Birt þann 16. september, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Stjörnurnar kalla
Samantekt: Leikurinn er gríðalega stór og langur en honum tekst ekki að gera allt 100% rétt. Það skortir ekki metnaðinn.
4.5
Ótal ævintýri
Frá örófi alda hefur maðurinn horft upp til himinsins og íhugað hvað sé eiginlega þarna? Með tilkomu rökrænnar hugsunar, heimspeki, vísinda og fleira byrjaði mannkynið að skoða stjörnurnar nánar og hugsa hvort við værum ein í heiminum eða hvort fjarlægar plánetur gætu geymt líf og/eða önnur leyndarmál.
Við erum því miður talsvert frá því að kanna nálægar stjörnur í kringum okkar eigin sólkerfi og þar í kring, en þangað til höfum við bækur, kvikmyndir og tölvuleiki til að leyfa ímyndunarafli okkar lausum hala á meðan.
Tölvuleikurinn Starfield er að sögn framleiðenda, Bethesda Softworks, búinn að vera um 10 ár í fæðingu, þó raunverulegur framleiðslutími leiksins sé ekki jafn langur. Þetta er fyrsta nýja „IP“ fyrirtækisins í 25 ár sem ber ekki nafn The Elder Scrolls eða Fallout.
Heimurinn og hóparnir sem þú rekst á við spilun:
Leikurinn er gríðarlega stór sci-fi hlutverkaleikur sem gefur leikmönnum tækifæri á að kanna hátt í þúsund plánetur, smástirni og ýmiskonar tungl. Ekki einungis er flakkað um okkar eigin sólkerfi heldur ótal öðrum sólkerfum sem leikurinn inniheldur. Rúm þrjú hundruð ár inn í framtíðina hefur mannkynið náð að beisla nýja tækni sem gerir því kleift að ferðast hraðar en ljósið og þar með gert ferðalög út í hina myrku kima vetrarbrautar okkar að raunveruleika. Jörðin er óbyggileg eftir hamfarir og neyðist mannkynið í heild sinni til þess að yfirgefa heimili sitt og kanna fjarlægar plánetur í leit af nýjum heimkynnum og ævintýrum.
Eins og búast má við gengur það ekki átakalaust fyrir sig og kostar blóð, svita og tár að söðla undir sig ný svæði og plánetur. Helstu fylkingarnar sem leikmenn munu rekast á og hafa möguleika að ganga til liðs við eru:
- Constellation: könnuðir og vísindamenn staðsettir á plánetunni Jemison, sem eru að kanna leyndardóma alheimsins. Þeir eru aðalhópurinn sem leikmenn komast í snertingu við og keyra sögu leiksins áfram.
- United Colonies: voru stofnuð við fall Jarðarinnar og eru með höfuðstöðvar sínar í New Atlantis borginni í Alpha Centauri sólkerfinu á plánetunni Jemison. Þau eru sterkasta pólitíska fylking mannkynsins ásamt því að vera hernaðarlegt afl. Þessari fylkingu er kannski hægt að líkja við Sameinuðu Þjóðirnar okkar tíma.
- Freestar Collective: eru staðsett í Cheyanne-kerfinu og eru samsett af fólki sem vill lifa aðeins frjálsar. Akila City er eins konar höfuðborg þessa sólkerfis og minnir menning þess að mörgu leyti á villta vestrið.
- Crimson Fleet: eru sjóræningjar sem herja jafn á fólk sem plánetur þar sem þeir drepa og stela eins og þeim lystir.
- Ryujin Industries: erueitt af stærstu fyrirtækjum þessa heims og reka veldi sitt frá borginni Neon, sem er full af glæpum, neon ljósum, fiskveiðum og villtu næturlífi.
Góð leið til að vinna sér inn pening í byrjun leiksins er að vinna fyrir hin ýmsu fyrirtæki sem málaliði getur það gefið ýmsa bónusa eins og vopn, peninga, geimskip o.fl.
Þar að auki eru fylkingar eins og trúarhóparnir House of the Enlightened og Sanctum Universum. The Va-ruun sem dýrka snákaguð og er dularfullur hópur sem er hægt að rekast á milli sólkerfa. Ennfremur eru ýmsar smærri fylkingar sem er hægt að rekast á og berjast við.
Að kanna tómið í leit að svörum:
Saga Starfield er stór og full af skemmtilegum ævintýrum. Þú byrjar leikinn sem námuverkamaður á tunglinu Vectera og þar kemstu í snertingu við dularfullan hlut sem leiðir þig að Constellation hópnum. Þú þarft að leysa leyndardóma þessa skrítnu hluta, hvað þeir hafa að geyma og jafnvel svara stærri spurningunum eins og hvort að það séu til vitsmunalíf í vetrarbrautinni?
Mannkynið hefur lagt undir sig ótal plánetur, tungl og smástirni og nýtt sér þau til að vaxa og dafna. Á þeim leynast oft ýmis konar lífsform t.d. plöntur og smærri lífverur en hingað til hefur ekki fundist neitt þróaðra lífsform.
Ég vil ekki spilla öllu því sem sagan hefur uppá að bjóða, það er hluti af ævintýrinu að kanna leiki Bethesda og kafa dýpra í heimana sem fyrirtækið býr til. Aðalsagan er kannski engin bylting, en hún er þó mjög skemmtileg og kemur þér í snertingu við fullt af skemmtilegum persónum. Hvernig þau haga sér í kringum við þig, fer auðvitað eftir hvernig persónu þú ert að spila sem og hvaða valkosti þú tekst á við. Það er hægt að fá til liðs við sig ýmsar persónur sem hjálpa í bardögum, ævintýrum og að stjórna geimskipi þínu eða stöðvunum sem þú getur byggt upp.
- Sarah Morgan er leiðtogi Constellation og sú fyrsta sem þú getur fengið til liðs við þig. Hún er forvitnileg persóna sem ekki allir munu falla fyrir.
- Barret er hluti af Constellation og er fyndinn karakter sem á það til að koma sér í ótal vandræði en virðist alltaf finna góða leið að tala sig út úr vandræðum.
- Andreja er hluti af hópnum og er með dularfulla fortíð sem er gaman að kanna nánar. Hún var sú persóna sem ég eyddi sem mestum tíma með í gegnum leikinn.
- Vasco er vélmenni sem þú hittir í byrjun leiksins þegar Barret fær þig til liðs við Constellation.
- Sam Coe er einnig skemmtileg persóna en hann er hálfgerður geimkúreki og dóttir hans sem fylgir honum er glettin viðbót og þeirra samskipti eru oft einstaklega spaugileg að hlusta á.
Sem bónus eða mínus, fer eftir hvernig fólk horfir á það líklega, er hægt að velja „perk“ eða hæfileika í leiknum í byrjun hans sem gefur þér aðgang að The Adoring Fan. Eitthvað sem leikmenn The Elder Scrolls IV: Oblivion ættu að kannast vel við. En hann er einmitt raddaður af sama leikara og lítur líka svipaður út. Ef ykkur hefur einhvern tímann langað að vera með grúppíu með ykkur í för sem ELSKAR allt sem þú gerir, segir, hugsar og jafnvel hóstar þá er hann fullkomin viðbót í hópinn. Góður plús er að hann á það til að færa ykkur gjafir og er sæmilegur í bardögum.
Ég get ekki sagt hve oft mig dreymdi um að loka hann inni í næsta þrýstiloftsklefa og varpa honum út í geiminn eða þá skilja hann eftir á einhverju smástirni án matar eða lofts. Það er líklega dáldið grimmt en hann er pínu elska/hata blanda. Það er samt kostur að það er auðveldlega hægt að losna við hann eftir á, ef hann fer of mikið í taugarnar, ykkur er valið.
Kanna, byggja, sprengja. Valið er þitt:
Það er ekki hægt að kvarta um að Starfield láti mann ekki hafa nóg fyrir stafni, bara sagan tekur örugglega nokkra tugi tíma að lágmarki. Við þetta bætast svo ótal hliðarverkefni, hópar til að berjast við eða ganga til liðs við, geimskip til að hanna, stela eða kaupa og svo mætti lengi telja. Eins og oft er í svona leikjum eru skemmtilegustu hlutar hans þegar þú ferð út af aðal leiðinni, kannar heiminn og finnur ævintýri.
Ég eyddi talsverðum tíma í að ferðast um svæði og skanna pláneturnar, skoða lífið ef það var til staðar, grafa eftir málmum og öðrum hlutum. Sem ég gat nýtt til að hanna ný vopn, reisa byggingar eða hjálpa mér að selja til að eiga nóg fyrir uppfærslum á geimskipi mínu svo ég næði að komast aðeins lengra í hverju geimstökki og sjá hvað leynist handan við næsta stökkið.
Hægt að hanna þitt eigið geimskip, út frá vissum grunni þó, það eru takmarkanir á hve stórt það er. Það hefur ekki tekið leikmenn langan tíma að búa til allskonar flott skip og mörg sem minna á þekkt skip úr öðrum leikjum, kvikmyndum eða þáttum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ávallt verið lélegur í að búa til svona og einnig stöðvar eins og var í Fallout 4, ég á til að byggja eftir þörfum en sjaldnast útfrá fagurfræði eða flæði.
Eitt af forvitnilegri hliðarverkefnum sem ég rakst á var á plánetunni Porrima II þar sem kynslóðargeimskipið ESC Constant var á sporbraut plánetunnar. Þau höfðu verið á ferðalagi í yfir 200 ár og voru í leit af nýjum heimkynnum. Á marga vegu minnti skip þeirra á lokuðu hvelfingar Fallout leikjanna þar sem fólk lifði og dó allt á einum stað. Heppilega var skipið ekki eins og sumar hryllings hvelfingar Fallout leikjanna. Fólkið bað mig að vera tengilið fyrir sig og fólksins sem bjó nú þegar á plánetunni sem þau ætluðu að setjast að á. Þegar komið var þangað niður rakst ég á spilavíti og mjög pirrað lið sem skildi ekkert í að eitthvað gamalt geimskip væri að krefjast þess að þau yfirgæfu plánetuna sem þau höfðu lagt kröfu á fyrir hundruðum ára síðan. Ég gat valið á milli þess að hreinlega sprengja upp geimskipið og drepa alla þar, hjálpa þeim að setjast að en þurfa þá að borga spilavítinu fyrir að fá að setjast að og vera í raun hálfgerðir þrælar eða finna aðra góða málamiðlun. Það var einmitt það sem ég gerði, ég fór og fann gamalt stökkdrif sem virkaði með skipinu þeirra og gaf þeim þannig möguleikann á að fara eitthvað annað og velja sér nýja heimaplánetu án nokkurra blóðúthellinga.
Það var einmitt það sem ég gerði, ég fór og fann gamalt stökkdrif sem virkaði með skipinu þeirra og gaf þeim þannig möguleikann á að fara eitthvað annað og velja sér nýja heimaplánetu án nokkurra blóðúthellinga.
Þessir möguleikar á að spila á þann veg sem þú vilt eins og að skjóta þig úr vandanum, tala þig úr honum eða eitthvað annað, eru hluti af því sem gerir spilun þessara leikja að mínu mati oft svo skemmtilega. Hvernig félagar þínir sem eru með þér bregðast við getur einnig haft áhrif á söguna og hvað gerist næst. Ef þú ert alger skíthæll þá er jafnvel möguleiki að einhver þeirra yfirgefi þig þegar líður á, þitt er valið.
Að svífa um geiminn rænandi og ruplandi:
Geimskip eru stór hluti af Starfield, þú byrjar með lítið skip, sem heitir Frontier, sem þú getur uppfært og umbreytt þannig að það henti leikstíl þínum. Viltu að það sé létt með fullt af vopnum eða verður það gríðarlega stórt langferðaskip með ótal vörurýmum undir varninga til að flytja á milli kerfa og selja fyrir gróða? Þú getur líka valið á milli ýmissa „starfsframa“. Viltu vera smyglari og flytja eiturlyfið Aurora í leynihólfum á skipinu þínu á milli kerfa á meðan þú forðast að löggæslan finni það og sendir þig í steininn? Viltu kannski vera gullgrafari og fara á milli pláneta til að grafa upp dýrmæta málma eða viltu vinna fyrir hjálparsamtök og bjarga gíslum úr haldi?
Þegar þú hefur uppfært hæfileika þína og skip er hægt að kafa dýpra í bardagaþáttinn í leiknum og stjórna hvert afl vélarinnar fer. Auðvelt er að færa orku á milli kerfa sem hentar í vissum aðstæðum. Ég var snöggur að færa allt í grv-drifið (þyngdarafls drif), þegar mér vantaði hoppa í burtu úr slæmum aðstæðum. Annars setti ég allt í vopn og skildi skipsins og reyndi þannig að berjast út úr vandanum. Það fer alveg því hvernig skipið þitt er að stærð og hannað hvernig það lætur að stjórn. Það er frekar erfitt að vera að berjast við Spacers eða Crimson Fleet óvinina þegar þú ert á risa geimtrukk með allar geymslur troðfullar af góssi og varningi, þá er heppilegra að eiga mörg skip í einu og skipta á milli þeirra.
Metnaður eða stærð á kostnað annara hluta?
Leikurinn er hálfgerð blanda af leikjum sem Bethesda hefur hannað síðustu áratugina og hafa selst gríðarlega vel, með blöndu af hugmyndum frá No Man‘s Sky, Mass Effect o.fl. Það sem er gott að hafa í huga er að þetta er ekki einn risastór samfelldur heimur sem þú getur kannað frá plánetu til sólkerfa án þess að rekast á einhver stopp, hleðsluskjá eða annað slíkt. Í raun er það þannig að viss svæði í leiknum eru sérhönnuð fyrir söguna og andrúmsloftið, á meðan önnur eru búin til eftir þörfum (procedurally generated) þegar þú lendir á plánetunni. Aftur á móti ef þú býrð til stöð eða skilur eftir námuútbúnað þá verður svæðið eins þegar þú kemur til baka.
Þú stjórnar ekki geimskipinu þegar þú lendir eða tekur á loft, heldur sérðu stutt myndbrot í staðinn. Það er tæknilega séð hægt að ferðast á milli pláneta í sama sólkerfi en það er ætlast til þess að þú hoppir á milli þeirra. Það eru ótal hleðsluskjáir sem þú rekst á en heppilega eru þeir frekar snöggir að hlaðast þannig að þetta er ekki mikið mál. Það er auðvelt að velja verkefni og hoppa beint þangað og þannig sleppur þú við að horfa á ferðalagið þangað.
Leikurinn keyrir á uppfærðri og endurbættri Creation Engine 2 leikjavél Bethesda sem fólk annað hvort hatar eða elskar oft í eldri leikjum fyrirtækisins.
Það er ljóst að mikil vinna er á bakvið útlit persóna, hreyfingar, hvernig bardagar fara fram og annað slíkt. Ég var sérstaklega hrifinn af því hve miklu betra er að skjóta af vopnum í leiknum núna en oft áður. Fyrirtækið fékk hjálp frá id-Software og Machine Games sem eru hluti af Zenimax samsteypunni sem á öll fyrirtækin og tæknirisinn Microsoft keypti fyrir nokkrum árum.
Umhverfi leiksins er oft gullfallegt og er gaman að kanna pláneturnar, en þú munt þó rekast á vissar endurtekningar í uppsetningu og uppröðun sumra smærri svæða. Við værum líklega að bíða nokkur ár í viðbót eftir leiknum ef allt hefði verið handgert frá grunni á þeim þúsundum staða sem hægt er að kanna í leiknum. Mörg svæði eru með ýmsar hættur t.d. of lítið eða of mikið þyngdarafl, ekkert súrefni eða hættuleg dýr sem þarf að forðast. Það hefði verið gaman að sjá ennþá ýktari plánetur, eins og maður rakst stundum á í No Man‘s Sky, en flestar voru þó skemmtilegar að skoða.
Þú getur fengið ýmsa kvilla sem hafa til dæmis áhrif á það hvernig þú hreyfir þig, nýtir súrefni og annað slíkt. Heppilega eru til ótal hlutir sem hægt er að nota „til að lækna sig“ og eins og í Fallout og Elder Scrolls geta sumir hlutir haft slæmar aukaverkanir ef þeir eru notaðir of oft. Heppilega er frekar auðvelt að fara til læknis og fá það „lagað“. Það eru síðan vissir hæfileikar sem þú getur valið í byrjun leiksins sem gefa þér ákveðna bónusa en koma oft með mínusum á móti. Spaced gefur t.d. bónus í geimnum en gerir það að verkum að þú ert með mínus niðri á plánetum. Andstæðan við það er síðan Terra Firma sem gefur plús og mínus í hina áttina. Góður valkostur þegar þú byrjar er Kid Stuff semgerir það að verkum að foreldrar þínir eru í leiknum og byggir útlit þeirra á því hvað þú valdir þegar þú bjóst til þína persónu. Þau eru með vissa skemmtilega söguhluta og það eru jafnvel ákveðnir bónusar síðar meir sem er hægt að græða á.
Tæknilegu hliðar leiksins
Ég spilaði leikinn helst á Xbox Series X og PC til skiptis ásamt að prufa hann aðeins á Xbox Series S. Leikurinn er einnig fáanlegur á Steam fyrir þá sem vilja. Einn af kostunum við marga titla Microsoft er Play Anywhere, sem gerir þér kleift að spila á leikjavél upp í sófa í rólegheitunum og síðan þegar að fjölskyldan vill horfa á sjónvarpið þá er hægt að ræsa upp leikinn á PC tölvunni, hlaða upp af netinu hvar maður var í leiknum og halda áfram á PC með betri grafík og spilun jafnvel.
Leikurinn er læstur á 30 römmum á sek á leikjavélunum á meðan PC getur keyrt á hvaða rammahraða sem vélbúnaðurinn þinn ræður við. Það verður þó að segjast að eins og er þá er leikurinn pínu þungur í keyrslu og skiptir máli að vera með frekar nýlegan vélbúnað ef spilað er á PC. Það voru einhver hökt stundum þegar ég spilaði á Xbox, en aldrei neitt alvarlegt sem skemmdi fyrir spilun á leiknum. Það hefur lengi fylgt leikjum Bethesda Softworks að þeir eru oft einstaklega „beyglaðir“ við útgáfu og tekur það oft nokkra mánuði fyrir þá að slípast til, oft með hjálp moddara á PC.
Það kom mér skemmtilega á óvart í gegnum spilun mína að það var minna af þessari „beyglu“ en oft áður, í eitt eða tvö skipti hrundi leikurinn en hann er reglulega að vista hvar þú ert svo ég tapaði aldrei neinum árangri. Það var þó eitt verkefni sem gerði það að verkum að ég þurfti að endurhlaða eldra „save“ þar sem gervigreind leiksins bilaði eitthvað aðeins og ég komst ekki lengra. Þetta væri varla leikur frá þessu fyrirtæki án smá böggs en miðað við eldri leiki fyrirtækisins þá er Starfield skemmtilega vel slípaður. Það er ljóst að seinkun leiksins hefur hjálpað talsvert í þessum málum og ekki hefur sakað að hafa aðgang að gríðarlegri stærð og fjármagni Microsoft til að prufa leikinn fyrir útgáfu hans.
Spilaðu á þinn hátt
Það er stórt og mikið hæfileikatré í leiknum sem er samsett af fimm hlutum. Physical, Social, Combat, Science og Tech. Í hvert sinn sem þú hækkar í „lvl“ eða stigi færðu einn punkt til að setja í tréð. Eftir að hafa gert það þá þarftu oft að nota þennan hæfileika x til að opna fyrir möguleikanum á næsta fyrir ofan. Þetta er eitthvað sem Fallout leikirnir hafa notast við líka. Þeir hæfileikar sem ég á það til að einblína oftast fyrst á eru; að geta haldið á fleiri hlutum í einu og að geta talað mig úr flestu. Það er eitthvað sem virkar vel fyrir minn leikstíl í svona leikjum, sérstaklega þar sem ég á til að stela öllu því sem er ekki neglt niður til að geta selt það. Þá er gott að vera með góðan talhæfileika til að tala sig úr bardaga ef maður er t.d. gripinn glóðvolgur. Það eru 82 hæfileikar sem hægt er að aflæsa sem tekur þig yfir lvl. 100+ ef ná á öllum.
Ég var um lvl. 53 þegar ég kláraði sögu leiksins og hélt síðan áfram þar eftir við að hækka mig upp. Það er einmitt achievement/trophy fyrir að ná lvl.100. Heppilega er til góð leið að hækka sig hratt upp í xp með að byggja upp stöðvar og vinna úr auðlindum pláneta til að framleiði afurðir til sölu.
Þegar upp var staðið hafði ég sökkt um 130 tímum í leikinn með tveimur karakterum og er ekki hættur að spila enn. Það er síðan New Game Plus innbyggt í leikinn sem bætir við nýjum og spennandi viðbótum við leikinn sem gerir það þess virði að klára hann nokkrum sinnum. Hvað það er kýs ég ekki að segja, en það er vel þess virði að spila hann aftur.
Ekki endilega fyrir alla
Það sem er helst hægt að segja um þennan leik og aðra leiki sem Bethesda Softworks hefur gert í gegnum árin er að oft annaðhvort elskar fólk þá, þeir hitta engan veginn í mark, eða það er einhver staðar mitt á milli. Leikurinn getur verið fallegur og ljótur stundum eftir því hvað er skoðað. Að flakka um valmyndir getur stundum verið óþarflega klunnalegt og er ýmislegt sem mætti straumlínulaga þar. Viðmót leiksins og hvernig hann heldur utan hlutina þína og slíkt mætti líka vera betur uppsett.
Að byggja upp bækistöðvar hefur verið mikið endurbætt síðan að það var kynnt í Fallout 4/Fallout 76 og er hægt að byggja upp enn flóknari og flottari stöðvar en áður sem geta orðið að upphafi veldis þíns. Ég hef verið að byggja upp stöð á rústum jarðarinnar þar sem Ísland er staðsett. Ekki alveg besti staðurinn, hann er fjarska fallegur að sjá, en banvænn að heimsækja.
Tónlist leiksins er virkilega vel hönnuð og er samin af tónskáldinu Inon Zur sem hefur búið til tónlist fyrir Fallout seríuna, Dragon Age, Syberia, Crysis, Prince of Persia ofl ásamt að hafa unnið í að sjónvarpsefni og kvikmyndum. Hægt er að hlusta hérna fyrir neðan á tónlista hans úr Starfield á Spotify.
Starfield er engin bylting sem slík á köflum, en það sem er í boði er að mínu mati frábært og bíður uppá gríðarlega stóran og skemmtilegan heim að kanna. Það er gaman að það sé komin ný sería til viðbótar við Elder Scrolls og Fallout og verður spennandi að sjá hvað verður í boði í framtíðinni. Það er a.m.k. búið að staðfesta að á næsta ári komi viðbót við leikinn sem kallast „Shattered Space“ og stuðningur við að nota mods bæði á PC og Xbox Series vélunum. Ekki ólíkt og er í boði í dag með Skyrim og Fallout 4.
Þetta er einmitt einn af hlutunum sem gerir þessa leiki svo vinsæla og gefur þeim langt líf. Það er engin tilviljun að Skyrim hefur verið endurútgefin svona oft á mismunandi leikjavélum. Heimarnir sem eru í boði bjóða upp á svo marga möguleika að kanna þá og maður getur auðveldlega spilað í hundrað tíma án þess að sjá allt það sem er í boði í leikjunum.
Ég gæti verið skrifað enn meira um leikinn en ég tel það betra að fólk skoði hann sjálft og ekki verra ef það hefur aðgang að Game Pass þjónustunni á PC/Xbox þá er þetta ekki erfið ákvörðun að mínu mati. Munið bara að leikurinn (eins og flestir í dag) er frekar stór og tekur um 120GB þannig að það er gott að búa til smá pláss í tölvunni. Það er mælt að vera með SSD eða Nvme ssd drif og það er mjög góð hugmynd eða vera með leikinn þar áður er hoppað í hann til að gera upplifunina betri.
Það er gaman að týna sér í heimi tölvuleikja og hittir Starfield vel í mark þar að mínu mati og er auðvelt að mæla með honum fyrir þá sem hafa gaman af RPG leikjum og geimævintýrum.
Eintak var í boði útgefanda