millar og Ellis náði serían gríðarlegum hæðum, bæði í gæðum og sölu. Millar þurfti á tímabili að fást við nokkra ritskoðun frá DC (sem á Wildstorm heiminn) sem neitaði að setja raunverulega pólitíkusa inn í myndasöguna og reyndu að draga úr blóðugum bardögum. Eftir þessa vel heppnuðu byrjun var reynt að fá nýja höfunda og listamenn til að halda áfram. En serían náði ekki flugi á ný fyrr en 2004 þegar liðið tók yfir Bandaríkin í „Revolution.“
Ofurhetjur sem skipta máli
Margar seríur hafa velt því fyrir sér hvernig ofurhetjur og ofurhetjulið væru í raunveruleikanum og áhrifin sem þau hefðu á heiminn. Watchmen og The Boys eru nærtækustu dæmin, en Ellis og Millar nálguðust efnið á allt annan, mun beinskeittari hátt. The Authority líkist að vissu leyti Ozymandiaz úr Watchmen, þau vilja breyta heiminum, ekki bara berjast við ofurógnir. En ólíkt Ozymandiaz neita þau að fela það og standa ókeik gegn spillingu heimsins og heimta að hann verði betri. Og heimurinn verður að hlusta.
En ættu ofurhetjur ekki að haga sér svona? Hvað ef Superman henti einræðisherrum upp í veðurhvolfið, stöðvaði misnotkun á umhverfinu, spillingu og græðgi? Hvað hefði átt sér stað ef JLA hefði tekið yfir heiminum í bankahruninu? Hver er tilgangur með kosningum ef Hulk tekur allar lokaákvarðanir?
Fyrstu bækur The Authority reyndu að svara þessari spurningu. Liðið gerði nokkur mistök og galt fyrir þau, en ákvarðanir þeirra miðuðust venjulega við að gera hlutina betri fyrir fólkið á jörðu niðri. Og af hverju ættu ofurhetjur að bjarga heiminum frá blóðþyrstum geimverum ef heiminum er stjórnað af græðgi og illsku? Af hverju ættu ofurhetjur ekki að sjá til þess að heimurinn sé þess virði að bjarga?
Upprunalega liðið
Jenny Sparks – Jenny sparks var andi 20. aldarinnar og stofnandi The Authority. Hún stjórnaði rafmagni í hvaða formi sem var og breytti sér í rafmagn til að ferðast. Hún var leiðtogi liðsins og setti tóninn fyrir stefnu þess. Hún dó þegar 20. öldin rann sitt skeið og andi 21. aldarinnar fæddist.
Jack Hawksmoor – Kallaður konungur borganna, kraftar hans voru missterkir eftir því hvort hann var í borg eða ekki. Í stórborg var hann gríðarlega sterkur og næstum því ódrepandi en utan þeirra var hann gagnslaus. Hann tók við sem leiðtogi eftir dauða Jenny Spark.
Apollo og Midnighter – Paródíur af Superman og Batman en þeir voru elskuhugar. Apolló hefur flesta krafta Superman en þarfnast hleðslu sólargeisla til að nota þá. Midnighter stærði sig af því að geta drepið hvað sem er í heiminum og að sjá fyrir allar árásir óvina sinna.
The Doctor – Fyrsti doktor liðsins var Jeroen Thorndike, fíkill og brjálæðingur. The Doctor er titill sem fer frá einum manni til annars, þegar núverandi doktor deyr er annar valin í staðinn. Doktorinn á að vernda mannkynið og hefur til þess óskorað vald yfir jörðinni og allt sem á henni er. Hann getur í raun og veru gert hvað sem er, við hvað sem er. Fyrrverandi doktorar eru menn eins og Einstein, Jesús og Búddha.
The Engineer – Kona sem skipti á blóði sínu og nanóróbótum. Nanóróbótana getur hún notað til að skapa hvað sem er þar á meðal önnur eintök af sjálfri sér. Hún sér um að fljúga geimskipinu þeirra sem ferðast á milli vídda eins og að drekka vatn.
Swift – Vængjuð kona sem getur flogið hratt og fundið bráð sína hvar sem er á hnettinum. Hún var kannski ekki jafn öflug og sumir meðlimir en hún var mjög mikilvæg fyrir liðið sjálft.
Hér sést allt liðið talið frá vinstri til hægri: Apollo, The Doctor,
Midnighter, Swift, Jack Hawksmoor, The Engineer.
Í forgrunni er stofnandi liðsins, Jenny Sparks.
Framtíðin
Fyrstu ár The Authority voru með þeim bestu, fyrstu bækurnar eru góðar, Millar og Ellis vita hvert á að fara með liðið og nýta mismunandi persónuleika þeirra. Upprunalega serían var í stöðugri útgáfu í þrjú ár, frá 1999-2002 . Aðalpersónurnar voru kynntar til leiks og kraftar þeirra fengu að njóta sín. Sögurnar eru misjafnar að gæðum en fyrstu bækurnar eru algerlega nauðsynlegar ef þú vilt njóta seríunnar. Tímabilið sem fylgdi varð ívið stormasamara, seríur byrjuðu og hurfu síðan af sjónarsviðinu, Lesendum fækkaði og Wildstorm varð sífellt örvæntingarfyllra eftir því sem leið á áratuginn og The Authority átti eftir að gjalda þess.
Myndir: The Authority vol. 1: Relentless (1. mai, 2000) eftir Warren Ellis.
Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.