Fréttir

Birt þann 18. janúar, 2025 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Ubisoft heldur áfram að kynna kerfi AC Shadows

Þrátt fyrir nokkra seinkun á Assassin’s Creed: Shadows heldur útgefandinn Ubisoft áfram að kynna  það sem er nýtt í leiknum. Búið var að taka fyrir að laumast um í leiknum, bardaga og parkour í fyrri kynningum.

Nú er komið að því að skoða hvernig heimur AC: Shadows er kannaður.

Í nýjustu umfjöllun um leikinn á vef Ubisoft má finna ýmsa fróðleiksmola eins og;

  • Kort leiksins er dýnamískt og uppfærist eftir hve mikið af heiminum þú hefur kannað.
  • Útsýnisstaðir er ný leið til að fylgjast með og uppgötva ný tækifæri.
  • Leiðsögumenn og þeirra hlutverk að safna saman upplýsingum, smygla vörum og stöðva viðvaranir til óvina.
  • Það verða mismunandi hlutir að gera í heiminum, eftir hvaða aðalpersóna er spiluð í leiknum.

Assassin’s Creed: Shadows mun færa ævintýri AC seríunnar til Japans árið 1579. Þessi tími var róstursamur og það var stutt í að landið steyptist í borgarastyrjöld. 

Eftir nokkur strembin ár hjá Ubisoft þar sem útgáfa leikja þeirra hefur gengið misvel í sölu og dómi gagnrýnenda og leikmanna, virðist vera að fyrirtækið sé loksins að reyna að breyta eihverju hjá sér.

Ubisoft hefur staðfest að það verður ekki Season Passi eða snemmbúin aðgangur að AC: Shadows, eins og var með Star Wars: Outlaws, Skull and Bones o.fl. Fyrirtækið hefur staðfest að fyrsta DLC eða niðurhalsefni leiksins verður frítt, fyrir þá sem forpanta leikinn. Annars verður hægt að kaupa það og annað efni fyrir leikinn síðar.

Assassin’s Creed: Shadows á nú að koma út þann 20. mars á PC, Mac, PlayStation 5 og Xbox Series vélarnar.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑