Leikjarýni

Birt þann 10. október, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Byltingin étur börnin sín

Byltingin étur börnin sín Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Góður leikur sem býður upp á fjölmörg verkefni og fallegan heim til að kanna en skortir spennandi nýjungar.

4

Flottur hasar


“Like Saturn, the Revolution devours its children.”

― Jacques Mallet du Pan

Þessi setning skaust upp í höfuðið á mér stuttu eftir að ég kláraði sögu Far Cry 6 og neitaði hún að yfirgefa á mér kollinn. Heimur karabísku eyjunnar Yara og persóna hennar er einmitt tengdur hringrás byltingar og átaka. Í hundruði ára hefur alltaf verið einhver sem hefur vilja ráða yfir eyjunum og auðlindum hennar. 

Það er ekki erfitt að sjá hvaðan Ubisoft Toronto dró mikið af innblæstri sínum fyrir Yara. Auðvelt er að vísa beint á Kúbu sögu hennar og átök og þá einræðisstjórn sem hefur verið við lýði þar síðustu hálfa öld.

Árið 1967 varð bylting á Yara sem kom Castillo-ættinni frá völdum sem hafði ráðið yfir þessari hitabeltisparadís. Í nokkra áratugi stóð eyjan í stað þar sem að Bandaríkin voru með áralangar viðskiptarþvingnir á landið. Eftir fráfall Santos Espinosa, sem leiddi Yara og var einn af leiðtogum byltingarinnar, varð hrun í landinu og mikil fátækt tók við og eftir þó nokkurn óróa voru haldnar kosningar þar sem Antón Castillo komst til valda, með loforði um að endurreisa Yara í fyrra horf, þar sem peningarnir flæddu, fólk hafði það betra og rommið var alls staðar. 

Einræðisherrann Antón Castillo (leikinn af Giancarlo Esposito), er staðráðinn í að „bjarga Yara“ bæði frá óvinum hennar utan sem og innanlands. Sama hvað hann þarf að gera til þess. Sannleikurinn eða lygar? Það er eitthvað sem hann spyr oft að, vill fólk að hann segi þeim ósatt eða kannski opni augu þeirra fyrir nýjum sannleika. 

Þetta er einmitt það sem gerir Castillo að svo heillandi óþokka í sögu Far Cry 6. Hann er óneitanlega illur maður sem hikar ekki við að slátra fólki sem er á móti honum og hans sýn fyrir Yara. En hann trúir innilega að hann sé að gera rétt og aðferðir hans séu réttlætanlegar.

Hann vill skapa betra líf og skilja eftir Yara í góðri stöðu fyrir son sinn Diego Castillo að taka við af honum síðar. Diego er unglingur sem stendur í erfiðum skugga föður síns og er hvorki fórnarlamb né skrímsli, heldur eitthvað þar á milli, hann stendur mitt á milli þessa heima og er að reyna að finna hvaða leið hann á að fara.

Undralyfið Viviro sem er unnið úr tóbakinu á Yara og og hefur gefið eyjunum nýtt ríkidæmi. Viviro er nefnilega ein besta leiðin til að vinna gegn krabbameini og er heimurinn slæst um að láta Castillo fá peninga fyrir Viviro. Það sem margir gera sér ekki grein fyrir, eða hreinlega vilja ekki sjá, er að vinnan og framleiðslan á því er erfið, stórhættuleg og krefst mikils mannafla. Heppilega er nóg til af andstæðingum stjórnvaldanna til að nota sem vinnudýr. 

Leikmenn fara í fótspor Dani Rojas, (hægt er að velja kynið í byrjun leiksins), ungrar munaðarlausra manneskju sem langar að flýja til Bandaríkjanna og byrja nýtt líf með vinum sínum. En eftir blóðug átök í byrjun sögunnar í höfuðborginni Esperanza, þar sem vinir hennar látast og hún kemst af, kemst hún í samband við Libertad, samtök sem berjast fyrir frelsi Yara og nýjum kosningum. Dani er ekkert spennt fyrir þessu og vill helst komast í burtu, en hafði lofað vinkonu sinni áður en hún dó að koma skilaboðum til þeirra, í stað fyrir að hjálpa Libertad bjóða þeir að hjálpa Dani að komast í burtu ef hún vill. Eins og má búast við í svona opnum og hasarfengnum leik endar sagan ekki alveg þannig. 

Til að sporna við ógnarstjórn Antón Castillo og vel þjálfaða her hans þarf Dani og Libertad að vinna traust annarra fylkinga á Yara og ná yfir svæðum þar sem herir Castillo ráða yfir. Yara er skipt niður í nokkur svæði og eftir byrjun leiksins á Isla Santuario er leikmönnum gefið smá frelsi. Leikurinn vísar þó í hvaða átt er best að fara upp á bestu upplifun leiksins. 

Madrugada er þar sem tóbaksframleiðsla Yara fer fram og bændurnir sem berjast gegn Castillo eru leiddir af Monteros fjölskyldunni. Í Valle De Oro og fenjum hennar leynist rapparaparið Maxima Atanzas. Þau eru ung, vilt og stutt á milli partí og byssubardaga hjá þeim. Í El Este mætast kynslóðir eldri skæruliða og ungra háskólanemenda og bylting og arfleifð þeirra sem komu á undan 

Ef að Dani ætlar að ná að safna nægum styrk til að eiga séns að lifa af heri Antón Castillo þá þarf hún að hjálpa þessum ólíku fylkingum að ná saman og stoppa ófrið til að vinna blessuðu byltinguna. Sagan hefur sýnt að friðurinn endist ekki lengi, og eftir að stjórn Castillo er farin frá völdum, þá gæti verið stutt í næstu byltingu í Yara.

Spilun Far Cry 6 er engin stór bylting frá fyrri leikjum og ætti fólk ekki að vera lengi að detta í spilunargírinn. Það eru engir turnar að klifra í þetta sinn, heldur er takmarkið að ná yfir landssvæðum í Yara og veikja stjórnarherinn. Þú gerir það með að ná yfirráðum á herstöðvum, eftirlits stöðvum hersins, rannsóknarstöðvum, loftvarnarbyssum, hjálpa íbúum Yara sem herinn er að herja á, og leysa verkefni fyrir persónur í leiknum sem þú rekst á.

Vopn leiksins eru blanda af gömlum vopnum sem skæruliðarnir hafa náð að safna saman og ótal vopnum sem eru aðeins nútímalegri og hafa verið stolin af her Castillo. 

Resolver vopn sem eru búin til úr ýmsum hlutum eins og t.d byssu sem skýtur brenndum diskum með laginu Macarena eftir Los del Río á óvinina, El Susurro sem skýtur nöglum og er góð til að ná skoti á höfuð óvinarins, Tostador eldvarpa o.fl. skemmtileg vopn. 

Supremo vopn eru ein af skemmtilegri viðbótum Far Cry 6, þetta er hálfgerður bakpoki sem Dani er með á sér og er hægt að sérsníða hann að leik stílnum sem maður vill. Með að færa skæruliðanum Juan Úraníum (klárlega góð hugmynd), þá er hægt að kaupa ný Supremo vopn. 

Leikmenn byrja með Exterminador sem eru hreinlega eldflaugapakki á bakinu og er hann fínn þegar þú ert búin að merkja óvini og farartæki á kortinu með símanum þínum og láta eldflaugarnar fljúga. Fantasma er eiturvopn sem getur látið óvini tryllast og berjast við sína eigin menn. Furioso býr til stóran eldhring sem er góð leið að eiga við marga óvini og síðan er hægt að nota hann til að stökkva upp í loftið. Medico er klárlega hugsað fyrir co-op spilun og segir sig pínu sjálft. Volta kemur að góðu þegar þú vilt laumast um og rota óvini og slökkva á myndavélum og aðvörunakerfum. Gladiator leyfir Dani að fara í beserk mode sem gerir hana sterkari og hraðari í stuttan tíma. Það er síðan ein til viðbótar sem fæst bara með að leysa ákveðið verkefni. 

I skæruliðastöðvunum sem leikmenn opna fyrir og geta uppfært er hægt að kaupa ný vopn, föt sem gefa vissa bónusa gegn hlutum eins og sprengingum, eldi, eitri og bæta notkun vissra vopna. Það er hægt að velja mismunandi skotfæri á vopnabekkjunum, þar sem að sumir óvinir eru betur búnir en aðrir og síðan auðvitað farartæki og skriðdrekar hersins sem þurfa eitthvað öflugra en hefðbundin skotfæri. Það eru ýmsir möguleikar hérna sem ættu að gleðja fólk og bjóða þeim upp á fjölbreyttan leikstíl, eftir smá tíma í leiknum var ég kominn með samansafn af nokkrum vopnum sem gátu reddað mér út úr flestum þeim klípum sem ég náði að koma mér í.

Því meiri usla sem leikmenn valda mun her Yara byrja að sýna þér meiri áhuga og senda á þig erfiðar óvini, þyrlur og skriðdreka svo það er ekkert af því að hoppa á hestinn og flýja til fjalla og láta hitann minnka aðeins. Það eru ótal felustaðir á Yara sem skæruliðar úr eldri byltingum skildu eftir sig, það er síðan nóg af hlutum að finna þar til að hjálpa í baráttunni. 

Ef hasar leiksins er orðin aðeins of mikill og fólki langar að fá smá pásu þá býður leikurinn upp á ótal aðra hluti að gera eins og er algengt í Ubisoft leikjum síðustu árin. Það er hægt að keppa í Dominos, leita af fjársjóðum, veiða dularfull dýr, taka þátt í hliðar verkefnunum Yara stories, veiða, keppa í kappakstri og margt fleira. 

Í Far Cry 5 kom Ubisoft með Fangs for hire, sem voru dýr sem þú gast fundið og fengið til liðs við þig og snýr sá möguleiki aftur til leiks í Far Cry 6 . Fyrsti vinur þinn er krókódíllinn Guapo á eyjunni Isla Santuario og er hluti af byrjun leiksins. Síðar meir er hægt að finna hundinn Chorizo (svo mikið krútt), og hanann Chicharron sem er stórhættulegur og gæti hreinlega unnið stríðið aleinn. Það eru síðan fleiri dýr að finna og borgar það sig að hafa augun opin fyrir þeim í leiknum.

Eftir að Dani og Libertad hafa náð vissum svæðum á vald sitt og ná að útrýma einhverjum af skúrkum Castillos þá verða svæðin í leiknum aðeins erfiðari og er það sýnt með tölu sem hækkar. Þetta er auðvitað gert til að halda áskorun í leiknum á meðan Dani verður öflugri og hækkar í tign innan Libertad og fær öflugri vopn og tól í baráttuna. 

Special Operations eru verkefni sem er hægt að vinna einn eða í co-op og eru verkefni á sérstökum borðum utan við þau sem eru í aðalsögu leiksins. Far Cry 6 kemur með tvö slík verkefni við útgáfu, Mesozoico og Maceo, í þeim er takmarkið að finna efnið PG-240X og sleppa með það lifandi, það er ekki auðvelt þar sem ótal hermenn gæta þess og leikmenn þurfa finna lykla til að opna geymsluna þar sem efnið er. Eftir það er ekki nóg að hlaupa hratt í burtu, þetta efni er gríðarlega óstöðugt og þarf að geyma við mikinn kulda. Svo strax og það hefur verið fjarlægt úr geymslunni byrjar það að hitna og þú þarft að finna vatn eða annan vökva til að kæla það niður reglulega á meðan þú ert að reyna að sleppa. Ubisoft hefur lofað að gefa úr reglulega ný borð og eru 4 ný áætluð fyrir október og nóvember á þessu ári ásamt öðru fríu efni. 

Bandito Operations eru smærri verkefni sem eru hálfgert textadæmi, þú ferð og skoðar veggspjald í stöðinni þinni og velur skæruliða í vist verkefni og þarft síðan að velja hvernig hann leysir það. Þetta tekur sinn tíma að rúlla í gegn og þarftu að kíkja á verkefnið eftir smá tíma. Þessi verkefni gefa þér litla bónusa og hluti sem þú getur notað að uppfæra vopn þín, skæruliðastöðvar o.fl. 

Ég hafði talsvert meira gaman af sögu Far Cry 6 en FC 5 sem mér fannst vera pínu misheppnað tækifæri til að gera spennandi og frumlega sögu sem þorði að segja eitthvað. Sagan í FC 6 fer ekki eins og djúpt og ég kannski viljað á köflum, en það er þó nóg af hryllilegum hlutum að sjá og tæklar leikurinn margar skuggahliðar herstjórnar og þeirra grimmdaverka sem eru oft framin í nafni ríkisins og að halda uppi lög og reglu. Það var sérstaklega saga eins af skæruliða hópsins sem náði mér og hafði ég mikinn áhuga á að sjá hvernig færi. Ég vildi bara að það hefðu verið fleiri svona partar í sögunni. Leikkonan Nisa Gunduz sem raddar kvenkyns útgáfu Dani Rojas stóð sig mjög vel að mínu mati og náði að færa mannlega eiginlega í munaðarleysingjann sem ólst upp við erfiðar aðstæður og gekk ung til liðs við her landsins eins og jafnaldrar hennar en entist ekki of lengi út af agavandamálum og hefur verið að leita af leið að sleppa frá Yara og byrja nýtt líf, en örlögin hafa aðrir hugmyndir fyrir hana. 

Stjarna leiksins er klárlega Giancarlo Esposito sem flestir ættu að kannast við úr þáttunum Breaking Bad, Better Call Saul, The Boys eða The Mandalorian. Hann er ættaður frá Ítalíu og Afríku og fæddist í Kaupmannahöfn af öllum stöðum. Atriði hans eru einu bestu kaflar leiksins og nær hann að vera svo ógnvekjandi, og á sama tíma gæti maður næstum skilið vissar ástæður hans ef að á bakvið þær væri ekki skelfilegir hlutir og ofbeldi. Samband hans við son sinn Diego er skuggalegt, fallegt, hræðilegt og brenglað allt á sama tíma. Vinnan sem Ubisoft Toronto lagði í útlit hans, hreyfingar og andlit er ótrúlega flott og nýtur sín mjög vel á nýju kynslóð leikjavélanna.

Hvort sem er spilað leikinn á PlayStation 4/Xbox One eða á PlayStation 5/Xbox Series X þá keyrir og lítur leikurinn mjög vel út að mestu. Það eru smá hnökrar á eldri vélunum sem verða vonandi lagaðir fljótlega. 

Á nýrri vélunum er hægt að sækja auka niðurhals pakkann HD Pack sem bætir grafík og útlit leiksins en meira á 4K skjám og sjónvörpum. Leikurinn er að keyra á 60 römmum á sekúndu í 4K upplausn og gerir það að mínu mati vel. Hljóðhönnun og tónlist er mjög fín og er gaman að heyra í sprengingum og byssunum og hve vel þau hljóma. 

Karabíska landslag Yara tekur sig vel út og er það fjölbreytt að kanna og kemur en betur út ef þið eruð með skjá eða sjónvarp sem getur sýnt HDR liti. Roðinn af sólinni þegar maður fer um á hestbaki eftir ströndinni er mjög fallegur og er auðvelt að staldra við og dást af umhverfinu, bara ekki gera það of lengi. Það mun líklega koma villidýr eða hermenn og ráðast á þig á meðan þú starir á heiminn.

Það tekur flesta líklega 20-30 tíma að klára sögu leiksins og það eru síðan eftir ótal hliðarefni til að spila, ásamt því að geta spilað leikinn saman í co-op og öðru sem leikurinn býður upp á. Eftir að sagan er búin er hægt að halda áfram að spila og opnast þá fyrir vikulega atburði þar sem að ákveðin svæði í Yara falla á vald herja Castillo á ný og þarft þú að ná þeim aftur á vald Libertad. 

Ég nefndi það þegar ég gagnrýndi Far Cry 5 og Far Cry New Dawn að ég vildi sjá seríuna taka meira stökk eins og var gert með síðustu þrjá Assassin’s Creed leiki. Þetta er að mörgu leyti meira af hinu sama, í betri pakka en mætti taka stærri sénsa í spilun og sögu. Niðurhalsefni leiksins var kynnt snemma og verður það þrír pakkar með illmennum síðustu þriggja Far Cry leikja, Vaas úr FC 3, Pagan Min úr FC 4 og Joseph Seed úr FC 5. Við eigum eftir að sjá hvernig það mun koma út, en það gæti orðið gaman að sjá.

Það skortir ekki efnið í Far Cry 6 og er leikurinn er fínasta skemmtun með fallegum heimi og heillandi illmenni. Vonum bara að Far Cry 7 eða reboot á seríunni taki skrefið enn lengra og gerir seríuna enn betri. 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑