Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Bíó og TV»Umfjöllun: Homeland
    Bíó og TV

    Umfjöllun: Homeland

    Höf. Nörd Norðursins9. október 2012Uppfært:20. ágúst 2013Engar athugasemdir5 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Fyrir stuttu voru Emmy verðlaunin haldin hátíðlega og stóð sjónvarpsþátturinn Homeland uppi sem ótvíræður sigurvegari. Þátturinn tók heim sex verðlaun, þar á meðal sem besta dramatíska þáttaröðin og aðalleikararnir, Claire Danes og Damian Lewis, hlutu verðlaun fyrir besta leik í þáttunum umtöluðu. Eiga þau verðlaunin svo sannarlega skilið þó svo að ég vilji meina að Claire Danes beri höfuð og herðar yfir Lewis. Hún skilar af sér tour de force frammistöðu sem and- og tilfinningalega óstabíll starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar.  Fyrsti þátturinn í annarri seríunni af Homeland var frumsýndur 30. september og er við hæfi að rýna aðeins í form og innihald þáttana og velta því fyrir sér hvaða réttu strengi þátturinn virðist vera  að slá í hjörtum sjónvarpsáhorfenda.

    Homeland byggir á ísraelskum sjónvarpsþáttum sem heita Hatufim (í. Stríðsfangar). Í þeim þáttum er saga sögð af tveimur stríðsföngum sem snúa baka til heimalandsins og vaknar strax grunur stjórnvalda að þeir hafi talað af sér og veitt óvininum viðkvæmar upplýsingar sem gætu nýst honum. Bandarísku þættirnir fara aðra leið. Í þeim er hermanninum Brody (Damian Lewis) bjargað úr átta ára prísund í Írak, en hann var talinn látinn. Honum er komið til síns heima þar sem kona og börn bíða hans og áhyggjufull stjórnvöld. Leyniþjónustu fulltrúinn Carrie Mathison (Claire Danes) sker sig þó úr því hún vill meina að Brody hafi í raun verið snúið af hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída og sé orðinn njósnari fyrir þá. Hún verður heltekin af Brody og leggur allt í sölurnar til að komast að því hvort hann sé í raun og veru bara saklaus stríðsfangi eða ógn við heimalandið. Þættirnir fara síðan með áhorfendur í gegnum hin ýmsu hvörf og óvæntar vendingar sem skilur þá eftir í óvissu eftir hvern þátt.

    Persóna Claire Danes er án efa sú sem heldur uppi þáttunum. Frásögnin snýst að mestu um hana í byrjun þáttanna en smátt og smátt fáum við meiri innsýn inn í líf Brody og undir lokin tvinnast hratt og örugglega saman sjónarhorn Carrie og Brody sem ýtir undir spennuna og lyftir þáttunum upp á spennuþáttaplan. Þessi spenna verður þó ekki fyrr en undir lokin því þættirnir byrja á rólegum nótum og gefa sér góðan tíma í að spinna og veita áhorfandanum góða mynd af persónunum.

    Persóna Carrie er ekki hin hefðbundna hetja, mætti segja að hún sverji sig í ætt við andhetjuna. Hún þjáist af maníu (e. bipolar disorder) og er áhorfandinn aldrei viss um hvort hún sé í raun að fylgja sinni eigin röklegu hugsun eða sé undir áhrifum sjúkdómsins við ákvarðanatökur sínar, af því leiðir að spennan er ekki svo mikið á yfirborðinu í þáttunum heldur undir niðri í sálardjúpi persónunnar Carrie. Þessi sálarflækja Carrie er sýnd á mjög táknrænan hátt í upphafsstefi þáttanna. Undir titlunum koma brotakenndar myndir, jazz tónlist, þar sem trompet spilar stórt hlutverk, og inn í það blandast glefsur þar sem heyra má meðal annars í Donald Rumsfeld og svo samræður Carrie við Saul (yfirmann hennar í þáttunum, leikinn af Mandy Patinkin).

    Homeland eru að einhverju leyti póst-9/11 þættir. Hryðjuverkaógnin er yfirvofandi í þáttunum og engum er treystandi.

    Homeland eru að einhverju leyti póst-9/11 þættir. Hryðjuverkaógnin er yfirvofandi í þáttunum og engum er treystandi. Það er engin tilviljun að Brody kemur heim í faðm hinnar fullkomnu bandarísku fjölskyldu (á yfirborðinu er hún fullkomin) og er staðsettur í smábæjarmýtunni eins og hún gerist best. Undir yfirborðinu hangir hjónabandið á bláþræði og svo virðist sem engum sé treystandi í fjölskyldu Brody, ekki einu sinni dóttir hans kemur hreint fram.

    Það sem hefði ekki verið hægt að gera stuttu eftir 11. september er að láta bandarískjan hermann leika tveimur skjöldum í svona sjónvarpsþáttum. Hetjuímynd bandarískra hermanna hefur greinilega núna fallið í gleymsku og kvikmyndagerðarmenn geta leyft sér að fara þá leið að gera hetjuna tortryggna. Þó gera þeir hana ekki einu sinni tortryggna heldur ganga lengra, hvort sem það er meðvitað eða ekki þá er hin yfirdrifna og upphafna hetjuímynd látin ganga lausum hala í þáttunum og verður um leið írónísk frásögn innan söguheimsins.

    Brody er tekið sem þjóðhetju og verður fljótlega forsíðufrétt og miðpunktur athyglinnar. Hann er bæði vonin og ógnin í einum og sama pakkanum. Von fyrir almenning en ógn fyrir Carrie. Þessi tvískinnungur í persónusköpun hans eykur enn á spennuna og áhorfandinn veit í raun aldrei í hvorn fótinn Brody mun stíga.

    Það er hægt að líta svo á að Homeland sé í raun ekki að fjalla um ógnina við hryðjuverk heldur þá ógn sem steðjar frá stjórnmálaaflinu og kapítalísku umhverfi heima við. Þættirnir eru uppgjör við fjármálakreppuna jafnvel, þar sem háttsettir menn komust til valda og voru við völd en báru ekki hagsmuni almennings fyrir brjósti heldur sátu á tifandi sprengju án þess að kippa sér upp við það.

    Homeland minnir um margt á kvikmyndir sem komu út í Bandaríkjunum á 6. áratugnum þegar kommúnistaógnin var allsráðandi og engum var treystandi. Hollywood undir þrýstingi stjórnvalda gerðu í raun áróðursmyndir til að sýna bæði ytri og innri ógnina. Má nefna sem dæmi að vísindaskáldskaparmyndir sem komu út á þessum tíma eins og Invasion of the Body Snatchers (1956) voru bókstaflega að fjalla um að ekki væri hægt að treysta neinum, hvað þá sinni eigin fjölskyldu. Sú mynd er bein tilvísun í kommúnista ógnina. Mætti jafnvel túlka Homeland sem aðra útgáfu af þeirri mynd. Þó er önnur mynd sem sver sig meira í ætt við þættina og er það Manchurian Candidate (1962) þar sem stríðsfangi er heilaþvoður af kommúnistum og fer undir fölsku flaggi inn í stjórnmálin í Bandaríkjunum með voðaverk í huga.

    Það verður spennandi að sjá í hvaða átt þættirnir fara í nýju seríunni. Miðað við verðlaunafjöldan er nánast hægt að fullyrða það að það verður enginn svikinn af komandi seríu, það er að segja ef hún heldur í við þá fyrri.

     

    Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
    nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

     

     

    Brody Carrie Mathison Claire Danes Damian Lewis homeland Ragnar Trausti Ragnarsson sjónvarpsþættir
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaCCP heldur íslenskan EVE og DUST hitting 25. október
    Næsta færsla Sjónaukinn – Ný vefþáttaröð um stjörnufræði og stjörnuskoðun
    Nörd Norðursins
    • Facebook

    Birt af ritstjórn

    Svipaðar færslur

    Secret Level

    10. desember 2024

    RIFF kvikmyndahátíðin 2024

    27. september 2024

    Hvað ef Squid Game leikirnir væru íslenskir?

    13. nóvember 2021

    Austin Powers heimsækir Mass Effect

    19. október 2021

    Íslensk mynd um vináttu í Eve Online hlýtur verðlaun

    14. júní 2019

    Skaparar It’s Always Sunny in Philadelphia búa til þætti um leikjahönnun

    10. júní 2019
    Nýtt á Nörd Norðursins

    The Game Awards í beinni 11.-12. desember

    4. desember 2025

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus

    23. nóvember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    Myndbandsspilari
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ
    00:00
    00:00
    32:02
    Notaðu upp/niður örvahnappana til að auka eða minnka hljóðstyrkinn.

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • The Game Awards í beinni 11.-12. desember
    • Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards
    • Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    • Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.