Greinar

Birt þann 9. mars, 2025 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Avowed leikjaumfjöllun

Fyrir stuttu síðan kom út hlutverka- og ævintýraleikurinn Avowed frá Obsidian Entertainment og Xbox Game Studios. Leikurinn er fáanlegur á Xbox Series X/S, Microsoft Store á Windows og Steam. Fyrir þá sem eru með áskrift af Game Pass á PC og eða Xbox þá er hægt að nálgast leikinn þar sem hluti af áskriftinni.

Obsidian Entertainment er þekkt leikjastúdíó sem komið hefur að mörgum þekktum ævintýra- og hlutverkaleikjum síðustu áratugina. Má þar helst nefna, Star Wars: Knights of the Old Republic II, Neverwinter Nights 2, Alpha Protocol, Fallout: New Vegas, South Park: The Stick of Truth, The Outer Worlds og Pillars of Eternity.

Það er einmitt síðastnefndi leikurinn sem Avowed tengist. Saga leiksins gerist í heimi Eora sem Pillars 1 og 2 kynntu til sögunnar. Saga Avowed gerist eftir atburði Pillars of Eternity II: Deadfire.

Hérna fyrir neðan má sjá stutt myndband sem við tókum saman um leikinn.

Spilarar taka að sér hlutverk sendifulltrúa frá Aedyr heimsveldinu sem er sendur til að rannsaka dularfulla plágu sem kallast „Dream Scourge“ á eyjunni Living Lands. Þessi eyja er fjölbreytt með mismunandi umhverfi og landslagi, hvert með sitt einstaka vistkerfi. ​

Í Avowed er leikurinn spilaður bæði í fyrstu og þriðju persónu sjónarhorni. Spilarar geta notað galdra, sverð og önnur návígis vopn ásamt skotvopn til að berjast við óvini. Leikurinn býður upp á úrval galdra sem hægt er að blanda saman við aðrar árásir og spilarar geta fljótt skipt á milli mismunandi bardagastíla. Að auki eru nokkur hæfileika tré til að opna nýja hæfileika og möguleiki á að uppfæra vopn og brynjur leiksins. 

Það er hægt að fá til liðs við sig aðrar persónur til að berjast með þér í gegnum ævintýri leiksins. Þeir eru ólíkir í útliti ásamt persónuleika og eru ekki alltaf sammála öllu því sem þú gerir í leiknum. Þeir hafa sína eigin hæfileika og baksögu sem kemur betur í ljós þegar líður á sögu leiksins. 

Hvernig þú spilar leikinn og hvaða valkosti þú velur, hefur áhrif á fólk í kringum þig og hvernig það hagar sér gagnvart þér. Þetta er eitthvað sem fólk sem hefur spilað sambærilega leiki frá Obsidian Entertainment ættu að kannast við. 

Persóna þín sem þú skapar í byrjun leiksins er það sem kallast “Godlike”  manneskja sem var snert af einum af guði heimsins við fæðingu. Þetta vanalega skilar sér í vissum hæfileikum og síðan breyttu útliti, oft sem veldur öðrum óhug og hræðslu. Í Pillars of Eternity leikjunum var hægt að velja á milli nokkurra mismunandi tegunda Godlike, en í Avowed er það aðeins takmarkaðra og tengist það einmitt við sögu leiksins. Þeir sem fæðast sem slíkir geta ekki eignast afkvæmi og eru oft litin hornaugu af öðrum.

Ég var ekki viss hverju ég ætti von á þegar ég byrjaði að spila Avowed, ég hafði fylgst með framleiðslu hans í nokkurn tíma, en hann var einhvern vegin ekki að ná að grípa mig þegar ég sá hann. Svo þegar ég sótti hann á Xbox vélina til að spila þá var ég ekki alveg viss hvað biði mín.

Nú eftir að hafa spilað í 20+ tíma (sem er ekki mikið fyrir svona leik), þá er ég talsvert betur að mér í leiknum og hvernig hann spilast. Heimur lifandi landsins er að heilla mig, hvernig náttúran og litirnir skína í gegnum svo margt þarna. Það virðist vera barátta á milli manna og náttúrunnar og það er ekki auðvelt að sjá í byrjun hver rót þessa vanda er. Persóna þín kemur til landsins og er hluti af yfirstétt Aedyr sem hefur haldið niðri fólki þessa nýja lands. Verkefni þitt frá Keisaranum er að komast að því hvað er í gangi með landið og hvaðan þessi dularfulla plága kemur frá. 

Bardagakerfi leiksins er skemmtilegt, þó tekur smá stund að fá tilfinningu fyrir því. Leikurinn er spilaður í fyrstu persónu sjónarhorni, þó er hægt að fara í valmynd leiksins og velja þriðju persónu ef maður vill það frekar. Hreyfingar og bardagar leiksins minntu mig oft á leikinn Dark Messiah of Might and Magic frá Arkane Studios sem gerðu Prey og Deathloop.

Það eru engir klassar sem slíkir heldur getur þú í hvert sinn sem persóna þín hækkar í stigi valið á milli “klassískra” valkosta eins og Fighter, Ranger, Wizard og setja reynslustig í einhverja hæfileika þar. Auðvelt er að skipta á milli þeirra og breyta ef þér líkar ekki val þitt. Einnig er síðan Godlike hæfileika tré sem opnast þegar líður á leikinn. 

Það er hægt að leysa hin ýmsu verkefni eða þrautir á mismunandi vegu og það er viss sjarmi svona leikja að mínu mati. Hægt er að tala sig úr vandanum eða nota hæfileika eða galdra til að komast að fjársjóðum eða finna leynileið að óvinum og koma þeim á óvart. 

Ef þið hafið haft gaman af leikjum eins og Fallout, Skyrim, þá er margt hérna til að hafa gaman af, ekki er verra ef þið eruð með áskrift af Game Pass á PC eða Xbox þá er þetta auðveldari ákvörðun. 

Ég er búin að hafa gaman af Avowed og hann hefur náð að koma mér smá á óvart. Hvaða skoðun ég mun hafa eftir að ég klára hann er ég ekki 100% viss um. Mig grunar þó að ég muni hafa gaman af leiknum og ferðalaginu sem hann býður upp á. 

Vonandi mun leikurinn koma út á PlayStation 5 síðar á árinu svo sem flestir geta notið ævintýra Avowed. 

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑