Leikjarýni

Birt þann 20. september, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Dansandi bylting

Dansandi bylting Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Ekki gallalaus leikur, en góð skemmtun

3

Óslípaður


Franska fyrirtækið Spiders hafa fært okkur ævintýra- og hlutverkaleiki eins og Bound by Flame, The Technomancer og Greedfall og hafa leikir þeirra oft verið frumlegir og skemmtilegir en dregnir niður af tæknilegum erfiðleikum og metnaðarleysi sem oft telur meira en fjármagnið og tíminn sem fer í leikina.

Steelrising er nýjasti leikur þeirra og kom út fyrir stuttu á PlayStation 5, Xbox Series X|S og PC. Þessi gagnrýni er byggð á PC útgáfu leiksins spiluð í gegnum Steam þjónustuna.

Það er áberandi undir hvaða áhrifum Spiders voru undir við gerð Steelrising; það þarf ekki að taka mörg skref í Parísarborg á tímum frönsku byltingarinnar til að sjá áhrif Bloodborne.

„Souls“ leikir er vinsælt hugtak í leikjaheiminum og leikir eins og Nioh, Star Wars: Jedi Fallen Order, The Surge og Returnal eru meðal margra leikja sem hafa fengið ýmsa hluti lánaða frá leikjum FromSoftware í gegnum árin.

Hlutir eins og að opna upp styttri leiðir (shortcuts) sem auðvelda þeir að snúa aftur til þess staðar sem þú dóst á, að þú þurfir að komast að líki þínu og deyja ekki á leiðinni til að endurheimta þann árangur (gjaldmiðil) sem þú varst komin með eða tapa honum, að fá síðar hluti sem opna upp lokuð svæði sem þú rekst á fyrr í leiknum, staðurinn sem þú byrjar frá og uppfærir persónu þína, mikilvægi úthalds í bardögum og vita hvenær er gáfulegt að gera árás og hvenær á að verjast eru allir hér.

Það er hægt að velja á milli fjögurra byrjunar-klassa sem grunn; Bodyguard, Soldier, Dancer og Alchemist. Eins og í Souls leikjum þá er þetta bara beinagrind af þeim leikstíl sem þú vilt og auðvelt er að velja það besta úr hverjum og sérsníða Aegis að þínum leikstíl.

Allt eru þetta hlutir sem Steelrising inniheldur á einhvern hátt, spurningin er bara hvernig leiknum tekst upp að innleiða þetta eða hvort að hann hefði grætt meira að vera hefðbundinn hasarleikur?

Steelrising gerist í París árið 1789 þar sem borgin og landið allt er á barmi byltingar. Þú spilar leikinn sem Aegis, kvenkyns meðvituð og sjálfsstjórnandi vélmenni sem er lífvörður drottningarinnar Marie-Antoinette. Her vélmenna herja á borgarbúa og lík íbúa hennar liggja eins og hráviði um stræti borgarinnar. Þetta er öðruvísi útgáfa af Frakklandi en við eigum að venjast og tækni heimsins byggir mikið á gírum og hlutum sem eru keyrðir áfram að klukku tækni. Í þessum heimi er leyndardómur á bak við þessar vélar og er það ein af ráðgátum leiksins sem Aegis reynir að leysa á meðan hún reynir að stöðva heri konungsins Louis XVI sem er ákveðinn í að nota þessa tækni til að berja niður alla mótspyrnu gegn sér, sama hvað það kostar.

Það eru átta kaflaskipt borð í leiknum og getur þú ferðast á milli þeirra með hestlausum vagni eftir að þú hefur klárað byrjunarborð leiksins. Eins og í Greedfall og fyrri leikjum Spiders þá er ekki hægt að spila leikinn eftir að sagan er búin. Að sögn framleiðendanna er verið að vinna að aukaefni fyrir leikinn ásamt New Game+ viðbót sem ætti að leyfa fólki að halda áfram að spila í stað þess að byrja leikinn á ný.

Leikurinn varar þó við þegar þú ferð á síðasta kaflann að þú ættir að klára allt áður en þú heldur áfram. Sagan og hvert hún fer er engin bylting sem slík, þó eru nokkrar hliðar sögurnar og uppruni Aegis eitthvað sem er gaman að fræðast nánar um. Aegis rekst síðan á nokkrar þekktar persónur úr sögubókunum eins og; Robespierre, Jean-Paul Marat, Marquis de Lafayette og Marie-Antoinette á meðal annarra.

Ég bjó til afrit af save skránni minni á PC svo ég gæti haldið áfram með sum aukaverkefni leiksins frekar en að byrja uppá nýtt. Á PS5 og Xbox ætti að vera nóg að gera afrit af cloud save skránni en það er samt pirrandi að þurfa að gera eitthvað sem leikurinn sjálfur ætti að gera fyrir þig.

Bardagar leiksins eru fínir en engin Dark Souls/Bloodborne gæði og eiga meira sameiginlegt með fyrri leikjum framleiðandans. Helsti vandinn að mínu mati er að það er allt of lítið af óvinum á hverju borði og þó að sumir þeirra séu stórir og geta gengið frá þér, þá er ekki mikið um of erfiða óvini. Ég hef spilað slatta af svona leikjum svo það undirbjó mig líklega eitthvað. Vopnin eru blanda af hömrum, sverðum, hnífum, byssum og öðru álíka  sem passa vel við tímabil leiksins. Hægt er að notast við sprengjur sem valda ýmsum skaðlegum áhrifum eins og eldi o.fl. sem er hentugt gegn vissum óvinum.

Ég endaði með að notast við stóra hamarinn og uppfæra hann ásamt byssu til að eiga við óvini sem voru lengra í burtu eða ofan á þökum. Óvinir leiksins eru allir vélrænir eins og þú þar sem það er enginn eftirlifandi manneskja á strætum Parísar. . Þú færð möguleikann að geta sveiflað þér upp á syllur í leiknum og opnar þetta aðeins heiminn en er notað of lítið og er bara á vissum stöðum. Það er stundum leiðinlegt að rata ekki á borðum leiksins og hefði þetta geta hjálpað talsverð við flæðið í gegnum borðin. Hreyfingar Aegis eru flottar að sjá í bardögum og þegar þú ferðast um París enda byggðar á dansara hreyfingum og sést það vel í flæði hennar og þegar hún berst við óvini leiksins.

Það er reyndar einn góður hlutur að leikurinn inniheldur „assist mode“ eða hjálpar stillingu sem breytir hlutum eins og hve mikið skaða þú veldur óvinum, hve mikið þeir gera við þig o.s.frv. sem ætti að hjálpa sumum að spila leikinn.

Bera þarf þó í huga er að leikurinn opnar ekki fyrir öll trophies/achievements ef að þú spilar leikinn með þessum stillingum. Það að dangla þessu sem valkosti er pínu súrt fyrir fólk og síðan segja að það fái ekki að njóta alls sem leikurinn býður upp á ef að það notar þessi „hjálpartæki“ sem leikurinn býður upp á. En þetta er þó betra en margir leikir.

Ég spilaði leikinn á PC tölvunni minni og er það eina útgáfa leiksins sem ég hef. Leikurinn er um 67GB að stærð og er með sæmilegar kröfur um vélbúnað til að geta keyrt Nvidia GeForce RTX 2060 skjákort með 6GB af skjáminni er nauðsynlegt til að keyra hann í lágmarks stillingum. Það er sæmilegt, jafnvel í dag, og á mínu GeForce 3080Ti 12GB skjákorti þá þurfti ég að stilla leikinn aðeins til og notast við DLSS uppskölun Nvidia, til að fá góðan 60fps rammahraða og besta flæði í spilun leiksins. Þrátt fyrir það þá lenti ég nokkuð oft í tæknilegum örðugleikum sem olli því að ég þurfti að ræsa upp leikinn á ný eða endurhlaða hvar ég var. Til allrar lukku er leikurinn góður í að vista reglulega svo ég tapaði aldrei neinum árangri. Ég kláraði söguna á um 13-14 tímum og var eitthvað eftir að aukadóti og öðrum valkostum þegar maður spilaði leikinn aftur.

Leikir Spiders fyrirtækisins hafa oft vissan sjarma sem höfðar til mín. Þeir eru pínu óslípaðir, hafa oft meira metnað en þeir ráða við og þurfa stundum einn eða fleiri plástra til að verða almennilegir en þrátt fyrir það er eitthvað við þá og oft gaman að spila þá, hvað þá ef að verðið er gott. Heppilega er Steelrising á ódýrara verði og kostar t.d 7.999.kr í Gamestöðinni fyrir PlayStation 5 eða á Steam fyrir PC á $50 eða um 7 þúsund krónur. Ef þið grípið leiksinn síðar á lægra verði þá er enn auðveldara að mæla með honum fyrir þá sem hafa gaman af slíkum leikjum. Það verður forvitnilegt að sjá hvað Spiders munu gera með Greedfall II næst.

Eintak var í boði útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑