Leikjarýni

Birt þann 29. september, 2024 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Ragnarök Kratos mæta á PC

Ragnarök Kratos mæta á PC Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Vel heppnað framhald í þéttum pakka á PC sem svíkur engann.

4.5

Frábær


Fyrir tæpum tveimur árum kom út leikurinn God of War: Ragnarök á PlayStation 4 og PlayStation 5 leikjavélar Sony. Leikurinn var beint framhald leiksins God of War frá árinu 2018 sem við hjá Nörd Norðursins fjölluðum um á sínum tíma. Leikurinn seldist mjög vel og fékk góða dóma hjá bæði gagnrýnendum og leikjaspilurum.

Sá leikur var hálfgerð „endurræsing“ God of War seríunnar, án þess að þurrka út söguna sem hafði verið sögð í eldri leikjunum. Norræn goðafræði kom nú við sögu og Kratos og sonur hans Aterus blönduðust fljótt í baráttu guðanna sem endaði með dauða Guðsins, Baldurs og táknaði upphaf Ragnaraka, sem átti að vera heimsendir í norrænni goðafræði.

GoW: Ragnarök gerist þremur árum eftir atburði síðasta leiks, fimbulvetur hefur skollið á og er Miðgarður (heimur mannana) frosinn og á kafi í snjó, aðrir heimar eru einnig að kljást við ýmis vandamáli tengt þessum atburðum.

Kratos og Atreus eru að reyna að halda sig til hlés og forðast átök. Það er þó óraunsær draumur og er Freyja á eftir þeim, útaf dauða Baldurs sonar hennar. Óðinn, Þór og aðrir eru einnig byrjaðir að sýna þeim ákafann áhuga. Allt verður þetta að æsifengnu ævintýri, þar sem ótal lítrar af blóði flæða í einum besta leiks ársins 2022, og nú enn betri í nýrri PC útgáfu sem við höfum verið að spila upp á síðkastið í gegnum Steam. 

Saga leiksins er jafn góð og ég man eftir, Christopher Judge leikur Kratos og er hans nálgun og leikur á persónunni mjög vel heppnuð og heldur áfram að færa meiri dýpt og persónuleika, eitthvað sem maður hélt að væri ógerlegt, fyrir mann sem var þekktastur fyrir að segja sem minnst í eldri leikjum.

Samband Kratos við Atreus son sinn, er á ný kjarni sögunnar og hvernig það samband breytist með tímanum þegar að sonurinn vex upp og reynir að komast úr skugga föður síns og finna sína eigin leið í lífinu og hvað það muni tákna fyrir hann og samband þeirra. Að auki er þetta „litla“ smáatriði að hann heitir líka Loki, og hefur talsvert mikið að segja um atburði Ragnaraka og það er einmitt eitthvað sem Óðinn hefur miklar áhyggjur af.

Spilun leiksins er á ný hröð, spennandi og með taktískri nálgun á mörgum bardögum leiksins. Það er nýtt hæfileika tré fyrir bæði Kratos og Atreus að opna upp, sem gerir bardaga leiksins ferska og ávallt spennandi. Þrautir leiksins eru vel heppnaðar og passlega flóknar án þess að vera of erfiðar.

Tónlist leiksins er á ný samin af Bear McCreary og nær hún að skapa vel heppnað og epískt andrúmsloft sem passar vel við alla hluta leiksins.

Útlitslega er GoW: Ragnarök ótrúlega flottur að sjá, hann var það reyndar líka á bæði PS4 og PS5. Umhverfi leiksins, persónur og annað er einstaklega flott að sjá og lagði Santa Moncia Studios fyrirtækið klárlega mikla vinnu í að gera heim leiksins sem flottastan og fullan af litlum skemmtilegum smáatriðum að finna og sjá.

Það er auðvelt að sökkva sér í að skrifa mikið um þennan leik, en þar sem að margir hafa nú þegar spilað leikinn hef ég ákveðið að hafa þetta aðeins styttra en hefðbundna gagnrýni.

Mig langar samt að tala aðeins um Valhalla viðbótina sem leikurinn fékk rétt um ári eftir útgáfu hans. Hún kom held ég flestum mjög mikið á óvart þegar hún var kynnt á Game Awards 2023 og gefin út nokkrum dögum síðar.

Á einfaldan hátt er Valhalla ferðalag Kratos í gegnum fortíð sína og hvert hann vill stefna í framtíðinni og hvort að hann telur hann eiga hana skilið. Valhöll er persónugerving fortíðar hans og endurskapar hluta hennar á nýja vegu fyrir hann að horfast í augu við. Þetta er spilað í gegn sem hálfgert „rouge-lite“ sem þýðir að þú munt fara í gegnum þetta ferðalag oft áður en þú kemst loksins að leiðarenda, og hvert skipti mun verða ólíkt hinu. Þú byrjar hverja „umferð“ með grunn vopn og brynjur, allt það sem þú hafðir náð að safna upp í gegnum sögu GoW: Ragnarök er strípað í burtu. Í staðinn eru uppfærslur, vopn og hæfileikar sem hjálpa Kratos að komast í gegnum vígvelli Valhalla. Í hvert sinn sem hann fer í gegn, þá er hann að læra meira á heiminn, óvini hans og vinna sér inn varanlegar uppfærslur og hluti sem hjálpa honum að komast lengra og lengra í hvert skipti.

Valhalla viðbótin er fullkomin endalok á norrænum ævintýrum Kratos, og á sama tíma hjálpar honum að  horfast í augu við sig og fortíð sína, og hvernig hann mun geta haldið áfram eftir á. Að spila í gegnum þennan aukapakka er eitthvað sem fólk á ALLS ekki að gera nema það hafi klárað sögu leiksins, það er svo margt sem spillir sögu hans og að auki eldri leikja. Svo þetta er eitthvað sem er best að takast á við þegar þú ert búin að öllu öðru og kannski búin að rifja upp sögu eldri leikjanna líka.

Þessi viðbót er eitthvað sem hefði léttilega verið hægt að smella á nokkur þúsund króna verðmiða og maður hefði samt ekki kvartað, en að fá þetta frítt á PS4 og PS5 og með GoW: Ragnarök á PC í einum pakka er bara tær snilld.

Í sambandi við PC útgáfu leiksins og hvað hún kemur með til leiks, þá er stuðningur við hærri upplausnir, hærri rammahraða (fps), alls konar skjá stærðir og snið, betri skugga, lýsingu og enn flottara umhverfi.

Leikurinn styður helstu AI uppskölunar tæknina á markaðnum í dag, Nvidia DLSS 3.7, AMD FSR 3.1, Intel XeSS 1.2. Þetta hjálpar mikið til að fá enn hærri rammað hraða og keyra leikinn í hærri upplausn en hefði annars verið hægt að gera á vissum PC vélbúnaði.

Auðvelt er að spila leikinn á PC með mús og lyklaborði, eða notast við Dualshock 4 eða Xbox fjarstýringu, til að njóta leiksins enn betur þá mæli ég með að stinga DualSense PS5 pinnanum í samband við tölvuna til að njóta alls þess sem leikurinn styður frá þeirri fjarstýringu. Leikurinn nýtir DualSense ótrúlega vel að mínu mati, og hjálpar allt þetta til að draga þig meira inn í leikinn.

Það er síðan stuðningur við 3D hljóð með viðeigandi heyrnartólum, hljóðstöngum eða annarri sambærilegri tækni.

Vélbúnaðar kröfur leiksins eru fínar að mestu og er það helsta harða disks plássið, eða í þessu tilviki SSD sem skiptir öllu máli. Leikurinn tekur um 175GB pláss á tölvunni þinni, svo það er gott að losa aðeins til ef að plássið er að skornum skammti. Í sambandi við skjákort og örgjörva þá eru kröfurnar töluvert lægri og er nóg að vera með Intel eða AMD örgjörva frá svona um 2017 eða nýrri, og Nvidia GTX 1060GB/AMD RX 5500 XT 8GB skjákort og síðan 8GB vinnslu minni.

Til að njóta leiksins sem best er gáfulegt að vera með 6-8 kjarna örgjörva frá Intel eða AMD, Nvidia 2060/Amd RX 5700 eða betra og 16GB af vinnsluminni.

Eitt sem gæti stuðað suma er að leikurinn krefst ókeypis PSN  aðgangs, það er upp á að achivements á Steam og PlayStation Network virki saman, einnig ertu þá með aðgang að vinalistanum þínum. Þetta truflar ekkert, en eini gallinn er að leikurinn er fyrir vikið ekki fáanlegur til kaups í vissum löndum. Lönd eins og Eystrasaltslöndin, smáríki í Evrópu, flest öll Afríku lönd ofl. Þetta er eitthvað sem er pínu leiðinlegt og vonandi vinnur Sony í að opna fyrir þessi lönd.     

God of War: Ragnarök einn af bestu leikjunum árið 2022 og tveimur árum síðar, er hann enn jafn góður og með Valhalla sem bónus er þetta skyldueign í safnið, hvort að það sé á PC eða PS4/PS5.

Eintak í boði útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑