Ljós og skuggar Japans
Samantekt: Japan heillar í AC: Shadows með fallegum heimi, en aðeins veikri sögu.
4
Góður
Eftir nokkra seinkun þá er leikurinn Assassin’s Creed: Shadows loksins kominn út á PS5, PC/Mac og Xbox Series vélarnar. Það er ekki annað hægt að segja en að franski leikjaútgefandinn Ubisoft sé búinn að eiga nokkur erfið ár og er von að nýjasti leikurinn í AC seríunni bæti hag þeirra.
Ubisoft Quebec leiðir vinnuna á þessum leik með aðstoð hvorki meira né minna en 17 annarra deilda Ubisoft. Fyrirtækið leiddi vinnuna við AC: Syndicate og AC: Odyssey.

Leikur sem gerist í Japan er eitthvað sem aðdáendur seríunnar hafa lengi óskað eftir, þar á meðal ég. Þetta land og ótal sögusvið sem hægt að var kanna var eitthvað sem heillaði mig mikið að sjá á skjánum og kanna þá heima.
Það hafa nokkrir tölvuleikir komið út síðustu árin sem hafa einnig kannað Japan og viss tímabil í landinu á mismunandi vegu. Má þar nefna, Ghost of Tsushima (gerist árið 1274), Nioh (1600) Nioh 2 (1500), Rise of the Ronin (1853). Ghost of Yotei mun gerast um árið 1603 að sögn framleiðanda hans. Þetta eru ótal sögur til að kanna í Japan og skortir ekki viðfangsefnin. Fyrir þá sem fylgjast með sjónvarpi þá eru Shögun þættirnir á Disney+ að gerast á sama tímabili og AC: Shadows.
Blóðug sameining Japans
Með AC: Shadows er það nú hægt, leikurinn gerist árið 1579 og er landið að ganga í gegnum erfitt tímabil. Þetta eru undir endalok Sengoku tímabilsins þar sem landið hafði verið í ótal stríðum og borgarastyrjöldum í hátt í 200 ár samfellt. Ótal stríðsherrar höfðu barist innbyrðis um völdin í landinu og það var ekki fyrr en Oda Nobunaga í samvinnu við Tokugawa Ieyasu byrjaði að sameina landið með valdi að það sá fyrir lokin á þessum átökum. En í stað þeirra komu nýjar hættur í formi vestrænna ríkja sem höfðu lengi ásælst að ná meiri fótfestu í landinu og notuðu oft kristið trúboð til þess.

Sögusvið AC: Shadows gerist um þetta leyti og setur það persónurnar Naoe og Yasuke í hringiðu atburða sem munu móta landið næstu árin. Það er einmitt árás Oda Nobunaga á heimili Naoe í Iga héraðinu sem byrjar sögu leiksins. Þar fá spilarar að spila sem Yasuke, sem er samuræ stríðsmaður undir stjórn Nobunaga, og er hluti af hernum sem er að ná völdum í héraðinu. Fjölskylda Naoe hefur lengi búið þar og eru þau Shinobi stríðsmenn, og þau hafa mögulega tengingu við önnur samtök í AC seríunni.
Sninobi eða Samurai?
Eftir að forsögu leiksins lýkur þá er hægt að spila annað hvort sem Naoe og laumast í skuggunum og notast við ýmis vopn til að ráðast á óvini leiksins þaðan en laumuspil er nauðsynlegt til að lifa af sem Naoe, sérstaklega í byrjun leiksins. Það er ekki mikill séns að lifa lengi af í bardögum við marga óvini í einu. Það að nýta sér umhverfi leiksins og kanna svæðin helst ofan á húsþaki og skipuleggja sig hjálpar gríðarlega mikið. Það er hægt að eyðileggja ljós til að auka myrkur á vissum svæðum og hjálpa þér að laumast um borð leiksins betur. Naoe hefur aðgang að krók sem hún getur notað til að klifra upp og laumast um, einnig getur hún og Yasuke bæði lagst flatt niður og skriðið um til að fela sig eða nálgast óvinina betur.
Að spila sem Yasuke er talsverð öðruvísi og hjálpar það til að brjóta upp spilun leiksins, það eru viss verkefni sem aðeins hann eða Naoe geta leyst, á meðan flest öll verkefni og svæði er hægt að spila sem önnur hvor persónan. Yasuke notast við styrk sinn og vopn í stað að laumast um. Hann er stór og þungur og getur ekki klifrað jafn mikið og Naoe, en hann getur fært vissa hluti til að komast að nýjum svæðum, ásamt að hreinlega hlaupa í gegnum hlið eða vissa óvini. Hann getur getur tekist á við fleiri óvini í einu og er hálfgerður „skriðdreki“ stundum. En á móti kemur á hann erfiðara með laumast um og fara beint að takmarki sínu.
Það er hægt að skipta á milli persóna leiksins fljótlega með að fara í valmynd leiksins og velja aðra hvora persónuna. Þau deila árangurs hækkun „level“ í leiknum og hjálpar það til við að annað hvort þeirra verður ekki miklu veikara ef þú ert bara að spila eina persónu í gegnum meirihluta leiksins. Yasuke og Naoe notast við ólíkt vopn, hann er með lengri Katana sverð, boga og skotvopn, á meðan Naoe notast við hefðbundin sverð, styttri Tanto sverð ásamt Assassin hnífsblaðinu sem fólk þekkir úr eldri leikjunum ásamt reyksprengjum, shuriken stjörnum, Kunai hnífum og Kusarigama sem ég hafði mjög gaman að nota.

Borð leiksins gerist á Kansai svæðinu í Japan, eitt af mikilvægari svæðum landsins á þessum tíma. Þar mátti finna helstu borgirnar eins og Kyoto, Osaka, Sakai og aðrar smærri. Það er virkilega gaman að fara um heim leiksins og kanna Japan til forna. Ég hef lengi verið heillaður af landinu og menningu þess og gæti líklega eitt ótal tímum bara að labba um umhverfi leiksins og dáðst af vinnunni sem hefur verið lögð í heiminn.
Það er óskandi að Ubisoft kæmi með svona „Discovery tour“ eins og þeir gáfu út fyrir AC: Origins, Odyssey og Valhalla þar sem var hægt að fá sögukennslu um heiminn á meðan þú labbaðir um hann.
Framþróun eða meira af því sama?
Formúlan sem hefur verið í síðustu Assassin‘s Creed leikjum, fyrir utan Mirage, er til staðar hér að mestu. Þú opnar fyrir kort leiksins með að klifra upp á vissa „sync“ punkta, leysa þrautir, hreinsa upp óvinabúðir, finnur ótal glingur o.f.l. í þá áttina. Hægt er að heimsækja lítil skrín eða hof til að fá tímabundna bónusa sem nýtast í bardögum.
Þú hækkar upp í stigi í leiknum, velur þér hæfileika í nokkrum mismunandi hæfileikatrjám og velur það sem hentar þínum leikstíl. Naoe og Yasuke eru með ólík hæfileikatré, svo það býður upp á fjölbreytni í spilun leiksins.
Hægt er að spila leikinn í svokölluðu „immersion mode“ sem þýðir að allar persónur í leiknum tala annað hvort japönsku eða portúgölsku, eftir því sem við á. Þetta hjálpar að draga mann inn í leikinn og spilaði ég líklega 85% af leiknum þannig. Hægt er síðan að velja „canon mode“ sem þýðir að þú ert ekki að velja valmöguleika í samtölum eins og í hlutverkaleikjum, heldur ertu að upplifa söguna sem framleiðendur leiksins vilja að þú sjáir og leikurinn eigi að fara að þeirra mati. Það er gaman að hafa þessa valkosti í leiknum og auðvelt er að skipta á milli þeirra, hvenær sem þú vilt.
Eitt af því sem margir kvörtuðu undan við AC: Valhalla var að hann var alltof stór og of mikið að gera í honum. Það hljómar pínu asnalega, en þetta var þó rétt að mínu mati. Það var of mikið af óþarfa dóti til að gera og finna, í stað að einblína á smærri og þéttari spilun sem hefði hentað leiknum meira. Að mínu mati var AC: Origins fín blanda af þessu, nóg að gera, en sagan og heimurinn voru skemmtileg að kanna og spila. AC: Shadows nær þessu að mestu, þetta er ekki 100+ tíma leikur eins og Valhalla en það er þéttari og hnitmiðaðri saga sem ætti að taka flesta um 40-60+ tíma að klára og það er ekki jafn mikið af óþarfa rugli sem er út um allt á korti leiksins. Þegar ég hafði klárað sögu leiksins og spilað í gegnum eftirmála leiksins þá var ég í um rétt yfir 60 tíma spilaða og með rétt um 70% af bikurum (trophies) leiksins.

Huldusamtökin á bakvið tjöldin
Spilun leiksins snýst um að útrýma óvinum í dularfullum samtökum sem kallast Shinbakfufu og tengslum þeirra við sögu Naoe og Yasuke. Inn í þetta spilast síðan ótal önnur smærri samtök og eins og við er að búast tengist við heildarögu Assassin‘s Creed leikjanna. Sagan í heild sinni er fín og hentar viðfangsefninu. Þegar kafað er dýpra í baksögu persónanna, sérstaklega Yasuke, þá byrjar maður að hafa meira gaman af þeim og spila sem þau, en hvorug persónan nær þó að vera jafn eftirminnileg og eldri hetjur leikjanna eins og Bayek, Ezio eða Kassandra. Raddleikararnir standa sig vel en þeir standa ekki heldur upp úr að mínu mati.
Til að ná takmarkinu er nauðsynlegt að byggja upp net vina og njósnara til að hjálpa þeim að eiga við þessi dularfullu samtök. Í gegnum sögu leiksins er hægt að rekast á persónur til að fá til liðs við sig og kalla á í bardögum í leiknum. Hægt er að uppfæra þær aðeins til að verða sterkari. Sumar þessar persónur hafa síðan verkefni og baksögu sem gaman er að kanna nánar. Hægt er að ráða til liðs við sig njósnara til að fara með vistir aftur til bækistöðva þinna eða gefa þér finna vissa hluti á korti leiksins en því miður er þetta ekki jafn vel útfært og ég hefði viljað sjá. Það hefði verið gaman ef maður hefði getað sent þá á vissan part kortsins og fengið nánari upplýsingar um hvernig óvinirnir eru á svæðinu og hvaða fjársjóðir eða leyndardómar finnast á því.
Þegar líður á leikinn opnast fyrir þann möguleika að byggja upp leynistöðvar þar sem þú og vinir þínir hafast við, æfa sig og uppfæra vopn og aðra hluti. Með að safna saman vissum vistum í lok hverrar árstíðar er hægt að byggja upp bækistöðvar, nýjar byggingar sem opna fyrir nýja möguleika í leiknum og uppfæra þær. Ég notaðist við þetta oft til að uppfæra uppáhalds vopnin mín og brynju til að ná því stigi í leiknum sem ég var á og halda áfram að nota þau. Það er hægt að taka að sér lítil verkefni á smærri bækistöðvum sem opna fyrir ný verkefni, gefa þér peninga, vopn eða hluti til að uppfæra bækistöðina heima fyrir. Þessi verkefni eru frekar einföld, en eru góð leið til að safna upp peningum og öðru slíku.

Árstíðir leiksins eru skemmtileg viðbót við hann og er munur að fara um viss svæði leiksins eftir hvaða árstíð er. Ég hafði einna mest gaman af vetrar pörtunum, það var gaman að sjá hvernig lítið vatn sem ég gat synt í var nú frosið og persóna mín var í vandræðum að labba hratt yfir það. Það var líka mjög flott að sjá veðrið í leiknum, sérstaklega yfir veturinn. Það gaf þessu sérstakan blæ að laumast um þök Kyoto í snjóbyl í leit af óvini mínum.
Eins og var í síðustu leikjum þá er í leiknum svona eftirlýstur-kerfi sem virkar þannig að því meiri usla þú veldur og eða nærð ekki að stöðva óvini að kalla á liðsauka þá birtast erfiðari óvinir til að ganga frá þér. Þetta er þó ekki jafn harkalegt og í AC: Origins með Phylakes óvinina sem voru hryllingur að lenda í.
Sumir óvinir eru í brynjum og þarf að hafa það í huga þegar barist er við þá, þá er gott er að vera með blöndu af vopnum sem virka vel í návígi og úr fjarlægð. Það er hægt að nota viss brögð eftir að þú opnar fyrir þau í hæfileikatrjám leiksins, sem opna fyrir öflugar árásir sem geta klárað óvinina eða tekið niður brynjur þeirra. Það er flott að sjá þegar þú gerir viss brögð, þá breytir skjárinn um lit og verður í hálfgerðum vatnlitastíl rétt á meðan. Bæði Naoe og Yasuke eru með vissa hæfileika til að eiga við erfiða óvini á þennan hátt.
Alltaf nóg að gera
Það eru ótal virki, kastalar, óvinabúðir og fjársjóðir á víð og dreif um kort leiksins og ætti það að halda fólki við efnið, löngu eftir að það hefur klárað söguna. Það eru kettir og hundar sem er hægt að rekast á og auðvitað klappa. Þegar þú ert búinn af því, þá opnast fyrir möguleikann að bæta þeim við í bækistöðvar þínar. Það var mjög gaman að koma til baka stundum og hitta kött með kettlingana sína eða klappa hundinum sem þú bjargaðir í ákveðnu verkefni í leiknum.
Sem Yasuke og Naoe er hægt að finna vissa staðiþar sem Naoe hugleiðir og Yasuke æfir sig, þetta er svona rytma tengt, en frekar auðvelt að ná að gera. Fyrir þá sem nenna því ekki þá er hægt að breyta því í valmynd leiksins og sleppa að gera það, en samt fá þá kosti sem eru í boði fyrir að gera þessi verkefni, ofan á það opnast fyrir baksögur beggja persónanna að gera þetta og kafar það dýpra í tengsl þeirra beggja og við aðrar persónur í leiknum.

Tæknilegar hliðar leiksins á PS5 og PS5 Pro
Ég spilaði í gegnum leikinn á PlayStation 5 Pro vélinni minni í gegn og verð ég að segja að leikurinn leit hrikalega vel út í nær alla staði og keyrði mjög vel. Leikurinn keyrir á nýjustu útgáfu Anvil grafík vélinni frá Ubisoft. Ólíkt fyrri leikjum þá er AC: Shadows bara í boði á nýju leikjavélunum ásamt PC, það eru engar útgáfur fyrir PS4 og Xbox One í þetta sinn. Það var líklega alveg kominn tími á þetta að mínu mati.
Hægt er að velja á milli Performance 60fps, Fidelity 30fps eða Balanced 40fps (eingöngu í boði á sjónvörpum eða tölvuskjá sem styðja við 120hz) og hefur það áhrif á rammahraða leiksins (fps), hvernig vissir grafískir hlutar líta út og hve vel „ray-tracing“ sé nýtt í leiknum. PS5 Pro fær betri möguleika, í Fidelity og Balanced valmöguleikunum.
Ég spilaði í gegnum meirihluta leiksins í Fidelity á PS5 Pro og fannst það koma mjög vel út. Fannst bara eitthvað skemmtilegra að upplifa heiminn aðeins flottari, þó að hin sé engan veginn að koma illa út heldur.
Nýjar viðbætur
Animus Hub er ný viðbót við Assassin‘s leikina og er hluti af framtíðaráætlunum Ubisoft að tengjast saman leikina á einfaldari vegu. Ekki ólíkt t.d. hvernig Call of Duty serían er með þetta í dag. En það hefur samt mikið breyst síðan að Ubisoft fyrst kynnti þetta sem AC: Infinity.





Hægt er að ræsa upp aðra leiki frá sömu valmynd ef þú átt þá fyrir. Í byrjun þá er hægt að skoða síðan fjóra hluti í Hub.
- Memories – skoðað tímalínu leikjanna í seríunni og ræst upp aðra leiki.
- Projects – skoðað ný verkefni, opnað fyrir verðlaun og gjaldmiðil til að nota í leiknum.
- Exchange – skipt lyklum sem þú vinnur þér í leiknum, fyrir verðlaun eins og vopn og brynjur.
- Vault – Er samansafn af myndböndum og öðrum lykilhlutum sem tengjast nútíma sögu seríunnar.
Þar sem leikurinn var spilaður fyrir almenna útgáfu hans þá var peningabúð leiksins ekki farin í loftið. Eins í öðrum leikjum frá Ubisoft og öðrum framleiðendum þá eru slíkar búðir oft með ýmsa hluti sem er hægt að kaupa fyrir alvöru peninga eða þá sem þú vinnur þér inn í leiknum. Þessir hlutir eru vanalega eitthvað til að flýta fyrir árangri í leiknum, kort sem sýna fjársjóði og annað slíkt ásamt vopnum og brynjum sem eru tengd viðeigandi leik eða öðrum úr seríunni eða frá sama framleiðanda.
Það er ljóst að tafirnar sem leikurinn var fyrir, frá upprunalegu útgáfu hans síðasta nóvember, hafa skilað sér í vel slípuðum leik. Ég sá mjög lítið af villum og asnalegum hlutum sem oft á við svona opin heims leiki. Því stærri og flóknari þeir eru, því meiri líkur er að eitthvað klikki.
Ég saknaði vissra hluti í eldri leikjum, t.d. að geta ekki verið með kyndil í helli, að geta látið hestinn fylgja veginum að takmarki mínu og vera með fugl til að kanna umhverfið.
Skemmtilegt ævintýri í Japan
Það eru fjögur og hálft ár síðan að Assassin‘s Creed: Valhalla kom út en þetta er eitt lengsta bil á milli leikja frá upphafi Tæknilega séð kom AC: Mirage út 2023 en hann byrjaði líf sitt sem aukapakki fyrir Valhalla og var smærra hliðardæmi. Næsti leikur í seríunni á að vera AC: Hexe (vinnuheiti leiksins), og er gerður af Ubisoft Montreal. Lítið er vitað um þann leik eins og er, nema að hann eigi að vera frábrugnari eldri leikjum. Orðrómar eru um að leikurinn eigi að gera í mið Evrópu í kringum hápunkt hins Heilaga rómverska keisaradæmis og eigi að tækla nornabrennur og yfirnáttúrulega hluti.
Að mestu er AC: Shadows mjög vel heppnaður leikur sem gerist í gullfallegum heimi Japans á miklum átaka- og breytingartímum. Saga Naoe og Yasuke er fín en skilur ekki mikið eftir sig, leikurinn og spilun hans er góð og nær að sleppa við offramboðið af hlutum sem AC: Valhalla þjáðist af.
Helsti gallinn að mínu mati í sambandi við söguna er hve lítið hann er að tengjast nútíma sögu seríunnar eins og síðustu leikir hafa gert. Ef þú sýndir einhverjum þennan leik án þess að segja að þetta væri nýr Assassin‘s Creed, þá gætu þeir vel haldið að þetta væri bara ný ævintýra- og hasarsería sem gerðist í Japan. Þeir yrðu samt fljótir að fatta að þetta væri nýr AC þegar þeir byrjuðu að spila hann.
Þegar upp er staðið er Assassin‘s Creed: Shadows mjög góð skemmtun og færir seríuna loksins til Japans. Eitthvað sem fólk er búið að biðja um mjög lengi, hann er ekki sama byltingin á seríunni sem AC: Origins var, en hann er samt mjög góð skemmtun og ætti að hitta vel í mark fyrir þá sem hafa gaman af þessum leikjum. Ég vona bara að saga næsta leiks verði sterkari og við fáum eina persónu til að spila í gegn.
Leikurinn kemur út þann 20. mars næst komandi á PlayStation 5, PS5 Pro, Xbox Series X/S, PC og Mac.
Eintak í boði útgefanda.