Leikjarýni

Birt þann 13. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Resident Evil: Operation Raccoon City

Resident Evil: Operation Raccoon City er þriðju-persónu skotleikur sem er framleiddur af Slant Six Games og gefinn út af Capcom. Leikurinn tekur rúmlega 50 MB á harða disknum, það tók mig um það bil hálftíma að ná í allt sem þurfti og setja upp. Ég náði að nýta mér ókeypis netborð með nýjum söguþræði áður en það rann út 4. nóvember síðastliðinn og þá stækkar plássið sem leikurinn tekur í rúmlega 300 MB. Og ég geri ráð fyrir því að hin borðin sem hægt er að kaupa í gegnum PlayStation búðina séu svipað stór (og hvert borð tekur um 30 til 60 mínútur að fara í gegnum, eftir hraða leikmanns).

Um leikinn

Hver man ekki eftir gömlu góðu Resident Evil leikjunum sem komu út á upprunalegu PlayStation leikjatölvunni. Þar var mikil áhersla lögð á andrúmsloftið í gegnum tónlistina og staðreyndina að maður var oftast einn á ferð að vona að maður rækist ekki á nein skrímsli. Ég man hvað mér brá fyrst þegar ég sá hundana stökkva í gegnum gluggana og hin hröðu og skæðu Hunter skrímsli í fyrsta RE leiknum. Ekki má gleyma Licker skrímslið úr öðrum leiknum og risann Nemesis sem var undirtitillinn í þriðja leiknum. Öll þessi skrímsli ásamt Dr. Birkin og uppvakningunum eru á sínum stað en í þetta sinn er maður ekki einn.

Maður er einn meðlimur sérsveitar á snærum fyrirtækisins Umbrella, sem olli því að hættulegur vírus breiddist út í Raccoon City, og þarf maður að klára ýmis verkefni ásamt þremur liðsmönnum. Í þessum stutta leik, sem tekur frá 6-9 tímum eftir hraða spilarans, hittir maður og sér atburði úr RE2 og RE3 frá öðrum sjónarhornum. Nema hvað þessi leikur getur ekki talist vera hluti af sönnum söguþræði RE leikjanna þar sem sum atriði passa ekki við eða farið er í aðra átt en gerðist í upprunalegu leikjunum og fyrir aðdáanda leikjanna er það leiðinlegt að sjá. Manni langaði helst til að spila gömlu leikina til að sjá hvað gerðist í söguþræðinum og hversu vel eða illa tekst til að púsla þessum leikjum saman.

Þegar maður byrjar leikinn getur maður valið úr 6 persónum með sín sér einkenni og eiginleika. Það eru ávallt 4 persónur með í leiknum, hvort sem þær séu tölvustýrðar eða vinur þinn í gegnum netið. Umbrella fyrirtækið vill eyða öllum gögnum um aðild sína að þessu stórslysi og ætlast til þess að sérsveitin hlýði. Í gegnum leikinn koma fram efasemdir um tryggð Umbrella til þeirra og hvort þeir munu fá þyrlu til að komast í burtu frá borginni sem er krökkfull af uppvakningum. Í endann þurfa þau að spyrja sjálfa sig hvort þau muni hlýða Umbrella þegar kemur að lokaverkefninu.

Spilun

Maður hefði haldið að þetta yrði algjör snilld, maður er í sérsveit og hefur félaga með sér til að komast í gegnum þetta helvíti. Nema hvað að gervigreindin hjá félögum þínum er ekki það greind þannig að það er ekki eins mikið gagn af þeim og gæti verið (nema um væri að ræða þína raunverulegu vini í gegnum netið). Félagar þínir eiga það til að ganga beint inní eldhaf sem er auðvelt er að ganga framhjá og oftar en ekki eru þeir fyrir þér ef þú ætlar að reyna skjóta óvin. Þeir geta ekki lífgað þig við ef þú breytist í uppvakning eða deyrð; hins vegar getur maður sjálfur lífgað þá við eins og ekkert sé. Þetta er hins vegar ekki vandamál ef þú spilar með öðrum í gegnum netið þá getiði lífgað hvorn annan við.

Maður hefði haldið að þetta yrði algjör snilld, maður er í sérsveit og hefur félaga með sér til að komast í gegnum þetta helvíti. Nema hvað að gervigreindin hjá félögum þínum er ekki það greind þannig að það er ekki eins mikið gagn af þeim…

Það væri mjög hentugt ef maður gæti skipað félögum sínum fyrir því það þarf samvinnu til að komast í gegnum sum borðin eða þá bara hlaupa yfir á næsta áfangastað. Því sumir hlutar eru virkilega erfiðir því það virðist vera endalaust af skrímslum eða uppvakningum og ég komst að því að það væri betra að hlaupa í gegnum þetta. Ekki beint hetjulegt og getur tekið dágóða stund að fatta þetta. Og ekki nóg með það þá eru Licker og Hunter rosalega erfið að eiga við þar sem þarf allt of mörg skot þarf til að drepa þau. Já, jafnvel með haglarann að vopni í návígi.

Annað sem fór í taugarnar á mér var að maður gat aðeins verið með eina heilsuspreydós og eina móteitursspreydós á sér. Ég hef það á tilfiningunni að sjúkrafræðingurinn í hópnum gæti borið meira en ég hafði engan áhuga á því að prufa aðrar persónur. Það skiptir bara engu máli hver maður er í sjálfum leiknum en aftur á móti breytist það allt í fjölspiluninni. Eftir því sem maður spilar leikinn meira safnar maður hæfnisstigum sem maður getur notað til þess að kaupa betri vopn eða eiginleika fyrir hvern og einn karakter í sveitinni.

Fjölspilun

Í fjölspiluninni drapst ég og drapst ég endalaust vegna þess að ég notaði ekki hæfileika karakter míns eða ég átti þá ekki fyrir. Það voru óvinir sem nýttu sína eiginleika í botn, eins og að gera sig ósýnilega í stutta stund. Það eru fjórir fjölspilunarmöguleikar fyrir utan leikinn sjálfan: Team Attack, Biohazard, Heroes og Survivor. Í Team Attack eru tvær sveitir að berjast á móti hver öðrum og vinna sér inn stig með því að drepa hitt liðið eða uppvakninga og skrímsli. Í Biohazard eru tvö lið að berjast um að safna týndum glösum af G-vírusnum og koma þeim á sitt svæði. Í Heroes getur maður valið að vera persóna úr Resident Evil leikjunum og berjast tvö lið um að drepa hvort annað. Í Survivor eru tvö lið sem berjast um sæti á þyrlu sem yfirgefur Raccoon City en það eru takmörkuð sæti og gæti maður þurft að drepa vin sinn fyrir sæti.

Ef maður hefur ekki gaman af leiknum gerir fjölspilunin ekkert meira fyrir mann nema kannski ef maður spilar með alvöru félögum sínum.

Ef maður hefur ekki gaman af leiknum gerir fjölspilunin ekkert meira fyrir mann nema kannski ef maður spilar með alvöru félögum sínum. Þessi spilunarmöguleikar eru frekar venjulegir og maður býst allavega við þessum möguleikum. Ég verð þó að játa að það er sniðugt að leita að G-vírus glösum þótt mér fannst það afar ruglingslegt til að byrja með. Maður hefði haldið að Survivor myndi koma best út en svo var það ekkert spes. Maður þarf að lifa af í ákveðinn tíma áður en þyrlan getur komið og lent. Síðan þarf maður bara að koma sér inní þyrluna og er bara búinn með leikinn þegar maður er kominn inn. Frekar skrítið þar sem borgin er morandi í skrímslum og það væri leikur einn að sprengja þyrluna en það er ekki hugsað lengra en þetta í þessum leik.

Tónlist og hönnun

Það er ekki hægt setja mikið út á grafíkina í leiknum en hún er fín og persónurnar eru vel gerðar. Hins vegar er leiksviðið frekar óspennandi, maður er endalaust í myrkrinu alveg sama hvort maður er úti eða inni og er því flest allt í leiknum grátt. Tónlistin náði ekki að grípa mig en öll umhverfishljóð eru til fyrirmyndar þar sem stofan var uppfull af uppvakningum. Mér fannst einnig leiðinlegt að það voru ekki fleiri leiknar senur sem notuðust ekki bara við tölvuskjá sem sýndi manni hvað átti að gera næst.

Samantekt

Við fyrstu sýn er þetta ekki svo galin hugmynd en það þarf að framkvæma svona leiki rétt þannig að manni finnist gaman að spila leikina. Leikurinn er mjög stuttur og sagan er ekki uppá marga fiska. Manni grunar að leiknum hefði vegnað betur ef hann væri ekki tengdur við Resident Evil heiminn. Ég mundi aðeins mæla með honum sem fjölspilunarleik með félögum sem maður þekkir og ef allir myndu tala við hvor annan með hljóðnema. Þá væri eflaust hægt að horfa framhjá flestum göllunum sem koma fram þegar maður spilar einn í leiknum.

 

SAGA
GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
4,0
7,0
7,0
6,0
6,0
6,0

SAMTALS

6,0

 

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑